Af hverju eru Íslendingar svona fljótir að gleyma?

Ég hef margoft heyrt minnst á að reiðiöldur Íslendinga verði að engu innan fárra vikna, enda erum við svo fljót að gleyma þegar einhver kemur illa fram við okkur.

Þjóðin hneykslaðist mikið þegar settur dómsmálaráðherra valdi mann í stöðu sem var ekki álitinn hæfastur að mati dómnefndar, en samt hæfur. Má taka fram, ákvörðun ráðherra til stuðnings (eða ekki) að umræddur einstaklingur hafði starfað í dómsmálaráðuneytinu og því þekkti ráðherra af störfum hans í stjórnsýslu hversu hæfur dómari hann hlýtur að vera.

Reykvíkingar hneyksluðust mikið þegar sjálfstæðismenn og frjálslyndir (Ólafur F.) kipptu borgarstjórastólnum undan Degi B. Eggertssyni þegar hann ætlaði að fá sér sæti þarsíðasta mánudag. Svokölluð skrílslæti, eða mótmæli um 1000 manns, truflaði fund um nokkrar mínútur - og þótti það alvarlegt mál, það alvarlegt að enginn hefur þorað að þykjast skríll upp frá því.  Þannig að nú starfar settur dómsmálaráðherra í friði sem fjármálaráðherra, Ólafur F. sem borgarstjóri, og Vilhjálmur Þ. bíður þolinmæður eftir að söðla undir sig stólinn. Og allir hafa gleymt Spaugstofuþættinum góða.

Ég velti fyrir mér hvort að þetta séu meðvitaðar aðgerðir, þar sem reiknað er með að hinn íslenski almúgi verði í fyrsta lagi fljótur að gleyma (enda valdarán Reykjavíkurborgar sviðsett á sama tíma og Evrópumót landsliða í handknattleik fór fram - en það er klassísk brella stjórnmálamanna víða um heim að framkvæma vafasama hluti þegar athygli fólks er annars staðar, - en núverandi borgarstjóra til mæðu gekk Íslandi illa í handboltakeppninni og fólk vildi hugsa um eitthvað allt annað en handbolta á þessu augnabliki).

Við höfum fengið þær fréttir að við erum ríkasta og hamingjusamasta fólk í heimi, og sjálfsagt erum við líka umburðarlyndust, frumlegust, klárust, fallegust og skemmtilegust líka, að minnsta kosti miðað við höfðatölu. Yfir hverju höfum við þá svosem að kvarta? Það er ekki eins og einhver hafi verið drepinn! Er ekki í lagi þó að einhverjir kallar fái sínu fram, svo framarlega sem að skaðleg áhrif eru ósýnileg í fljótu bragði?

Hvað með það þó að aðför sé gerð að lýðræðinu? Það veit hvort eð er enginn nema háskólamenntaðir nördar sem geta átt það til að leggja sig undir skriðdreka hvað lýðræði er hvort eð er. Þýðir lýðræði kannski það að við veljum manneskju til að kaupa handa okkur pizzu og svo höfum við ekkert með það að segja þegar hún kemur með gráðostapizzu með skinku, sveppum og humar? Það erum við sem völdum manneskjuna til að kaupa pizzuna, við gáfum frá okkur valdið til að hafa eitthvað um það að segja hvað verður á pizzunni okkar - og við megum bara þakka fyrir að við fáum pizzu yfir höfuð, en ekki súrt slátur. Sá sem við völdum, hann ræður... öllu!

Um hvað var ég aftur að tala? Ó já, gleymni.

Ef engin væri gleymnin væri alltof mikið af þekkingu til staðar í heiminum. Við lesum svo mikið, hlustum svo mikið á fréttir, og fylgjumst svo vel með því sem er að gerast í heiminum, og sérstaklega náunganum, að við höfum ekki tíma til að halda okkur við eitthvað eldgamalt mál sem gerðist fyrir þremur vikum, hvað þá tveimur mánuðum. Við lifum í alltof hröðu þjóðfélagi til að staðna í sama málinu. Það er óþarfi að teygja hugann margar vikur aftur í tímann þegar enginn tapaði aleigunni, enginn var meiddur og enginn drepinn. Við sjáum það bara á fréttum að okkar spillingarmál eru samasem ekki neitt miðað við það sem gerist úti í hinum stóra heimi. Þó að Reykjavíkurborg verður endurnefnd sem Litla-Ítalía, hverjum er ekki sama?

Svo er það spurningin. Er okkur kannski sama? Og er kannski allt í lagi að vera sama? Viljum við ekki bara fá eitthvað til að kjafta um af því að íslenski veturinn er svo leiðinlegur? Kvörtum við kannski bara af því að allir hinir gera það?

Festist ekkert í þjóðarsálinni nema harður dómur verði gerður, að ákvörðun verður tekin, að einhverjum verður refsað, að einhver fái að hirða pokann sinn? Ef ráðamenn gera hluti sem eru siðlausir en löglegir, skiptir það engu máli þar sem við erum svo fljót að gleyma?

Ég þekki fólk sem man ekki söguþráð kvikmyndar daginn eftir að það horfði á hana, og jafnvel ekki að það hafi verið að horfa á viðkomandi kvikmynd, og þrætir jafnvel fyrir það. Fer þannig fyrir verkum sem framkvæmd eru af siðleysi en án þess að vera kærð og dæmd? Að þau gleymist því við nennum ekki að eyða tíma í þau?

Er það siðferðileg skylda almennings að kæra slík mál til dómsstóla, til að þau gleymist ekki og að hugsað verði meira um þau og sams konar framkvæmdir í framtíðinni? Hver leggur línurnar um hvað má og hvað ekki má?

Skiptir kannski siðferði engu máli lengur? Hafa lögin tekið við siðferðisvitundinni?

Af hverju munum við það sem við munum og gleymum því sem við gleymum?


Bloggfærslur 31. janúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband