Hver vill losna við eigin fordóma og fyrirfram mótaðar hugmyndir?

Um daginn stóð ég í biðröð við Bónuskassa. Karlmaður fór fram fyrir mig í röðina án þess að segja orð; hafði reyndar aðeins einn hlut sem hann ætlaði að kaupa. Ég gerði ekkert. Ég lét hann vaða yfir mig. Mér fannst það í lagi þar sem að mér lá ekkert á og hann var bara með einn hlut. En hann hafði ekki beðið mig um leyfi.

Nokkrum dögum síðar átti ég samræðu við góða manneskju og sagði henni frá upplifun minni í Bónus.  Henni fannst að ég hefði ekki átt að leyfa manninum að komast upp með þetta og kenna honum betri siði. Þá minntist ég á að ég hafi hugsanlega ekkert gert í málinu vegna ótta við mögulega fordóma hjá sjálfum mér og hugsaði með mér að það hefði einnig verið af ótta við að vera úthrópaður sem fordómafullur kynþáttahatari ef ég gerði athugasemd við manninn, sem var greinilega innflytjandi, sem ég greindi bæði á hegðun hans og hvernig hann tjáði sig við konu sína, sem hafði slæðu fyrir andliti.

Við ræddum þetta dágóða stund, og svo barst talið að pælingum um eðli fordóma. Ég hélt því fram að til væru tvær gerðir fordóma, þeir sem við könnumst við úr daglegu tali og bundnir eru neikvæðri merkingu og hins vegar það sem hægt væri að kalla fyrirfram dóma, sem væru þá ekkert endilega neikvæðir. Sú sem ég ræddi við taldi mig vera að rugla saman hugtökum, að ég væri að þýða hugtök úr ensku sem væru illþýðanleg yfir á íslensku: "predjudices" og "preconceptions". Ég er ekki viss um hvort ég hafi gert það, og ef svo er, þá er ég ekki sannfærður um að þegar kafað er ofan í hugtökin að þau merki ólíka hluti.

Ég hélt því fram að öll okkar þekking byrji með fordómum. Við sjáum, heyrum eða skynjum eitthvað í fyrsta sinn, og dæmum það strax. Við smökkum til dæmis ís í fyrsta sinn og finnum að hann er góður. Með aukinni þekkingu á sykri og þeim sjúkdómum sem hann veldur komumst við hins vegar að því að ís er ekki algóður. Við sjáum manneskju í fyrsta sinn, hún brosir til okkar, og þá væntum við þess að þetta sé góð manneskja og jafnvel áhugaverð. Síðan lærum við meira ef við leitum eftir því.

Við getum lært um hugmyndir, eins og kommúnisma, þar sem allir eru jafnir og deila öllu jafnt. Stundum áttum við þó okkur ekki á því að það er greinarmunur á milli þess sem við getum ímyndað okkur og reiknað út, og veruleikans sem skeytir ekkert um hugmyndir eða áætlanir og skiptir sér af öllu sem okkur langar að gera á ruddalegan hátt. Sagan sýnir okkur að kommúnisminn gengur ekki upp í mannlegu samfélagi, þó svo að hann geri það kannski sem huglægt reikningsdæmi.

Jöfnuður verður aldrei fullkominn og ef tækist að ná slíkum jöfnuði eitt andartak væri hann farinn það næsta. Það sama má segja um eignir; það er voðalega fallegt að hugsa sér að skipta öllum eignum jafnt á milli; en hvað ef þú þarft að skipta úrinu sem langafi gaf þér í afmælisgjöf og inniheldur ljósmynd af ömmu á blómaskeiði sínu, eða hvað ef þú erfðir íbúð sem þarf svo að deila með öðrum, klósettinu og sturtunni líka, bara til þess að allir verði jafnir?

Ég held að fyrirfram mótaðar hugmyndir og fordómar séu sami hluturinn; og að hver einasta hugsun sem við framkvæmum með tjáningu af einhverju tagi sé dómur. Það er ómögulegt að vera fordómalaus, en mögulegt að vera meðvitaður um eigin breyskleika og óhjákvæmilega fordóma, sama hvert tilfellið er.

Það getur verið erfitt að vera fordómalaus manneskja í fordómafullum heimi, en sú ein manneskja getur verið án fordóma sem tilbúin er að taka á allri þeirri áreitni sem hún verður fyrir og vinna með hana, þar til fyrirbærið umbreytist úr fordómum yfir í þekkingu.

 

Aukaefni:

Áhugaverð bandarísk teiknimynd, gerð sem áróður gegn kommúnisma. Reyndu að horfa á þessa teiknimynd fordómalaust. Það er ekki auðvelt.


Bloggfærslur 16. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband