The Departed (2006) ***
24.2.2007 | 22:57
Það er hrein tilvililjun að ég skuli leigja The Departed (2002) og Infernal Affairs (2002) á sama degi. Ég mundi ekki það sem ég hafði einhvern tíma heyrt, að The Departed væri endurgerð Infernal Affairs. En ég komst að því í dag og verð að segja að Infernal Affairs frá Hong Kong er mun betri kvikmynd en The Departed frá Hollywood.
Sagan er nákvæmlega sú sama. Handritið er nánast copy/paste dæmi, fyrir utan það að leikararnir búa til sínar eigin persónur úr efniviðnum og sagan glatar kjarnanum sem var svo sterkur í Hong Kong útgáfunni - að illmenni þjást meira eftir því sem þeir lifa lengur, og að dauðinn sé aðeins lausn fyrir þá undan þeirri þjáningu sem illska þeirra skapar bæði þeim og öðrum.
The Departed er fagmannlega gerð í flesta staði, en samt er ein alvarleg villa. Það er þegar Billy Costigan (Leonardo DiCaprio) veitir Colin Sullivan (Matt Damon) eftirför úr kvikmyndahúsi. Þegar Billy var inni í kvikmyndahúsinu fékk hann SMS skeyti á símann. Þá var titrari símans á. En þegar það hentaði handritinu, fimm mínútum síðar, fyrir utan kvikmyndahúsið, þá fékk hann aftur SMS skeyti, en þá var hringingin á og var stillt það hátt að Colin Sullivan varð var við eftirförina og náði að flýja. Slík mistök áttu sér ekki til í upprunalegu myndinni.
Talað er um að verðlauna Martin Scorcese með óskarsverðlaunum fyrir þessa mynd. Ég tel hann ekki eiga þau skilið. Hann hefur einfaldlega tekið formúlu úr frábærri mynd, berstrípað hana af merkingu og fært hana yfir til Boston borgar. Það finnst mér ekki mikil list. Aftur á móti, fyrir þá sem ekki hafa séð Infernal Affairs, er The Departed sjálfsagt ágætis skemmtun og jafnvel óvenju góð á Hollywood mælikvarða.
Leikur DiCaprio hefur verið mikið lofaður fyrir þessa mynd, en ég játa að mér þótti hann margfalt betri í Blood Diamonds.
Það er í rauninni ekkert þema í The Departed fyrir utan klisjuna að glæpir borgi sig ekki. Ekki merkilegur pappír, en vel gerður.
Ég mæli samt með henni sem góðri skemmtun, en hún er ekki sú snilld sem markaðsvélin í Hollywood vill láta þig trúa að hún sé.
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.
Little Miss Sunshine (2006) ***1/2
24.2.2007 | 18:58
Nú hlýtur þessu bráðum að ljúka. Hverjar eru líkurnar á því að maður horfi á þrjár myndir í röð og allar þeirra eru hörkugóðar? Little Miss Sunshine er einfaldlega stórskemmtilega gamanmynd um ástina á nánustu ættingjum, sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.
Olive (Abigail Breslin) er 7 ára gömul, og frekar þybbin stúlka sem dreymir um að verða fegurðardrottning. Hún vinnur sér sæti í fegurðarkeppninni Little Miss Sunshine í Kaliforníu, sem á að fara fram í öðru fylki eftir fá daga. Fjölskylda hennar ákveður að fylgja henni í keppnina, en hver og einn þeirra hefur mjög sérstakan persónuleika og fást við margvísleg persónuleg vandamál.
Afinn (Alan Arkin) er heróínfýkill sem hugsar um fátt annað en hvernig hann hefði getið lifað lífinu öðruvísi. Frændinn Frank (Steve Carell) er í umsjá fjölskyldunnar eftir að hafa reynt að fremja sjálfsvíg, en kærasti hans hafði farið frá honum fyrir mann sem þótti merkilegri en Frank á vitsmunalega stiginu. Bróðir hennar (Dwayne) hatar formlega alla og dreymir um að verða flugmaður, hann talar ekki vegna þess að Nietzsche minntist einhvern tíma á að það væri ekkert merkilegt ósagt í þessum heimi. Mamman (Toni Collette) er á barmi taugaáfalls, lýgur um smáatriði en þráir ekkert annað en hreinskilni frá öðrum. Og pabbinn er hugmyndasmiður að kerfi sem á að tryggja velgengni í lífinu, vandamálið er bara að honum hefur ekki tekist að selja það og er nánast gjaldþrota, - en hann er gífurlega upptekinn af því að vinna og finnast vera sigurvegari, en fyrirlítur allt sem tengist tapi og veikleika.
Þannig er þessi fjölskylda samansett sem fer saman í þessa ferð, og að sjálfsögðu tekst þeim að púsla sér saman á leiðinni og finna lausnir á þeim vandamálum sem hrjá þau, án þess jafnvel að átta sig á því sjálf.
Hæfileikakeppnin í lokin spilar aðeins á væntingar áhorfenda, en það er bara nokkuð sem að þú þarft að sjá með eigin augum. Hvort Olive vinni fegurðarsamkeppnina er ekki aðalmálið, heldur leiðin að keppninni og að taka þátt sem þú sjálf.
Í raun fjallar Little Miss Sunshine um það að þó að þú sért kannski ekki alveg eins og allir aðrir, þá er það allt í lagi, og ekki bara það: það er frábært og gott að þú skulir voga þér að vera þú sjálf eða sjálfur. Það er á endanum það sem fólk elskar við þig.
Stórskemmtileg mynd sem ætti að geta fengið flesta til að brosa, að minnsta kosti vel út í annað, ef ekki allan hringinn.
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 19:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Uppeldi, fræðsla og menntun
24.2.2007 | 16:20
Hafsteinn Karlsson skrifar frábæra grein í dag, Á skólinn að sinna uppeldi eða menntun? Mig langar nánast til að vísa í hverja einustu málsgrein sem hann skrifar, en það gengur víst ekki. Spurningin hvort að skóli eigi að vera fræðslustofnun, menntastofnun eða uppeldisstofnun, (eða allt þetta) og hvaða merkingu beri að leggja í þessi hugtök finnst mér gífurlega spennandi og ætla að gera tilraun til að ráða aðeins í þessi hugtök, og þá vonandi án þess að tapa sjóninni á veruleikanum.
Til þess að komast dýpra er kannski ágætt að byrja á einföldum spurningum. Ég mun ekki kíkja í aðrar heimildir, en svara þessum spurningum eftir mínu höfði. Síðan mun ég reyna að finna leiðir til að dýpka minn eigin skilning á hvað þessi hugtök þýða. Þó að ég hafi unnið sem kennari og heimspekingur í 14 ár, og hef nægan bakgrunn til að hafa sterka skoðun á þessu, geri ég mér grein fyrir að það er alltaf hægt að finna nýja vinkla á öllum hugtökum og hvað þau merkja fyrir okkur.
1) Hvað er menntun?
Menntun er áætlun og framkvæmd sem snýr að því að gera einstakling að meira manneskju, en ekki nauðsynlega að meiri manneskju. Menntunarhugtakið er að vissu marki regnhlífarhugtak yfir uppeldi og fræðslu.
2) Hvað er uppeldi?
Uppeldi snýst um að kenna einstaklingi á þau viðmið sem ríkja í viðkomandi samfélagi, útskýra hvers konar athafnir eru réttar eða rangar og ræða við viðkomandi ástæðurnar fyrir því. Kennarar tel ég að geti stjórnað samræðum um það sem er rétt og rangt, en foreldrar barnanna eru yfirvaldið sem verður að setja þeim reglurnar. Ástæðan er einföld: börnin fylgja frekar siðferðilegum ráðum foreldra sinna en kennara. Hlutverk kennara er að leiðbeina og upplýsa, og vera góð fyrirmynd sem sýnir í verki hvernig hegðun er ásættanleg; en valdsvið kennarans er einfaldlega takmarkað hérna.
3) Hvað er fræðsla?
Áður fyrr snerist fræðsla um það að auka hæfni í reikningi, skrift og lestri, leggja staðreyndir á munnið og kunna að koma þeim til skila á prófi. Ef kennarinn var mjög hæfur gat hann hjálpað börnum til að ná góðu valdi á námsaðferðum til að ná góðum árangri á prófum. Það sama á við um dag. Nema hvað að aðstæður hafa breyst. Internetið og farsímatæknin hafa gjörbreytt aðgangi okkar að ólíklegustu upplýsingum. Á einni mínútu er hægt að öðlast yfirborðskennda þekkingu um nánast hvað sem er með því að googla eða wikka viðkomandi hugtök. Og ef áhugi er fyrir hendi er hægt að kafa dýpra. Möguleikum til landafræðikennslu hefur til að mynda verið gjörbreytt með GoogleEarth. Stuðningur við stærðfræðikennslu er til að mynda mikill með notkun rasmus.is. Og þannig má lengi telja. Við búum í allt öðru umhverfi en áður - upplýsingamagnið er margfalt. Það sem við þurfum að kenna, eru ekki upplýsingarnar sjálfar, heldur hvernig hægt er að nálgast þær og vinna með þær á gagnlegan hátt, og einnig finna þeim stað í okkar heimi. Ég trúi því að heimspekileg samræða um allan þennan hrærigraut upplýsinga sem við höfum aðgang að geti hjálpað börnum við að finna skynsamlegar leiðir til að átta sig á þeim, skýra þau og leiðrétta, og jafnvel nýta.
Þegar litið er á heildarmyndina er mér ljóst að fræðsla, uppeldi og menntun er nokkuð sem að skólar þurfa að leggja áherslu á fyrir nemendur; en alls ekki má gleyma því að uppeldið er samt fyrst og fremst á höndum foreldra. Þannig séð er misskilningur að kalla skóla uppeldisstofnanir, þar sem að skólar gegna einungis stuðningshlutverki þar við heimilin, sem eru hinar raunverulegu uppeldisstofnanir. Menntun fyrir hvern einstakling er markmiðið sem að bæði heimili og skólar ættu að stefna að, að viðkomandi geti orðið meira manneskja, vaxið út frá eigin áhugamálum og getu - í stað þess að fylgja stöðluðum formúlum sem eiga betur við hluti en fólk, það er það sem menntun þarf að snúast um í dag.
Því miður eru háværar raddir sem sífellt krefjast þess að nemendur fái háar einkunnir og ef það gengur ekki eftir séu kennarar einfaldlega latir og lélegir. Spurningin er sú hvort að hlutverk kennara í dag sé að sjá nemendum fyrir háum einkunnum, eða hvort að hlutverk þeirra sé að mennta börnin.
Hvert sem maður fer heyrir maður talað illa um kennara, sagt að þeir vinni stuttan vinnudag, séu alltof lengi í sumarfrí, og séu alltaf að krefjast hærri launa og oft þarf ég að stappa í mig stálinu til að segja á mannamótum: "en ég er kennari", þó að ég starfi ekki lengur sem slíkur, en ég ákvað að skipta um starfsvettvang eftir kennaraverkfallið 2004. Sú dæmisaga sem hjálpar mér að muna það að standa við hlið annarra kennara er sagan um afneitun Péturs postula á Jesú þegar hann var spurður hvort að hann hafi ekki verið í hópi með honum. Hann afneitaði þrisvar til þess að vernda eigið skinn. Það vil ég ekki gera.
Að lokum smá hugarfæði úr verki John Dewey, Lýðræði og menntun (Democracy and Education), úr kaflanum Menntun sem þroski (Education as Growth): "Þróun, þegar hún er túlkuð með samanburðarhugtökum, það er að segja, með tillitil til sérstakra eiginleika barns og fullorðins, þýðir stýringu hæfileika í sérstakar rásir: mótun vana sem felur í sér hæfileika til að taka ákvarðanir, skýr áhugasvið, og ákveðin markmið eftirtektarsemi og hugsunar. En sjónarhorn samanburðarins er ekki endanlegt. Barnið hefur sérstaka hæfileika; það að hunsa þá staðreynd er að hamla eða afvegaleiða þau líffæri sem það þarfnast til að þroskast á eðlilegan hátt. Hinn fullorðni notar hæfileika sína til að breyta umhverfi sínu, og með því býr hann til nýjan hvata sem hann getur beint hæfileikum sínum að og haldið áfram að þróa þá. Það að hunsa þessa staðreynd er að handsama þróun, aðgerðarlaus ráðstöfun. Bæði eðlilegt barn og eðlilegur fullorðinn einstaklingur taka þátt í því að þroskast. Munurinn á þeim er ekki munurinn á milli þroska og ekki þroska, heldur á milli þroskahátta sem eru viðeigandi við ólíkar aðstæður. Með tilliti til þróunar hæfileika sem beint er að því að ná tökum á sérstökum vísindalegum og hagfræðilegum verkefnum, gætum við sagt að barnið sé að þroskast í fullorðinn einstakling. Með tilliti til viðkunnalegrar forvitni, fordómalausra viðbragða og opins hugarfars, gætum við sagt að hinn fullorðni ætti að þroskast í átt að hinu barnslega. Ein fullyrðingin er jafnsön hinni"
Infernal Affairs (Mou gaan dou) (2002) ****
24.2.2007 | 15:07
Infernal Affairs hefst á þessum orðum: "Hið versta af hinum átta vítum er kalla hið endalausa helvíti. Það merkir endalausar þjáningar."
Infernal Affairs er um hið eilífa stríðs milli hins góða og þess illa, þeirra réttlátu og þeirra ranglátu.
Unglingsstrákar eru fengnir í lið með mafíunni og lögreglunni. Verkefni þeirra geta verið ansi margslungin. Við fylgjumst með sögu tveggja ungra manna. Annar þeirra er glæpamaður sem fær það verkefni að ganga í lögregluskóla og uppljóstra um leyndarmál lögreglunnar; en annar er tekinn úr lögregluskólanum og fenginn til að njósna um glæpastarfsemina innanfrá.
Þannig ganga hutirnir fyrir sig í tíu ár. Báðir hafa unnið sig upp í öruggar stöður innan stofnunar óvinarins þegar uppgötvast að svikarar séu í báðum liðum.
Tony Leung sýnir leik í hæsta gæðaflokki og leikur mjög svo eftirminnilega og tragíska persónu. Aðrir standa sig einnig gífurlega vel.
Fyrirfram bjóst ég við að þetta væri mikil ofbeldismynd, rétt eins og Hard Boiled og The Killer, sem var það allra vinsælasta frá Hong Kong fyrir um áratug síðan, en kvikmyndalistin hefur greinilega þróast mikið þar í landi, þar sem að dramað og persónurnar eru algjörlega í aðalhlutverki, og umhverfið aðeins notað sem karakter til að skoða þær betur á áhugaverðan hátt.
Báðar aðalhetjurnar, eða aðalandhetjurnar, þurfa að takast á við sinn innri mann og finna andlegt jafnvægi í því helvíti sem það að lifa í lygavef hefur skapað þeim. Mörkin á milli þess góða og þess illa verða stundum frekar óljós, en á endanum verður hver að gera upp við sig hvað hann velur: að vera góður eða illur í þessu lífi.
Þetta val er kjarninn í sögu Infernal Affairs, sem lýkur með þessari vísun í Búdda: "Sá sem er í endalausu helvíti deyr aldrei. Langlífi er það erfiðasta við endalaust helvíti."
Frábær mynd sem óhætt er að mæla með.
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.
Kvikmyndir | Breytt 9.3.2007 kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mexíkó - Ísland: 1-0
24.2.2007 | 11:52
Í Mexíkóborg á nánast hver einasta fjölskylda hund sem gætir heimilisins. Í Reykjavík sjást hundar varla lengur. Maður getur ekki annað en hugsað til barnæskunnar í Breiðholtinu, þegar hundar voru meðal leikfélaga, - og þeir voru skemmtilegir leikfélagar - áður en bannað var að láta þá ganga lausa í borginni.
Ég held svei mér þá að Mexíkóar séu að þróast í rétta átt. Þeir viðhalda lífi dýranna og fólksins, og gera betur við þau; en við aftur á móti höfum nánast útrýmt þeim.
Væri tímabært að endurskoða reglur um hundahald?
![]() |
Hundar éta á veitingastað í Mexíkóborg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)