Hefur þú nokkurn tíma pælt í fyrir alvöru hvað bloggvinátta þýðir?
7.8.2008 | 19:07

Í vor töluðu nokkrir bloggarar um að taka til í bloggvinahópum sínum, sem þýddi að einhverjum óvirkum bloggvinum var eytt, reikna ég með. Mér fannst þetta svolítið einkennilegt athæfi, hugsanlega vegna þess að ekki eru til neinar fast mótaðar siðferðisreglur um hvernig maður umgengst bloggvini, en ég geri slíkt ekki af því að mér þætti það dónaskapur af mér sjálfum að hafna einhverjum sem ég hef áður samþykkt. Samt myndi ég ekki túlka það sem dónaskap ef einhver annar tæki mig af sínum bloggvinalista, því að þar væru hugsanlega aðrar umgengnisreglur í gildi.
Ég tel það ekki góða reglu að dæma fólk út frá mínum eigin skoðunum. Til að flækja þetta, þá gæti sumum einmitt þótt það góð regla að dæma aðra út frá sínum eigin reglum. Mér finnst skemmtilegra að leyfa sem flestum að vera með og forðast það að skilja nokkurn útundan. Kannski þetta sé bara kennaraeðlið.
Mínar persónulegu reglur eru frekar einfaldar:
Bjóði einhver mér bloggvináttu, samþykki ég hana skilyrðislaust, og skoða að sjálfsögðu blogg viðkomandi. Ég hef aldrei hafnað beiðni um bloggvináttu né eytt bloggvini og kem ekki til með að gera það, nema viðkomandi fari út fyrir mín velsæmismörk eða brjóti lög.
Ástæðan held ég að sé ósköp einföld. Ég lít ekki á bloggvini til að nota þá á einn eða annan hátt. Ég lít á það sem virðingarvott að einhver sé tilbúin(n) að tengjast mér sem bloggvinur, og ég er tilbúinn að sýna viðkomandi sömu virðingu. Hvort ég lesi svo bloggfærslur bloggvinar míns hann mínar er algjört aukaatriði. Bloggvináttu fylgir engin þvingun til að lesa greinar.

Þegar ég samþykki bloggvin, er ég að samþykkja að viðkomandi geti haft samband við mig í gegnum blogg eða tölvupóst þegar hann eða hún vill, og ég reikna með að ég geti gert það sama. Til dæmis gæti mér dottið í hug að fara í framboð og sent þá öllum mínum bloggvinum beiðni um að skrá sig á framboðslistann minn. Ekki það að ég sé með framboð í huga, en mér þætti alls ekki úr vegi að senda slík skilaboð ef þannig staða kæmi upp.
Síðan má líka reikna með að ný tækni muni koma fram sem mun auka enn frekar á samskipti milli bloggvina, svona svipað og Facebook notar í dag, þar sem að vinir geta myndað hópa kringum áhugamál eða hagsmunamál.
Það kostar mig ekkert að bæta við bloggvinum og þeir taka ekkert pláss. Það fer ekkert fyrir þeim, nema við séum dugleg að skiptast á skoðunum, og það er bara gaman. Einnig raða ég bloggvinum í stafrófsröð, einfaldlega vegna þess að ég vil ekki gera upp á milli þeirra, þó svo að ég hafi meiri samskipti við suma en aðra.
Ef þú lítur öðrum augum á bloggvináttu eða eins, skráðu þá endilega stutta athugasemd ef þú nennir.

Til gamans langar mig að þýða nokkrar tilvitnanir um vináttuna, sem mér finnst eiga ágætlega við um bloggvináttu, og koma með nokkrar íslenskar líka:
Það er sönn vinátta þegar þögn milli tveggja einstaklinga er þægileg. (Dave Tyson Gentry)
Það er auðveldara að eiga týndan en fundinn vin. (Málsháttur)
Leiðin að heimili vinar þíns er aldrei löng. (Málsháttur)
Í góðu veðri - fullt af vinum - í vondu veðri hverfa þeir. (Nafnlaus náungi)
Maður deyr jafnoft og maður tapar vini. (Nafnlaus náungi)
Vinur minn er sá sem tekur mér eins og ég er. (Henry David Thoreau)
Vinur er sá sem hrósar okkur með því að búast við því besta af okkur, og sá sem kann að meta það í okkur. (Henry David Thoreau)
Okkur þykir svo vænt um hvert annað vegna þess að veikleikar okkar eru þeir sömu. (Jonathan Swift)
Vinátta er jafna. (Pýþagóras)
Megi Guð forða mér frá vinum sem þora aldrei að gagnrýna mig. (Thomas Merton)
Aldrei gera eitthvað rangt til þess eins að eignast vin eða viðhalda vináttu. (Robert E. Lee)
Vinur sem heldur í hönd þína og segir einhverja vitleysu er mun meira virði en sá sem er ekki nærri." (Barbara Kingsover)
Vinur er sá sem þekkir þig og líkar samt vel við þig. (Elbert Hubbard)
Vertu þinn eigin vinur, og aðrir munu fylgja í kjölfarið. (Thomas Fuller)
Eina leiðin til að eiga vin er með því að vera vinur. (Ralph Waldo Emerson)
Gamli góði vinur, glaðir gengum við oft forðum
en við gátum líka skipst á grát og grimmdarorðum. (Magnús Eiríksson)
Ósnotur maður
hyggur sér alla vera
viðhlæjendur vini. (Hávamál)
Vin sínum
skal maður vinur vera
og gjalda gjöf við gjöf. (Hávamál)
Vin sínum
skal maður vinur vera,
þeim og þess vin.
En óvinar síns
skyli engi maður
vinar vinur vera. (Hávamál)
Veistu ef þú vin átt,
þann er þú vel trúir,
og vilt þú af honum gott geta,
geði skaltu við þann blanda
og gjöfum skipta,
fara að finna oft. (Hávamál)
Svo er auður
sem augabragð:
hann er valtastur vina. (Hávamál)
Myndir:
Api og tígrisdýr: retrogismo.com
Sam og Frodo: Warofthering.net
Fílar í góðum fýling: National Geographic News
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (42)
Af hverju bloggar þú? (Og af hverju ég blogga)
7.8.2008 | 09:27

