Þessi blessaða heimspeki er alls staðar
27.2.2007 | 20:33
"Ég mæli með því að enginn skuli gefast upp á góðu verki. Við veljum öll ákveðna leið til að vera í þessum heimi. Sum okkar gera suma hluti vel, en aðra hræðilega illa. Við eyðum helmingi ævi okkar í að leita eftir öllu því RÉTTA - réttu menntuninni, rétta starfinu, réttu vinunum, rétta húsinu, og svo framvegis. Sannleikurinn er sá að það er ekkert rétt eða rangt; það er allt hugarástand. Þú getur verið hluti af nánast hverju einasta kerfi að eigin völ. Valið til að vera sá sem þú ert hvílir á þér og engum öðrum. Jafnvel þó að þú veljir að gera hluti sem þér líður ekki vel með, þá geturðu ekki haldið áfram að gera þá lengi. Að lokum missirðu áhugann; það er grundvöllur mannlegs eðlis. Þetta á við um allt sem við gerum í lífinu." Rahul Prabhakar (2006)
Ég las þetta úr ansi skemmtilega grein í gær á bloggi indverska tæknihöfundsins Rahul Prabhakar sem starfar hjá Samsung samsteypunni í Kóreu. Greinin þótti mér öll áhugaverð, en svo þegar hann fer út í heimspekilegar pælingar í lok greinarinnar, spenntist ég allur upp og fór viðstöðulaust að pæla.
Þarnar eru nokkrar alhæfingar sem mig langar til að velta fyrir mér:
a) Við veljum öll ákveðna leið til að vera í þessum heimi.
b) Við eyðum helmingi ævi okkar í að leita eftir öllu því RÉTTA.
c) Sannleikurinn er sá að það er ekkert rétt eða rangt; það er allt hugarástand.
d) Það er grundvöllur mannlegs eðlis að missa áhugann á að gera það sem þér líður ekki vel með.
Það skemmtilega við alhæfingar er að það þarf ekki nema eina sanna fullyrðingu sem er í mótsögn við alhæfinguna til að sanna að hún sé röng.
a) Við veljum öll ákveðna leið til að vera í þessum heimi.
Þarna er höfundur ekki að halda því fram að við getum einhverju ráðið um það hvar við fæðumst eða við hvaða aðstæður, heldur að við getum valið okkar farveg í lífinu. Ég vildi óska að þetta væri sönn alhæfing, en ef hún er sönn þýðir það að þrældómur og nauðung sé ekki til. Ef hægt er að sýna fram á það að ein manneskja í heiminum hafi ekki þetta sjálfsagða val fyrir sjálfa sig; þá þýðir það að þessi fullyrðing sé ósönn, og ekki nóg með það, heldur að eitthvað mjög alvarlegt sé að í þessum heimi . Eitthvað sem þarf að laga. Reyndar er spurning hvort að fólk velji sína eigin leið þegar það lætur undan hópþrýstingi eða gerir hluti til þess eins að vera í uppreisn gegn yfirvaldi, eða þegar það hlíðir yfirvaldinu í einu og öllu. Þetta er í raun grundvallarspurning um frelsið. Hvað er það sem gerir okkur frjáls, annað en það að eiga kost á vali?
b) Við eyðum helmingi ævi okkar í að leita eftir öllu því RÉTTA.
Reyndar er sjálfsagt misjafnt hvort að fólk eyði helmingi, smáhluta eða allri ævinni í að leita eftir öllu því RÉTTA. Sumir gefast kannski fljótt upp, aðrir verða saddir þegar þeir hafa étið það sem að þeim er rétt, en svo eru það enn aðrir sem fá aldrei nóg, og svo að lokum sá hluti sem er ekki viss um hvort að það sem hann hafi sé það rétta, og er ennþá leitandi og gerir það hugsanlega alla sína ævi. Ég get auðveldlega sætt mig við þá hugmynd að ég sé að leita eftir því rétta í lífinu fyrir sjálfan mig og þá sem mér er annt um, en á samt erfiðara með að sjá fyrir mér hvort ég sé að leita eftir ÖLLU því rétta. Það þætti mér dæmi um töluvert miklar öfgar - að leita sér sífellt að rétta bílnum, húsinu, sundlauginni, veðrinu, og svo framvegis, - það er að segja svona efnislegum hlutum, en efnislegir hlutir eru þannig í eðli sínu að þeir breytast stöðugt. Þegar þú hefur loks náð þér í rétta efnislega hlutinn, þá eins og vax, umbreytist hann í eitthvað annað - en ekki með neinum innri breytingum endilega, heldur þeirri staðreynd að það er búið að búa til eitthvað nýtt og betra í staðinn. Aftur á móti er ýmislegt 'rétt' sem gott er að leita eftir, en ég er ekkert viss um að allir leiti eftir. Til dæmis efast ég um að forhertur bankaræningi leiti eftir því að gefa rétt til baka. Einnig efast ég um að knattspyrnumaður sem fær víti, sparki honum laust að markmanni andstæða liðsins af því að honum finnst það rétt, vegna þess að hitt liðið er búið að vera miklu betra í leiknum.
Aftur á móti trúi ég því að manneskjan hafi tilhneigingu til að sækjast í hið góða (ekkert endilega hið rétta) þegar það hefur fengið einhverja nasasjón af hvað þetta góða er.
Segjum að við séum í verslun og fáum vitlaust gefið til baka, í staðinn fyrir að fá kr. 500,- fáum við óvart kr. 5000,- Við vitum að það væri rétt af okkur að leiðrétta mistökin, en okkur gæti verið nákvæmlega sama og stungið seðlinum í vasann. Ef við vitum hins vegar að það sé gott, frekar en rétt að skila peningnum, þá erum við líklegri til þess að gera það, því að sá sem kannast við það sem gott er og skilur af hverju það er gott, leitast við að framfylgja því. Vonlaust sjálfsagt að sanna það, en ég held að þetta sé satt.c) Sannleikurinn er sá að það er ekkert rétt eða rangt; það er allt hugarástand.
Þarna hefur hann Rahul einfaldlega bent á það sama og ég var að benda á, en með miklu sterkara orðalagi. Er það virkilega satt að rétt og rangt séu ekki til, að þarna sé einungis um hugarástand að ræða? Segjum að það sé rigning úti. Við göngum út í rigninguna og regnið fellur á andlit okkar. Við opnum munninn og lokum augunum, leyfum dropunum að trítla á tungunni og njótum rigningarinnar. Ef einhver kæmi og segði mér að það væri ekki rigning, heldur væru þetta aðeins dropar úr garðslöngu nágrannans, væri þá staðhæfing hans annað hvort rétt eða röng, eða bara sönn eða ósönn? Ef staðhæfing 'einhvers' hljómaði svona: "Það er engin rigning. Það sem þú heldur að sé rigning eru bara dropar úr garðslöngu nágrannans," þá gætir þú dæmt um hvort að fullyrðingin sé sönn eða ósönn. Aftur á móti ef 'einhver' segði: "Það er rigning engin og garðslanga úr dropum nágrannans," þá myndir þú átta þig á að þessi setning getur hvorki verið sönn né ósönn, enda er hún bara bull þar sem að hún er vitlaust sett saman. Þannig verður setningin röng. Með þessu móti má segja að setningar geti verið réttar og rangar, og ef setningar eru eitthvað annað en hugarástand (sem má reyndar deila um), þá vitum við um eitthvað sem er ekki hugarástand og er samt annað hvort rétt eða rangt.
d) Það er grundvöllur mannlegs eðlis að missa áhugann á að gera það sem þér líður ekki vel með.
Þegar talað er um grundvöll mannlegs eðlis er átt við eitthvað sem á við um allar manneskjur. Er það satt að allar manneskjur missi áhugann á að gera það sem þeim líður ekki vel með að gera? Til dæmis ef ég væri að spila knattspyrnu af því að pabbi var svo góður knattspyrnumaður og dreymir um að sonur hans verði allt sem hann varð aldrei, þýðir það að ég verði aldrei góður knattspyrnumaður af því einfaldlega að mér líður ekkert sérlega vel á knattspyrnuvellinum og finn mig ekki í leiknum sem slíkum? Ef svarið er já við þessu (sem ég held að sé rétta svarið), get ég þá ekki spurt stærra og farið í skólana: Ef börnum eru kennd fög sem þeim líður ekki vel með, munu þau þá missa áhugann á þeim strax og skyldunámi lýkur, og jafnvel áður? Ef svarið er já við þessu, þá er nokkuð ljóst að við þurfum að finna strax eitthvað fyrir blessuð börnin að gera sem þeim líður vel með, öllum sem einu, og ef tekst að finna þetta að minnsta kosti eina fyrir hvert barn, þá muni því líða vel og áhugi vaxa og dafna með því verki sem það er að sinna. Og þegar við kíkjum á enn stærra samhengi, fagmenntun og störf fólks - þá á það sama við. Manneskjan verður ekki hamingjusöm fyrr en hún finnur eitthvað sem henni líður vel við stunda.
Þýðir þetta að við ættum kannski að beita aðferðum atvinnumarkaðarins á barnaskólana? Bjóða börnum vinnu, og gefa þeim svigrúm til að hugsanlega búa til ný störf sem að öðrum hefur ekki dottið í hug fyrr?
Svona spenntur getur maður orðið fyrir pælingum sem birtast á óvæntum stöðum. Þessi blessaða heimspeki er alls staðar. (Nú þarf glöggur lesandi aðeins að finna eitt dæmi um stað þar sem heimspekin er ekki, til að afsanna fyrirsögn greinarinnar.)
The Queen (2006) ***
27.2.2007 | 18:34
The Queen er engin snilldarmynd. Hún er ágætis afþreying sem fjallar um frægasta fólk Bretlandseyja, og reyndar snilldarvel leikin af Helen Mirren í hlutverki Elísabetar Bretadrottningar. Ekki má gleyma framúrskarandi leik Michael Sheen í hlutverki Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands.
The Queen er svolítið sérstök. Að hluta til er hún þjóðfélagsádeila, að hluta drama en kjarninn í henni er rómantísk gamanmynd, og ástarsambandið er á milli Elísabetar drottningar og Tony Blair forsætisráðherra.
Sagan gerist í kjölfar bílslyssins í París sem leiddi Díönu prinsessu til dauða og fjallar um viðbrögð drottningarinnar við dauða fyrrum tengdadóttur sinnar. Það er útilokað að segja til um hvort að sönn mynd birtist á skjánum, en hún er samt mjög sennileg.
Tony Blair, sem nýi forsætisráðherrann með hugsjónir um hallarbyltingu kemur óvænt drottningunni til hjálpar þegar hann verður var við að konungsfjölskyldan er að missa allt traust vegna samskiptaleysis þeirra við almenning. Hann gerir allt í sínu valdi til að leiða drottninguna í gegnum erfiðleikana og stendur sig býsna vel sem ráðgjafi hennar, á meðan að hún ætti í rún að vera ráðgjafi hans.
Myndin fjallar annars um lífsstíl drottningarinnar, um dýrkun hennar á náttúrunni og hennar viðhorfs til embættisins, að þetta sé skylda sem einhver verður að framfylgja og það vill bara til að það er í hennar hlutverki.
Það leikur enginn vafi á því að leikstjórinn sýnir bæði drottninguna og forsætisráðherrann í mjög svo mildu ljósi. Drottningin er þessi virðingarverða þögula típa sem vill gera allt rétt, burtséð frá því hvaða skoðun fólk hefur á gjörðum hennar, en Tony Blair er maðurinn sem stýrir skipinu, og gerir það af skynsemi og mannúð.
Ég verð bara að spyrja: Er þetta virkilega sami Tony Blair og hóf Íraksstríðið með Bush Bandaríkjaforseta? Er þetta virkilega sama drottning og talaði ísköld um dauða Díönu prinsessu? Er þessi kvikmynd auglýsing fyrir breska verkamannaflokkinn fyrir næstu kosningar?
Ég hefði ekki misst af miklu þó að ég hefði misst af þessari mynd.
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.
Kvikmyndir | Breytt 9.3.2007 kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)