Hver hefur samúð með Roman Polanski?
22.10.2009 | 06:10
Roman Polanski, 2005
Roman Polanski hefur verið eftirlýstur af bandarískum dómstólum í marga áratugi. Hann var ákærður fyrir að nauðga stúlku árið 1977. Fórnarlambið hefur margoft sagt að hún vilji ekki að Polanski verði ákærður, og hefur beinlínis óskað eftir því að fallið verði frá kæru til að hlífa henni og fjölskyldu hennar frá upprifjun þessara afar sorglega atburðar.
Til samanburðar byrjuðu Elvis Presley og Priscilla Presley rómantískt samband árið 1959 þegar hún var aðeins 14 ára, og þau giftust svo sjö árum síðar, og Jerry Lee Lewis giftist 13 ára frænku sinni árið 1958, en það var löglegt í þeirra ríki. Polanski var og er mikill Elvis aðdáandi, og spurning hvort að hinn aðflutti Pólverji hafi talið að kynlíf með stúlkum undir 18 ára aldri væri í lagi, þar sem allir virtust vera að gera það hvort eð er.
Nú vil ég alls ekki gera lítið úr broti Polanski gagnvart stúlkunni, en það sem virðist hafa gerst var þetta. Roman Polanski, 44 ára gamall, var gestaritstjóri Vogue, og fékk hina 13 ára gömlu Samantha Gailey í ljósmyndatöku á heimili Jack Nickolson, á meðan Nickolson var fjarverandi. Meðan á tökunni stóð gaf Polanski stúlkunni áfengi og fíkniefni, og samkvæmt frásögn hennar neyddi hann hana til samræðis, þar sem hún þrábað hann um að hætta, en hann sinnti ekki þeirri beiðni hennar. Þó að Polanski hafi sagt að henni hafi líkað leikurinn, þá réttlætir það ekki neitt af því sem hann gerði.
Polanski við réttarhöldin 1977
Polanski var ákærður fyrir sex atriði, meðal annars tengt áfengi og fíkniefnum, en fimm atriði voru felld niður á móti því að hann viðurkenndi sekt sína á nauðgun, sem hann gerði. Í stað þess að taka út dóm sinn flúði Polanski Bandaríkin og hefur verið eftirlýstur síðan. Kynferðisbrotaglæpir fyrnast ekki í Bandaríkjunum. Nú hefur Polanski verið handsamaður í Sviss og verður framseldur til Bandaríkjanna innan skamms, þar sem réttað verður aftur yfir honum og hann sjálfsagt dæmdur í fangelsi fyrir glæpinn sem hann framdi fyrir 32 árum síðan.
Mér finnst áhugavert af hversu mikilli hörku "réttlætið" sækir gegn Polanski, og hefur að engu óskir fórnarlambsins um að fella málið niður af mannúðarástæðum, bæði gagnvart henni og fjölskyldu hennar, sem og gagnvart Polanski, enda hafa þau fyrir löngu síðan gert upp þetta mál sín á milli. En rétt skal vera rétt, eins og skriðdreki sem ryðst áfram, öðrum glæpamönnum og nauðgunum til viðvörunar. Enginn sleppur í gegnum kerfið, sama hversu ríkir þeir eru, sama hvað þeir hafa gert af sér. Viðkomandi skal refsað til að gera úr honum fordæmi, ekki til að bæta hann sem manneskju, eða loka málinu fórnarlambsins vegna, heldur fyrst og fremst, og í raun eingöngu, kerfisins vegna. Kerfið fær sitt.
Polanski leikstýrir Mia Farrow 1967.
Ég hef enga samúð með Polanski vegna þessa glæps, en hann fær hins vegar samúð mína fyrir það hvernig mannkynið hefur komið fram við hann. Það er algjört aukaatriði að Polanski sé heimsfrægur kvikmyndaleikstjóri sem gert hefur fjölmargar frábærar kvikmyndir, hins vegar skiptir það meira máli hvað hann hefur þurft að greiða fyrir þá dýpt sem frásagnarlist hans hefur yfir að búa.
Polanski fæddist árið 1933 í Póllandi. Þegar hann var sex ára gamall réðust nasistar inn í Pólland. Hann, ásamt foreldrum sínum var hann einangraður í gettói Krakow ásamt þúsundum gyðingum borgarinnar. Hvorki hann né foreldrar hans voru gyðingar, en það var aukaatriði fyrir nasistana. Fjölskyldan var aðskilin. Faðir hans lifði af þrælkunarbúðir nasista í Mauthausen-Gusen, Austurríki, en móðir hans var myrt í Auschwitz útrýmingarbúðunum. Polanski sjálfum hafði tekist að flýja úr gettóinu árið 1943, þegar hann var tíu ára gamall, og lifði af stríðið með aðstoð kaþólskra fjölskyldna. Hann sýnir þessar aðstæður æsku sinnar í kvikmyndinni The Pianist.
Úr "The Pianist"
Eftir misheppnað fyrsta hjónaband kynntist Roman Polanski leikkonunni Sharon Tate og giftist henni árið 1968, þá orðinn frægur kvikmyndaleikstjóri. Þau voru afar hamingjusamlega gift, Tate komin átta og hálfan mánuð á leið, þegar hópur sem fylgdi trúboði fjöldamorðingjans Charles Manson myrti hana. Polanski var niðurbrotinn maður eftir þetta, flutti til Evrópu og skyldi allar eigur sínar eftir í Bandaríkjunum. Hann lét hafa eftir sér að við þennan atburð hafi hann tapað allri trú á eitthvað gott í heiminum og fór að trúa að heimurinn væri einfaldlega fáránlegur. Vonir hans og bjartsýni umturnuðust í djúpa bölsýni og ósætti við lífið og tilveruna. Sannleikurinn er hins vegar sá að Polanski var Tate ótrúr á þessu eina hamingjusama ári sem þau voru gift, en þetta kom fram í réttarhöldum árið 2005 í Bretlandi.
Roman Polanski og Sharon Tate
Polanski hélt áfram að gera bíómyndir, snéri aftur til Bandaríkjanna, og flúði þegar hann sat uppi með ákæru um nauðgun.
Eftir situr siðferðileg spurning: er réttlætanlegt að halda ákærunni gegn Polanski til streitu, og fá hann framseldan til Bandaríkjanna til að horfast í augu við glæp sinn. Án umhugsunar gæti maður freistast til að hugsa: þessi Kanar eru svo miklir kjánar, þeir fyrirgefa aldrei neitt. En eftir nánari umhugsun þar sem gallar Polanski eru nokkuð augljósir, væri það honum hugsanlega fyrir bestu að vera neyddur til að horfast í augu við fortíð sína, þrátt fyrir allar þær þjáningar sem hann hefur þurft að líða?
Ég get vel skilið að maður sem þurfti að horfa upp á flesta vini sína og ættingja myrta í æsku af nasistum, og síðan horft upp á ólétta eiginkonu sína myrta, að eitthvað hafi einfaldlega klikkað í hausnum á honum. Hugsanlega hefur eitthvað verið að síðan hann var barn. Hugsanlega hafa áhrif stríðsins þessi djúpu sálrænu áhrif á manninn, þannig að hann er fastur í einhverju sálarvíti sem hann losnar hugsanlega aldrei úr á meðan hann lifir.
Roman Polanski á leið úr réttarhöldunum 1977
Hugsanlega gæti bandarískur dómstóll hjálpað þessum 76 ára gamla manni að takast á við fortíðina. Hver veit? Verði hann dæmdur, vaknar spurningin um hvernig rétt væri að dæma hann. Fangelsisvist til æviloka? Bandaríkjamenn eru þekktir fyrir slíka dóma. Háar skaðabætur? Samfélagsþjónustu? Ætti dómarinn að taka mið af þjáningum hans í æsku? Morðinu á eiginkonu hans og barni? Farsælum leikstjóraferli?
Ekki öfunda ég þann dómara sem fær þetta verkefni í hendurnar.
Hver getur sett sig í spor manns sem hefur lifað af helför nasista, verið fórnarlamb fjöldamorðingjahóps Charles Manson og verið hundeltur af bandarískum yfirvöldum í 32 ár? Maður sem hefur dópað upp og nauðgað barni, ætti í mínum hugarheimi skilyrðislaust að refsa, en ég viðurkenni að ég hef ekki hugmynd um hvernig refsing væri viðeigandi í þessu tilfelli, þar sem maðurinn hefur tekið út alla mögulega refsingu með því einu að hafa verið pólskt barn í helför nasista.
Held að best væri að rukka Polanski um dágóða upphæð og láta peninginn renna til góðgerðarmála, og leyfa honum síðan að lifa lífi sínu í friði. Það myndi gerast í fullkomnum heimi, en þessi heimur er engan veginn fullkominn, eins og ævi Polanski er ágætt dæmi um.
Að lokum langar mig að birta áhugaverða umfjöllun um málið gerða af CBS sjónvarpsstöðinni, þar sem meðal annars kemur fram að ástæður handtökunnar í Sviss séu tengdar heimildarmynd sem gerð var um Polanski í fyrra, "Roman Polanski: Wanted and Desired", og hugsanlega vegna aukinnar samvinnu Svisslendinga við Bandaríkjamenn í kjölfar efnahagshrunsins, og þá helst sem merki um samstarfsvilja Svisslendinga. Einnig er áhugavert að Polanski á hús í Sviss, og hann hefur ferðast frjáls um allan heim í áratugi, án þess að nokkrum manni hafi dottið í hug að framselja hann til Bandaríkjanna.
![]() |
Gerðu viðvart vegna heimsóknar Polanski |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)