Færsluflokkur: Menntun og skóli

Aðeins um kennara

Sú skoðun heyrist stundum að laun kennara ættu að felast í því að geta látið gott af sér leiða. Að baki þessari skoðun virðist sú trú að kennari sé einhvers konar píslarvottur, munkur, nunna eða heilög vera sem lifir á loftinu og góðviljanum einum saman. Veruleikinn er hins vegar sá að kennarinn er manneskja af holdi og blóði. Og þessar manneskjur mynda heila stétt.
 
Þeir kennarar sem ég þekki (get ekki talað um hina sem ég hef aldrei kynnst) völdu að fara í kennslu því þeir vilja láta gott af sér leiða fyrir nýjar kynslóðir og samfélagið, og þeir njóta þess að fræða aðra á áhugaverðan hátt um þekkingu sem erfitt getur verið að nálgast, - þekkingu sem sjaldan birtist í sjónvarpi eða á léttmiðlum netsins, auk þess að stuðla að auknum þroska og heilbrigðri samfélagsvitund nemenda. Eðlilega trúa kennarar á meðan þeir eru í námi að samfélagið muni sýna slíkum göfugum vilja virkan stuðning. 
 
Síðan kemur sjokkið, eftir að kennarar hafa fengið sinn fyrsta launaseðil, að þeir sjá að þeir fengu kannski hærri laun í skúringarvinnu með náminu, eða í sjoppu, eða á bensínstöð. Ég veit af kennurum sem hættu strax og þeir gátu þegar þeir fengu þær upplýsingar að launin voru ekki vitlaust reiknuð. Og þetta voru manneskjur sem höfðu lagt á sig margra ára nám fyrir starfið. Að sjálfsögðu var þeim vel tekið á almennum vinnumarkaði þar sem launin eru auðveldlega tvöfölduð fyrir hæfileikaríka einstaklinga.
 
Og svo sjá þeir að fólk með sambærilegt nám fá líka mun hærri laun. Þar sem að kennarar eru lifandi fólk, sem þarf að borga undir sig húsnæði, fatnað og mat, þurfa þeir að fá laun sem gefa þeim tækifæri til að lifa af. Þess laun sem kennarar fá þýðir að þeir geta átt erfitt með að ná endum saman. 
 
Þó að þeir vinna mikla yfirvinnu í undirbúningsvinnu, hanni námsefni án aðstoðar, vinni samviskusamlega að því að skila af sér góðu verki, og fari yfir verkefni um kvöld og yfir helgar, fá þeir ekki borgað eina krónu aukalega fyrir alla þessa aukavinnu. Það er frekar sorglegt.
 
Ég vil votta íslensku kennarastéttinni djúpa virðingu mína og ég vil þakka kennurum fyrir að huga að framtíðinni, nokkuð sem alltof fáar starfstéttir gera í raun. Kennarar fá minn stuðning og ósk um að þeir fái mannsæmandi laun, þar sem þeim er gert fært að einbeita sér að vinnu sinni og hugsjón frekar en að hafa fjárhagslegar áhyggjur sérhver mánaðarmót.

Tengt PISA: Hversu mikinn tíma nota íslensk börn og unglingar til að læra heima?

630afp-nanyanghighschool-jpg_143938

Í tilefni af PISA niðurstöðum um daginn, þar sem ljós kom að 15 ára íslensk skólabörn voru langt á eftir börnum frá öðrum löndum í ákveðinni fagþekkingu, spurði ég samstarfsfélaga minn frá Singapore hvernig aðstæður væru í hans landi, af hverju nemendur þar í landi kæmu svona vel út í stærðfræðinni þar.

Það er ekki endilega að skólakerfið sé gott, heldur vinna nemendur gríðarlega heimavinnu. Eftir skóla er algengt að þeir vinni heimavinnu til kl. 23:00 að kvöldi með einkakennara sem ráðinn er af foreldrum, og einnig um helgar. Börnin hafa ekki mikinn tíma til annars en heimavinnu. Hann sagði hálf dapurlega að börnin væru eins og vélmenni, allt snérist um árangur, og lítill tími væri fyrir tómstundir, nema viðkomandi sýndi afburða árangur í sínum tómstundum.

Ég reikna með að það sé afar sjaldgæft að nemendur á Íslandi stundi námið jafn stíft og jafnaldrar þeirra í Singapore. Það hlýtur að vera undantekning frekar en regla. Eða hvað?

Það væri áhugavert að kanna þetta: 

Hversu mikinn tíma nota íslensk börn og unglingar til að læra heima?

 

Mynd: Skólabörn í Singapore (AFP) 


Hafa einkunnir haft góð áhrif á líf þitt, eða slæm?

grading

Á skólaferli okkar erum við dæmd út frá árangri. Við sitjum í skólastofu og vinnum verkefni heilan vetur, og síðan tökum við próf sem eiga að segja okkur sannleikann um hversu vel okkur hefur tekst að valda viðfangsefninu.

Sumir ná háum einkunnum, sumir eru í meðallagi, og sumir falla.

Þeir sem ná háum einkunnum geta öðlast virðingarstig í skólastofunni, að minnsta kosti á meðal kennara, enda hefur þeim að miklum líkindum tekist að læra þau vinnubrögð og viðhorf sem ætlast er til af þeim. Sjálftraust viðkomandi nemenda er líklegt til að aukast og væntingar til þeirra einnig.

Hinir sem falla, eiga sjálfsagt erfiðara með að finna sig í skólakerfinu, og geta dæmt sjálfa sig af mikilli hörku. Þeir sem ná ekki stærðfræðiprófi geta talið sjálfa sig heimska, á meðan það er fjarri sannleikanum. Þeir sem ná ekki prófum, hafa sjálfsagt ekki tileinkað sér ásættanleg vinnubrögð, hafa kannski ekki skilið einhverjar undirstöðureglur, eiga hugsanlega við einhverja utanaðkomandi erfiðleika að etja, einhvers konar líkamlega eða sálræna fötlun eða vandamál. Takist að finna þessi vandamál og vinna með þau, er hægt að gera nemendur með lágar einkunnir að afburðarnemendum. Það eina sem vantar er hugarfarið.

Vandinn er þegar einkunnir eru notaðar til að dæma manneskjuna; sem duglega, lata, gáfaða, heimska, góða, illa, og þar eftir götunum. Slíkir dómar eru ekkert betri en aðrir fordómar.

Þeir sem rata meðalveginn sleppa hugsanlega best í gegnum kerfið, því ólíklegra er að þeir verði dæmdir af einhverju yfirvaldi sem notar dóminn til einskis annars en að dæma.

Besta réttlæting fyrir einkunnum er þegar þær eru notaðar til að bæta það sem betur má fara. Þegar einkunnir eru notaðar til að sundurgreina fólk vegna hæfni, gera þær lítið gagn, þar sem helsta hæfnin sem próf mæla er hæfnin til að taka próf. 

Ef próf væru fyrst og fremst notuð eins og leikir eða spil, þar sem enginn getur orðið meistari í fyrstu tilraun, og þau notuð til að byggja upp þekkingu fyrir þá sem ná ekki góðum árangri, þá værum við að tala um tæki sem skiptir máli. 

En svo er það stóra spurningin, gera einkunnir yfir höfuð meira gagn eða ógagn? Ég hef stundum á tilfinningunni að eins og þeim er beint í dag, og hefur verið beint, blindandi til að aðgreina kjarnann frá hisminu, þá geri þær sérstaklega þeim sem illa gengur ógagn. En það er vissulega ekki hægt að alhæfa neitt, því einn góður kennari getur skapað meistaraverk með því að nota einkunnir rétt, á meðan óvitrari kennari getur skapað andans kvalir sem vaka meðvitaðar í sálartetrum hugsanlega marga áratugi. 


Sleggjudómur Stefáns Friðriks Stefánssonar: "Eitthvað stórlega vantar á siðferði þeirra sem starfa í bandarískum skólastofnunum."

Stefán Friðrik Stefánsson skrifar grein um kynlífshneyksli við Bandarískan skóla þar sem að 25 ára kennari stakk af með nemanda sínum (hugsanlega 13 ára) yfir landamæri Mexíkó. Einnig nefnir hann tvö önnur dæmi, án þess að greina nánar frá þeim. Greininni er lokið með staðhæfingunni:

Greinilegt að eitthvað stórlega vantar á siðferði þeirra sem starfa í bandarískum skólastofnunum.

Það er eitthvað til í þessu, en þetta er vissulega ofureinfaldur sleggjudómur á máli sem má ekki kippa úr samhengi. Staðhæfingum sem slíkum er oft fleygt fram þegar þekkingu vantar á aðstæðum og forsendum. Ég vil reyna að bæta aðeins úr.


Ég hef unnið mikið með góðum fagmönnum í bandarískum skólum og fullvissa lesendur mína um að almennt siðferði meðal kennara þar er afar gott. Reyndar var ég með kennurum í Bandaríkjunum þegar þetta mál kom upp, og áhugaverðar umræður spunnust um það.

Kennarinn sem strauk með nemanda sínum til Mexíkó er frá Lexington í Nebraska. Þangað hef ég farið nokkrum sinnum. Stúlka sem ólst upp í þessum bæ sagði mér að þegar hún var lítil gat hún gengið óhult um göturnar og fólk skildi hús sín eftir ólæst á kvöldin, eins og enn viðgengst í miðríkjum Bandaríkjanna, nema að síðustu árin hefur þróunin verið frekar óhugnanleg. Fréttir um skotbardaga berast reglulga frá bænum, enda hafa þrjú vopnuð götugengi hreinlega tekið völdin í bænum, sem er álíka fjölmennur og Reykjavík en aðal iðnaður þeirra er kjötvinnsla.

Fyrir um 10 árum síðan byrjuðu innflytjendur að streyma inn í Lexington, en það sárvantaði ódýran starfskraft í kjötvinnslu, og var afar vel tekið á móti þeim. Lögð var áhersla á að kenna ensku sem annað mál í skólum á svæðinu.

Hins vegar breyttist margt þegar ríkisstjórn Bush var kjörin (hugsanlega) til valda árið 2000. Fyrir nokkrum árum fór ríkisstjórnin af stað með nýtt menntakerfi sem kallast No Child Left Behind, sem þýðir í raun að skólar tapa fjárhæðum með hverjum bekk sem sýnir of góðan árangur.

Öfugsnúið og fáránlegt? Já.

Staðreynd? Já.

Það er lögð mikil áhersla á að allir nemendur komist í gegnum nám, sem þýðir að árangursstaðlar hafa verið mikið lækkaðir víðast hvar, og sem hefur aftur á móti mikil áhrif á afburðarnemendur sem er haldið aftur. Bæði kennarar og aðrir sérfræðingar í menntageiranum þola ekki þetta kerfi - og hafa margir leitað sér starfa á öðrum vettvangi vegna þess.

Kennarar í Bandaríkjunum eru láglaunastétt eins og á Íslandi, og þeir sem hafa haldið áfram hafa gert það af hugsjón, en þegar kerfið gerir þeim ómögulegt að vinna eftir eigin hugmyndum, borga lægri laun en fást fyrir að starfa við færibandavinnu og skapar fleiri vandamál en leysir, hrökklast  kennarar sem starfað hafa af hugsjón í önnur störf.


Snúum okkur aftur að Lexington. í nokkur ár hefur bærinn verið í miklum vandræðum með kennara. Þeir geta ekki borgað góð laun og góðir kennarar fást ekki til að flytja á svæðið vegna þeirra miklu vandamála sem ríkja þar, aðallega vegna mikils fjölda ólöglegra innflytjenda. Margir hæfir kennarar sem fæðst hafa í Lexington og ætlað sér að kenna þar, fá tilboð sem þeir geta ekki hafnað, annað hvort frá öðrum bæjum eða ríkjum í Bandaríkjunum. Ástandið er semsagt slæmt í bænum.

Ekki má heldur gleyma að fjármunir sem voru áður í bandaríska menntakerfinu hafa gufað upp vegna stríðsreksturs í Afganistan og Írak, og því hefur þurft að leggja af námsleiðir sem menntastofnanir höfðu þróað í áratugi. 


Allt þetta veldur því að nú er erfitt að ráða hæfa og góða kennara í Lexington, og því þarf að ráða fólk sem hefur hugsanlega ekki það háa siðferðisvitund sem flestir kennarar í Bandaríkjunum hafa. Sem lýsir sér einmitt í svona máli. 

Vandamál í bandarískum menntamálum hafa stóraukist vegna stöðugra árása á það vel unna starf sem áunnist hafði í fjölda áratuga. Þetta er ein af afleiðingum stríðsrekstursins í Bandaríkjunum, og eigum við örugglega eftir að heyra mun fleiri voðafréttir á næstunni, þar sem úr skólum er að útskrifast kynslóð sem upplifað hefur ómanneskjulegt menntakerfi, sem vinnur meira gegn fólki en með því, þar sem að nám snýst mun meira um árangur þeirra sem minnst mega sín gagnvart viðmiðum sem eru alltof lág, í stað þess að geta unnið með öðru fólki og liðið vel í námi án takmarkana trúarbragða eða stjórnmála.

Skólum með afburðarnemendum er ekki umbunað í Bandaríkjum nútímans. Þeim er bókstaflega refsað, því að ef þeir skila góðum árangri líta pólitíkusarnir þannig á að skólinn hafi of mikinn pening á milli handanna, og veita því meiri pening í skóla sem nær slökum árangri. Af þessum sökum reyna skólar að halda aftur af afburðarnemendum, og leyfa þeim ekki að njóta sín.

Ég veit þetta af eigin reynslu, því fyrir aðeins viku síðan, útskrifaðist nemandi frá Lexington úr áfanga hjá mér sem ég kenni mér til ánægju í sumarfríi, en hún hefur tekið kúrsinn minn í þau þrjú ár sem henni tókst að ná þeim þungu prófum sem þarf að ná til að komast inn, en rúmlega hundrað nemendur sækja um að komast inn - aðeins 14 komast að, - hún kvaddi mig með tárin í augunum og þeim orðum að þessi kúrs hafi verið ljósið við enda myrkra ganga.

Til að komast í áfangann þurfti hún heldur betur að berjast - kennararnir og skólastofnunin vildi ekkert fyrir hana gera, hún þurfti að berjast fyrir leyfi til að sækja um í áfangann. Og þegar hún hafði fengið það í gegn, þurfti hún að taka prófið og ná því villulaust. Afburðarárangur virðist ekki lengur vera af hinu góða, heldur dæmi um sjálfselsku. Það er viðhorf sem má gagnrýna.

kelsey_fernando_584978.png

Þetta umhverfi flúðu hinn 25 ára kennari Kelsey Peterson, fædd og uppalin í Lexington, og hugsanlega 13 ára nemandi hennar Fernando Rodriguez 25. október 2007. Ég þekki ekki söguna á bakvið söguna um flótta þeirra, annað en að þau virðast ástfangið par, - aðskilin af aldri og stétt. Það er lítið mál að fordæma þau án þess að kynnast þeim betur, en spurning hvort við getum haldið persónulegum skoðunum okkar aftur á meðan við hlustum á sögu þeirra.

Við þekkjum ekki söguna sem þetta fólk hefur að segja. Reyndar hefur parið verið handtekið í Mexíkó og Kelsey verið send til Bandaríkjanna þar sem hún er í haldi FBI. Rodriguez hefur ekki fengið að koma aftur til Bandaríkjanna þar sem að hann er ólöglegur innflytjandi. Ekki er vitað hvort að flótti þeirra hafi verið vegna þess að þau hafi átt í ástarsambandi í raun og veru, eða hvort þau hafi flúið af ótta vegna þeirra ásakanna sem á þau voru bornar. Ég vil enn og aftur forðast að dæma það sem ég þekki ekki nógu vel.

Hér er áhugavert myndband um framvindu mála, þar sem meðal annars kemur fram að hugsanlega er nemandinn mun eldri en 13 ára, þar sem að hann hefur enga pappíra til að sýna fram á raunverulegan aldur sinn.

Smellta á myndina til að skoða myndbandið:

Annars þakka ég Stefáni fyrir ágætis tækifæri til að fjalla um fordóma og hættulegar alhæfingar. Ég hefði skrifað athugasemd við færslu hans, en geri það ekki þar sem að hann birtir aðeins sumar athugasemdir eftir að hafa rýnt þær sjálfur. Það finnst mér ekki góð regla.

Besta leiðin til að taka á sleggjudómum er að rannsaka málið frá fleiri sjónarhornum en einu. Slíkt er alltaf lærdómsríkt þegar hugsað er vandlega um viðkomandi mál, en hættulegt ef við meðtökum fordómana umhugsunarlaust.

 

Myndir: Wikipedia og almennar fréttasíður


Eru agaleysi og kjaramál að ganga frá kennarastéttinni dauðri?

 _744670_stress300

Ef skóli getur ekki komið í veg fyrir ókurteisi í garð starfsfólks, truflun á vinnufriði eða aðra slæma hegðun nemenda þá held ég að sé næsta óhjákvæmilegt að kennarar missi við og við stjórn á skapi sínu og hagi sér fyrir vikið á einhvern þann veg sem grefur undan virðingu fyrir skólanum. Jafnvel bestu menn hafa sín þolmörk. Þannig vindur agaleysið upp á sig og þegar verst lætur verða heilu bekkirnir að einhvers konar vígvelli fremur en vinnustað þótt vonandi heyri til undantekninga að ástandið gangi alveg svo langt. (Atli Harðarson heimspekingur, 13. apríl 2008)

Fjölmargir kennarar hafa snúið sér að öðrum störfum, undirritaður meðtalinn, þrátt fyrir margra ára og rándýra kennaramenntun. Atli Harðarson heimspekingur skrifaði greinar á bloggi sínu um brotthvarf kennara úr skólastarfi, og taldi að hluti af skýringunni væru launin (sem voru meginástæða þess að ég hætti) og einnig að mikill skortur væri á ráðstöfunum gegn agavandamálum.