"Ég skil ekki hvað það er sem fær fólk til að blogga, gefa öllum aðgang að þeirra einkalífi, dýpstu skoðunum og þrám. Þetta er bara fólk haldið athyglissýki."
Þetta er skoðun sem ég heyrði út undan mér um daginn, og er hún neistinn sem kveikti í þessari grein.
Nú blogga ég mikið og er svona hæfilega athyglissjúkur. Ég fæ vissulega spark út úr því þegar ég finn að fólk hlustar á það sem ég hef að segja, og að það er farið að skipta einhverju máli í þjóðfélagslegri umræðu. En það er kannski ekki aðal atriðið. Bloggið einfaldlega passar við minn persónuleika eins og flís við rass.
Síðan ég var barn hef ég elskað að skrifa og á ennþá tugir af sögum og ljóðum ofan í skúffu, sem munu sjálfsagt aldrei birtast á prenti, en ég hef lengi fundið að minn eigin hugur er svo djúpur og víður, að ég get ekki annað en kannað hann betur, og besta leiðin sem ég kann til að skoða eigin huga er að skrifa það sem ég hugsa á meðan ég velti fyrir mér einhverju af þeim fyrirbærum sem á hugann rekur.

Ég var þannig unglingur að stundum vildi ég ekki vakna á morgnanna, en það var ekki vegna þess að ég var svo þreyttur og sljór, heldur vegna þess að draumarnir voru svo spennandi. Síðan uppgötvaði ég að þegar ég skrifa, þá kemst ég í ástand sem er frekar líkt því og þegar mig dreymir. Mér líður vel, ég verð spenntur, og ég læri. Í fjölmörg ár lenti allt það sem ég skrifaði ofan í skúffu, því að þó mér finnist gaman að skrifa datt mér aldrei í hug að einhver annar gæti haft áhuga á því.
En svo kemur Netið. Fyrsti spjallþráður sem ég tek þátt í er á íslenska skákhorninu. Einnig skráði ég mig á Rottentomatoes kvikmyndasíðuna og hef tekið þátt í samræðum þar frá 2001. Síðan birtist áströlsk síða á Netinu sem hét writtenbyme.com og þar skrifaði ég fjöldan allan af greinum, sögum og ljóðum; en því vinsælli sem skrefin urðu, því hærri upphæðir gastu fengið til verslunar á Amazon. Mér gekk nokkuð vel á þeirri síðu, sem var síðan lokað þegar eigendur urðu gjaldþrota.
Árið 2000 bjó ég í Mexíkó en tók þátt í uppbyggingu Vísindavefsins undir góðri ritstjórn Þorsteins Vilhjálmssonar, skrifaði eitthvað smotterí, las yfir allar greinar til að leiðrétta málfar og stafsetningu, tók þátt í ritstjórn og almennu utanumhaldi, og vann myndir. Því ævintýri lauk eftir að ég missti netsamband í heilan mánuð eftir fellibylinn Ísídór og þurfti að flytja búferlum til annarrar borgar í kjölfarið.

Og í dag er það Moggabloggið.
Ég er mjög hrifinn af kerfinu sem hefur verið sett upp. Athugasemdir mínar eru galopnar öllum og ég hef ekki fengið einn einasta spam-póst, sem segir nokkuð mikið um kerfið sem liggur á bakvið. Það er gaman að geta tengst bloggvinum, og sérstaklega núna þegar hægt er að senda þeim persónuleg skilaboð. Flestir sem hafa skrifað athugasemdir eru líka málefnalegir og áhugaverðir einstaklingar með vel mótaðar skoðanir, sem fá mig oft til að hugsa hlutina frá nýju sjónarhorni.
En til að svara spurningunni í fyrirsögninni: "Hvað er það sem fær fólk til að blogga?" þá er svar mitt einfalt. Ég elska að skrifa og rannsaka og því sem mér finnst vert að deila, deili ég, en annað fer ofan í skúffu.
En hvað um þig, af hverju bloggar þú?
Myndir:
Teikning af rithöfundi af News.com.au
Málfverkið Efnið sem draumar eru búnir til úr, eftir John Anster Fitzgerald af MedusaEyes.com
Fellibylurinn Ísídór af Parque Ecologico de Irapuato
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)