Fjöldagjaldþrot íslenskra heimila í sjónmáli?

Þú verður að hlusta á þetta.

Þetta er viðtal sem Heimir Karlsson átti við íslensk hjón sem gátu ekki staðið í skilum á verðtryggðu húsnæðisláni, ekki vegna húsnæðislánsins, heldur vegna lögfræðikostnaðar og annnars innri kostnaðar í bankanum. Nú standa þau uppi án húsnæðis og skulda 17 milljónir þrátt fyrir að hafa staðið í skilum vegna lánanna. Húsnæðislaus, hann atvinnulaus og með börn. Hvar er skjaldborgin fyrir þetta fólk? Hvar er skjaldborgin fyrir þær þúsundir sem eru í sömu stöðu?

Eina sem maður heyrir frá ríkisstjórninni er að staðan sé ekki svo slæm, þetta eru bara einhverjar prósentur af þjóðinni. Ég hef aðeins eitt að segja við þá sem nota tölfræði og líkön í svona málum:

ÞAÐ ER RANGT AÐ TROÐA MANNESKJUM Í TÖLFRÆÐILÍKAN OG GERA ÞANNIG LÍTIÐ ÚR VANDA ÞEIRRA

Bankinn þeirra hefur komið fram við þau af mikilli grimmd, og hvorki forsætisráðherra né félagsmálaráðherra svarað þegar þau hafa reynt að ná sambandi við stjórnmálamenn í ákalli um hjálp. Maðurinn hefur íhugað sjálfsmorð. Konan er afar döpur.

Hagsmunasamtök heimilanna urðu til vegna þess að hópur einstaklinga sá fyrir að þessi yrði raunin, og er í raun einu íslensku samtökin sem reyna að slá skjaldborg yfir heimilin, en þessi samtök eru óháð stjórnmálaflokkum og unnin í sjálfboðavinnu. 

Því miður hafa samtökin mætt óvæntri mótstöðu frá þremur hópum: bönkum, ríkisstjórn og fjármagnseigendum, en af einhverjum ástæðum skilja þessir þrír aðilar ekki að Hagsmunasamtök heimilanna eru fyrst og fremst mannúðarsamtök sem berjast fyrir þeim eðlilegu mannréttindum að fólk fái að hafa þak yfir höfuðið.

Ég held að Hagsmunasamtök heimilanna ættu að íhuga alvarlega að safna saman upplýsingum um þau mannréttindabrot sem verið er að vinna gegn góðu fólki á Íslandi, og stofni til samvinnu við alþjóðleg mannréttindasamtök.

Því miður hafa Hagsmunasamtök heimilanna séð sig neydd til að fara út í þá leið að efna til friðsamlegra mótmæla með að hætta tímabundið greiðslum, en því miður virðast afleiðingarnar verða þær að bankarnir senda sínar kröfur í lögfræðinga sem eykur kostnaðinn fyrir þá sem skulda töluvert. Greiðsluverkfall vekur athygli á stöðu mála, en það þarf meira til.

Ef farið er út í greiðsluverkfall þarf samstaðan að vera öflug, og verkfallið má alls ekki vera tímabundið. Fólk þarf líka að standa saman.

Ég skil ekki það fólk sem lifir án vandræða og sér venjulega einstaklinga sem hafa staðið í skilum allt sitt líf, tapa öllu sínu, hvernig það getur staðið gegn þessu fólki og sagt að ekkert réttlæti sé í að fella niður skuldir þeirra, þegar þetta fólk biður aðeins um réttlæti.

Það er ekkert réttlæti í því að tapa öllu.

Ég heyri stöðugt frá æ fleirum að ég hafi tekið góða ákvörðun við að flytja úr landi þegar þetta var allt rétt að byrja. Það er ekki auðvelt að flytja frá heimalandi sínu án atvinnu. Hafa verður í huga að einstaklingur fær aðeins þrjá mánuði í atvinnuleysisbætur flytji hann frá Íslandi, og erfitt er að finna góð störf í Evrópu í dag. Það eru um 300 manns um hvert auglýst starf á Oslósvæðinu í Noregi, þannig að þetta er ekki auðvelt. Það tók mig sex mánuði að finna starf. 

