Loksins: orsakir efnahagshrunsins uppgötvaðar
21.11.2009 | 09:27
Þetta er kannski svolítið klikkuð hugmynd. En jafnframt svolítið mergjuð. Ég efast um að hún sé sönn. En hún gæti verið það. Ef hún væri sönn veit ég ekki hvernig við gætum vitað það. Gleymum öllum útrásarvíkingum, kúlulánum, pólitískri spillingu, bankaránum innanfrá, stöðutöku gagnvart krónunni, verðtryggingunni, myntkörfulánum, alþjóðlegri lausafjárkreppu, blóðugri byltingu á Austurvelli - öllu þessu sem við trúum að fléttaðist saman til að koma íslensku hagkerfi á hnén.
Ímyndum okkur að við séum stödd í september 2008. Fáeinum dögum fyrir hrun íslensku bankanna. Um það bil sem alheimskreppan var að skella á. Settur var í gang öreindahraðall. Gífurlega stór og öflugur. Í bankalandinu Sviss!
Sumir héldu að gangsetningin gæti valdið heimsendi. Aðrir héldu að karlmenn yrðu getulausir. Enn aðrir töldu að svona stór rafeindahraðall gæti vakið reiði Guðs. Aðrir að afleiðingarnar yrðu óvæntar og ófyrirsjáanlegar. Flestir kæra sig hins vegar kollótta og nenna ekki að pæla í endalausum samsæriskenningum eða hlutum sem aldrei verður hægt að sanna.
Hvað ef þessi rafeindahraðall hefur haft áhrif á peningakerfi heimsins sem enginn hafði skilning á, og valdið einhvers konar skammhlaupi sem olli því að upplýsingar í öllum tölvukerfum heimsins brengluðust? Hvað ef þessi rafeindahraðall hafði óvænt áhrif á gildi upplýsinga, bætti við einu núlli hér og dró frá eitt núll þar. Þannig að maður sem átti samkvæmt tölvukerfi banka einn daginn 8 milljarða átti næsta dag 8 krónur.
Bíddu, gerðist ekki eitthvað slíkt á hlutabréfamarkaði?
Ef afleiðingarnar eru ófyrirsjáanlegar og gætu orðið á alþjóðlegum skala, og nokkrum dögum síðar hrynur fjármálakerfi veraldar, gæti verið að það sé samband þarna á milli? Eitthvað samband sem enginn skilur og enginn trúir að sé til staðar þar sem það er svo langsótt, eins og sú hugmynd að bankastarfsmenn eigi að vera áhættusæknir en ekki gæta þeirra peninga sem þeim er trúað fyrir af viðskiptavinum. Reyndar er bankastarfsmönnum vorkunn. Þeir lifa í svo síbreytilegum fjármálaheimi að þeir þurfa að láta peninga fljóta til að þeir haldi verðmæti sínu. Málið er að fjármálaheimurinn virðist vera einhvers konar stormský sem er á sífelldri hreyfingu og enginn skilur.
Þú leggur sömu krónu aldrei tvisvar inn í banka.
Nú er verið að setja þennan hraðal aftur í gang. Tilraun tvö. Eftir fyrstu tilraun hrundi fjármálaheimurinn. Ekki að það sé sannanlegt samband þarna á milli, en það verður spennandi að sjá hvort eitthvað sambærilegt gerist á næstu dögum. Kannski eftir mánaðarmót.
Ég spái því að við fáum einhverjar stórmerkilegar fréttir 7. desember um enn fleiri fjármálahörmungar í þessum skrítna heimi sem virðist stjórna gjörsamlega hvernig fólk hagar sér í raunheimum. Ef þú hefur einhverja stjórn á þessum óreiðuheimi og eignast peninga, ber fólk virðingu fyrir þér, hyllir þér við hvert tækifæri og gefur þér aðgang að ákvörðunum stjórnmálamanna og svo geturðu keypt skoðanir almennings með því að dæla í þá vel völdum upplýsingum með fjölmiðlum. Þeir kalla slíkt 'misinformation' á enskunni. Mættum við ekki kalla þetta 'misupplýsingar'?
Ef þessi spá rætist, að einhverjir bankar fara til dæmis á hausinn um mánaðarmótin þar sem þeir geta ekki borgað skuldir sínar, enda hefur eitthvað eins og flæðandi fjármunir þornað upp, þá getur verið eitthvað til í þessum brjálæðislegu samsæriskenningum. Ef ekki, ætti lesandi góður vinsamlegast að loka þessari bloggsíðu og heimsækja hana aldrei aftur, sama hvaða annarlegu langanir gætu sótt á klikkfingurinn.
Mynd: Fréttavefur BBC
![]() |
Öreindahraðallinn aftur í gang |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)