Rocky Balboa (2006) ***1/2
1.7.2007 | 19:16
Rocky (Sylvester Stallone) lifir í fortíðinni. Eiginkona hans Adrian er látin, syni hans finnst vandræðalegt að vera sonur hans, og hann lifir fyrir að segja fólki sögur af bardögum sínum á veitingastaðnum Adrian's, sem hann rekur sjálfur.
Hann syrgir eiginkonu sína djúpt og hefur byrgt inni mikla reiði og vonbrigði gagnvart tilverunni sjálfri, sem hann kann einfaldlega ekki að losa um á annan hátt en með hnefaleikum. Þegar tölvugert líkan af bardaga milli Rocky og núverandi heimsmethafa, Mason Dixon (Antonio Tarver) sýnir Rocky rúlla yfir kappann, fá umbjóðendur heimsmeistarans þá hugmynd að bjóða Rocky til keppni um heimsmeistaratitilinn. Hann grípur tækifærið og í leiðinni lappar hann upp á samband sitt við son sinn, besta vin sinn Pauly (Burt Young); um leið og hann finnur leið til að koma skrýmslinu út úr kjallaranum sem býr innra með honum.
Við taka miklar æfingar í Philadelphia, þar sem Rocky tekur meðal annars tröppurnar frægu. En það sem telur allra mest er það hvernig lífssýn Rocky hefur áhrif á fólkið í kringum hann. Hann minnir son sinn á að vera hann sjálfur, hann sýnir Pauly hversu góður vinur hann er í raun; og á allan hátt sýnir Rocky í verki að hann er ekki bara einhver meðalgaur í hversdagslífinu; hann er hálfgerður Ghandi.
Hins vegar umbreytist Ghandi þegar Rocky mætir í hringinn og tekst á við heimsmeistarann sjálfan, sem veit að þetta verður leikur einn fyrir hann. En Rocky er vanur að vera vanmetinn og er mættur til að vinna. Ljóst að bardaginn verður eftirminnilegur.
Stallone skrifaði handritið, leikstýrði og lék aðalhlutverkið í Rocky Balboa, og tekst snilldarlega vel til. Sérstaklega er handritið vel skrifað, með eftirminnilegum ræðum og samtölum. Málið er að allt hversdagslífið er hann að boxa í aðstæðum sem eru á móti honum, en hann tekur endalaust við höggunum þar til aðstæðurnar verða þreyttar; og þá snýr hann vörn í sókn og gefur ekkert eftir fyrr en bjallan slær. Þannig sigrar hann.
Rocky Balboa er Sylvester Stallone, og Sylvester Stallone er Rocky. Leikferill Stallone hefur verið á hraðri niðurleið undanfarin tíu ár, en hann ákveður að taka málin í sínar hendur, og lyftir grettistaki við gerð þessarar stórgóðu myndar. Það voru allir búnir að afskrá Stallone nema Stallone sjálfur, rétt eins og allir eru í myndinni búnir að afskrá Rocky nema Rocky sjálfur. Stallone leikur þann snilldarleik að í stað þess að rembast við að gera bardagann töff, og lagfæra útlit Rocky með tölvugrafík, sýnir hann manninn í öllu sínu veldi; með hrukkum, örum og grettum. Leikararnir sem bæst hafa í hópinn sýna allir mjög góða takta - persónur þeirra eru trúverðugar og skipta miklu máli fyrir ferlið sem Rocky karlinn þarf að fara í gegn um til að sætta sig við lífið og tilveruna.
Hér fyrir neðan er myndband sem sýnir kjarna myndarinnar í samtali Rocky við son sinn, Robert Jr. (Milo Ventimiglia úr Heroes). Mæli eindregið með þessari. Hún er jafngóð fyrstu myndinni og mun betri en Rocky 2-5, þó að vissulega séu þær nokkrar ansi skemmtilegar. Rocky Balboa er meira drama en sportmynd, en dramað er afar gott og sportið er líka ágætlega útfært.