Þeir sem ætla að flytja út verða að átta sig á að fórnirnar eru miklar. En þeir sem ætla að vera áfram heima og finna að byrjað er að þjarma að þeim, verða að standa saman og sýna þessa samstöðu í verki. Það er erfið leið, en valið stendur aðeins á milli tveggja kosta:

a) flytja úr landi

b) verja heimilin

Þjóðir hafa farið út í styrjaldir til að verja heimilin. Það var frekar auðvelt fyrir mig að flytja úr landi þar sem ég hef lengi búið erlendis, en í Mexíkó lenti fjölskylda mín í erfiðum náttúruhamförum, fyrst fellibyl og svo flóði, þannig að allar eignir okkar fóru forgörðum. Eftir það flutti ég til Íslands, kom með fjölskylduna heim, og þá skellur Hrunið á. Þetta eru verri hamfarir en fellibylur og flóð, aðallega vegna þess að þessar hamfarir eru af mannavöldum, og fylgt eftir af grimmd, skilningsleysi og síðan virðist meirihluti þjóðarinnar kæra sig kollóttan.

Hvar er þjóðin?


Af hverju iPod Touch er langbesta græja sem ég hef átt

Ég hef átt fullt af tölvum um ævina, Sinclair ZX Spectrum 48K, Commodor 64, Amiga 2000, og svo nokkrar PC og Mac, fullt af símum, lófatölvum, MP3 spilurum, GPS tækjum og myndavélum. Ég hef gaman af græjum. 

Í dag á ég iPod Touch. Þetta er fyrsta tölvan sem ég hef átt sem gerir nákvæmlega allt eins og ég vil að það gerist, gerir það hratt og kemur mér sífellt á óvart. 

Það tekur mig um einn og hálfan tíma að fara til og koma heim úr vinnu daglega. Á meðan hef ég góðan tíma til að leika mér að iPod Touch græjunni. 

Ég hef horft á bíómyndir í þessari græju, til dæmis hef ég hlaðið niður Dilbert podcasti, sem gaman er að glugga í á leið í vinnu. Kemur mér alltaf í gott skap fyrir daginn. Einnig er hægt að spila flotta tölvuleiki, hlusta á hljóðbækur eða tónlist. Það er líka gott að lesa rafbækur með þessari græju. Hún getur bókstaflega allt nema spilað fótbolta, þó að hægt sé að kaupa fótboltaleiki í hana.

Það besta er að ég kemst á Internetið með wi-fi tengingu, þannig að þegar ég er nálægt heitum reit, get ég kíkt á tölvupóstinn, skoðað veðurspána, skoðað götukort, kíkt á YouTube, og hvað sem maður gerir með venjulegri tölvu. 

Snertiskjárinn er algjör snilld. Hann virkar þrusuvel og vandræðalaust. Ég keypti þunnar plastfilmur til að verja skjáinn og gúmmíhulstur utan um græjuna, og tel það skynsamlega leið til að verjast hnjaski. Sérstaklega skemmtilegt er þegar maður hallar tækinu, þá er jafnvægisnemi í græjunni sem stýrikerfið nemur, þannig að ef maður vill stærra letur þegar maður les til dæmis blogg, snýr maður bara græjunni 90 gráður, og myndin stækkar.

Ég hef átt þennan 16GB iPod touch í 6 mánuði og er hæstánægður með hann. 

Þá veistu það.

Og ég er ekki einu sinni að selja græjuna. Vil einfaldlega láta vita þegar ég upplifi eitthvað gott, gagnlegt eða skemmtilegt. 

 


ZX Sinclair Spectrum 48K

 


Commodore 64

 


Amiga 500

 

 

Myndir: apple.com og gamlar tölvur frá wikipedia

 


Bloggfærslur 26. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband