Spaugstofan og siðferðisþroski

bilde?Site=XZ&Date=20080128&Category=LIFID01&ArtNo=80128078&Ref=AR&NoBorder

Eftir að Spaugstofumenn birtust með háði og spotti á laugardagskvöldið hafa fjölmargir þyrlað ryki yfir almenning og í augu hans með því að átelja grínarana fyrir lágkúrulega árás á Ólaf borgarstjóra og geðsjúka, en gleymt því að ráðamenn hafa sýnt þegnum sínum enn verri lítilsvirðingu, og það í verki. Stutt er að minnast á dómararáðningamálið, þar sem farið var eftir lögum en gegn anda laganna, þar sem sitjandi dómsmálaráðherra sýndi því miður lágan siðferðisþroska með slökum rökstuðningi fyrir ákvörðun sem var byggð á duttlungum og pólitík.

Enn styttra er að minnast á yfirtöku sjálfstæðismanna á borginni með Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og Ólaf flokklausa en þar nýtti fólk rétt sinn til friðsamlegra mótmæla með því að mótmæla fjandsamlegri yfirtöku á sjálfri Reykjavíkurborg, en áður hafði Vilhjálmur hrökklast frá völdum eftir eigin mistök og sýnt að hann valdi ekki starfinu. Þá var reynt að þyrla ryki í augu almennings og yfir hann með að gagnrýna fólkið sem mætti á palla til að mótmæla harkalega því óréttlæti sem það hefur upplifað síðustu daga. Það er þeirra réttur, og geta ekki kallast óspektir þar sem enginn  framdi eða hótaði ofbeldisverkum.

Að mínu mati er öll gagnrýni á siðgæðisvitund Spaugstofumanna marklaus, þar sem Spaugstofumenn hafa engin völd í þjóðfélaginu önnur en að kitla hláturtaugar okkar þegar vel tekst til, hið svokallaða fimmta vald. Við vitum vel að það er engin nauðsyn að taka þá alvarlega og að hver og hvað sem er getur orðið að skotmarki þeirra. Það að geðsjúkdómar séu orðið eitthvað tabú í dag réttlætir enn frekar að Spaugstofumenn taki slíka sjúkdóma fyrir, enda eiga geðsjúkdómar ekki að vera neitt tabú - menn eiga ekki að þurfa að skammast sín fyrir þá.

Ef Spaugstofumenn halda nú rétt á spöðunum ættu þeir að geta gert úr þessu klassískt efni, því að nú mun öll þjóðin fylgjast með þeim á næsta laugardegi, og þora þeir vonandi að ganga jafnlangt og Monty Python gerði forðum daga á BBC, og í stað þess að draga sig til baka og biðjast afsökunar, hæðast að landanum með meiri krafti en nokkru sinni fyrr.

Svo get ég ekki annað hrósað gömlum skólafélaga úr Breiðholtinu Erlendi Eiríkssyni, sem túlkaði Ólaf snilldarlega í þessum þætti.


Bloggfærslur 29. janúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband