Varúð! Hörmuleg mynd: BloodRayne (2005) 0


Það sem fær mig til að skrifa þessa grein var auglýsing frá BT sem kom með póstinum í gær. Þar er  BloodRayne auglýst til sölu á DVD fyrir kr. 2299,- (Gos og snakk fylgir).

 

EKKI KAUPA HANA!

 

 

Ég sá BloodRayne fyrir nokkrum mánuðum en skrifaði ekkert um hana þar sem hún virtist ekki vera til á íslenskum vídeóleigum né hafa komið í bíó.

Í gær skrifaði ég um mjög slaka mynd, The Seven Swords, sem var í leikstjórn Tsui Hark, reyndar var mér tjáð í athugasemdum að sú útgáfa sem ég sá hafi verið sundurklippt vitleysa unnin úr mun lengri sjónvarpsþáttum. Ég væri tilbúinn til að kíkja á sjónvarpsþættina ef eitthvað er til í þessu. En til samanburðar, þá er The Seven Swords snilldarverk við hliðina á BloodRayne, og ég er alls ekki að gefa í skyn að The Seven Swords hafi mikla kosti.

BloodRayne er ein af þessum myndum sem er svo léleg að það er ekki einu sinni fyndið. Ef þú tækir með þér hóp af félögum til að gera grín að því hversu léleg þessi mynd er væri kvöldið ónýtt, þar sem vonlaust er að halda sér vakandi yfir þessum leiðindum.

Rayne er vampíra sem hatar allar aðrar vampírur og setur sér það mark í lífinu og drepa vampíruna sem nauðgaði og át síðan móður hennar þegar hún var lítil stúlka, en það vill þannig til að vonda vampíran er pabbi hennar. En þessi aðal og vonda vampíra er leikin af engum öðrum en sjálfum Ben Kingsley, sem hefur aldrei verið jafn lélegur og í þessari mynd.

Aðrir ágætis leikarar taka þátt í hörmungunum og standa sig allir jafn hörmulega. Þarna eru Michael Madsen, Meat Loaf, Billy Zane og Michelle Rodriguez; en þau virðast því miður öll vera uppdópuð og rugluð í þessu samsulli sem snýst ekki um neitt annað en dráp, hefnd og ofbeldi; þar sem mannslíf er einskis virði í huga nokkurs, ekki einu sinni leikstjórans.

En aðeins um leikstjórann, Uwe Boll. Hann hefur fengið það orð á sig að vera versti núlifandi leikstjórinn. Hann er arftaki Ed Wood. Ed Wood er þekktur fyrir að hafa gert Plan 69 from Outer Space, sem nær á neðsta sæti fjölmargra lista yfir lélegustu kvikmynd sem gerð hefur verið og gefin út.

Uwe Boll virðist ekki bera neitt skynbragð á eigin smekkleysi, sem útskýrir kannski hversu smekklausar og lélegar myndirnar hans eru að einhverju leyti. En getur einhver útskýrt fyrir mér hvernig hann fer að því að fá öll þessu þekktu nöfn í leikhópinn? Ég trúi því ekki að hann geti borgað þeim sæmileg laun. Ég einfaldlega trúi ekki að það sé markaður fyrir þessar hörmungar sem hann hefur leikstýrt.

Til að styðja mál mitt get ég bent á að BloodRayne fékk 2.6 af 10 í einkunn á IMDB.com. Einnig fékk hún sex tilnefningar, öll á Bláu hindberjahátíðinni árið 2005, sem ég tel hér með upp:

  • Versta leikkona - Kristanna Loken
  • Versti leikstjóri - Uwe Boll
  • Versta kvikmynd
  • Versta handrit
  • Versti leikari í aukahlutverki - Ben Kingsley
  • Versta leikkona í aukahlutverki - Michelle Rodriguez

Til gamans langar mig að telja upp þær kvikmyndir sem Uwe Boll hefur leikstýrt og birta einkunnir þeirra af IMDB.com, þannig að nú lesandi góður, lærir þú eitthvað um það hvernig hægt er að forðast lélegar bíómyndir - athugaðu hver leikstjórinn er og leitaðu að umsögnum um aðrar myndir eftir hann.

Ég hef séð aðra mynd eftir Uwe Boll, sem gerð er eftir einum af mínum eftirlætis tölvuleikjum, Alone in the Dark, en hún er álíka slæm og BloodRayne. Uwe Boll hefur sýnt og sannað að það þarf ekki listamannsauga til að meika það í bíóheiminum. Hann nær einfaldlega að semja um not á nöfnum tölvuleikja sem hafa verið vinsælir, og getur þannig tryggt sér sölu á myndinni. Hann græðir alltaf, sama hversu lélegar myndirnar eru.

Hæsta mögulega einkunn er 10. Lægsta mögulega einkunn er 1.

 

  • German Fried Movie (1991) - 1.3
  • Barschel - Mord in Genf? (1993) - 1.4
  • Amoklauf (1994) - 1.6
  • Das Erste Semester (1997) - 2.0
  • Sanctimony (2000) - 3.0
  • Blackwoods (2002) - 2.6
  • Heart of America (2003) - 4.5
  • House of the Dead (2003) - 2.0
  • Alone in the Dark (2005) - 2.2
  • BloodRayne (2005) - 2.6
  • In the Name of the King: A Dungeon Siege Tale (2007) - 3.8
  • Seed (2007) - 2.5
  • Postal (2007) - 4.4
  • BloodRayne II: Deliverance (2007) - 4.1

Chat Gim (The Seven Swords) (2005) *

 


Chat Gim er misheppnuð bardagamynd, þrátt fyrir góð bardagaatriði.

Keisarinn hefur gefið fyrirskipan um að sérhver dauður bardagalistamaður sé 300 silfurpeninga virði. Herskár hópur um héröð og slátrar heilu þorpunum til að græða sem mest, sama hvort að viðkomandi kunni eitthvað fyrir sér í bardagalistum eða ekki. Það er nefnilega ekkert auðvelt að skilgreina hver er bardagamaður og hver er það ekki.

Nú vantar hetjur til að stoppa illmennin. Til eru sjö sverð sem gera þá sem þau munda nánast að ofurhetjum. Kynntar eru til sögunnar sjö manneskjur, en þó það illa að maður veit aldrei hver er hver né hvaðan þær koma, þrátt fyrir og hugsanlega vegna endalausra endurleiftra úr fortíð þeirra.

Persónurnar eru svo slitróttar að þær eru ekki einu sinni flatar. Flatt er slæmt. Þetta er stigi verra.

Leikstjórinn, Tsui Hark, sem oft hefur gert spennandi og vel gerðar myndir missir hér algjörlega marks. Hann er svo upptekinn við að hræra í grautnum að hann áttar sig aldrei á því að hráefnin eru ónýt. Hann hefur tekið að sér verkefni sem hann ræður engan veginn við, en hann hefur tekið þátt í að gera snilldarmynd eins og The Killer og A Better Tomorrow, ásamt John Woo, auk þess að hann gerði Time and Tide, Black Mask og sitthvað fleira sem má hafa gaman af. Reyndar eru myndirnar hans alltaf fallegar á að horfa, enda sérlega litríkar.

Chat Gim er tvær og hálf klukkustund að lengd, en manni finnst hún vera fimm.

 

Nú er búið að vara þig við.

 

Sýnishorn á kínversku:


Bloggfærslur 25. október 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband