Á íslenska þjóðin að redda bönkunum?
9.5.2008 | 22:46
Síðan bankarnir voru seldir í einkarekstur og þessar stofnanir fóru að snúast um að græða fyrir eigendur frekar en stuðla að fjárhagslegum stöðugleika fyrir þjóðina alla, hefur íslenskt þjóðfélag gjörbreyst.
Gífurlegur auður hefur orðið til í fjármálageiranum, sem að miklu leyti hefur sprottið úr hækkun á verðmætamati fasteigna og vegna þess að bankarnir eiga enn þær eignir sem fólkið hefur keypt og er enn að greiða niður, eða réttara sagt upp, því að höfuðstóll lána hækkar bara á Íslandi, en lækkar ekki eins og í eðlilegu fjármálaumhverfi.
Eigendur bankastofnana hafa grætt mest á verðbólgu húsnæðismarkaðarins, sem og allir þeir sem að sölu húseigna koma. En nú hefur hægt á markaðnum. Stóra fjármálablaðran er ekki bara hætt að þenjast út, hún er farin að dragast saman. Þetta þýðir að auðmenn græða ekki jafn mikið og áður, og almúgafólk er farið að tapa hraðar en fyrr.
Fólk kallar á aðgerðir, en fær ekki svör.
Hins vegar liggja ákveðnar aðgerðir fyrir, aðgerðir sem eru svo skuggalegar og hættulegar fyrir almennan borgara að mér líst ekkert á blikuna. Aðgerðirnar snúast um að fá alþjóðleg lán til að "redda" íslenskum bönkum úr mestu vandræðunum.
Nú vil ég rekja stutta sögu. Rétt fyrir páska brást á mesta gengisfelling sem um getur í fleiri áratugi á Íslandi. Seðlabankastjóri var fljótur að slá því fram að innlendir sem og erlendir aðilar hafi verið þar að verki. Einnig hefur komið í ljós að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur ekki mannauð, getu eða fjármagn til að rannsaka víðmikil og flókin fjármálamisferli.
Talað var um að bankarnir sjálfir hefðu valdið gengisfellingunni fyrir páska til þess að afkoma þeirri liti betur út á fyrsta ársfjórðungi. Nú kemur í ljós að þessi samsæriskenning stenst, að bankarnir hafi komið út í stórgróða eftir gengisfellinguna sem að þeir hafi sjálfir valdið, á meðan stýrivaxtahækkun og verðbólga sem fylgdi í kjölfarið, hefur valdið því að fólk þarf að borga enn meira hlutfallslega af sínum skuldum, einmitt til bankanna.
Nú eru fyrirliggjandi áætlanir um aðgerðir ríkisins að koma í ljós; að taka erlend lán í massífu magni til að styðja við íslensku bankana, sem takið eftir, eru í einkaeign og eru ekki lengur ríkisbankar. Þetta þýðir í raun að sama þó að bankarnir hafi verið seldir, og að ef þeir fara á hausinn eftir að þessi ofurlán hafa verið tekin, að íslenska þjóðin þarf að borga fyrir með blóði, svita og tárum.
Eins og staðan er í dag, ef banki fer á hausinn, þá fer hann bara á hausinn. Ef Ríkið tekur lán og lánar banka sem síðan fer á hausinn, þarf ríkið að borga upp lánið, þar sem að greiðslur hætta að koma frá bankanum, og Ríkið, sem er ekkert annað en fólkið í landinu, þarf að borga.
Ég vil ekki taka þessa áhættu. Ég vil að skattar mínir fari í verðug málefni: menntun barna minna og heilbrigðismál fyrst og fremst, en ekki í bankastofnanir sem einkaaðilar eiga, sem gæti ekki staðið meira á sama um viðskiptavini þeirra, svo framarlega sem hægt er að græða á þeim.
Ég sé fyrir mér ráðherra eftir nokkra mánuði þegar þessi erlendu lán eru farin að taka á þjóðarbúinu öllu, og ekki er lengur svigrúm til að lækka skatta eða minnka álögur á þá sem standa verst, einmitt lántökunnar vegna. Þeir segja: "Þið báðuð um aðgerðir, borgarar góðir. Þið fenguð það sem þið báðuð um. Samt eruð þið óánægð. Það er greinilega aldrei hægt að gera ykkur til geðs."
Málið er að auðstéttin sem að Ríkinu stjórnar dulbúið hugsjónum lýðræðis (democratic oligarchy) tapar á því að bæta kjör þeirra sem fyrir brauðinu vinna og verst standa. Þess vegna verður staðið í vegi fyrir betri kjörum eins framarlega og kostur gefst. Því að málið er að eftir því sem að auðurinn vex meira hjá fáum, því fleiri einstaklinga þarf til að vinna þá vinnu sem skapar þann auð og viðheldur honum, það er að segja, nema að peningar séu allt í einu farnir að vaxa á trjánum.
Lýsing grínistans George Carlin á því auðræði í Bandaríkjunum sem er skuggalega nálægt hinum nýja íslenska veruleika.
Bloggar | Breytt 10.5.2008 kl. 10:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)