Ég hef sjálfur upplifað kennslu þar sem nemendur sýndu engan aga, reyndar hef ég ekki upplifað það á Íslandi, en veit að slíkt starf er hreint helvíti á jörð. Ef staðan er orðin þannig að kennarar fá ekki lengur vinnufrið með nemendum sínum í skólastofum, þá er skiljanlegt að brottfallið verði mikið, og langtímaskaðinn því meiri fyrir samfélagið. Það verður ekki gott fyrir neinn.

 msn_messenger_logo

Spjallið sem fer hér á eftir er innblásið af þessari frétt, en hún birtist í fréttatíma Stöðvar 2, þriðjudaginn 15. apríl.Tveir góðir vinir, sama og Ekki sama - sem endurspeglar reyndar engan veginn þeirra viðhorf til lífsins, hittast á MSN og spjalla saman um daginn og veginn. Talið berst að agamálum:

 

Ekki sama segir:

Ég er fyrst að kíkja á fréttir dagsins núna... ekkert spennandi að gerast? Engin dulbúin bankarán?

sama segir:

Ég hef ekki haft tima að kíkja á þær. Búið að vera viðbjóðslega mikið að gera. Er með námskeið í gangi fyrir unglinga.

sama segir:

Úff það er erfitt.

Ekki sama segir:

Sömuleiðis hjá mér. Blogga bara til að hvíla hugann.

sama segir:

Ég hef ekki orku í það. Er bara algjörlega dauð.

Ekki sama segir:

Nú? Vantar innblástur?

sama segir:

Nei ég er bara svo þreytt... að ég nenni ekki að hugsa. Fæ fullt af hugmyndum. Eina t.d. um kennara.

Ekki sama segir:

Kennara almennt?

sama segir:

Sá frétt í kvöld um að kennarar væru að hrekjast á brott vegna agaleysis.

Ekki sama segir:

Ok, sem er örugglega satt.

sama segir:

Ég fór og skoðaði kennsluskrá KHI. Þar sá ég ekkert námskeið um agastjórnun né neinu því líkt. Ætlaði að blogga um það og spyrja spurninga.

Ekki sama segir:

Ég var einmitt með nemendur á námskeiði og gaf þeim einkunnir. Þeir fengu allir 10 fyrir hæfni, en aðeins einn fékk 10 fyrir hegðun, allir hinir féllu. Ég stúderaði sérstaklega agastjórnun þegar ég lærði til kennara erlendis. Það var hluti af kennaranáminu úti. Aginn snérist það um að stjórna með harðri hendi en blíðu viðmóti.

sama segir:

Ekki sama segir:

Veit ekki hvernig kennarar eru þjálfaðir í þetta á Íslandi. Virðist ekki vera neitt um það.

sama segir:

Ég er meira á hinni línunni - eins og þú lýsir þessu.

Ekki sama segir:

Ég held það fari eftir skólakerfi.

sama segir:

Skiptir engu hvað þú kannt í kennslufræði og allt það... ef krakkanir eru upp um alla veggi þá skiptir kennslufræði kannski litlu.

Ekki sama segir:

Í opnu valkerfi er samvinnuaðferðin betri samkvæmt minni reynslu en harða höndin betri í bekkjarkennslu, því þar myndast oft erfiðustu hóparnir.

sama segir:

Já ég er að hugsa um bekkjarkerfi.

Ekki sama segir:

Ég var að heyra frá nemendum að þeir bera litla virðingu fyrir kennurum í dag.

sama segir:

Held að KHI þurfi að taka sér taki þarna.

Ekki sama segir:

Ég spurði þá um ástæður.

sama segir:

Eða mér sýnist það eftir 5 mín rannsoknarvinnu og orðróm.

Ekki sama segir:

Krakkarnir sögðu að kennararnir höguðu sér ekkert betur en krakkarnir.

sama segir:

Já.

Ekki sama segir:

Mér fannst það svolítið merkilegt.

sama segir:

Það er bara þannig ef þú ferð ekki eftir þeim reglum sem þú setur undantekningalaust þá hætta krakkanir að bera virðingu fyrir þér.

sama segir:

Ekki sama segir:

Aginn kemur ekki bara frá kennurum. Hann er fyrst og fremst ræktaður heima fyrir.

sama segir:

Já já það er svo sem rétt. En þú getur haldið aga inn í bekk engu að síður. Man bara þegar ég var í skóla, þá voru allir út um allt hjá einum kennara

en allir sátu flottir hjá öðrum.

Ekki sama segir:

Já, en það er oft einfaldlega vegna þess að sumir kennarar eru "inn" á meðan aðrir eru "púkó".

sama segir:

já... ekki bara.

Ekki sama segir:

Það hafa ekkert allir kennarar persónuleika til að kenna. Og þeir sem hafa persónuleika til þess að kenna fara varla að kenna í skólum eins og staðan er í dag.

sama segir:

Ég man eftir tveimur sem voru með aga. Gamlir karlar... kunna að kenna en maður þorði ekki fyrir sitt litla líf að vera að gera annað en læra í tíma hjá þeim. Svo var einn sem varð einu sinni svo reiður út í stelpu sem sat fyrir aftan mig að hann dúndraði krítinni í hana en vildi ekki betur til en hún fór í hausinn á mér.

Ekki sama segir:

Úff

sama segir:

Mér fannst það reyndar ekkert mál. Bara skemmtileg saga til að segja í frímó.

 

 

 

Að lokum, ágætis kennslustund í hvernig gott er að taka á agamálum í skólastofu: 

 


Hvort er mikilvægara: minnið eða skilningurinn?

nemo

Fyrir nokkrum árum lenti nemandi minn í bílslysi sem varð því valdandi að skammtímaminnið varð fyrir skaða, þannig að hann átti afar erfitt með að læra hluti utanað. Þetta var mikið vandamál fyrir hann, enda var hann í háskólanámi að læra til sálfræðings. En tvö kvöld í viku sótti hann heimspekitíma í heimspekiskóla sem ég rak ásamt konu minni í Mexíkó.

Áður en hann byrjaði á námskeiðinu spurði hann mig hvort ég tryði því að hann gæti náð einhverjum árangri í námi, minnislaus eins og hann var. Ég sagðist ekki vita það, en spurði hvernig honum gengi að skilja samhengi ólíkra viðfangsefna.

Hann sagði að það gengi svo sem ágætlega, hann hafði bara ekkert pælt í því. Ég hélt því fram að ef hann lærði hlutina fyrst og fremst með skilning í huga, þá myndi hann ná árangri, og að heimspekinámskeiðið væri fín æfing til að auka skilning á ólíklegustu hlutum, enda er á slíkum námskeiðum rætt um allt milli himins og jarðar og leitað skilning á öllu því sem maður botnar ekkert í, með samræðu sem aðal vinnutækið.

Og vitið til. Hann setti sér að skilja hlutina í þaula og náði þessi áramótin hæstu einkunnum sem hann hafði nokkurn tíma náð í skóla, og næsta vor var hann hæstur í hópnum sínum, þrátt fyrir að minnið var enn skaddað. Hann starfar í dag sem sálfræðingur.

halsman-philippe-albert-einstein-7200016

Menntun er það sem stendur eftir þegar maður hefur gleymt öllu því sem maður hefur lært. (Albert Einstein) 


14 atriði sem þú vissir ekki um RÍTALÍN og OFVIRKNI af því þú nenntir aldrei að pæla í þessum málum

 

Heilinn er lítt kannaður heimur sem við verðum að ferðast um með gát. 

 

Eftir að hafa kíkt á bloggfærslu Sporðdrekans, sem benti á heimildarmyndina The Drugging of Our Children, sem hægt er að horfa á í fullri lengd með því að smella hér, og horft á hana, og eftir að hafa í nokkur ár furðað mig á alltof mikilli rítalínsneyslu íslenskra barna og alltof óábyrgs tals um eðli ofvirkni, þar sem venjuleg börn sem kunna ekki alveg að haga sér (óþekk börn) eru skilgreind sem ofvirk, sé ég mér ekki annað fært en að skrifa stutta grein um þessi mál.

 

  1. Rítalín er mild útgáfa af amfetamíni. Gárungar hafa kallað það kókaín fyrir börn.
  2. Rítalín inniheldur Methylphenidate. Sterkara en koffín. Veikara en amfetamín. Erfitt að venja sig af því vegna fráhvarfseinkenna.
  3. Samkvæmt alfræðiritinu Britannica er ekki vitað nákvæmlega hvað rítalín gerir við heilann, þó að vitað sé að það hefur þau skammtímaáhrif að fólk róast og verður einbeittara.
  4. Þó að rítalín hafi góð skammtímaáhrif getur það haft slæm langtímaáhrif, rétt eins og okkur getur fundist gott að borða mikið af nammi, en vitum samt að það er ekki gott í raun.
  5. Rítalín hefur varanleg, og hugsanlega skaðleg áhrif á heilastarfsemina, nokkuð sem hægt er að greina með heilaskanna.
  6. Rítalín gagnast í sumum tilfellum en getur verið skaðlegt í öðrum. Enginn getur vitað fyrirfram, hvort sem að viðkomandi er sérfræðingur í ofvirkni eða ekki, hver áhrifin verða; og því verður að fylgja notkun geðlyfja eftir með reglulegum vitjunum, ekki sjaldnar en vikulega.
  7. Rítalín er vinsælt í dag vegna vel heppnaðrar auglýsingaherferðar bandarískra lyfjafyrirtækja, og einkennum neyslusamfélags sem finnur hamingjuna í að kaupa lausnir í stað þess að finna þær sjálf.
  8. Ofvirkni hefur ekki verið skilgreind sem lífrænn sjúkdómur og þar af leiðandi ekki réttlætanlegt að bregðast við ofvirkni með lyfjum.
  9. Sykur- og sælgætisneysla eða vannæring valda því beinlínis að börn sýna einkenni ofvirkni, án þess að þau séu í raun ofvirk. Að gefa börnum rítalín sem mótefni við vannæringu eða sykurneyslu er mjög varasamt.
  10. Of mikið sjónvarpsgláp getur gert börn sljó (sama hvað sjónvarpsefnið er), og út frá því geta þau verið greind með ofvirkni, án þess að vera í raun ofvirk. Þau hafa bara vanist á aðgerðarleysið sem fylgir því að glápa á sjónvarp.
  11. Of mikil tölvuleikjaspilun eða Internetflakk geta gert börn óróleg í hegðun (sama hverjir leikirnir eru eða hvaða vefsíður eru heimsóttar) þar sem þau upplifa mikið frelsi til að stjórna í tölvuleikjum, venjast því, og finnst óþægilegt þegar komið er í aðstæður þar sem þau fá ekki að stjórna neinu. Þessi hegðun getur verið ranglega greind sem ofvirkni.
  12. Michael Moore telur vera samband á milli geðlyfjaneyslu og fjöldamorða í skólum, niðurstaða sem hann komst að nokkru eftir að hann gaf út Bowling for Columbine. Þó að Michael Moore liggi ekki á sínum skoðunum og ljóst er hverjum hann er á móti, þá hafa fáir kafað jafn djúpt í fjöldamorðin í Columbine og hann hefur gert. Að hann skuli sjá líklegt samband á milli geðlyfja og hegðun morðingjanna gefur sannarlega tilefni til frekari rannsókna.
  13. Notkun á rítalíni getur leitt til notkunar á enn sterkari og hættulegri efnum. 
  14. Ofneysla á rítalíni getur leitt til ógleði, pirrings, skjálfta, ofurhröðum viðbrögðum, vöðvatitrings, yfirliði (sem getur leitt til langvarandi meðvitundarleysis), alsælu, óskýrrar hugsunar, ofskynjunar, óráðs, svita, niðurgangs, hausverkja og jafnvel dauða. 

 

NOKKRAR ÁBYRGÐARLAUSAR SPURNINGAR:

Hverjir hagnast á því að gefa börnum rítalín?  

  • Lyfjafyrirtækin, því þau geta selt meira?
  • Skólarnir, því þeir fá meiri fjárframlög frá bæjarfélögum fyrir ofvirk börn?
  • Bæjarfélögin, því þau fá meiri fjárframlög frá ríkinu fyrir ofvirk börn?
  • Ríkið, því það fær fleiri skattborgara til að starfa þegar allt er (eða virðist vera) í lagi heima hjá þeim?
  • Geðlæknar, því þeir sjá ljósið, lausnina á vandamálinu? 
  • Kennarar, því það gerir skólastarf auðveldara?
  • Foreldrar, því þá er auðveldara að stjórna börnunum og þau geta verið sáttari við sjálf sig fyrir að vita að þetta er sjúkdómur sem þau hafa enga stjórn á?
  • Börnin sjálf, sem geta loksins hlýtt skilyrðislaust?
  • Sálfræðingar, því þeir þurfa ekki að greina dýpri vandamál og leysa þau, þar sem hægt er að leysa öll hegðunarvandamál með pillum? 

 

Sýnishorn úr The Drugging of Our Children:


mbl.is Rítalín algengara hér en í nágrannalöndunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Feður og mæður: Einkunnir barna ykkar munu hríðfalla. Hvað getum við gert?

Menntamál á Íslandi í dag

Menntamál á Íslandi eru í ólestri, og það er engum einum að kenna nema kannski helst ákveðnu stjórnleysi og öfgafullri efnishyggju. Hógvær hægristefna er ágæt. Stjórnlaus hægristefna eins og sú sem við upplifum í dag leiðir til hörmunga. Við höfum hallað okkur of langt til hægri, það er komin slagsíða á bátinn og ekki langt í að þjóðarskútan fari á hliðina. Vonandi leggur skynsama fólkið í brúnni áherslu á að rétta skútuna við sem allra fyrst. Það gerist varla á meðan allir halda að allt sé í allrabesta lagi.

Þegar hin ágæta Þorgerður Katrín talar um að mæla fyrir frumvarpi sem fjölgar námsárum fyrir kennara og skyldar þá til að ljúka mastersgráðu áður en þeir fara til kennslu, fullyrði ég að þetta frumvarp hefur ekkert að segja í sambandi við námsárangur barna framtíðarinnar. Sjálfur hef ég mastersgráðu og er með kennsluréttindi frá kennaraháskóla í Bandaríkjunum og kennsluréttindi bæði í Mexíkó frá Anahuac háskóla og á Íslandi í grunn- og framhaldsskólum, og get því fullyrt út frá eigin brjósti.

Ég hef gífurlegan áhuga á menntun, fræðslu og kennslumálum, en kemur ekki til hugar að starfa sem kennari á Íslandi við þær aðstæður sem kennarar búa við í dag. Ástæðan er einföld: ég gæti ekki séð fyrir fjölskyldu minni. Sérðu vel menntað fólk ljúka fimm ára námi til að starfa í skólum ef það þarf að lifa á fátæktarmörkum fyrir vikið, í þjóðfélagi þar sem mánaðarlaun kennara duga ekki fyrir mánaðarleigu á þriggja herbergja íbúð?

 

Hvað erum við að gera rangt og hvernig getum við bætt okkur? 

Við einbeitum okkur að því að dæla staðreyndum í börn og stimpla þau sem slök, meðal eða góð. En það sem þau vantar er væntumþykja, alúð og tími til að vera börn. Hefur ríkasta og hamingjusamasta þjóð heims ekki efni á slíkri gjöf í dag?

Kennarar eru úthrópaðir sem letingjar og tækifærissinnar, sérstaklega þegar nær dregur kjarasamningum, og hvað þá í verkfalli. Það er vitað mál að ef talað er illa um kennara sem stétt, bera börnin síður virðingu fyrir þeim. Hvað kostar ríkustu og hamingjusömustu þjóð heims að sýna kennurum meiri umhyggju? Kennarar eru fólk sem fer í kennslu því það hefur köllun í þetta starf. Enginn fer í kennslu vegna launanna. Aftur á móti hrekjast margir í burtu vegna þeirra.

Nemendur kvarta ef gerðar eru til þeirra of miklar kröfur, láta illum látum og komast upp með það. Agavandamál aukast, litlum glæpaklíkum fjölgar og siðferði hrakar. Af hverju eru börnin ekki að sýna námi meiri áhuga? Er það námsefnið og aðferðirnar? Eru það börnin sjálf? Er það þjóðfélagið? Er Ísland lasið?

 

Stefnan um minna brottfall 

Afleiðingar stefnunnar um minna brottfall hefur þegar haft alvarlegar afleiðingar. Heyrst hefur að framhaldsskólar séu í raun þvingaðir til að minnka kröfur til nemenda, þar sem að fyrirskipunin að ofan væri sú að allir ættu að ná. Af þessum sökum fara nemendur auðveldustu hugsanlegu leið í gegnum nám, forðast fög sem gera kröfur til þeirra. Svo er brottfall nemenda úr skólum tengt við fjárveitingar til skólans.

Í stað þess að fá greitt af ríkinu fyrir nemendur sem skrá sig í skóla, er aðeins greitt fyrir þá sem ljúka skólaárinu. Af þessum sökum er erfiðara að þvinga fram kröfur til nemenda og nemendur finna fljótt að það eru þeir sem hafa völdin, leggja undir sig skólann og komast upp með að stytta sér leið í gegnum námið.

Það mætti skoða hlutlægt hvaða áhrif þessi stefna hefur haft á nemendur á framhaldsskólastigi, og hvernig þetta breiðist út til háskólanna. Fólk vill einfaldlega klára sitt nám eins fljótt og auðveldlega og mögulegt er, sem er eðlileg ósk, en alls ekki til þess fallin að færa þeim verðuga menntun.

Áhugaverðar umsagnir:

Ég tók saman punkta af ýmsum bloggsíðum sem mér finnst lýsa ástandin menntamála á Íslandi nokkuð vel og því sem fólki finnst að gera þurfi til að bæta þessi mál. Ég tek ekki undir allar hugmyndirnar, og finnst sumar þeirra beinlínis hættulegar en þær gefa samt málinu ferskan blæ.

 "Liður í því að gera skólakerfið betra gæti hugsanlega verið að að hlusta betur á fólkið í landinu." Gunnlaugur Br. Björnsson

"Hærri laun fyrri kennara !!!! Gera kennara jákvæðari gagnvart starfi sínu (er nú ekki að segja að þeir séu eitthvað mjög neikvæðir samt) og skapa okkur þannig samfélag að kennarar vilji koma og kenna börnum og séu ánægðir með það sem þeir fá í staðinn !!!!" Inga Lára Helgadóttir

"Stjórnun og efling fræðslumála á fyrstu stigum er eitt það mikilvægasta í þessu þjóðfélagi, því það eru þau börnin  sem munu erfa landið." Jón Svavarsson

"Þetta kallar á mikla endurskoðun á málinu og ég hugsa að ég ræði þetta á borgarstjórnarfundi á eftir.  Þetta kallar á meiri upplýsingar um árangur, akkúrat það sem við Sjálfstæðismenn vildu í síðasta meirihluta fara að gera meira af.   Einnig kemur inn í þessa umræðu agamál, skóli án aðgreiningar og opin kennslurými sem ég persónulega tel vera mikið álag fyrir kennara." Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir

"Það eru 6 börn á hvern starfsmann í leikskóla, en 20 í grunnskólum. Agi og virðing kemur ekki frá skólunum heldur heimilunum. Almennileg kennsla er það sem við viljum fá frá skólunum fyrir börnin okkar. Finnst þér ekki vera almennileg kennsla í íslenskum skólum almennt? Ég er kennari og finnst að margt megi betur fara, í fyrsta lagi hafa of margir góðir kennarar hrökklast úr starfi sökum lélegra launa, en það eru allir að gera sitt besta. Við þurfum bara að reyna að laða bestu kennarana aftur inn með hærri launum." Helga (athugasemd hjá Nönnu Katrínu Kristjánsdóttur

"Börnin okkar og þeirra framtíð virðast ekki vera metin mikils og mesta virðingin og peningar fara allt annað en í mennta- og uppeldismál." Nanna Katrín Kristjánsdóttir

"Í Finnlandi er heildarhugsun/umhyggja í kringum börnin í skólakerfinu,- þar fá öll börn heitan mat í hádeginu sér að kostnaðarlausu ( og svo hefur verið síðan í heimstyrjöldinni síðari), ef barn þarf iðjuþjálfun/sjúkraþjálfun/talþjálfun o.s.frv. þá skilst mér að það sé tekið á því innan skólanna.  Eftir því sem mér er sagt þá er í raun hlúð að öllu í kringum hvert barn á heildrænan hátt innan skólans,- í það fer fjármagn.  Grunnhugmyndin er greinilega umhyggja og heildstæði.  Við hér erum líklega of mikið að búta börnin í sundur,- taka á þessum þætti hér og hinum þættinum þarna." Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

"Nú kemur svo í ljós að nemendur eru í afturför í stærðfræði miðað við fyrri kannanir. Enginn þarf að undrast þetta. Gaman væri að menntamálaráðherra settist niður með þær kennslubækur, sem nú er boðið upp á í grunnskólum landsins t.d. þá sem kallast Geisli. Ég er satt að segja undrandi á því hversu lítið hefur heyrst um þá bók, en fjölmargir kennarar svitna við það eitt að heyra á hana minnst... Lausn: Hættið við að lengja kennaranám, en setjið þess í stað upp skyldunámskeið fyrir kennara í eðlisfræði og stærðfræði. Yfirvöld menntamála endurskoði allar námsbækur og vinni að endurbótum þar sem þeirra er þörf." Þjóðarsálin

"Við þurfum ekki að miða menntunina að því að framleiða kjarneðlisfræðinga í breiðum bunum, en það er nauðsynlegt að klárir krakkar fái hvatningu og örvandi kennslu." Pétur Henry Petersen

"Hvað sem veldur er ekki gott og slæmt til þess að hugsa að með jafn miklu námsframboði og góðum kennurum (áður en flóttinn brast í stéttina í betur launuð störf) að niðurstaðan sé svona slæm... Tökum sem dæmi að í NAT 113 var  hlutapróf á haustönn sem nú er senn liðin. Kennarinn fékk ákúrur hjá nemendunum um að nota óskiljanleg orð á borð við "Uppistöðulón" og "Fallvatnsvirkjun". Kennaranum fannst nóg um og sagði að þetta stæði með útskýringum í bókinni." Þrymur Sveinsson

"Árið 2006 voru undir 10% af fjárlögum notuð í menntamál. Það hlutfall hækkaði í 2007 í 13,5%. En þetta hefur ekkert með grunnskóla að gera. Því þeir eru komnir á sveitafélögin og þau hafa ekki bolmagn til að gera vel við Grunnskólana, vegna þess að þeir fengu ekki skattstofna með t.d. hærra hlutfall af tekjuskatti." Johnny Bravo  

"Er ekki alveg fáráðlegt að sleppa þessari mikilvægu breytu í umræðunni.  Hvers vegna ættu illa launaðir kennarar að skila af sér hágæðaverkum? - sem þeir þó reyndar gera allflestir." Þórdís Þórðardóttir

"Bara svona að pæla, kannski hefur það eitthvað að segja að kennarar eru orðnir lægst launaða háskólamenntaða stéttin. Kennarar flýja til bankanna þar sem þeir fá hærri laun við að afgreiða kúnna. Á meðan skólarnir eru að hluta til mannaðir ómenntuðum leiðbeinendum og "lélegri" kennurum og bestu kennararnir eru í öðrum störfum er ekki við öðru að búast!" Helga, Drottningar og drekaflugur

"Alveg er það magnað - að þegar kennarar flýja umvörpum kennarastarfið þá kemur menntamálaráðherra fram með hugmyndir um lengingu kennaranáms.  Þá held ég að stefnan ætti heldur að vera að skapa efnahagslegan grundvöll fyrir kennara að geta kennt... Með því að krefjast lengra náms munu án efa útskrifast hæfir kennarar - en um leið munu þeir verða enn eftirsóttari í önnur betri launuð og betur metin störf... Það er sorglegt að verða vitni að brotthvarfi góðra kennara ár eftir ár - í ár er ég að upplifa lélegustu kennara sem mín börn hafa nokkru sinni haft.  Það þýðir ekki lengur að berja hausnum við stein og halda því fram að allir skólar séu fullmannaðir - það er auðvitað hægt að fylla allar stöður með því að slaka á kröfunum." Arró, Tæknibloggið

"Það þarf að auka áherslu á skapandi skólastarf og ekki síður á fjölbreytni í skólunum og lesskilning, ekki bara hraðlestur." Hlynur Hallsson

"Í af listum pistli sem ég skrifaði fyrr í vetur fjallaði ég um þetta lamaða skólakerfi sem byggir á einni spurningu, "Veistu svarið". Minntist þá einnig á uppruna orðsins "education" sem er úr latnesku "educare" og merkir "að draga fram" eða "að ná út". -Ekki "að troða inn", sem virðist sá skilningur sem stjórnvöld leggja á menntamál." Ransu, athugasemd hjá Hlyni Hallssyni

"Að mínu mati er lausnin sú að losa skólakerfið úr viðjum miðstýringar stjórnmálamanna sem þykjast vita allt alltaf og koma þessum rekstri til einstaklinga og félagasamtaka sem reka skóla á non-profit grunni í bland við hið opinbera kerfi.  Þá mun okkur farnast betur.  Norðurlönd og aðrar þjóðir eru mun duglegri við þetta og um leið opnari fyrri lausnum en hin íslenska þjóðarsál sem er að tortíma öllu frumkvæði innan hins ríkis- og sveitarsjórnarvædda kerfis." Sveinn, athugasemd hjá Hlyni Hallssyni

"Ég held að þess mikla atvinnuþátttaka skólabarna sé aðal ástæðan fyrir þessari niðurstöðu. Unglingar sem eru í krefjandi námi og hafa einnig einhver áhugamál og þurfa góðan svefn geta ekki stundað aðra vinnu án þess að það komi niður á náminu. Reynum að halda skólabörnum frá vinnu með námi. Og alls ekki stytta framhaldsskólann. Leyfum framhaldskólanemum að þroskast félagslega meðfram námi. Með því að taka þátt félagsmálum og í lífinu almennt meðan það er fallegast og skemmtilegast." G Kr

"Við þurfum að hugsa okkar ráð í kjölfar þessarar niðurstöðu. Það getur varla talist annað en lykilmál til að taka á að ungmenni landsins séu með lélegan námsárangur og lestrarkunnáttu þeirra hraki. Það verður áhugavert að sjá hvernig að yfirmenn menntamála taki á þessari niðurstöðu." Stefán Friðrik Stefánsson

"Þetta próf skipti engum í mínum skóla máli. Fáir lögðu sig því fram og má líkja þessu við kannanir sem eru gerðar í grunn og framhaldsskólum þar sem maaaaaaargir sem ég þekki bulla þegar spurt er um fíkniefnaneyslu, reykingar, árangur í skóla, sennilega til að mótmæla þessum könnunum. Annars veit ég ekkert hvar ég lenti á þessari PISA könnun og því ómögulegt að segja til um eitt og annað. Ég gæti verið langt yfir meðaltali." Hlynur Stefánsson

"Það er nefnilega þannig að maður hefur ekki forsendur til að læra ef manni líður ekki vel og treystir ekki kennaranum sínum." Kolbrún Ósk Albertsdóttir

"Ég hef lengi vitað að yngri kynslóð þessa lands reiði ekki vitið í þverpokunum.  Nú er ég svo gamall sem á grönum má sjá og man því betri tíð með blóm í haga.  Þegar ég var á mínum barnaskólaaldri þá lærðum við eitthvað gagnlegt!  Ég man að ég þurfti að læra kverið mitt og lexíurnar á hverjum dagi, annars var ég hýddur.  Nú til dags virðist mér barnabörnin mín ekki læra ýkja mikið.  Og þá sjaldan sem þau ná að rífa sig frá sjónvarpinu og tölvunni þá er það til að læra einhverja þvælu, eins og kristnifræði eða lífsleikni!  Það væri nær að kenna þeim að kveðast á... Menntamálaráðherra ætti að sjá sóma sinn í að stokka eitthvað upp í kennarastéttinni.  Mér virðast vera allt of margir vanhæfir grunnskólakennarar á Íslandi.  Og hvernig stendur á því að börn kunna ekki ljóð helstu þjóðskálda utan að lengur??!  Með þessu áframhaldi þarf Ísland á þróunaraðstoð að halda áður en mínir dagar eru taldir." Jón Guðmundsson

"Fókusinn hjá okkur íslendingum í menntamálum er að fjölga háskólum og slá öll heimsmet í fjölda nemanda í framhaldskólanámi.  Grunnurinn hefur alveg farið í öskustónna í þessu þindarlausa kapphlaupi að reisa háskóla í hverri sveit og byggðarlagi." K Zeta


mbl.is Staða Íslands versnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband