Fjölskyldufaðir skotinn vegna skvaldurs í bíó

James Joseph Cialella Jr.

Í fyrradag hunsaði fjölskylda sem sat fyrir framan mann á kvikmyndasýningu í Bandaríkjunum ósk hans um að þau hættu að skvaldra með þeim afleiðingum að maðurinn, James Joseph Cialella yngri, 29 ára gamall, stóð upp, gekk í kringum sætaröðina og krafðist þess að fjölskyldan vinsamlegast héldi sér saman. Rifrildið æstist upp í handalögmál þar til Cialella dró upp skammbyssu og skaut fjölskylduföðurinn í vinstri handlegg. 

Gestir kvikmyndahússins, sem höfðu verið að horfa á The Curious Case of Benjamin Button, með Brad Pitt og Cate Blanchett í aðalhlutverkum, þustu í allar áttir og leituðu skjóls, en Cialella fór hins vegar aftur í sæti sitt og hélt áfram að horfa á myndina, þar til lögreglan færði hann í gæsluvarðhald.

Mér finnst þetta áhugaverð frétt. Sérstaklega þegar mér verður hugsað til menningarmuns á Íslandi og Bandaríkjunum, og hvernig við tökum á málum þegar við erum ósátt. Ef einhver skvaldrar í kvikmyndahúsi hérna heima eða veldur ónæði á annan hátt, er sá hinn sami í mesta lagi beðinn um að sýna tillitssemi. Verði hann við því, gott mál. Ef ekki, er líklegt að sá sem kvartaði muni hafa það frekar skítt, að minnsta kosti þar til hann kemst heim og getur róað sig við að blogga um hvað var ömurlegt í bíó vegna tillitsleysis annarra bíógesta.

 

Sjá frétt um skotárásina hjá philly.com


Bloggfærslur 28. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband