Það er mikilvægt að standa vörð um kristið siðferði, en án áróðurs, predikana og trúboðs
1.12.2007 | 13:23

Siðmennt og skynsamlegar forsendur borgaralegrar fermingar
Fyrir rúmum áratug kom ég að skipulagi Siðmenntar um borgaralega fermingu og hélt námskeið fyrir unglingana í siðfræði. Síðan flutti ég til Mexíkó og var þar í fjölda ára. Í fyrra heimsótti ég nokkra hópa sem voru í undirbúningsnámskeiði hjá mínum ágæta félaga, Jóhanni Björnssyni.
Þegar ég ræddi fyrst við Hope Knútsson, eina af frumkvöðlum siðmenntar og núverandi formann félagsins, um þessi mál, þá skildi ég hana þannig að hún hafði áhyggjur af því að börnum sem koma erlendis frá, og fylgi öðrum trúarbrögðum en lúterskri kristni skuli vera mismunað á trúarlegum grundvelli í íslensku þjóðfélagi. Til að mynda var mikið um það að börn fermdust meira vegna félagslegs þrýstings og löngun í gjafir og stóra veislu, heldur en til þess að meðtaka kristnina. Hvað um öll börnin sem ekki voru kristin að upplagi, eða jafnvel trúlaus, af hverju mættu þau ekki fá veislu líka eins og öll hin börnin?
Ákveðið var að stofna til borgaralegrar fermingar, þar sem börn með aðrar forsendur fengju tækifæri til að sækja námskeið í siðfræði og við útskrift færi fram borgaraleg fermingarathöfn, sem ætti meira skylt við manndómsvígslu en trúarlega athöfn. Það hefur nefnilega oft verið sagt við fermingar að nú sér börnin komin í fullorðinna manna tölu. Önnur börn en þau sem meðtaka kristna trú mega líka fá tækifæri til að teljast í fullorðinna manna tölu. Sjálfsagt mál. Því hef ég stutt borgaralega fermingu.
Það skiptir ekki máli hvort þú sért kristinn, trúlaus eða fylgir öðrum trúarbrögðum. Allir geta tekið þátt í námskeiði til borgaralegrar fermingar. Enginn er útilokaður.
Trúboð eða trúfræðsla bönnuð í skólum?
Nú er ég að heyra fréttir sem ég á bágt með að trúa, að Siðmennt standi fyrir því að koma í veg fyrir að prestar mæti í skóla og boði eða fræði um kristna trú. Ég sé ekki hvað er að því, svo framarlega sem að múslimum, buddatrúar, trúleysingjum, gyðingum og vísindatrúarmönnum sé einnig leyft að halda slík erindi. Aukin þekking er bara til góðs fyrir börnin, og að fá presta til að fræða um kristnina er að mínu mati hið besta mál, en þá verður líka að gefa hinum sem vilja deila öðrum fagnaðarerindum aðgang.
Umfram allt verður þó að hlusta á börnin sjálf og gefa þeim ráðrúm til að velta þessum hlutum fyrir sér. Ef þau fá aldrei tækifæri til að velta siðfræðilegum spurningum fyrir sér, er ekki hægt að búast við að fá manneskjur út úr skólum sem bera nokkra virðingu fyrir siðferðilegum viðmiðum, hvorki þeirra eigin né annarra. Að fá ekki tækifæri til að móta eigin hugmyndir um rétt og rangt, sanngirni og réttlæti, frelsi og haftir, hamingju og böl; er í sjálfu sér eitt það skaðlegasta sem hægt er að gera börnum. Munum hvernig hægt var að sneiða á skipulegan hátt alla siðferðisvitund úr börnum Hitleræskunnar, ekki viljum við endurtaka þann leik á Íslandi 21. aldarinnar, eða hvað?
Walt Disney teiknimynd um Hitleræskuna, Education for Death, nokkuð sem við viljum forðast vona ég:
Það er pláss fyrir þessi mál í lífsleiknitimum einu sinni í viku, sem mér finnst reyndar að ættu frekar að vera heimspekitímar fyrir börn, þar sem margsannað er hversu góð áhrif heimspekinám hefur á hugfimi þeirra sem stunda slíkt nám. Þar fengju börnin tækifæri til að ræða málin og hugsa um þau út frá eigin forsendum, hlutsta á ólíkar hugmyndir, en fyrst og fremst mynda eigin skoðanir um þau. Það þarf töluverða hæfni til af kennarans hálfu til að stjórna slíkri fræðslu, en hún er því miður af skornum skammti á Íslandi í dag. Vil ég benda á þá íslensku fræðimenn sem lagt hafa stund á heimspekifræðslu fyrir börn sem einstaklinga sem geta gert góða hluti í þessum málum fáu þau tækifæri til.
Af hverju að banna prestum að mæta í skóla til að fræða börnin um kristnina? Getur það verið vegna þess að öðrum trúfélögum er ekki hleypt inn í skólana og að Lútherska kirkjan fengi þannig einokunarvald að trúgjörnum börnum? Er þetta spurning um jafnrétti trúfélaga?
Ég vil ekki banna aðgang að neinu formi þekkingar fyrir börnin, en finnst varhugavert ef þau fá einungis að heyra eitt sjónvarmið, og alls ekki vil ég að þetta sjónarmið sé útilokað nema sannað sé að um misnotkun og predikun sé að ræða, þar sem börnin fái ekki tækifæri til að hugsa málin á eigin forsendum. Þau eiga að fá tækifæri til að ræða saman og velta þessum hlutum fyrir sér, á stað þar sem enginn segir þeim hvað er rétt eða rangt að halda eða trúa í þessum efnum.
Kristilegt siðferði er ekki það sama og kristilegt trúboð
Gagnrýni á kristilegt siðferði í skólum missir að mínu mati algjörlega marks, þar sem ég sé skýran greinarmun á kristnu siðferði annars vegar og kristnu trúboði. Frá árinu 1000 þegar Íslendingar voru neyddir til að taka kristna trú hafa Íslendingar lifað sáttir við að borga 10% af eignum sínum árlega til kirkjunnar, og með þessum fjármunum byggt kirkjur og prestastétt sem jafnvel hefur tryggt áframhaldandi viðveru sína í íslensku stjórnarskránni.
Áður en kristilegt siðferði tók gildi á Íslandi var hefðarsiðferði í gildi þar sem reglan auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, og líf fyrir líf gilti og allt logaði í óeirðum og eymd vegna þess að fólk var sífellt að finna ástæður til að vera ósátt hvert við annað. Eina mögulega fyrirgefningin fólst í að greiða sekt, jafnvel fyrir manndráp. Með kristninni var fyrirgefningin boðuð, að í staðinn fyrir að ráðast strax á þann sem pirrar þig, gætirðu gefið af þér smá umburðarlyndi og jafnvel ekki bara fyrirgefið náunganum, heldur sýnt væntumþykju í hans garð. Þetta er undirstaða kristins siðferðis; þetta umburðarlyndi, væntumþykja í garð náungans og það að geta fyrirgefið þínum skuldunautum.
Á þessu siðferði hefur íslenskt samfélag byggst í þúsund ár.
Breyttir tímar
Tímarnir breytast og mennirnir með. Nú heyrir maður frá unglingum að ef einhver meiðir vin manns á einhvern hátt, þá skuli safna liði og berja í klessu þann sem gerði óskundann. Ef ekki tekst að ná í þann sem verknaðinn framdi, þá sé réttlætanlegt að buffa vini þess einstaklings eða systkini. Er þetta viðhorf sem við viljum að sé ríkjandi af náttúrunnar hendi meðal framtíðarþegna Íslands?
Þetta viðhorf er nokkuð ríkt meðal þeirra unglinga sem ég hef rætt við um siðferðileg málefni, og ég hef haft áhyggjur af þessu en ekki predikað um það, þar sem að predikun er ekki mitt fag, heldur að uppgötva svona hluti , íhuga og ræða um þá.
Í kjölfar þess að hrun hefur verið í kennarastéttinni, bæði að margir hæfir kennarar hafa horfið frá kennslu og almennir borgarar hafa frekar agnúast út í kennara frekar en stutt þá, og gangavarsla í skólum og almenn gæsla er í uppnámi, hafa agavandamál stöðugt aukist í skólakerfinu. Börnin og unglingarnir leysa sín vandamál sjálf. Þau fá enga siðfræðikennslu, og taka lítið mark á trúarbrögðum, og vandamálin eru ekki leyst, heldur einfaldlega aukið við þau með auknu ofbeldi og einelti. Mín tilfinning er að mörg börn séu mjög einmana í íslensku skólakerfi í dag, þau fá ekki nóga athygli og er einfaldlega hent út í djúpu laugina. Vonandi hef ég rangt fyrir mér.
Aftur að kristnu siðferði. Ég tel vera mun á kristilegu siðferði og boðskap kirkjunnar. Kristilegt siðferði byggir á viðmiðum sem ganga yfir alla, eins og: þú skalt ekki ljúga, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki drepa, þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig. Þetta hittir í mark hjá mér. Hins vegar ef ég fer í messu og heyri predikanir um hversu syndugt fólk er og að það þurfi að leita fyrirgefningar þeirra, slíkt missir algjörlega marks hjá mér, enda finnst mér slíkar predikanir fjarstæðukenndar og fullar af alhæfingum sem eiga einfaldlega ekki við fyrir skynsamar manneskjur.
Kristilegt siðferði að mínum dómi byggir einmitt á þeirri meginreglu að maður skuli gera fyrir náungann það sem maður vill að náunginn geri fyrir sig, og ekki gera náunganum það sem maður vill ekki að náunginn geri sér. Þetta finnst mér skynsamleg viðmið.
Mér finnst mikilvægt að fólk sýni hverju öðru umhyggju og hlusti hvert á annað, beri virðingu fyrir skoðunum hvert annars og dæmi ekki aðra fyrir skoðanir sínar.
Viðmið eru eitt, reglur annað
Allt þetta skil ég sem kristilegt siðferði. Þegar þessi viðmið eru gerð að reglum sem þarf að predika fyrir fólki eins og það séu einhverjir heimskingjar fer hins vegar allt í hundana.
Úr stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands:
"Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda."
"Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu."
"Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu."
"Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að."
"Nú er maður utan trúfélaga og greiðir hann þá til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borðið að greiða til trúfélags síns. Breyta má þessu með lögum."
"Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti."
Áhugaverðar bloggfærslur um þessi mál:
Kristilegt siðgæði, eftir Marinó G. Njálsson
Kirkjunni kastað án umræðu?, eftir Baldur Kristjánsson
Hvað á þá eiginlega að gera við kennara sem ekki ástundar kristilegt siðgæði í skólanum?, eftir Jóhann Björnsson
Frönsku leiðina skal ég styðja, eftir Hans Haraldsson
Kristnifræði, eftir Paul Nikolov
Kristin gildi, eftir Sævar Már Gústavsson
![]() |
Áfram deilt um Krist í kennslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 13:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)