Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá!
19.10.2007 | 19:20
Áðan skrapp ég í Bónus við Smáralind. Það var mikil örtröð á bílastæðinu. Fólk þurfti lífsnauðsynlega að berja sér leið inn í Toys'R'Us enda sjálfsagt fullt af merkilegum vörum þar í hillum sem þurfa að komast upp í hillur heima.
Inni í Bónus hjó ég sérstaklega eftir því að ég heyrði ekki eina einustu manneskju tala íslensku, en samt var búðin troðfull. Þegar ég kom að kassanum spurði ég afgreiðslustúlkuna hvort hún ætti rafhlöður. Hún hristi höfuðið og yppti öxlum og sagði með sterkum austur-evrópskum framburði,
"I don't speak."
Ég benti á rafhlöðu í rakvélapakka og spurði á ensku. Hún hristi höfuðið, til merkis um að þær væru ekki til, held ég.
Þegar út kom streymdi fólk inn og út úr Toys'R'Us og ég vissi ekki alveg hvernig mér átti að líða. Ég hef ferðast mikið um heiminn, en alltaf haft á tilfinningunni að hvar sem ég kom, þá væri ég staddur í viðkomandi landi. En núna þegar ég skrepp út í búð á Íslandi finnst mér ég ekki vera staddur á Íslandi. Í dag, öðrum dögum fremur, finnst mér heimurinn vera að breytast.
Mér verður hugsað til bernskuáranna þegar frændi minn var kaupmaður á horninu í miðbænum, og þegar ég þekkti afgreiðslufólkið í KRON með nafni og þau mig. Það þótti jafnvel merkilegt að einn í bekknum var ættaður að einhverju leyti frá Bandaríkjunum og annar danskur í aðra ættina. Við höfum aðeins þroskast síðan þá. Það er sjálfsagt stutt í það að íslenskan deyr dauða sínum og við verðum enskumælandi þjóð.
Best að ljúka þessum pistli á ljóði eftir Jónas Hallgrímsson sem spratt fram í huga minn þegar ég horfði á risastórt Toys'R'Us skiltið fyrir utan Bónus í Smáralind.
ÍSLAND
Ísland! farsældafrón og hagsælda hrímhvíta móðir!
Hvar er þín fornaldarfrægð, frelsið og manndáðin best?
Allt er í heiminum hverfult, og stund þíns fegursta frama
lýsir, sem leiftur um nótt, langt fram á horfinni öld.
Landið var fagurt og frítt, og fannhvítir jöklanna tindar,
himininn heiður og blár, hafið var skínandi bjart.
Þá komu feðurnir frægu og frjálsræðishetjurnar góðu,
austan um hyldýpishaf, hingað í sælunnar reit.
Reistu sér byggðir og bú í blómguðu dalanna skauti;
ukust að íþrótt og frægð, undu svo glaðir við sitt.
Hátt á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur
ofan í Almannagjá, alþingið feðranna stóð.
Þar stóð hann Þorgeir á þingi er við trúnni var tekið af lýði.
Þar komu Gissur og Geir, Gunnar og Héðinn og Njáll.
Þá riðu hetjur um héröð, og skrautbúin skip fyrir landi
flutu með fríðasta lið, færandi varninginnn heim.
Það er svo bágt að standa' í stað, og mönnunum munar
annaðhvurt aftur á bak ellegar nokkuð á leið.
Hvað er þá orðið okkart starf í sex hundruð sumur?
Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?
Landið er fagurt og frítt, og fannhvítir jöklanna tindar,
himininn heiður og blár, hafið er skínandi bjart.
En á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur
ofan í Almannagjá, alþing er horfið á braut.
Nú er hún Snorrabúð stekkur, og lyngið á lögbergi helga
blánar af berjum hvurt ár, börnum og hröfnum að leik.
Ó þér unglingafjöld og Íslands fullorðnu synir!
Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)