Skipta trúarbrögð einhverju máli?
3.2.2008 | 22:11
Í dag var ég gagnrýndur fyrir að efast um nokkuð sem ég gat ekki vitað.
Mér finnst sjálfsagt að efast um hluti sem ég veit að ég þekki ekki. Þetta á sérstaklega við um hluti sem hægt er að sanna eða afsanna með sönnunargögnum. Þegar kemur að stærri málum, eins og tilvist Guðs, óendanleika alheimsins, eðli sálarinnar, náttúru mannsins, og slíku, þá leyfi ég mér líka að efast, án þess að það þýði endilega að ég sé trúlaus.
Trú er persónulegt fyrirbæri. Þegar um ósannanlega hluti er að ræða, sem eru jafnvel handan mannlegs skilnings - ekki það að ég þykist þekkja takmörk mannlegs skilnings - þá duga rök skammt og þar af leiðandi er tilgangslaust að rökræða slík mál. Þegar þú reynir að sannfæra einhvern um þína eigin trú þarftu að beita mælskulist þar sem markmið orðræðunnar er að sannfæra, en ekkert endilega að leiða hið sanna í ljós. Sumir virðast halda að sannleikurinn felist í kappræðu, að sá sem hefur betur í kappræðu hafi vald á sannleikanum. Eðli sannleikans er bara ekki svo einfalt.
Hins vegar tekst mönnum með ýmsum brögðum að sannfæra fólk um að vera hluti af hópi fólks sem trúir á sambærilega hluti. Þannig verða trúarbrögðin til, stofnanir um trú. Þessar stofnanir líta stundum svolítið stórt á sig og sumar þeirra telja jafnvel þá sem tilheyra ekki hópnum, einskis virði og glataðar sálir eða jafnvel sem sálarlaus skrímsli. Þetta getur gengið út í öfgar.
Til er fólk sem hefur ákveðna trú en finnur engan samhljóm með trúarbrögðum, og svo eru líka til einstaklingar sem trúa því að Guð sé ekki til, og finna því heldur ekki samhljóm með trúarbrögðum. Þetta fólk er trúarbragðaleysingjar, en er oft misnefnt sem trúleysingjar.
Trúleysingjar eru nefnilega undarlegt fyrirbæri, og leyfi ég mér að efast um tilvist þeirra. Trúleysingi er manneskja sem engu trúir. Sú manneskja trúir ekki að mjólkin sem hún er að drekka sé útrunnin eða ekki, né heldur hvort hún er að drekka mjólk yfir höfuð eða ekki. Sú manneskja trúir ekki á þörf þess að drekka, né á þörf þess að lifa. Ég leyfi mér að efast um að algjörlega trúlaus manneskja sé til.
Aftur á móti eru til manneskjur sem trúa ekki á tilvist Guðs, og spurning hvort að það fólk mætti ekki kalla Guðleysingja. Reyndar væri það vafasamt, því að ef Guð er til og er algóður, þá myndi hann sjálfsagt sjá aumur á þeim sem trúa ekki að hann sé til, og ekkert verða sár út í þau. Því hver getur verið sár út í þá sem hafa ekki forsendur til þekkingar?
Samt skil ég vel mikilvægi trúboðs. Málið er að trúarbrögð geta hjálpað við að stjórna hópum af fólki til betra lífs. Trúarbrögð getur komið hlutum í reglu þar sem engin regla var fyrir. Trúarbrögð geta hjálpað við að leiða siðferðilega fötluðu fólki til betri vegar, fólki sem er ekki tilbúið til að átta sig á hvað er gott eða illt, rétt eða rangt, satt eða ósatt, út frá eigin forsendum, og finnst betra að treysta á yfirvald til að segja sér hvað er gott eða illt, rétt eða rangt og satt eða ósatt.
Ekki ætla ég að fullyrða um hvernig best er að lifa lífinu, tel best að hver og einn fái nógu góða menntun sem gefi forsendur til að meta hlutina út frá eigin forsendum. Við erum líkleg til að lifa eftir þeim reglum sem við setjum okkur sjálf.
Það væri óskandi að til væru kúrsar í gagnrýnni hugsun á öllum skólastigum sem gerðu þetta mögulegt. Ég held að slíkir kúrsar séu nauðsynlegir hvort sem að þjóð er á flótta undan trúarbrögðum eða tekur þeim fagnandi.
Hvað finnst þér?
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)