Hvernig vitum við hvað er draumur og hvað er veruleiki?
7.8.2007 | 22:54
Gerðar hafa verið kvikmyndir sem fjalla um hversu erfitt getur verið að átta sig á veruleikanum. Meðal bestu myndanna sem fjalla um þetta eru stórsnilldin Waking Life, Abre los Ojos, Memento, Brasil, The Matrix og Dark City. Þessar hugmyndir eru alls ekki nýjar. Descartes velti fyrir sér á 17. öld hvernig maður gæti nokkurn tíma þekkt muninn á veruleika og draumi, og benti á hversu vonlaust er að treysta eingöngu á skynjanir til að sjá það sanna. Hellislíking Platós bar einnig keim af þessari hugmynd, þar sem heil þjóð fanga situr hlekkjuð við vegg og telur skugga sem varpað er á vegg fyrir framan þá frá varðeldi vera veruleikann; ekki ólíkt þeim sem telja sig öðlast sanna þekkingu úr sjónvarpi eða af Internetinu. Einn fanginn sem fór út í sólarljósið áttar sig á að svo er ekki.
Spurningin er, hvernig vitum við hvað er draumur og hvað er veruleiki? Og hverjum er ekki sama?
Hefur þig einhvern tíma dreymt draum sem þú trúðir að væri veruleiki, en aðeins þegar þú vaknaðir, áttaðirðu þig á að einungis um draum var að ræða? Hvernig veistu fyrir víst að þessi draumur var aðeins draumur; og ef þetta var aðeins draumur, hvað þýðir það fyrir þig í raun og veru? Getur verið að draumar þínir segi eitthvað um merkingu veruleikans sem þú lifir í, þó að veruleikinn segi fátt um drauma?
Þarna sést strax að draumar eru kannski ekkert 'bara'. Það er hugsanlega eitthvað meira spunnið í þá.
Hvernig svo sem veruleikinn og draumar spinnast saman, þá vitum við að veruleikinn er eitthvað áþreifanlegt. Við vitum það einfaldlega vegna þess að við getum ekki efast um eigin tilvist og þarmeð um tilvist veruleikans. En hvaðan fáum við upplýsingar um veruleikann? Við skynjum hann, höfum tilfinningu fyrir honum og metum hann. En hvernig vitum við hvort að þessar upplýsingar séu sannar? Hvenær er skilningur okkar á veruleikanum trú og hvenær er hann þekking?
Ef einungis er farið eftir skynjun, tilfinningu og gildismati; þá er ljóst að við finnum eitthvað sem lítur út fyrir að vera sannleikur, hljómar eins og sannleikur, lyktar eins og sannleikur, bragðast eins og sannleikur, er viðkomu eins og sannleikur, og okkur finnst vera sannleikur og við viljum að sé sannleikur vegna þess að það væri gott; og þessi trú verður svo rótföst að ekkert mun fá henni haggað; ekki einu sinni sannleikurinn sjálfur.
Það er samt ljóst að við þurfum ekki að hafna þessum skynjunum, tilfinningum og gildum til að komast að því hvað er satt og rétt; og finna mynd af stærri sannleik. Það sem við þurfum að beita er gagnrýnin hugsun; ferli sem getur hjálpað okkur að melta okkar fyrri skilning og ná enn dýpri þekkingu á því sem er og því sem ekki er.
Veruleikinn er ekki bara það sem kemur fram í fréttaþáttum og gerist í heiminum, og ekki bara sögur sem við heyrum af öðru fólki. Veruleikinn er líka allt það sem við sjálf upplifum, trúum og heyrum; segjum og vitum; og jafnvel það sem okkur dreymir. Getur verið að draumar séu ein af mörgum uppsprettum upplýsinga um veruleikann?
Það er fólk sem telur svona pælingar einskis virði; að þær flæki bara málin, að við vitum hvað skiptir máli án þess að þurfa nauðsynlega að flækja það með einhverjum pælingum. Svo er líka til fólk sem telur svona pælingar ekki bara einhvers, heldur mikils virði; að þær gagnist við að ná tökum á eigin skilningi á veruleikanum og jafnvel tilgangi okkar hér á jörð. Hvað um þig?
Ef þú trúir að tilgangur okkar sé enginn, segðu mér þá hvað þetta ekkert er. Ef þú trúir að tilgangurinn sé tengdur því hvað við gerum, segðu mér þá hvað þarf að gera til að ná þessum tilgangi. Ef þú trúir að tilgangurinn sé tengdur því hlutverki sem við gegnum, segðu mér þá hvert hlutverk þitt er. Ef þú trúir að tilgangurinn sé einfaldlega sá að vera maður sjálfur, segðu mér þá hver þú ert.
Er það rétt að gagnrýnin hugsun geti hjálpað okkur að komast framhjá sýndinni og að veruleikanum sjálfum? Ég trúi því. En sjálfsagt þyrfti ég þá að útskýra hvað ég tel gagnrýna hugsun vera og hvað ég tel hana ekki vera.
Meira um gagnrýna hugsun síðar...
Myndir: Úr Waking Life
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)