12 Angry Men (1957) ****

12 Angry Men gerist að mestu í aflokuðu herbergi þar sem kviðdómur þarf að komast að niðurstöðu um morðmál. Það er heitt úti og flesta langar að komast snemma heim, og suma jafnvel á völlinn til að fylgjast með hafnarboltaleik.

Unglingur frá Puerto Rico er sakaður um að hafa myrt föður sinn. Tvær manneskjur voru vitni að morðinu og morðvopnið er í eigu unglingsins. Öllum í kviðdómnum nema einum finnst þetta augljóst mál og réttast að afgreiða það fljótt og örugglega. Strákurinn hlýtur að vera sekur, hann er úr fátæku hverfi, hefur oft verið dæmdur fyrir smærri glæpi, og fjarvistarsönnun hans gengur ekki upp.

En kviðdómari númer 8 (Henry Fonda) finnst ekki rétt að klára morðmál svo hratt, og biður um smá umræðu, bara umræðunnar vegna og af virðingu fyrir réttarkerfinu og lífi unglingsins sem sjálfsagt verður tekinn af lífi verði hann dæmdur sekur. Í ljós kemur að málið er kannski ekki jafn einfalt og það lítur út fyrir að vera, þegar kviðdómarar, hver á fætur öðrum reyna að sanna kviðdómara 8 um af hverju drengurinn er sekur. Honum tekst hins vegar að vekja upp spurningar sem sífellt erfiðara verður að svara, og tekst að sá efasemdum meðal hinna kviðdómaranna.

Leikurinn í 12 Angry Men er stórgóður. Henry Fonda leikur skynsemismanninn fullkomlega, og Lee J. Cobb er frábær sem hinn stolti og tilfinninganæmi maður sem veit einfaldlega að drengurinn er sekur. Upp koma fjöldi ástæðna til að dæma unglinginn til dauða, meðal þeirra eru fordómar, stolt, hugleysi, óþolinmæði, óákveðni, ónákvæmni, og fleira. Þetta er magnaður bardagi þar sem á takast skynsemi og rökvillur.

Þó að 12 Angry Men gerist í einu herbergi, gerist hún einnig í huga 12 manns sem gerir hana að gífurlega dýnamískri upplifun. Maður veit aldrei hvað kemur næst, og þegar það gerist er það nákvæmlega það sem þurfti að gerast.

Frábær kvikmynd og fróðleg þegar maður veltir fyrir sér því flókna ferli sem getur átt sér stað þegar nokkrar manneskjur eru staddar á sama stað og neyddar til að leita sannleikans.


Bloggfærslur 12. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband