Af hverju ég vil ekki mótmælafundi, heldur verndarfundi
27.11.2009 | 07:59
Hugmyndin er einföld.
Ef brotið er á einstaklingum eða fjölskyldum þarf þjóðin að mynda skjaldborg fyrir þetta fólk. Ríkisstjórnin er ekki þjóðin. Heimilin þurfa úrræði, ekki mótmælafundi eða verkföll, enda erum við hvort eð er flest í sama liði, og mótmæla valda aðeins sundrung. Vernd skapar hins vegar einingu.
Lánastofnanir og ríkisvaldið hafa brotið á þeim sem skulda lán. Það er enginn vafi á því lengur. Nú er svo komið að einstaklingar og fjölskyldur eru að tapa húsnæði sínum og eignum vegna Hrunsins. Þrátt fyrir að erlendir kröfuhafar hafi látið hlutfall af kröfum sínum falla niður, halda lánastofnanir fullum kröfum sínum gagnvart þeim sem minnst mega sín. Þetta fólk hefur ekki öfluga lögfræðinga sem það getur snúið sér til, góða vini í stjórnsýslunni, eða einhvern sem getur kippt í spotta innan lánastofnunarinnar. Þetta fólk þarf vernd.
Fólk er krafið kerfisbundið um vexti af lánum sem eitt sinn töldust eðlileg, en eru í dag ekkert annað en okur, sem hlýtur að vera ólöglegt einhvers staðar í lagabunkanum. Við vitum að samkvæmt Mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna hefur sérhver manneskja skilyrðislausan rétt til að vera virt sem manneskja, en ekki hlutur, og hefur rétt á húsaskjóli, fötum og mat. Samkvæmt sáttmála um réttindi barna, eiga börn rétt á menntun og tækifærum til að njóta æskunnar.
Það er verið að brjóta gegn þessum grundvallaratriðum, og við, þjóðin, erum að bregðast þessu fólki með því að bregðast ekki rétt við. Hugurinn er þó til staðar. Hugmyndin um greiðsluverkfall er til dæmis góðra gjalda verð, en er því miður ekki hugsuð til enda, þar sem að afleiðingar hennar eru sjálfvirkur og aukinn innri kostnaður á þann sem í verkfallið fer, án þess að lánastofnun finni nokkuð fyrir þrýstingi vegna þess að viðkomandi hefur ekki greitt á réttum tíma, enda er það svo að fæstir eru að greiða á réttum tíma þessa dagana. Fáir geta það.
Það sem þarf er vernd.
Hvernig vernd? Jú, þegar við vitum að óréttlæti er framið, þurfum við að halda verndarfundi og stöðva framkvæmdarvaldið til að framkvæma þegar augljóst óréttlæti á sér stað. Lögreglumenn eru skyldugir til að fara að lögum, og þeir gera það. Þetta er upp til hópa afar gott og heiðarlegt fólk. Hins vegar þarf að stöðva lögregluna eða annað framkvæmdarvald þegar hún er send út af mafíósum til að þvinga fram óréttlátum kröfum. Þá ættu Hagsmunasamtök heimilanna að koma til, kalla saman verndarfund og flykkjast á þann stað þar sem ætlunin er til dæmis að koma fólki á götuna.
Þetta er 1. stigs forgangsvernd.
2. stigs forgangsvernd snýst um að berjast gegn auknum kostnaði sem fellur á lán vegna þess að viðkomandi hefur ekki tekist að greiða á réttum tíma, til dæmis vegna þess að hafa misst vinnuna. Forsendur þurfa að vera skýrar og ljóst að brotið hefur verið á viðkomandi einstaklingi. Kröfur eru sendar í lögfræðing. Ef slíkum kröfum er hafnað og lántakandi getur ekki varið sig gegn þessum aukna kostnaði, er tilefni til annars stigs forgangsverndar, og það er að halda verndarfund hjá lögfræðifyrirtækinu þar sem lánastofnunin stundar viðskipti sín.
3. stigs forgangsvernd snýst hins vegar um að vernda fólk gegn okurlánum. Greiðsluverkfall getur verið hluti af slíkri vernd, en hún þyrfti að vera betur útfærð. Eftir að hafa lagt höfuðið í bleyti, held ég að framkvæmin þyrfti að vera hnitmiðaðri. Til að greiðsluverkfall virki þarf hópur að skuldbinda sig til að vernda þá sem fara í greiðsluverkfallið, og allir þeir sem fara í þetta greiðsluverkfall þurfa að undirrita yfirlýsingu og senda sinni lánastofnun, enda er mikilvægt að samskipti séu opin og öllum gefið tækifæri til að breyta rétt.
Marinó G. Njálsson kom með góða hugmynd í gær. Að fólk skrifaði bréf til banka og annarra lánastofnanna þar sem það krafðist einfaldlega að lán þeirra yrðu leiðrétt. Sendi einstaklingar inn slík bréf, og afrit til Hagsmunasamtaka heimilanna, enda fer þar hópur fólks með vernd heimila að leiðarljósi, hvort sem slík heimili eru skuldug eða ekki, og fái viðkomandi engin svör innan ákveðins tíma, segjum 14 daga, þá er tilefni til að halda verndarfund. Fái fólk þau svör að það verði rukkað um allan þennan pening en hafi hins vegar aðgang að greiðslujöfnunarúrræði, þar sem það fær aukalán til að greiða fyrsta lánið, sem er náttúrulega brella og sjónhverfing sem notuð er til að slá ryki í augu fólks, og virkar því miður vel sem slíkt, þá má halda verndarfund í viðkomandi lánastofnun.
Hugmyndin er að halda verndarfundina þar sem þeir eiga við.
Að halda verndarfundi fyrir framan Alþingishúsið er tilgangslaust. Ríkisstjórnin er gagnslaus. Kannski ekki tilgangslaus, en gagnslaus. Hana ætti helst að hunsa. Stjórnmálamenn hafa dæmt sig með verkum sínum. Þrasa endalaust á þingi í kappræðustíl, ræða ekki málin af alvöru, þvinga málum í gegn. Að þetta fólk skuli halda að það stjórni fólkinu á Íslandi er mér ráðgáta, þar sem það virðist ekki einu sinni getað stjórnað sjálfu sér. Fylgstu með stjórnmálamanni í sjónvarpssal. Það er undantekning ef viðkomandi sýnir næga hógværð og virðingu til að hlusta á sjónarmið annarra, taka þau gild, og vera tilbúin til að setja sig í spor viðkomandi.
Slíka undantekningu höfum við séð hjá Ögmundi Jónassyni, en hann er því miður undantekningin frá reglunni, einn á móti straumnum.
Stjórnvöldum á Íslandi eru veitt alltof mikil athygli á meðan þau gera ekkert gagn. Fjölmiðlar veita þeim þessa athygli og straumurinn flæðir með. Því miður er staðan orðin þannig í dag að fólk þarf að taka völdin í eigin hendur. Ríkisstjórnir virka best á friðartímum, þegar ekkert þarf að gera, og kerfið rúllar sinn vanagang og fólk þarf að vita af einhverju risabatteríi sem rúllar og telur því trú um að það sé að vernda fólkið.
Það eru ófriðartímar á Íslandi.
Á ófriðartímum er ríkisstjórn hins vegar bákn sem stendur í vegi fyrir réttlæti og eðlilegum framkvæmdum þeirra sem vilja finna leiðir út úr vandanum, og ekki nóg með það, ríkisstjórnina er auðvelt að misnota innan frá af óvönduðum einstaklingum sem kunna á kerfið, hafa tök á lykilfólki. Hagsmunir fárra eru því miður verndaðir af ríkisstjórnum, og það getum við ekki liðið í dag.
Við erum stödd á ófriðartímum með gagnslausa ríkisstjórn og ógn sem kemur innanfrá, af lánastofnunum sem hafa verið misnotaðar, og afleiðingin er sú að venjulegt fólk þarf að borga með öllu sínu.
Það er ranglátt.
Er það skylda okkar að vernda réttlætið, og ekki bara réttlætið, heldur þá sem beittir eru ranglæti í nafni réttlætisins?
Ég vona að fólk úr öllum þjóðfélagsstigum taki höndum saman gegn þessu óréttlæti, því að við erum flest meðvituð um það, en höfum kannski ekki fundið farsæla leið sem við trúum að virki til að vernda þá sem hafa verið beittir órétti.
Ég þekki nokkra alþingismenn. Fínt fólk. En þau virðast umturnast í viðtölum við fjölmiðla þannig að í stað fólksins sem ég taldi mig þekkja, birtist það sem málsvarar málstaðar sem er miklu ómerkilegra en þau sjálf.
Ég þekki marga lögmenn og bankamenn. Afbragðs einstaklingar margir hverjir. Þá vil ég ekki láta dæma af dómstóli götunnar. Hins vegar vil ég fá þá og allar aðrar stéttir í lið með réttlætinu, í stað þess að taka þátt í ranglátu kerfi einungis til að vernda sig og sína. Réttlátt kerfi verndar alla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)