Tékkland: HM í Pardubice # 2 - sigur, einbeiting og ásakanir

Dagur 3:

Á myndinni, frá vinstri: Guðmundur Kristinn Lee, Páll Andrason, Patrekur Maron Magnússon, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Birkir Karl Sigurðsson stendur og fylgist með. 

Dagurinn í dag var viðburðarríkur fyrir börnin. Í gærkvöldið og í morgun píndi ég þau til að fara yfir allar skákirnar sínar í hóp; sem var mjög lærdómsríkt, þó að sumum hafi þótt það heldur leiðinlegt til lengdar. En svona er þetta, árangur er einungis á undan erfiði í orðabókum.

Andstæðingarnir voru skóli frá Suður-Afríku (U-14). Þetta var æsispennandi umferð, því að ég sá ekki betur en að við vorum með tapað bæði á 3. og 4. borði; en þeim Páli Andrasyni og Guðmundi Kristni Lee tókst samt báðum að snúa á andstæðingana eftir erfiðar stöður. Patrekur var lengi með mun betra á 2. borði en lék ónákvæmum leik í um 30. leik, sem þýddi að hann tapaði peði og var nánast kominn með tapað. Honum tókst þó að koma upp þráskáksstöðu, en andstæðingur hans vildi alls ekki þráskák og lék þess í stað af sér heilum hrók; og eftir það var eftirleikurinn auðveldur fyrir Patta. Jóhanna misreiknaði sig aðeins í byrjuninni og átti mjög erfitt uppdráttar mest alla skákina. Það kom upp staða þar sem hún hélt sig vera að tapa manni, en átti mjög fallegan leik sem gat bjargað stöðinni algjörlega. Henni yfirsást því miður þessi leikur og tapaði skákinni. Krakkarnir eru að standa sig vel, halda hópinn og hafa gaman af hverju öðru. Þeim finnst erfitt hvað ég píni þau mikið í stúderingar, en inn á milli hleypi ég þeim þó í knattspyrnu og verslanir.

Á morgun keppa þau tvær umferðir. Ég legg mikið upp úr því að þau njóti skákanna og hafi gaman af, og læt þau vita að mín vegna skiptir ekki máli hvort þau vinni eða tapi skákum. Þau eru búin að vinna sér inn ferð á heimsmeistaramót, og hvatningin kemur þaðan sem hún verður að koma til að ná árangri, innanfrá. 

Eitt af foreldrum andstæðinga okkar taldi sig sjá okkur svindla í dag, þar sem að krakkarnir stóðu stundum upp frá skákum og spjölluðu saman. Þessi kona skapaði mikla ringulreið þegar hún krafðist þess af skákstjóranum að börnunum yrði refsað á einhvern hátt. Börnin hafa vanist því á Íslandi að hægt er að standa upp frá skákum, fara fram og spjalla aðeins saman um annað en skák; en allt spjall er harðbannað hérna, a.m.k. á meðan skákir standa yfir; og mér sem liðstjóra var einnig harðbannað að tala við þau á meðan skákirnar stæðu yfir. Þetta vakti mikla umræðu hjá börnunum og eru þau staðráðin í því að tala ekki oftar saman á meðan skákir þeirra eru í gangi. 

Það var mikill kliður í skáksalnum og jafnvel töluvert um það að fólk talaði saman háum rómi örfáum metrum frá keppendum. Sumir eiga auðveldara en aðrir með að aðlagast slíkum aðstæðum. Skipuleggjendur mótsins eru engan veginn að standa sig í að gera aðstæður boðlega keppendum á alþjóðlegu skákmóti, þar sem nauðsynlegt er að ró og friður ríki til að menn geti haldið einbeitingu sinni. Því finnst mér það hreint afrek hjá börnunum að ná þessum góða sigri, þrátt fyrir óvenju mikið áreiti á skákstað.

Sendum sérstakar þakkarkveðjur til Hafrúnar Kristjánsdóttur sem hitti hópinn fyrir ferðina og kenndi okkur leiðir til að bæta einbeitingu og keppnisskap.  Sá fyrirlestur var mjög gagnlegur og ljóst að börnin eru að tileinka sér leiðbeiningar hennar í verki. 


Tékkland: HM í Pardubice # 1

Dagur 1:

Hópurinn fríði lagði af stað kl. 4:30. Flug til Kaupmannahafnar kl. 7:00 og til Prag kl. 14, og svo rúta til Pardubice kl. 17:00.

Ferðin var tíðindalaus að mestu, sem er gott fyrir svona ferðir. Börnin borðuðu góðan kvöldmat og ættu að vera sæmilega stillt fyrir 1. umferð heimsmeistaramóts barnaskólasveita sem hefst k. 15:30 á morgun.

Sveitin er þannig skipuð:

  1. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir
  2. Patrekur Maron Magnússon
  3. Páll Snædal Andrason
  4. Guðmundur Kristinn Lee
  5. Birkir Karl Sigurðsson

Dagur 2:  

Allir eru orðnir vel þreyttir núna kl. 20:00. Kominn tími til að fara í háttinn.

Þegar á skákstað var komið daginn eftir hafði umgjörð mótsins verið breytt. U-14 og U-16 eru að keppa í sama hollli, og umferðum hefur verið fjölgað úr 7 í 9. Við erum U-14 og lentum á móti U-16 sveit frá Prag í fyrstu umferð. Ég er ekki viss um að þeir hafi verið neitt sterkari skákmenn en okkar krakkar, sem tefldu ekki alveg eins og þau eiga að sér, nema þá kannski Patti á 2. borði, en hann var sá eini sem náði jafntefli. Þannig að 1. umferð töpuðum við 3.5-0.5.

Það skiptir ekki máli hversu stórt er sigrað eða tapað, því að liðið fær aðeins stig fyrir sigur eða jafntefli. Það eru tvö stig í pottinum. 2 stig fyrir sigur og 1 fyrir jafntefli.

Semsagt Ísland U-14 gegn Tékklandi U-16: 0-1 

Krakkarnir kvörtuðu svolítið yfir látum á skákstað, en keppt er í stórri skautahöll, ófrystri, og var mikið af fólki inni í höllinni sem var ekki að tefla og hugsaði ekkert um mikilvægi þagnar fyrir skákina. Margoft heyrði maður háværar gemsahringingar og ekkert gert við því. Ég talaði við skipuleggjendur um þetta, en þeir sögðust ekkert geta gert við þessu, en að þetta myndi skána því að fleira fólk sem ber virðingu fyrir skák verður í salnum næstu daga, því fjöldi skákmóta mun fara fram þar. 

Það á eftir að reyna á þetta. Þetta pirrar mig ekki persónulega, því að ég er vanur miklum klið í skákmótum á Mexíkó; en skil vel að þetta trufli börnin. Þau þurfa bara að læra mikilvægi þess að láta ekki ytri aðstæður trufla sig.

Við fórum yfir þrjár af skákunum í gærkvöldi, og börnin lærðu mikið af þeim rannsóknum. Ljóst að þau voru ekki að átta sig á mikilvægi þess að taka vald á hálfopnum og opnum línum. Einnig var svolítið um að drottningar færu á flakk í byrjuninni og farið í sókn áður en byrjuninn var lokið, nokkuð sem kemur varla fyrir á æfingum hjá okkur. En þessu er auðvelt að kippa í lag og mikilvægast af öllu að börnin bæði hafi gaman af og læri á reynslunni.

Næsta umferð er í dag kl. 15:00.

Heimasíða heimsmeistaramóts barnaskóla í skák 2007

 


Bloggfærslur 13. júlí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband