Eru það persónulegir hagsmunir sem koma í veg fyrir aðgerðir ríkisstjórnar?


 

Í frétt visir.is kemur fram að Árni Mathiesen fjármálaráðherra, er á meðal stofnfjáreigenda í Byr. Byr er sparisjóður. Sparisjóðir eru fjármálafyrirtæki. Um sparisjóði gilda einhverjar aðrar reglur en um banka, en í eðli sínu eru sparisjóðir bankar. Aðeins bókstafstrúarmaður gæti hafnað slíkum sannleik.

Þegar Árni Mathiesen var spurður í þættinum Silfur Egils um vorið 2008 hvort að ríkisstjórnin ætlaði ekki að koma almenningi til hjálpar vegna gengisfellingarinnar sem varð í vetur og árásinnar á íslenska hagkerfið, svaraði hann því til að fyrst og fremst bankarnir gætu treyst á ríkið. Hann minntist ekkert á fólkið í landinu.

 



Mér fannst þetta afar furðuleg afstaða og skildi hana ekki. En nú hafa komið fram upplýsingar sem útskýra þetta dularfulla viðhorf, og sýna að málið er svo einfalt að erfitt er að sjá það.

Árni er nefnilega einn af eigendum Sparisjóðsins Byr. Ég veit ekki hvort hann hafi átt í fjármálafyrirtæki þegar hann lét þessi ummæli falla í vetur, en það er afar vafasamt af fjármálaráðherra að eiga hlut í banka - því skoðanir hans verða hlutdrægar og ljóst er að vegna þessarar hlutdrægni munu fjármálafyrirtæki fá meiri stuðning en fólkið í landinu. Hagsmunaárekstrar sem þessir eru afar ófagmannlegir og ættu að vera bannaðir með lögum, þar sem þeir valda óhjákvæmilega hagsmunaárekstrum.

 

83a38618032494ba961fd17889aaf2df_300x225

 

Málið er að fjármálaráðherra sem á hluta í fjármálafyrirtæki hlýtur að huga fyrst og fremst um hag eigin fyrirtækis, og leyfa hagi þjóðarinnar að mæta aðgangi. Annað væri einfaldlega óskynsamlegt í stöðunni.

Á meðan kreppir að vegna verðbólgu og gengisfellingar hjá alþýðunni sem er á föstum launum sýna fjármálafyrirtæki gífurlegar hagnaðartölur sem skila sér til eigenda þeirra, og þegar í ljós kemur að fjármálaráðherrann sjálfur er einn af þessum eigendum, þá fer heildarmyndin að skýrast.

 

 

Eigendur fjármálafyrirtækja hljóta að hugsa fyrst og fremst um eigin hag. Það myndi ég sjálfur gera. Það myndu allir gera. Þannig er mannlegt eðli. Þess vegna eiga stjórnmálamenn ekki að eiga í fyrirtækjum sem tengjast ákvörðunum þeirra í stjórnsýslunni. Fátt er verra en hagsmunaárekstrar í stjórnsýslu, einfaldlega vegna þess að þeir valda óréttlæti í stað þess að koma í veg fyrir það.

Þetta er slíkur hagsmunaárekstur að maður hlýtur að spyrja hvort að það sé löglegt af fjármálaráðherra að eiga hlut í fjármálafyrirtæki? Eru virkilega ekki til lög sem banna stjórnmálamönnum að höndla málefni sem snerta þá sjálfa náið?

 

 

Nú hljótum við að spyrja hvort að það sé regla frekar en undantekning að ráðherrar þjóðarinnar eigi svona mikið í fjármálafyrirtækjum eða öðrum rekstri sem verða fyrir beinum áhrifum af ákvörðunum þeirra við stjórnsýslu, og hvort að þetta útskýri ástæður fyrir einkavæðingu á ríkisstofnunum sem sinna fjármálum, samskiptum og orku.

Getur verið að stjórnvöld séu það gjörspillt, bæði hér heima og víðar um heim, að ákvarðanir ráðamanna snúist fyrst og fremst um að tryggja sér og sínum hagstæða framtíð, og að þetta sé orðið að hefð í stjórnmálum?

 

 

Það er ljóst að ef það er hagkvæmara fyrir ráðherra að gera ekki neitt heldur en að gera eitthvað, sama þó að það kosti ókunnuga þegna óþægindi og valdi einhverjum leiðindum, þá er það skárri kostur (fyrir þá) en að hugsanlega styggja þá sem láta peninginn vaxa á trjánum.

Það væri áhugavert að vita meira um bein hagsmunatengsl ráðherra og þingmanna, sem og skýr hagsmunatengsl gegnum maka, fjölskyldu og vini. Eru slík hagsmunatengsl og vinabönd skrímsli sem útilokað er að sigrast á? Eitthvað sem hefur alltaf fylgt okkur og mun alltaf fylgja okkur?

 

 

 

Aðrar færslur um sama mál: 

Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska?

Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera fyrir fólkið í landinu?

Hvar eru Geir H. Haarde, Árni M. Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson, Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á meðan neyðarástand ríkir á fjármálamarkaði?

 

 

Heimildir og mynd af fjármálaráðherra: visir.is

Mynd af Agli Helgasyni: Eyjan.is

Logo Byr Sparisjóðs: Viðskiptablaðið

Mynd af ríku barni: Day by Day - Every day is a Saturday

Táknmynd af réttlæti: I'm Trying to Wake Up

Mynd af heilögum Georgi og drekanum: Illusions Gallery


Bloggfærslur 30. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband