Um öfund: "Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það sem náungi þinn á."

Eða:

Þú skalt ekki girnast einbýlishús annarra Íslendinga. Þú skalt ekki girnast konur sem eru í sambandi með öðrum, ekki i-podinn eða DVD græjurnar, né jeppa hans eða tjaldvagn, né nokkuð það sem gaurinn á."

kirkjaÉg hætti að ástunda kirkju eftir að ég byrjaði að hlusta almennilega á það sem predikari nokkur sagði í Kópavogskirkju fyrir um 15 árum síðan. Sífellt minntist hann á hversu syndugt fólk væri, og að allir væru syndugir - svo stóð fólk á fætur og þuldi syndajátninguna, en mér leið einfaldlega illa, því að ég gat engan veginn samþykkt þetta, og ef ég hefði flutt syndajátninguna fannst mér að ég væri þá að ljúga að sjálfum mér, en ég tel það rangt að ljúga að sjálfum sér, því að ég hafði sett mér að breyta rétt; og synd í mínum huga væri röng breytni. Hvaða vald hefur predikari í púlti til að segja mér að ég hafi breytt rangt, eða syndgað, þegar það var alls ekki satt?

Ein af dauðasyndunum sjö er öfund. Öfund innifelur í sér girnd á eigum eða samböndum annarra. Þegar einn öfundar annan er um algjörlega huglægt fyrirbæri að ræða. Það er mannlegt að girnast það sem maður má ekki fá. Er hægt að stjórna því á annan hátt en að gerast dýrlingur? Er venjulegt fólk sem sér i-pod nágranna síns og hugsar með sér: "My precioussss... my darling precioussss... i-pod," er þetta, eða Gollum í Lord of the Rings, einfaldlega syndugt vegna þess að það girnist viðkomandi hluts sem er í eigu annars? Eða verður girndin aðeins að synd þegar viðkomandi framkvæmir áætluin sem stefnir að því að hluturinn eða sambandið skipti um eigendur?

Er hægt að stjórna eigin öfund? Er það hægt án þess að afstilla lísspekina alla, að forgangsraða gildismatinu á annan en efnislegan máta? Auðvelt er að öfunda fólk fyrir hluti sem það á, eða aðstæður sem það lifir við; en getum við öfundað annað fólk fyrir önnur gildi? Til dæmis kann ég ósköp vel að meta það að ég er ég sjálfur og ekki einhver annar. Gæti ég einhvern tímann öfundað einhvern annan fyrir það eitt að vera ekki ég?  Ég held ekki.

Ég velti fyrir mér hvort að öfund feli í sér einhverja breytni, en tilfinning mín er sú að hún geri það ekki. Ef þessi tilfinning mín fyrir merkingunni á öfundarhugtakinu er rétt, þá er boðorðið í fyrirsögninni ósanngjarnt gagnvart mannlegu eðli. Ég held að það sé hverjum manni eðlilegt að þrá  hluti og sambönd sem aðrir eiga, en að girnast nákvæmlega þann hlut og það samband sem viðkomandi á; það er synd.

Þrá er sterk löngun. Tilfinning mín fyrir hugtakinu segir mér að maður geti ekki þráð hluti eða skepnur; aðeins ímynd, breytni eða stöðu, en þessi tilfinning mín getur verið ónákvæm og öðrum fundist annað; þegar þrá verður aftur á móti gagnkvæm er komin forsenda fyrir ást. Ég get þráð það að ást mín verði endurgoldin, ég get þráð að verða heimsmeistari í skák.  Ef ég segist þrá aðra manneskju, eins og svo oft kemur fram í ljóðum "ég þrái þig", þá held ég að þráin tengist frekar athöfnum og stöðu, eða ímynd, heldur en manneskjunni sjálfri.

Girnd er sterk löngun, sem felur í sér ætlun. Sá sem ætlar sér eitthvað vill eitthvað. Þarna blandast inn spurningin um vilja. Vilji maður framkvæma illt verk, er maður þá sjálfvirkt syndugur; eða er það ekki fyrr en verk fylgja viljanum sem syndin spilar inn í dæmið?

Ég held að engin synd eða röng breytni séu sjálfvirkt innifalin í öfund, illum vilja, girnd eða þrá. Slíkt er bara eðlilegur þáttur í mannlegri tilveru. Aftur á móti getur einstaklingur valið um hvort að hann láti eftir þessum hvötum, eða haldi aftur af þeim. Þar liggur munurinn á góðu og illu.  


Bloggfærslur 2. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband