Atonement (2007) **1/2

Hin þrettán ára Briony Tallis (Saoirse Ronan) verður vitni að atburðum sem hún misskilur svo hrikalega að vitnisburður hennar eyðileggur fjölmörg líf. Hún heldur að Robbie Turner (James McAvoy) hafi nauðgað frænku hennar, vegna þess að hún hafði lesið bréf sem hann hafði skrifað um kynfæri systur hennar, Cecilia Tallis (Keira Knightley) og síðan komið að þeim í eldheitum ástaratlotum.

Vitnisburður Briony verður til þess að Robbie er sendur í fangelsi þar sem hann þarf að dúsa í þrjú og hálft ár, þar til seinni heimstyrjöldin hefst, en þá velur hann að fara frekar í herinn og berjast í Frakklandi við nasista heldur en að dúsa lengur bakvið rimla.

Þegar Briony (Romola Garai) hefur náð 18 ára aldri áttar hún sig á eigin misgjörðum og leitar leiða til að bæta fyrir þær. En það eru miklar hindranir á vegi hennar sem koma í veg fyrir að hún geti nokkurn tíma náð sáttum við eigin samvisku. Hvernig er nokkurn tíma hægt að bæta fyrir nokkuð sem hefur eyðilagt svo mikið?

Það er mikið lagt í umgjörð Atonement. Umhverfið er fallegt og ljóðrænt, og svo er eitt langt skot í Frakklandi sem nær yfir nokkrar mínútur, sem er gífurlega vel gert. Mér fannst Romola Garai afar góð sem hin átján ára Briony, en leikur Knightley, sem tilnefnd er til Óskarsverðlauna, þótti mér bara ósköp venjulegur, ekkert spes - ekki nóg til að fá tilnefningu.

Satt best að segja finnst mér Atonement vera frekar tilgerðarleg kvikmynd sem teygir alltof mikið lopann. Hún er greinilega framleidd með Óskarinn í huga, þar sem búningadrömu fá oft tilnefningar. Mér fannst hinn óvænti endir ekkert sérlega sniðugur, og held að úr hefði orðið betri mynd ef höfundar hefðu ekki reynt að blekkja áhorfendur með trikkum.

Ég hafði alltaf á tilfinningunni að einhver væri að kalla til mín og segja mér - sjáðu hvað þetta atriði er flott gert, sjáðu smáatriðin, sjáðu hvað mikið var lagt í sviðsmyndina fyrir hið hernumda Frakkland, sjáðu - endirinn útskýrir allt. Atonement er meðalmynd eins og Queen var í fyrra, búningadrama sem virðist ætla að ná góðum árangri á verðlaunaathöfnum, enda engin mynd jafnvel auglýst.

Mér finnst trikkið með óáreiðanlega sögumanninn ekki ganga upp, en skil samt hvað höfundarnir voru að fara.

Sýnishorn:


Bloggfærslur 17. febrúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband