The Dark Knight (2008) ***1/2
23.7.2008 | 18:01
The Dark Knight er vel gerð ofurhetjumynd, með flóknu samspili ólíkra persóna, afar góðri frammistöðu nokkurra leikara, með sögu í anda teiknimyndasagnanna og vel leikstýrð. Hún er hins vegar ekki besta kvikmynd sem gerð hefur verið, né get ég fullyrt að hún sé besta ofurhetjumyndin. Hún er bara öðruvísi en allar aðrar ofurhetjumyndir að því leyti að veruleiki hennar passar við okkar veruleika.
The Dark Knight er heldur köld kvikmynd fyrir minn smekk. Hún er svona hálfpartinn Blade Runner (1982) og hálfpartinn Heat (1995), Það hefur bæði kosti og galla. Það eru það margar persónur drepnar að þegar loksins ein af aðalpersónunum fellur í valinn, þá hefur maður upplifað svo mikið ofbeldi og svo margar aukapersónur verið drepnar að mér fannst persónulegt drama frekar lítilvægt þegar þar var komið sögu.
Heath Ledger hefur verið mikið rómaður fyrir leik sinn sem The Joker. Hann á þetta lof að mestu skilið, leikur hans ógleymanlegur og honum tekst að færa persónu dýpt sem virðist ekki eiga sér neina forsögu. Hann er lunkinn við að koma hetjunum í mikil vandræði og dáist að Batman eins og fanatískur aðdáandi og þráir ekkert meira en að Batman drepi hann, sem stríðir reyndar gegn siðareglum Batman, og það sem gerir þetta að svona spennandi leik fyrir The Joker.
Tvær fylkingar takast á í The Dark Knight: annars er það mafían eins og hún leggur sig og lögreglan og saksóknarar gegn henni. Einhvers staðar á milli þessara tveggja fylkinga eru svo hetjurnar Batman, Jim Gordon og Harvey Dent, en hinu megin við línuna eru svo illmennin The Joker og Two Face.
Munurinn á Batman og The Joker er áhugaverður, en Batman trúir því að hann sé að verja saklaust fólk gegn illmennum. The Joker aftur á móti trúir því að enginn sé saklaus, að allir séu illir, og hann hefur djúpa þrá fyrir að sanna þessa kenningu sína með því að spilla öllu því sem gott er.
Á Heath Ledger skilinn Óskar fyrir túlkun sína sem The Joker? Miðað við Óskarinn síðustu ár þá held ég að það sé nokkuð gefið að hann verði tilnefndur, hann er það sannfærandi í sínu hlutverki, en Aaron Eckhart þótti mér hins vegar enn betri sem Harvey Dent, þó að ég ætti erfitt með að trúa á dramatískan viðsnúning hans.
Christian Bale fannst mér hins vegar slakur í titilhlutverkinu. Sem Bruce Wayne sýndi hann litla mannúð, og sem Batman var hann með rödd sem var alltof rám og alvarleg miðað við aðstæður, sérstaklega þegar hann var að ræða við vini sína. Michael Caine er afbragð sem þjónninn Alfred, og Morgan Freeman er bara Morgan Freeman í hlutverki Lucius Fox, og Maggie Gyllenhaal er framför frá Katie Holmes sem saksóknarinn og æskuvinur Bruce Wayen og auk þess forsenda ástarþríhyrnings: Rachel Dawes. Gary Oldman er mjög góður sem þungamiðja réttlætisins, Jim Gordon.
Öll bardagaatriði og kappakstur eru hreint afbragð, og finnst mér einfaldlega súrt að ekki skuli vera til IMAX bíó á Íslandi þar sem mikill hluti myndarinnar var hannaður fyrir þá tækni. Sjálfsagt er það hluti af ástæðu þess að hún er að fá svona magnaða dóma í Bandaríkjunum.
Reyndar hafði ég á tilfinningunni í upphafi sýningarinnar að upplausnin á myndinni væri vitlaust stillt í Kringlubíói. Það er samt erfitt fyrir mig að meta það, þar sem ég hef ekki séð myndina við bestu mögulegu aðstæður.
The Dark Knight er tveir og hálfur tími að lengd, en sá tími er fljótur að líða því maður er alltaf spenntur eftir því sem gerist næst, og reyndar þegar myndinni lauk langaði mig enn til að sjá meira.
Ég get ekki gefið The Dark Knight fulla einkunn þar sem að mér þótti persónurnar of fjarlægar, og held að þær hefðu getað verið enn betur mótaðar. Það getur reyndar verið að einhverjar mikilvægar senur hafi verið klipptar úr myndinni af framleiðendum vegna lengdar og að endanlega útgáfa leikstjóra muni einhvern tíma koma út með þessum atriðum sem mér fannst vanta.
Ég get mælt með The Dark Knight en með þeim fyrirvara að þú skalt ekki búast við alltof miklu. Hún er engan veginn besta mynd allra tíma eins og hægt er að sjá á IMDB þessa dagana, en ætti hugsanlega skilið að vera á topp 20-50 yfir bestu Hollywoodkvikmyndir sem gerðar hafa verið.
Ef þig langar til að sjá The Dark Knight bara til að sjá frammistöðu Heath Ledger, þá verðurðu ekki fyrir vonbrigðum, því að hann er óþekkjanlegur, djúpur og snarklikkaður í sínu hlutverki - það bilaður að maður veltir fyrir sér hvort að hlutverki hafi tekið það á, að það hafi átt einhvern þátt í dauða hans.
Leikstjóri: Christopher Nolan
Einkunn: 8
Myndir: Rottentomatoes.com
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 19:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)