Loksins virkar þrívídd í bíó: Meet the Robinsons (2007) ***1/2
2.4.2007 | 17:54
Fjölmargar tilraunir hafa verið gerðar til að koma kvikmyndum í þrívídd. Hugmyndin er einföld. Í stað þess að vera meðvitaður um að maður sé að horfa á flatan skjá, er tilfinning um raunverulega fjarlægð endursköpuð; þannig að áhorfandi hafi á tilfinningu að sumir hlutir séu í seilingarfjarlægð en aðrir mjög langt í burtu. Þessi tækni hefur verið þróuð frá því um 1920, en gengið illa að vinna henni brautargengi.
Ég minnist þess þegar ég sá Jaws 3D í Laugarásbíó fyrir allmörgum árum. Þá fékk ég gleraugu úr pappa, annað augað var hulið með rauðum plastfilter, en hitt með bláum. Þetta gekk engan veginn upp. Gleraugun runnu til og ég man eftir að hafa bæði fengið hausverk af þessu og sá fátt merkilegt í þrívíddinni. Samt var ljóst að þessi tækni gæti gengið upp. Við vorum einfaldlega ekki komin nógu langt.
Teiknimyndaveri Disney hefur loks tekist það sem reynt hefur verið að gera frá 1922. Framleidd hefur verið teiknimynd, sérstaklega hugsuð frá upphafi til enda fyrir raunverulega þrívídd. Tæknin styður söguna, og öfugt. Og það sem meira er: þrívíddartæknin er að virka!
Við fengum Disney 3D gleraugu þegar við keyptum miðana. Þau líta út eins og dökk sólgleraugu, þannig að maður skammast sín ekkert fyrir að hafa þau á nefinu. Þau sitja þægilega, og það sem meira er - þau virka! Ég á ennþá bágt með að trúa því. Ég sá heila kvikmynd í bíó, í þrívídd! Hún var alltaf flott. Ég fékk ekki hausverk. Og ég hef upplifað bíó sem virkar betur en nokkuð sem ég hef áður þorað að vonast eftir. Trúðu mér.
Samt er tæknin ennþá í þróun. Ég var ekki sannfærður þegar hlutir áttu að skjótast hratt í átt að áhorfendum. Aftur á móti var gífurlega gaman að sjá hægfara hreyfingar í þrívídd sem léku sér að augnsviðinu öllu. Mér fannst sérstaklega vel heppnað hvernig tæknin var notuð til að skapa andrúmsloft. Til að mynd rigndi í nokkrum atriðum. Mér fannst ég vera staddur í rigningunni. Þegar bæði hljóð og mynd sannfæra mann um að maður sé umkringdur regni, er ekki hægt annað en að trúa því. Ég bíð spenntur eftir næsta skrefi með þessari tækni; þá er ég ekki að tala um úðakerfi.
Athugið að hægt er að sjá Meet the Robinsons í tvívídd, en hún er einungis sýnd með þessari nýju tækni í Kringlubíói.
Meet the Robinsons fjallar um Lewis, dreng sem skilinn er eftir af móður sinni á munaðarleysingjahæli. Hann er gríðarlega greindur og getur fundið upp tæki til að leysa nánast hvaða vandamál sem er. Eitt þeirra er vél sem getur flakkað með minningar einstaklinga um tíma og sýnt á skjá hvað gerðist á ákveðnum tímapunkti einhvern tíma í fortíðinni. Vandamálið sem hann vill leysa með þessu tæki er að hann langar til að rifja upp andlit móður sinnar sem hann sá aðeins þegar hann var ungabarn. Skemmdarvargur með kúluhatt, Michael Yagoobian, kemur úr framtíðinni með tímavél og ætlar sér að eyðileggja framtíðina með því að stela þessari vél.
Það er mikið af eftirminnilegum persónum í Meet the Robinsons, sem flestar leika stutt hlutverk. Íþróttaþjálfari sem tekur eftir öllu, pizzasendill sem minnir á ofurhetju, risaeðla með minnimáttarkennd og sjálft illmennið hann Michael, sem er greinileg eftirmynd Robbie Rotten úr Latabæ.
Strákur úr framtíðinni, Wilbur, eltir kallinn með kúluhattinn til nútíðarinnar og varar Lewis við. Lewis trúir honum að sjálfsögðu ekki fyrr en hann hefur fengið sönnun um að tímaflakk sé til, en þegar hann hefur fengið sönnunina er hann strandglópur í framtíðinni með ónýta tímavél. Þannig að nú þurfa þeir félagar að laga tímavélina og koma í veg fyrir að kallinn með kúluhattinn eyðileggi framtíðina.
Á leiðinni hittir Lewis Robinson fjölskylduna, sem er uppbyggð af stórfurðulegum einstaklingum, en öll hafa þau það viðhorf og sannfæringu að mistök séu af hinu góða vegna þess að hægt er að læra af þeim. Góður árangur í fyrstu tilraun er ekki jafn spennandi því að þá er málið bara dautt.
Megin ástæðan til að fara á þessa mynd, og þá í Kringlubíói, er þrívíddin. Sagan og teiknimyndin sem slík eru yfir meðallagi, en eru þó engin snilld. Tæknin er aftur á móti það sem selur Meet the Robinsons. Ég er viss um að börn muni dýrka þessa tæknilegu byltingu, og flestir fullorðnir verði svo yfirhrifnir að þeir finni barnið í sjálfum sér, að minnsta kosti stundarkorn.
Myndin er þó nógu góð til að fólk geti haft gaman af henni, hvort sem er í þrívídd eða ekki.
E.S. Það eru syngjandi froskar í þessari mynd. Hér er myndband frá YouTube sem sýnir fram á gagnsemi syngjandi froska: