Gætir þú hugsað þér að búa í gámi?

Fyrir nokkrum vikum ræddi ég við félaga minn um ástandið á íslenska húsnæðismarkaðnum. Hann er verkfræðingur og nýkominn heim úr meistaranámi. Við vorum að velta fyrir okkur yfir hádegismatnum hvernig ungt fólk færi að í dag, þegar það kemur heim úr námi og þarf að koma þaki yfir höfuðið.

Hann sagði mér að útilokað væri fyrir hann að kaupa sér íbúð, til þess er fyrsta útborgun of há. Einnig leist honum ekkert á að festa sig í lánaskuldbindingar næstu 40 árin. Annar kostur var að leigja 90 fermetra íbúð á kr. 160.000,- á mánuði, sem er svipað og grunnskólakennari með mastersgráðu í fullu starfi fær útborgað í mánaðarlaun. Það er líka mjög dýrt fyrir verkfræðing.


Hann sagði mér að nokkrir félagar hans hafi rætt af fullri alvöru að búa til nýtt hverfi þar sem öll hús væru gámar. Málið er að gámar eru vel einangraðir og hægt að setja upp fín loftræstikerfi í þeim. Þar að auki er hægt að raða þeim hverjum ofan á annan, og jafnvel hanna einfalt skolp, rafmagns- og vatnsveitukerfi.

Hugmyndin fékk hljómgrunn við borðið. 


Nú er svo komið að einhverjir einstaklingar á Íslandi hafa framkvæmt þetta. Þeir búa í gámi og borga sjálfsagt eigandanum einhverja lágmarks leigu, en þetta þýðir að þessir einstaklingar geta safnað einhverju af þeim peningum sem þeir eignast, í stað þess að borga alltof háa leigu þar sem leigumarkaðurinn á Íslandi er virkilega dýr, eða borga fjármúgur í vexti bankalána á hverjum mánuði þar sem höfuðstóllinn minnkar ekki, heldur breiðist stöðugt út eins og krabbamein.


Eftir að hafa átt þessar samræður dettur mér ekki í hug að fordæma þetta fólk við Bergstaðarstræti, manneskjuna sem á gáminn, eða yfirvöld í Reykjavík. Þetta er ástand sem við höfum búið til. Þetta eru fyrstu merkin um afleiðingarnar á óeðlilegum hækkunum á húsnæðisverði, og ég spái því að við eigum eftir að sjá meira af sambærilegum hlutum í framtíðinni,jafnvel heilt bæjarfélag byggt á gámum, eins og þegar fyrirfinnst í Lundúnum.

Það er byrjað að selja gámaheimili úti í hinum stóra heimi, sem þurfa ekki að vera slæmur kostur miðað við húsbyggingarkostnað í dag. Kannski er framtíðin ekki í sementi, heldur í gámum?

 

Þátturinn hér fyrir neðan gæti opnað huga þinn um ágæti heimilisgáma.

 


mbl.is Búa í gámi í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband