Er Guð til?

Áður en hægt er að svara spurningu um hvort að eitthvað eða einhver sé til eða ekki, er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir hvað það er sem við spyrjum hvort sé til eða ekki.

Þegar ég spyr hvort að stólar séu til þarf ég ekki annað en setjast á stól til að vera sannfærður um tilvist hans. Þegar ég spyr hvort að hundar séu til þarf ég ekki annað en klóra hundi bakvið eyrað til að sannfærast um að hann sé til. Þegar ég spyr hvort að vinur minn sé til, þarf ég ekki annað en að hringja í hann og hann svara til að ég sé sannfærður um tilvist hans. 

Til hafa verið margir stólar, hundar og manneskjur handan minnar reynslu. Ég efast ekki um það. Hins vegar vandast málið þegar kemur að nákvæmari þekkingu þar sem þarf að auðkenna ákveðinn stól, hund eða manneskju.

Stólum sem hefur verið hent og þeim eytt, hundar og manneskjur sem hafa dáið og orðnar eru að mold, hvernig get ég vitað að þær hafi verið til? Ég get vitað að Shakespeare var til af því að hann skrifaði Hamlet, ég á erfiðara með að greina hunda og stóla sem horfið hafa í tímans fljót.

hamlet800011

Ég get vitað að forfeður mínir hafa verið til, og er ég einhvers konar sönnun þess, þó að þessi þekking risti reyndar ekkert alltof djúpt. Ég hef til dæmis ekki hugmynd um hvaða skoðanir langafar mínir og langömmur mínar höfðu á tilvist guðs.

Þegar þekking okkar tengd reynslu reynist svo skammvinn sem reyndin er, leitum við annarra leiða til að njörva hana niður. Við skrifum sögur um atburði og fólk sem við viljum muna eftir. Best skrifuðu sögurnar njóta virðingar og fólk reynir að læra þær, á meðan þær verr skrifuðu, sem eru hugsanlega nákvæmari og sannari hverfa í gleymskufljót tímans.

Skrifaðar hafa verið sögur um merkar manneskjur sem mörg okkar hafa aldrei hitt: móður Teresu, Jesús, Múhameð, Búdda, Sókrates og þannig má lengi telja. Það er auðvelt að efast um tilvist þeirra, en kannski erfiðast að efast um tilvist móður Teresu, þar sem að hún er nýfallin frá. Hins vegar er hægt að efast um að sögurnar um þetta fólk séu sannar, rétt eins og hægt er að efast um að sagan um Hamlet hafi verið sönn í frásögn Shakespeare. Var þessi danski prins, Hamlet, einhvern tíma til?

Hvernig stendur annars á því að við þekkjum miklu betur sögupersónu heldur en raunverulegar persónur sem til voru á 16. öld? Af hverju eru sögupersónurnar meira lifandi í okkar augum? Er það vegna þess að þær voru hannaðar fyrir ímyndunaraflið, frekar en fyrir minnið, og þess vegna er okkur auðveldara að sjá þær fyrir okkur?

Og hvað um Guð? Ég veit varla hvað 'Guð' þýðir, annað en að hann hafi skapað himinn og jörð á sjö dögum, og að efast megi um hvort að sjö dagar fyrir Guð sé það sama og sjö dagar fyrir manneskju, þar sem að einn dagur fyrir Guð er sem þúsund ár fyrir manneskjur. Ef Guð er veran sem olli því að heimur okkar varð til, þá er allt eins hægt að segja að náttúrulögmálin og Guð séu eitt og hið sama. 

Spurningin verður þó sú hvort að Guð hafi valdið náttúrulögmálunum eða náttúrulögmálin valdið Guði. Þar sem að Guð skapaði allt hlýtur hann að hafa skapað náttúrulögmálin og látið síðan náttúrulögmálin sjá um sig sjálf. En ef þetta er rétt, er Guð vera sem hefur vilja?

Ef Guð hefur vilja, hver getur hann þá verið annar en að láta náttúrulögmálin ráða ferðinni, rétt eins og hefur verið raunin síðan elstu menn muna? Getur virkilega verið að Guð líti á suma menn með vanþóknun og aðra með velþóknun, og að þeir sem þóknast honum fari til himnaríkis en þeir sem gera það ekki fari til helvítis?

Ef þetta er satt, þá finnst mér þetta heldur ósanngjarn leikur, sem ég neita að taka þátt í. Ég hef engan áhuga á að þóknast einum eða neinum, heldur hef ég djúpan áhuga fyrir því að gera það sem er rétt og láta gott af mér leiða í þessu lífi.

Af hverju vil ég gera það sem er rétt og láta gott af mér leiða, ef mér er sama um himnaríki og helvíti? 

Málið er að ég trúi því að hamingja sé góð. Og þá á ég ekki við bara hamingju fyrir mig eða mína, heldur fyrir alla. Því fleiri manneskjur sem eru hamingjusamar í heiminum, því betra verður að lifa í þessum heimi, og því líklegra að mín eigin börn verði hamingjusöm og börn þeirra.

Málið er að ég virði verk forfeðra minna. Þeir hafa lifað og dáið, en alltaf skilið eftir sig mannveru sem síðan skilar af sér öðrum mannverum. Forfeður mínir hafa alið börn sín upp í þeirri von að eitthvað rætist úr þeim, að þau vaxi úr grasi og verði eitthvað. Þannig ræktum við fjölskyldu okkar eins og tré, við gróðursetjum það og hlúum að því þar til það er nógu sterkt til að þola hvaða veður sem er. Og þó að við föllum frá heldur tréð áfram að vaxa og vonandi dafna.

Við munum öll deyja. Börn okkar munu fara sömu leið. Svo og börn þeirra. Það sem börn okkar taka með sér inn í lífið er sú viska sem við getum fengið þeim, og hjálpað þeim að rækta með sér. Þau læra af þessari visku, og kenna hana sínum börnum á sinn hátt. Þessi viska getur haft áhrif á samferðarfélaga þeirra og hjálpað til við að leggja veginn að hamingjunni. 

Við gefum þessar örsmáu agnir vonar með börnum okkur, vonar um að við séum að rækta eitthvað sem mun gefa eitthvað gott af sér með tíð og tíma. Við sættum okkur mörg við að við höfum ekki hugmynd um hvað þetta góða er, sem við vonum að verði til, en það kæmi mér ekki á óvart þó að margir freistuðust til að kalla það Guð.

Er Guð til?

Út frá þessum pælingum get ég ekki sagt annað en að spurningin sé í sjálfri sér röng, þar sem að við getum aldrei vitað neitt um veru sem við getum ekkert vitað um, og þar af leiðandi er ómögulegt að staðfesta eða ekki um tilvist hennar.

Aftur á móti getum við trúað því að Guð sé til, og byggt þá trú á þeim hugmyndum sem við ræktum með okkur um hann, hana eða það. Þessar hugmyndir sem við ræktum um Guð eru hugsanlega eina vísbendingin sem við fáum nokkurn tíma um tilvist Guðs.

yggdrasil2

Er Guð til?

Svari ég játandi er ég að fullyrða að ég viti hvað Guð er. Svari ég neitandi er ég einnig að fullyrða að ég viti hvað Guð er. Því maður getur hvorki játað né hafnað öðru en því sem maður skilur. Þar af leiðandi sætti ég mig við óvissusvarið, að ég veit ekki hvort að Guð sé til eða ekki, því að ég veit ekki í fullri hreinskilni hvað Guð er.  

Ég veit að fólk hefur ólíkar kenningar um hvað og hver Guð er, og fjöldi trúarbragða hefur sprottið upp til að svara þeirri spurningu. Hins vegar er ég sáttur við að vita að ég viti ekki svarið, en samt hef ég áhuga á að vita það - ég held það se´bara ofan mannlegum skilningi, og þegar við færum eitthvað sem er ofan mannlegum skilningi í mannlegan skilning verður ekkert úr annað en tómur misskilningur og ósætti þar sem okkur virðist eðlislægt að vera ósátt við að vera ósammála, og sumir fyllast jafnvel heift við slíkar aðstæður.

Svarið mitt í dag er einmitt svar sem að mætti teljast til veikleika, vegna þess að svar sem þetta vekur grunsemdir um vanþekkingu og leti, en það er svarið: "Ég veit það ekki." 

Málið er að þetta er svarið sem að hvergi má nota, því að með svari eins og "Ég veit það ekki" er hægt að hanka okkur á vanþekkingu, fella okkur á prófum og fullyrða að við séum vanhæf. 

"Ég veit það ekki," getur aftur á móti, að mínu mati verið fullgilt og gott svar eftir vel grundaða íhugun, en ég skil líka vel að fólk vogi sér ekki að svara nokkurri spurningu á þennan hátt, því að við höfum verið vanin á að svara frekar því sem við höldum heldur en að viðurkenna að við vitum ekki þegar við vitum ekki eða getum ekki vitað. 

Aftur á móti er ég fyllilega sáttur við að fólk fylgi sinni sannfæringu og veit ég vel að þó ég telji mig ekki vita sannleikann í þessu máli, getur vel verið að einhverjir aðrir viti betur. Ég er einfaldlega ekki tilbúinn að samþykkja hvaða trúarskoðun sem er, og veit að rök duga skammt þegar trú er annars vegar. Trúarsannfæring er nefnilega dularfull og ógreinanleg mannlegum skilningi, en það þýðir samt engan veginn að hún sé án gildis eða gæða.

 

R.E.M. Tapandi trúarbrögðum mínum:

 

Þessar pælingar eru algerlega rót- og stefnulausar. Þeim er ætlað að vera það. Þeim er einfaldlega ætlað að vekja með eigin vitund pælingar um hluti sem ég hef ekki áður velt fyrir mér, og með þessu róti vonast ég til að spurningar vakni sem hugur minn tekur til við að svara, hvort sem að ég verði meðvitaður um það ferli eða ekki. Sundum velti ég fyrir mér hvernig mikilvægustu ákvarðanir okkar eru teknar: með rökum eða í draumi, reistar á tilfinningu eða innsæi? Hvaða ferli er það sem fær okkur til að taka góðar ákvarðanir? Er þetta ferli alltaf meðvitað, eða þurfum við að leyfa upplýsingum að sjóða innan með okkur, sem síðan endurspeglast í athöfnum okkar og orði? 

Vonandi hafa fleiri en ég sjálfur gaman af þessu skipulagslausa hugarróti mínu. 

 


Bloggfærslur 12. maí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband