Um forsjárhyggju: Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni.

 

Vegurinn til heljar er lagður af góðri forsjá

Samuel Johnson, (1709-1784)

Forsjárhyggja er þegar valdhafi ákveður að setja reglur eða lög til að hafa vit fyrir fólki; og er hugtakið þá sérstaklega notað þegar gagnrýnendum þykir valdhafar vera að skipta sér af einhverju sem kemur þeim ekki við. Forsjárhyggja er eitt af tískuorðunum í dag. Þeir sem vilja setja öðrum reglur þykja vera forsjárhyggjufólk. 

Dæmi um forsjárhyggju: að skylda alla ökumenn til að vera í bílbeltum, annars gæti lögreglan sektað þá. Annað dæmi: að skylda alla eigendur veitingahúsa til að halda staðnum reyklausum, annars verði þeir sektaðir af lögreglu. Þarna er verið að hafa vit fyrir fólki. Er það rangt, svo framarlega sem að það stuðlar að góðri hegðun?

Þegar reglur eru settar um hvernig fólk skal hegða sér í daglegum samskiptum, vaknar spurning um hvort að verið sé að troða á persónufrelsi viðkomandi, eða verið að búa til betri heim. Býr maður til betri heim með því að troða hegðunarmynstri upp á annað fólk? Fólk lærir að fara eftir hegðuninni þegar það telur einhvern fylgjast með þeim, en þegar enginn fylgist með, getur verið að þörfin fyrir að breyta rétt hverfi?

Helsta hættan við að móta hegðun fólks utanfrá, en ekki með því að hvetja fólk til gagnrýnnar, yfirvegaðrar og vandaðrar hugsunar er einmitt þessi: fólk fer að treysta á yfirvaldið til að segja sér hvað það á að gera og hlýðir því hugsunarlaust nema þegar yfirvaldið er ekki lengur sjáanlegt.

Málið er að þegar okkur finnst hugmyndirnar um lög og reglur koma frá okkur sjálfum, og þegar okkur finnst þær sjálfsagður hlutur; þá förum við eftir þeim. Snilldin við reykingabannið og bílbeltin, er að það eru góð rök á bakvið hvort tveggja og þessi rök eru rædd og útskýrð af ráðamönnum. Þegar þannig er staðið að málum getur forsjárhyggja verið góð.

Ef aftur á móti yfirvaldið vill setja lög og reglur sem fólki finnst óeðlilegar, og málin hvorki rædd málefnalega né útskýrð, þá er hætta á því að lög, boð og reglur taki gildi í óþökk þjóðarinnar; og sama hversu góð fyrirætlunin er, ef ekki er hugsað opinberlega um lögin á gagnrýninn máta, þá verða þau í fyrsta lagi óvinsæl og í öðru lagi ólíklegt að fólk vilji fara eftir þeim.   

Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. 

Segjum að íslenska ríkið gerði þessa setningu að lögum, útskýrði hana ekki og kæmi jafnvel í veg fyrir opinbera umræðu um hana, - þeir sem reyndu að mótmæla væri stungið í steininn eða jafnvel teknir af lífi. Slíkt væri forsjárhyggja.

Þegar þú færð ekki að segja þína skoðun opinberlega um mál sem þér þykir mikilvæg og ert hindraður frá því af yfirvöldum, þá er um forsjárhyggju af verstu gerð að ræða. Þegar yfirvaldið setur reglur án þess að hlusta á þegnana, þá er líka um forsjárhyggju af verstu gerð að ræða. Ritskoðun á fjölmiðlum, bókum, bíómyndum, bloggum, vefnum og öðru tjáðu máli er forsjárhyggja sem er í þversögn við sjálfa sig. Ástæðan er einföld: gefirðu rós án umhyggju er gjöfin ekki góð, sama hversu vel rósin getur ilmað.

Blind hlíðni er dæmi um þegar fólk trúir um of á góða forsjá yfirvalda. Nasistar trúðu á Hitler, víkingar trúðu á Óðinn, kristnir trúa sumir á kirkjuna eða Biblíuna sem leiðsögn að Guði og trú nútímamannsins virðist snúast um veraldleg gæði. 

Nokkrar spurningar:

Getur verið að trú í blindni sé ill í sjálfri sér?

Eru góðverk sprottin af forsjá, hegðun eða vilja?

Geta ætlun eða verk sem slík verið góð í sjálfum sér?

Er til dæmi um hegðun sem er alltaf góð, alls staðar?

Hvort er eðlilegra fyrir manneskju sem þekkir hið góða, að gera illverk eða góðverk?

Þeir sem vilja vel, og þekkja það góða, hafa þeir ekkert val?

Hvernig vitum við að þeir sem vilja hafa vit fyrir okkur, hafi í raun og veru vit á því sem þeir þykjast vita?


Bloggfærslur 4. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband