Mun þjóðin sundruð steypast fyrir björg eins og læmingjar, eða getum við fundið samstöðu gegn þeim öflum sem ógna tilvist íslenskrar þjóðar?

Þegar bankarnir hrundu voru sett neyðarlög til að tryggja innistæður í bönkum og bjarga gífurlegu fjármagni sem ekki var fyrirfram ríkistryggt í peningamarkaðssjóðum og bankabókum. Slík trygging varð til með vanhugsuðnum neyðarlögum sem sett voru í október 2008. Einhvern veginn gleymdist að þessi trygging myndi ná yfir bæði íslenska og erlenda kröfuhafa, og hefur til að mynda leitt okkur út í ICESAVE hörmungar, en hefði þessi björgun einungis átt við Íslendinga hefðum við komist í gegnum Hrunið á skammri stundu, en þar sem erlendir kröfuhafar nýttu sér tækifærið og við sendum vanhæfa samninganefnd til að semja um málið, erum við að tala um djúpa efnahagskreppu sem gæti varið í áratugi og sundrað þjóðinni pólitískt.

Þetta þýðir gífurlegan kostnað fyrir íslenska ríkið og íslenskan almenning, við að endurgreiða þá milljarða sem höfðu tapast í Hruninu. Sjóðir ríkisins voru tæmdir fyrir þessa aðgerð, og ekki nóg með það, tekin voru lán til að þetta gæti gengið upp. En þetta gengur ekki upp, getur ekki gengið upp, og mun ekki ganga upp! Þetta er skákþraut um mát, en það vantar kóngana á borðið.

Fyrstir til að borga meira eru þeir sem minnst mega sín. Það virðist vera lögmál mennskra hörmunga. Hungraðir svelta fyrst. Aðrir síðar.

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, skrifar góða grein um vanda heimilanna og hvernig þeim sem skulda neytenda- og húsnæðislán hefur verið fórnað á kostnað sjóðseigenda og banka. Hagsmunasamtök heimilanna hafa til þessa ekki lagt sérstaka áherslu á jafnræðisrök þegar kemur að kröfum um leiðréttingu skulda, en Gísli Tryggvason bendir réttilega á að erfitt sé að fylgja slíkum rökum eftir fyrir dómstólum, en þau gætu hins vegar reynst beitt pólitískt vopn til að koma sjónarmálum heimilanna á framfæri. 

Kostnaðurinn við að endurgreiða þessa fjármuni til fjármagnseigenda þýðir hærri skatta á alla þjóðfélagsþegna, hærri verðbólgu sem skilar sér í hærra verðlagi, gengisfellingu og mögnun skulda þeirra sem skulduðu fyrir. Í stuttu máli sagt eru neyðarlögin til þess gerð að þeir sem skulda og eru í neyðarstöðu, verða að borga meira til að þeir sem eiga eitthvað tapi  ekki sínu. Salvör Gissurardóttir skrifar góða grein um spillinguna í kringum skjaldborg um fjármagnseigendur, hér.

Hvert barn sér í hendi sér að þetta er bæði ósanngjarnt og óréttlátt.

 

060509sandbox

 

Tökum dæmi. 

Tvö börn eru úti að leika sér í sandkassa. Annað þeirra er með gröfu sem það fékk að gjöf frá foreldrum sínum, en hitt barnið á enga slíka gröfu, enda foreldrar þess bláfátækir. Nú tapast grafan á meðan börnin bregða sér í rólurnar um stund og barnið sem átti gröfuna fer að skæla. Fátæka barnið sem enga gröfu átti vorkennir barninu sem tapaði gröfunni, en bæði fara þau heim. Daginn eftir bankar lögreglan upp á hjá fjölskyldu fátæka barnsins og segir að grafa ríka barnsins hafi horfið, og til þess að barnið fái gröfuna sína aftur, þá verður fátæka fjölskyldan að borga helminginn í gröfunni, en Ríkið muni borga hinn helminginn. Fátæka fjölskyldan reynir að mótmæla, en fær þá þau svör að kröfunum verði miskunnarlaust fylgt eftir, og ekki nóg með það, að kostnaðurinn við að fá lögfræðinga í dæmið verði alltof mikill, þannig að þeim er ráðlagt að borga helminginn í gröfunni strax. Þau gera það. Allt fellur í dúnalogn. Barn ríka fólksins fær aftur gröfu, en fátæka barnið situr enn uppi gröfulaust og foreldrar þess með enn minna svigrúm en áður til að kaupa leikföng handa eigin barni. 

Þetta er smækkuð mynd af fáránleika núverandi stöðu, því að skuldarar hafa verið að greiða upp fjármagnstap fjármagnseigenda og stýrivextir, verðbólga og gengisfelling, hlutir sem fáir skilja; sérstaklega þeir sem vinna við aðra hluti en að velta þessum hugtökum fyrir sér; hafa verið notuð sem kröfutækni gagnvart skuldurum. Þeir hafa séð höfuðstól vaxa upp úr öllu valdi, mánaðarlegar afborganir af lánum sínum hækka ógurlega, hafa séð smávörur hækka, misst yfirvinnutíma og fá lægri laun, eru rukkaðir um hærri skatta og fá slakari þjónustu frá hinu opinbera vegna sparnaðar.

 

amazing,basejumping,cliff,dangerous,daring,fall-5cf5ac74a9375a6cd71d6e935f40e8b7_h

 

Það sem flækir náttúrulega málið er að fjármagnseigendurnir eru ekki bara Íslendingar sem stilla sér upp gegn skuldurum, heldur eru kröfuhafarnir úti um allan heim og þeir stilla sér upp gegn Íslendingum, bæði fjármagnseigendum og skuldurum, og upphæðirnar eru ekki bara ein lítil grafa, heldur heilar borgir með háhýsum, íbúðarhverfum, stjórnkerfi og öllu því sem tilheyrir stórborg, og ekki nóg með það, þessar borgir fara vaxandi á meðan Íslendingar fara smækkandi, og það eru lánaneytendur sem eiga að borga þessar borgir til að byrja með og taka sífellt á sig meira, og næst eru það allir Íslendingar sem verða að taka þátt í grieðslunni. Með því að bjarga fjármagnseigendum er verið að leiða þjóðina alla fram af bjargi háu og fyrir neðan er ekkert annað en hyldýpi. Kannski finnst einhverjum fólksfækkun vera nauðsynleg við þessar aðstæður og ásættanlegt að einungis örfáir hrapi ekki fyrir björg.

Skuldarar virðast fremstir í hópnum, næst brúninni, en sumir þeirra berjast gegn kröfuhöfum sem sífellt ýta þeim nær hengifluginu, aðrir skuldarar ýta á hina skuldarana því þeir telja það betra en að berjast gegn þeim sem eru augljóslega sterkari. Svíkja þannig lit. Í miðju hópsins eru íslenskir kröfuhafar að ýta á skuldarana og átta sig ekki á því að með meiri árangri, þá henda þeir ekki bara skuldurum fram af brúninni, heldur færast þeir sjálfir nær henni, með erlenda kröfuhafa sem þrýsta síðan á þá. En einstaka Íslendingar sem standa vel hafa hins vegar áttað sig á hvert stefnir og reyna máttlausir að berjast gegn aflinu sem ógnar þeim sjálfum.

 


 

Er ekki kominn tími til að Íslendingar standi saman og berjist í samstöðu gegn því að nokkur samherji falli fram af bjarginu? Af hverju skilur fólk ekki að þegar einn er fallinn verður mótstaðan minni gegn kröfuhöfum og að lokum verður einfaldlega öllum hópnum ýtt fram af brúninni?

Þessari læmingjahegðun Íslendinga verður að linna. (Læmingjar eru norsk smádýr sem árlega fremja hópsjálfsvíg með því að steypa sér fram af björgum í hafið). Það verður að berjast fyrir því að Íslendingar sjái heildarmyndina skýrar og taki höndum saman, í stað þess að stöðugt berjast innbyrðis, skipta sér í tvö lið, og níðast á þeim sem eru veikari fyrir og líklegri til að tapa. Það skiptir ekki máli með hvoru liðinu þú heldur. Það sem skiptir máli er að það eru öflugir einstaklingar í báðum hópum sem eiga að geta unnið vel saman, en eru ekki að því.

Þeir sem eru sterkari fyrir þurfa að átta sig á því að innan skamms, þegar hinir veikari eru ekki lengur fyrirstaða, þá kemur að þeim að spyrna á móti - og þegar að því kemur er ég hræddur um að það verði of seint.

Ég hef í öðrum pistlum velt fyrir mér sameiningarafli sem gæti fengið Íslendinga til að vinna saman, og stakk í minni einfeldni upp á að nota trúarbrögð til þess, en var harkalega gagnrýndur fyrir af sumum, en hugmyndin fékk einnig hljóðbyr frá öðrum. Hugmynd Gísla um að nota jafnræðisrök eru ekki slæm, og sjálfsagt bjartsýnni heldur en mín tillaga, því að ég er farinn að leiðast til að trúa því að fjöldinn sé einfaldlega ekki tilbúinn til að hlusta á rök.

 


 

Hvernig er hægt að ná til þeirra sem trúa að þeir standi enn vel og sýna þeim að við erum öll í sama liði?

Gerist það ekki verða línurnar á milli hópanna tveggja sífellt skýrari og geta snúist upp í öfgar, eins og baráttu á milli kapítalista og kommúnista, nokkuð sem hefur liðað þjóðir í sundur, eins og til dæmis Norður og Suður Kóreu, Norður og Suður Víetnam, eða þjappað þeim saman á vafasömum forsendum, eins og Kína, Sovétríkjunum og Kúbu. Það er ekkert sem mælir gegn því að Ísland gæti orðið kommúnistaríki innan tíðar. Það er vonandi enn svigrúm til að láta það tímabil standa stutt, en ég er hræddur um að það sé óumflýjanlegt.

Mótrök sem ég hef heyrt gegn neytendum lána er að fjölmargir þeirra séu einfaldlega að misnota sér ástandið, ætli sér að græða á kostnað hinna. Þessir hrægammar eru því miður til. Það er þetta fólk sem er á milli hópanna tveggja og reyna að græða á þeim báðum, sem eru að valda aukinni sundrung. 

 


 

Hins vegar er heilt og gott fólk meginuppistaðan í báðum hópunum, bæði þeim sem skulda alltof mikið vegna óeðlilegs ástands og þeirra sem nutu verndar ríkisins gagnvart eigum sínum. Þeir sem eiga vilja ekki tapa eigum sínum og eru tilbúnir að gera nánast hvað sem er til að verja þær, og þessi hópur stendur í mun betri stöðu en hinir sem hafa tekið húsnæðislán og eiga hugsanlega ekki neitt vegna þess. Sá hópur er nánast varnarlaus nema þessir tveir hópar komist yfir hindranir og taki höndum saman, gegn þeim sem svikið hafa þjóðina og gegn þeim sem eru að misnota sér ástandið.

Við verðum að standa saman því að það er risastór flóðbylgja á leiðinni, sem getur auðveldlega skollið yfir bjargið háa og dregið okkur öll út í hyldýpið, alla Íslendinga og jafnvel einhverja af erlendu kröfuhöfunum líka.

 

tsunami_sm

 

 

Læmingjahegðun afhjúpuð:


Bloggfærslur 4. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband