Um stjörnugjöf fyrir kvikmyndagagnrýni
9.4.2007 | 18:52
Stundum fæ ég athugasemdir um hvernig ég gef kvikmyndum einkunnir. Þessari færslu er ætlað að svara því.
Einkunnagjöfin er hugsuð þannig:
****
Mynd sem mér finnst frábær og uppfyllir fyllilega mínar væntingar, hvort sem um drama eða aðra tegun mynda er að ræða. Þær myndir sem fá **** vil ég eiga í DVD safninu mínu og geta horft á aftur og aftur. Vel heppnaðar ævintýramyndir geta fengið fjórar stjörnur, enda uppfylla þær mínar væntingar um frábærlega heppnaða ævintýramynd; þrátt fyrir að aðrar myndir geti almennt séð talist betri. Til dæmis finnst mér Alien vera frábær vísindahrollvekja og gæfi henni hiklaust fjórar stjörnur. Til samanburðar er Hamlet frá 1948 stórkostlegt drama sem ég myndi líka gefa fjórar stjörnur. Þetta eru bara gjörólíkar tegundir kvikmynda, en báðar eru þær framúrskarandi á sinn eigin hátt.
***1/2
Mjög góð mynd, fyrir utan einhverja smágalla - eins og lélegan leik, villur í söguþræði, lélega tónlist, slaka klippingu á stöku stað, o.s.frv. Þarna er um að ræða kvikmynd sem ég væri svo sem til í að sjá aftur, en ekki tilbúinn að kaupa. Til dæmis gaf ég Ghost Rider ***1/2, en það var aðallega vegna þess að mér þótti aðalleikonan frekar stíf og leiðinleg - hins vegar fannst mér fantasían, leikur Nicolas Cage og tæknibrellurnar svo frábærar að ég gat ekki annað en mælt sterklega með henni.
***
Mynd sem ég get mælt með, en er ekkert endilega eiguleg eða frábær. Hún gæti einfaldlega verið vel gerð formúlumynd sem segir samt eitthvað nýtt. Mig grunar að ansi margar vel heppnaðar rómantískar gamanmyndir gætu fengið þennan dóm hjá mér.
**1/2
Mæli með henni, en með fyrirvara. Þetta eru myndir sem ég myndi ekki nenna að horfa á aftur. Það er ólíklegt að ég birti gagnrýni með þessa einkunn eða lægri á blog.is, þó að af nógu sé að taka.
**
Meðalmynd sem ég mæli ekkert sérstaklega með.
Minna en **
Forðist þær.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 18:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Vínsmökkunarmyndin: Sideways (2004) ***1/2
9.4.2007 | 02:14
Sideways fjallar um tvo vini sem ferðast um vínekrur Kaliforníu til þess að smakka rauðvín, spila golf og hitta konur. Til að vera nákvæmari: Miles (Paul Giamatti) vill spila golf og smakka vín, en Jack (Thomas Haden Church) vill hitta konur og helst sofa hjá þeim öllum.
Vandamálið er að Jack, sem er fyrrverandi sjónvarpsstjarna, ætlar að kvænast næsta laugardag en hittir konu; og þau eru ekkert að tvínóna við hlutina.
Miles er hins vegar þunglyndur rithöfundur og enskukennari sem aldrei hefur fengið neitt birt eftir sig. Hann er fráskilinn og finnst hann ekki eiga nógu mikið inni til að segja vini sínum til syndanna. Samt finnst honum Jack stíga yfir línuna þegar hann heldur framhjá sinni tilvonandi, ekki bara einu sinni, heldur hvað eftir annað.
Sideways er fyrst og fremst lýsing á persónum. Sögufléttan er algjört aukaatriði. Allar aðalpersónurnar eru eftirminnilegar, þá sérstaklega Jack, nautnaseggurinn með gullhjartað. Þrátt fyrir að haga sér eins og svín, er ekki annað hægt en að hafa ákveðna samúð með honum; þar sem að hann þarf heldur betur að horfast í augu við gerðir sínar og flýja afleiðingar þeirra.
Sideways fjallar um mikilvægi þess að virða og njóta þess sem lífið og náttúran hefur upp á að bjóða, án þess að traðka á öðrum manneskjum í leiðinni. Vínsmökkun og golf er leiðin sem Miles hefur valið, en hann reynir stöðugt að kynna Jack fyrir leyndardómum rauðvíns - en talar fyrir daufum eyrum. Það er ekki fyrr en hann hittir Maya (Virginia Madsen) sem hefur álíka djúpa ánægju af vínsmökkun að hann finnur manneskju sem hann trúir að sé sálufélagi hans. Þau geta rætt saman um dásemdir vínsins og með samtölum sínum afhjúpað af alúð eigin dýpt og persónuleika.
Stóra vandamálið er það að Jack er farinn að sofa hjá bestu Stephanie (Sanda Oh), en hann fer að efast um eigin tilfinningar um tilvonandi brúðkop. Ennþá stærra vandamál er að Stephanie er besta vinkona Maya, sem er að móta djúpt samband með Miles. Miles veit sannleikann um Jack, og verður að gera upp við sig hvort hann muni láta Maya og Stephanie vita hann; því hann gerir sér fulla grein fyrir að ef hann leynir sannleikanum um slíkt mál, þá muni hann aldrei eiga von í raunverulegt samband með Maya.
Alexander Payne leikstýrir þessari mynd skemmtilega og er greinilega leikstjóri fyrir leikara fyrst og fremst; því þeir fá svo sannarlega að njóta sín. Einnig skýtur hann inn skondnu nektaratriði sem minnir á hina óhugnanlegu stund sem Jack Nickolson upplifði í heitum potti með Kathy Bates í About Schmidt, sem Payne leikstýrði líka.
Fín skemmtun með áhugaverðum leikhóp. Ég mæli með henni.