Hvað er heimspeki?

Í morgun settist ég við tölvuna og bjó til nýja heimspekisíðu sem ég kalla Heimspekihandbók. En hún er wiki síða undir Heimspekiblogginu mínu. Ég hafði einhverja þörf til að skrá niður hvernig ég sé grundvöll heimspekinnar fyrir mér og býð einnig áhugamönnum í heimspeki til að taka þátt og bæta við greinum á síðuna langi þá til.

Þannig er inngangurinn:

 

Heimspeki

Heimspeki er ákveðið vinsamlegt viðhorf til hugsunar, þekkingar, lífsins, manneskja og heimsins, sem miðast að því að dýpka skilning og bæta dómgreind þess sem ástundar hana. Því fleiri sem ástunda heimspeki, því betra. Ein af grundvallarforsendum lýðræðissamfélags er að þegnar og stjórnendur hugsi skýrt og vel, og taki ákvarðanir byggðar á traustum rökum, og láti ekki blekkjast af mælskulist eða sannfærandi rökvillum. Hægt er að læra slíka hugsun með heimspekilegri ástundun. Kjarni virkar heimspeki er samræðan, hvort sem að henni er deilt í rituðu máli eða á fundum heimspekinga. Það er afar líklegt að heimspekingar sjái fyrirbærið heimspeki fyrir sér á ólíkan hátt, enda er hún tengd hverjum heimspekingi gegnum hans eigin uppgötvanir um heim og huga - og fléttuð inn í reynsluheiminn sem hluti af órjúfanlegri heild.


Rökfræði

Rökfræði er grundvallartæki heimspekilegrar hugsunar. Rökhugsun er fyrir heimspeking eins og hamar og sög fyrir trésmið. Meginmunurinn er hins vegar sá að hamar og sög beinast alltaf að ytra viðfangi, en meginviðfang rökfræðinnar er hún sjálf. Þannig að hugsun um rökfræði er einnig að miklu leiti eins og að horfa í spegil, þú getur áttað þig á ákveðnum útlínum, forsendum og lögmálum, en trúir þú þegar þú ert að horfa í spegil að þú sért að horfa á þig sem manneskju, þá gleymirðu að þú ert ekki að horfa á þig, heldur speglun á fleti. Þannig er rökhugsunin margbrotnari en þau lögmál sem við höfum uppgötvað, enda endurspeglar hún aðeins fyrirbæri, en er ekki fyrirbærið sjálft. Það er hins vegar vel þess virði að rannsaka takmarkanir og lögmál rökhugsunar, sem getur hjálpað einstaklingum að mynda sér traustari skoðanir um hvað sem er, svo framarlega sem það átti sig á því að þekking okkar á rökhugsun er ekki 100% áreiðanleg og af þeim sökum getum við haft rangt fyrir okkur, auk þess að okkur gæti hafa orðið á mistök innan leikreglna rökhugsunar.

 

Siðfræði

Siðfræði er grundvallartæki mannlegrar hegðunar og samskipta. Siðfræðin rannsakar hið góða og rétta, og reynir til dæmis að átta sig á hvort að eitthvað geti alltaf verið gott eða alltaf verið rétt, og hvort allt gott sé rétt, eða allt rétt sé gott. Málin flækjast fljótt þegar inn í spurningar um hið góða spinnast ólíkar skilgreiningar á því hvað hið góða er, og enn flóknara verður að finna eitt rétt svar, þegar við áttum okkur á því að öll trúarbrögð heimsins hafa reynt að svara þessari spurningu - og að trúarbrögð eru í raun leiðarvísir að hinu góða samkvæmt skoðun sem einhver leiðtogi trúarbragðanna hefur uppgötvað, annað hvort með dýpri sýn á lífið og tilveruna, guðlegri uppljómun, heilbrigðri skynsemi eða einhverjum snert af brjálæði. Heimspekingurinn veit að hann veit ekki, og getur því kafað dýpra í átt að góðum svörum, en hann veit að þegar eitt rétt svar finnst og það neglt niður af þrjósku sem eina rétta svarið, þá glatast þessi hæfileiki til að kafa dýpra.

 

Þekkingarfræði

Þekkingarfræði spyr hvort að við getum þekkt heiminn og sjálf okkur, og ef að við getum það, hvernig förum við að því? Þarna skiptast heimspekingar oft í tvær fylkingar, í þá sem telja þekkingu sprottna úr reynslu mikilvægari en þá sem sprottin er úr lögmálum hugans, og hina sem telja þekkingu frekar spretta úr lögmálum hugans en reynslu. Dæmi um lögmál hugans er þekking um hinn fullkomna hring, að 2+2 séu alltaf 4, og að piparsveinar séu alltaf ógiftir, en þekking úr reynslu væri hins vegar yfirfærsla af áreiti sem skynfæri okkar taka við. Það er kannski erfitt að skipta þessu svona upp í tvær ólíkar fylkingar, en þegar við spyrjum hvað sönn þekking sé og hvernig við fáum hana, flækist málið, sérstaklega þegar farið er að spyrja um hvernig heimurinn raunverulega er, hvað gerist eftir að við deyjum, hvað sálir séu, og hvort eilífð sé möguleg. Mig grunar að heimspekingur verði að vera á tánum þegar hann hugsi um ólíka hluti, og að það fari eftir viðfangsefni hvað á best við, eða hvort að bæði sé rétt. Það er vissulega hægt að deila um þessi mál til eilífðarnóns, sérstaklega ef tveir einstaklingar eru á ólíkri skoðun, en það er einmitt eitt af því sem heillar við heimspekina - hún gefur okkur alltaf færi á að kafa dýpra án þess að festa okkur við eina hugmynd.

 

Frumspeki

Frumspeki er sú grein heimspekinnar sem fjallar um hið mögulega og hið raunverulega, og með frumspekilegum rannsóknum fær sá sem ástundar hana tækifæri til að þroska viðhorf sitt til heimsins, með skýrari á takmarkanir okkar gagnvart heiminum. Það getur stundum verið ansi erfitt að greina þegar við hugsum um heiminn til dæmis hvort að heimurinn sé óaðskiljanlegur hluti af manneskjunni sem hugsar um hann, eða hvort að manneskjan sé óaðskiljanlegur hluti af heiminum. Þegar við áttum okkur til dæmis á hliðstæðum sjálfrar Jarðar og mannslíkamans, þá gætum við velt fyrir okkur hvernig þessu sambandi er háttað. Getur verið að Jörðin sé líkami mannkyns, og að hvert okkar sé aðeins lítil fruma í þessum líkama? Hvernig getum við haft áhrif þegar við sjáum að mannkynið hefur ákveðið að taka upp sjúklega áráttu, eins og að drekka eins og svín eða reykja eins og strompur - getur lítil fruma breytt því?

 

Fagurfræði

Fagurfræði er oft vanmetin grein heimspekinnar, en hún lítur að því sem vekur athygli okkar. Hvað er fegurð og getur það sem okkur finnst ljótt vera samrunið í fegurðarhugtakið? Fegurð er eitthvað sem við sjáum okkur neydd til að virða fyrir okkur og meta, hvort sem að það er einstaklingur eða atburður. Til dæmis vakti árásin á tvíburaturnana í New York 11.9.2001 mikla athygli, en okkur þykir erfitt að velta fyrir okkur hvort að einhver fegurð hafi tengst eins hrykalegum atburði. En það er margt sem vekur upp hrifningu við pælingar á því sem gerðist. Til dæmis talan 11, er hún merki fyrir turnana tvo? Og sú staðreynd að neyðarsímanúmerið í Bandaríkjunum er 911 og atburðurinn átti sér stað 11.9, en Bandaríkjamenn telja hins vegar mánuðinn fyrst í dagsetningum, þannig að út kemur 9.11; og sú staðreynd að margar af þeim hetjum sem mest hefur verið minnst voru einmitt lögreglumenn og slökkviliðsmenn sem svöruðu kallinu 9.11. Þetta er atburður sem allir tóku eftir og gjörbreytti heiminum, hafa fréttamiðlar sagt, en hvernig þessi atburður hefur haft áhrif á okkur er enn að töluverði leiti órannsakað mál.

 

Heimspekingar

Heimspekingar er fólk sem hefur rætt allar þessar greinar í fjölmargar aldir. Þessar pælingar hafa haft mikil áhrif á heiminn, hvort sem þú leitar til vísinda, trúarbragða, samfélaga, hagkerfa. Það er sama hvert þú lítur, heimspekin hefur alls staðar komið nálægt. Hins vegar hefur misjafnlega vel verið hlustað á heimspekinga, og stundum eru hugmyndir þeirra teknar og skældar, og misnotaðar til að fullnægja þörfum einstaklinga eða hópa. Í vestrænni menningu er Þales frá Miletus (fæddur um 637 fyrir Krist) almennt viðurkenndur sem fyrsti heimspekingurinn, en lítum við aðeins lengra til austurs komumst við að því að þar er hægt að rekja heimspekina til Yi Jing (Bókin um Breytingar) um 1000 fyrir Krist, en talið er að King Wen hafi skrifað hana. Fjöldi heimspekinga hefur lifað á jörðinni á þessum síðustu 3000 árum. Sumir þeirra þykja sérstaklega framúrskarandi og áhugaverðir en aðrir hafa gleymst. Þessi síða er fyrir þá alla. Líka þig.


Bloggfærslur 31. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband