Færsluflokkur: Vísindi og fræði
Fræðilegar vísbendingar um hætturnar á bakvið RÍTALÍN þegar um ofneyslu er að ræða
18.12.2007 | 21:45
Vegna mikils álags á öðrum vígstöðum hefur það tekið mig töluverðan tíma að næla mér í mínútur hér og mínútur þar til að leita eftir heimildum um skaðsemi rítalíns og annarra ofvirkniklyfja. Ég er á þeirri skoðun að þessi lyf séu skyndilausn á vanda sem ekki er hægt að leysa í skyndi, þar sem heilbrigðum börnum á Íslandi virðist gefið rítalín til að róa þau niður. Það kemur hins vegar í ljós að rítalín hefur öfug áhrif á heilbrigða einstaklinga.
Ég lofa í fyrirsögn að benda á fræðilegar vísbendingar, og nota ekki hugtakið 'sannanir' þar sem samkvæmt mínum skilningi á vísindum sanna þau aldrei neitt endanlega, heldur eru sífellt tilbúin til að rannsaka hlutina nánar. Þegar sagt er að eitthvað sé 'vísindalega sannað', þá fyrst þarf maður að fara að gát og athuga hvað 'sönnuðinum' hefur yfirsést.
Af hverju tel ég miklar líkur á að um ofneyslu sé að ræða á Íslandi? Tölurnar segja að rúm 20% íslenskra barna séu á rítalíni, á meðan eðlileg tíðni ofvirkni sé 5-10%. Þetta er marktæk skekkja.
Ástæðan fyrir þessari grein má finna í athugasemdum greinanna
14 atriði sem þú vissir ekki um RÍTALÍN og OFVIRKNI af því þú nenntir aldrei að pæla í þessum málum
Leyndardómurinn að baki velgengni ofvirknislyfja (methylphenidate) eða réttlæting nytjahyggjunnar
þar sem ég var beðinn um heimildir fyrir skoðunum mínum. Ég tel þetta mikilvægt mál og þetta réttláta kröfu, og ákvað því að verða við henni. Þar sem að ég er áhugamaður um þessi mál í mínum frístundum, hef ég í lestri mínum ekki skráð á nákvæman hátt allar þær ritgerðir sem ég hef lesið um, né eigin reynslu. Nú skal bæta það.
Ég biðst forláts á að hafa ekki þýtt greinarbrotin yfir á íslensku, en það hefði einfaldlega kostað mig enn meiri tíma og vinnu sem þýtt hefði með annríki mínu að greinin hefði ekki birst fyrr en eftir áramót. Það finnst mér of langur tími.
Reyndar er ég ekki alveg menntunarlaus um þessi mál, þar sem að ég hef meistaragráðu í menntunar- og kennslufræðum, þar sem meðal annars er farið í rannsóknir á slíkum málum, auk víðtækrar reynslu af kennslu á barna-, unglinga og fullorðinsstigi.
En nú að ósk Kristínar:
Mætti ég biðja þig um að bæta inn í pistil þinn hvaðan heimildir þínar koma, þar sem kemur fram að þú ert hvorki læknis- né sálfræðimenntaður, fyrir þessu:
"... því að ofvirkniklyf hafa áhrif á þær heilamyndir sem skannaðar eru eftir að lyf hafa verið tekin. Hins vegar geta þessi ofvirkniklyf verið stórhættuleg þeim sem eru ekki ofvirkir og fá lyfin samt.
Læknisfræðilegt viðmið er að í hverju samfélagi séu um 5-10% barna ofvirk. Á Íslandi hafa sums staðar 44,8% drengja verið greindir ofvirkir og algengt er að 25,1% barna séu greind ofvirk að meðaltali á Íslandi. Þetta eru óeðlilega háar tölur sem krefjast viðbragða." (Kristín Kristjánsdóttir)
Það flokkast sem nákvæm vinnubrögð að geta áreiðanlegra heimilda, en þar sem ég leit á grein mína fyrst og fremst sem bloggfærslu um eigin skoðanir hafði ég engar áhyggjur af því.
Ég þekki raunveruleg tilfelli þar sem fólk er með athyglisbrest, sjúkdóminn athyglisbrest (sem má líka kalla röskunina athyglisbrest - sem er algjört aukaatriði) - og um það fólk er allt önnur saga. Ég get samþykkt að þeir einstaklingar sem eru sannarlega með athyglisbrest fari í lyfjameðferð, og jafnvel þó að sönnunin sé ekki 100% örugg, en þá verður meðferðin sem fylgir að vera vönduð og vel fylgst með af fagmanni.
Greinarkornin sem hér fyrir neðan gefa sterklega til kynna að ofvirkniklyf byggð á metýlfen séu ávanabindandi og hættuleg sé ekki farið varlega með þau. Einnig er gerð skýr grein fyrir því að fræðingar og vísindamenn eru þessa dagana sífellt að átta sig á fleiri hættum tengdu þessum efnum.
Kristín gagnrýndi að ég skyldi ekki svara öllum athugasemdum fyrri færslu minnar. Ég hef lesið þær allar með góðri athygli, og meðtekið þær þó að ég hafi ekki náð að svara þeim öllum. Mér finnst þetta einfaldlega mjög áhugavert efni.
Ég þarf að sjá sterkari gögn sem sýna fram á greiningu viðkomandi með geðröskun eins og ofvirkni til að geta samþykkt geðlyfjagjöf. Geðlyfjagjöf er þægileg lausn og hagkvæm, en ég tel hana vera byggða á siðferðilegum forsendum sem ég er ekki sáttur við.
Hvort er réttlætanlegt að segja: "Ég gef barninu þínu rítalín því það eru ekki til næg gögn sem mæla gegn því og um skaðsemi þess," eða "Ég gef barni þínu ekki rítalín því gögn um afleiðingar þess eru ekki nægjanlegar." Athugið að þessi gögn eiga eftir að verða til, rétt eins og gögn um drykkju og reykingar. Við erum bara komin í næsta samþykkta dóp fyrst sígaretturnar eru hættar að virka.
Sú skoðun, að það sé í lagi að sumir skaðist varanlega til að heildin stórgræði, finnst mér ekki réttlætanleg. Skaðinn gæti verið eitthvað sakleysislegt eins og hæfni til skapandi hugsunar eða grafalvarlegur eins og fíkn á geðlyfjum, síaukinn pirringur og jafnvel ofskynjanir.
Ég undirstrika lykilsetningar.
Heimildir fyrir ofgreiningu á ofvirkni og ofneyslu rítalíns á Íslandi:
"Læknisfræðilegt viðmið er að í hverju samfélagi séu um 5-10% barna ofvirk. Á Íslandi hafa sums staðar 44,8% drengja verið greindir ofvirkir og algengt er að 25,1% barna séu greind ofvirk að meðaltali á Íslandi. Þetta eru óeðlilega háar tölur sem krefjast viðbragða." (HB)
Úr Læknablaðinu, 12. tbl. 93. árg. 2007:
"Niðurstöður: Algengi metýlfenídatnotkunar meðal barna (0-18 ára) á Íslandi hækkaði úr 0,2%0 árið 1989 í 25,1 %0 árið 2006. Notkun var að jafnaði þrisvar sinnum algengari meðal drengja en stúlkna. Algengið var árið 2006 hæst við 10 ára aldur (drengir 77,4 %0, stúlkur 24,3%0). Meðalársalgengi metýlfenídatnotkunar 2004 til 2006 var hæst meðal drengja á Suðurnesjum (44,80%0) og stúlkna á Norðurlandi vestra (17,06%0) en lægst á Vestfjörðum (drengir 23,44%0, stúlkur 8,06%0). Notkun stuttverkandi metýlfenídats minnkaði frá árinu 2003 (18,7%0) til ársins 2006 (6,8%0) en notkun langverkandi metýlfenídats jókst úr 14,4%0 í 24,6%0. Barnalæknar ávísuðu oftast lækna metýlfenídatlyfjum, 41% af heildarfjölda ávísana árið 2006." (Helga Zoëga aðferðafræðingur, Gísli Baldursson barna- og unglingageðlæknir, Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir.)
Og heimildir fyrir "... því að ofvirkniklyf hafa áhrif á þær heilamyndir sem skannaðar eru eftir að lyf hafa verið tekin. Hins vegar geta þessi ofvirkniklyf verið stórhættuleg þeim sem eru ekki ofvirkir og fá lyfin samt." (HB)
Um það að rítalín geti haft varanlegar breytingar á heilann, úr Reuters frétt frá 12. nóvember, 2001.
"When the active dose (of Ritalin) has worked its way through the system, they consider it 'all gone.' Our research with gene expression in an animal model suggests that it has the potential for causing long-lasting changes in brain cell structure and function." (Fred A Baughman Jr. læknir)
Þetta þýðir að þó breytingar á heila séu ekki strax mælanlegar, þá geta breytingar átt sér stað á genastigi yfir lengri tíma. Þessar breytingar gætu komið í ljós á fullorðinsárum, elliárum eða jafnvel í afkvæmum.
Um hættuna sem getur fylgt ofvirknilyfjum, sérstaklega þegar þau eru tekin í of stórum skömmtum:
Úr Australian and New Zealand Journal of Psychiatry, Volume 34, Issue 4, Page 645-650, August 2000.
"The clinical and experimental data justify the use of chronic low-dose stimulant treatment of ADHD in adults, with the recommended upper limit of dose being 1 mg/kg for methylphenidate and 0.5 mg/kg for dexamphetamine. There is no empirical evidence of greater improvement with higher doses and any beneficial effect is likely to be compromised by the adverse effects, some of which can be very serious. The recommended doses should be exceeded only after careful consideration and objective documentation of beneficial and adverse consequences. Monitoring of drug levels in blood may be of some value for compliance or pharmacokinetic considerations, as there is a direct relationship between blood and brain levels as well as dopamine transporter occupancy. These recommendations are tentative and further clinical research is warranted." (Perminder S. Sachdev, Julian N. Trollor (2000))
Glæný rannsóknarskýrsla um ávanabindandi áhrif ofvirknilyfja
Úr Biochemical Pharmacology, Volume 75, issue 1, January 2008, Pages 196-217
"Psychostimulants are a broadly defined class of drugs that stimulate the central and peripheral nervous systems as their primary pharmacological effect. The abuse liability of psychostimulants is well established and represents a significant public health concern. An extensive literature documents the critical importance of monoamines (dopamine, serotonin and norepinephrine) in the behavioral pharmacology and addictive properties of psychostimulants. In particular, the dopamine transporter plays a primary role in the reinforcing and behavioral-stimulant effects of psychostimulants in animals and humans... " (Leonard L. Howell og Heather L. Kimmel)
Þeir Howell og Kimmel vísa í rannsókn sem birtist í American Journal of Addictions, þar sem sannað er að rítalín sé misnotað af unglingum, þó ekki í sama mæli og þegar um önnur sterkari eiturlyf er að ræða.
Innskot: Methamphetamine er ekki það sama og Methylphenidate (sem er notað í rítalín). Aftur á móti er methamphetamine hægt að nota við óvirkni þegar methylphenidate verldur sjúklingi of miklum aukaverkunum. Það væri áhugavert að rannsaka af frekari dýpt sambandið á milli þessara tveggja lyfja.
Úr American Journal on Addictions, Volume 13, issue 4, January 2004, Pages 381-389
"The prevalence of methylphenidate and dextroamphetamine misuse and abuse was examined in 450 adolescents referred for substance abuse treatment. Twenty three percent reported nonmedical use of these substances and six percent were diagnosed as methylphenidate or dextroamphetamine abusers. Abuse was more common in individuals who were out of school and had an eating disorder. Methylphenidate and dextroamphetamine abuse appears to be much less common than abuse of most other substances. It does occur, however, and parents and schools need to exert greater control over the dispensing of these medications.
Um hugsanleg varanleg áhrif sterkari ofvirkniklyfja en rítalíns (Methamphetamine) á heilastarfsemi. Miðað við að notkun á ofvirkniklyfjum breyti heilastarfsemi, segir það sig sjálft að ekki sömu niðurstöður fást út úr heilaskönnun sem er gerð fyrir og eftir lyfjaneyslu.
Úr Neurocognitive Effects of Methamphetamine: A Critical Review and Meta-analysis, Neuropsychology Review, Október, 2007.
"It is unknown whether the changes in brain structure and function evident in persons with methamphetamine (MA) dependence are reversible. Large-scale outcome studies that have followed MA users over longer periods of time (i.e., years) do not exist, and therefore we do not know if any or all of the brain changes will remit with prolonged abstinence." (Scott, Woods, Matt, Meyer, Heaton, Atkinson, Grant).
Ég hef leyft mér að efast um eigin skoðanir, en í stað þess að þær verði staðreyndum að bráð sem hrekja þær, rekst ég stöðugt á það að grunur minn um hættur rítalíns er studdur nokkuð vel af vísindamönnum, þó að dæmin séu vissulega fá í dag. En er ekki eitt dæmi í sjálfu sér nóg til að sýna fram á að ofvirkniklyf geti verið hættuleg og sérstaklega þegar neysla þeirra er komin fram úr öllu hófi á landsvísu?
Tekið skal fram að ég hef rætt við einn íslenskan og einn erlendan sálfræðing sem hafa verið að vinna við og eru að vinna í málefnum tengdum ofvirkni. Það hefur komið mér á óvart og verið mér hvatning hversu innilega þeir hafa tekið undir það sem ég hef að segja um þessi mál. Ég kann þeim bestu þakkir fyrir, og sérstaklega HK fyrir allt lesefnið.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Vanþekking er ekki vandamál; hún heillar
29.7.2007 | 11:40
Í veikindum mínum ákvað ég að stytta mér stundir við að kíkja á síðustu þætti Jon Stewart. Stewart er einn af þeim fáu húmoristum sem geta kitlað hláturtaugar mínar inn að beini, nokkuð sem maður þarf á að halda í leiðinda veikindum. Einn af viðtalsþáttum hans kveikti svolítið í mér, og ég held að hann gæti kveikt áhuga hjá fleirum sem horfa á.
Jon Stewart er fyrirtaks þáttarstjórnandi, þar sem allt kemur honum við, sérstaklega hlutir sem snerta stjórnmál og lykta af hræsni og spillingu. Hann er vanur að sneiða slík mál með hárbeittum húmor og satíru. Hann gerir samt fleira en að gagnrýna stjórnvöld. Hann reynir einnig að benda á hluti sem eru vel gerðir. Hann á það til að stjórna viðtölum við framúrskarandi fólk á ýmsum sviðum. Eitt af skemmtilegustu viðtölum sem ég hef séð hjá honum er við stjarneðlisfræðinginn Neil deGrasse Tyson, stjórnanda Nova Science.
Smelltu á myndina til að skoða myndbandið á Comedy Central:
Hugleiðingar eftir áhorfið:
Ég held að kennarar hefðu gott af því að skoða þetta myndband og muna að þegar nemendur komast í námunda við jafn mikinn áhuga á viðfangsefninu og Tyson sýnir, þá geta þeir ekki annað en smitast af honum. Málið er að komast eins nálægt því óþekkta og við komumst; því þar finnum við þverhnípi sem þarf að brúa. Það getum við gert með því að spyrjast fyrir um grunnforsendur þekkingar okkar og með þvi að skoða þau svör sem við lifum við í dag.
Vísindin koma ekki með nein endanleg svör við spurningum, heldur aðeins stökkpalla í átt að nýjum vísbendingum um það sem við þekkjum ekki. Vísindaleg þekking verður fyrst til þegar við höfum tekist á við þessar spurningar í eigin persónu. Ef einhver segir þér hvernig hlutirnir eru og útskýrir það fyrir þér, verður ekki til þekking; aðeins trú. Ef þú leggur á þig nógu mikla vinnu til að uppgötva þá af eigin raun, þá fyrst verður raunveruleg þekking til. Þetta á við um öll svið þekkingar, ekki aðeins vísindalega.
Það getur verið ógurleg vinna fyrir hvern einstakling að grafa sig inn í öll möguleg mál til að öðlast sanna þekkingu. Það virðist ógerningur. Þess vegna lifum við flest eftir annars stigs þekkingu og trú frekar en sannri þekkingu; að öðlast sanna þekkingu er tímafrekt og krefjandi. Okkur getur einnig þótt erfitt að átta okkur á muninum. Sá sem þekkir muninn á trú og þekkingu er betur staddur en þeir sem ekki gera það.
- Þekkir þú muninn á trú og þekkingu?
- Hvernig greinum við skilin á milli þess sem við þekkjum og þess sem við trúum?
- Er munur á að 'trúa' einhverju og að 'trúa á' eitthvað?
- Er vanþekking vandamál eða blessun?
- Þegar þú uppgötvar að þú veist ekki eitthvað, hvernig bregstu við? Með því að hylma yfir eigin vanþekkingu og skammast þín eða taka á vanþekkingunni með jákvæðum hætti, sem spennandi viðfangsefni?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Feminismi - hættuleg hugsjón eða ágætis hugmynd?
23.5.2007 | 23:54
Hér á eftir koma pælingar sem sluppu milli fingra minna eftir að hafa lesið síðustu færslu bloggvinu minnar Hafrúnar, en þar spyr hún um markmið feminismans. Þá fór ég að velta fyrir mér hvað feminisminn væri, og áttaði mig á að ég hef yfirleitt skilið feminismann sem fína hugmynd; en sé síðan manneskjur nota feminismann sem hugsjón, og sé þá hættu á bakvið hugtakið. Þá fór ég að velta fyrir mér sambandinu á milli hugmynda og hugsjóna.
Hugsjónir eru ekki ólíkar trúarbrögðum. Fólk lifir fyrir þær og deyr fyrir þær. Hugsjónir valda meira böli en hamingju. Hugmyhdir gefa fólki svigrúm til að anda að sér straumum og stefnum, og tíma til að íhuga málin. Hugsjónum er haldið á lofti í vantrausti, en hugmyndum af trausti. Þú þarft að berjast fyrir hugsjón, en hugmyndir eru eða eru ekki til staðar í viðkomandi vitund.
Sumar hugsjónir eru fullar af lifandi gildum; en maður áttar sig á hverjar þessar hugsjónir eru þegar maður þarf að horfast í augu við hvað er verðmætast í lífinu. Oft eru fyllstu hugsjónirnar fjölskyldan og heimilið; eitthvað sem við getum höndlað og auðveldlega viðurkennt að við erum tilbúin að lifa og deyja fyrir - en það er nokkuð ljóst að þessi hugsjón hlýtur að vera göfug, nema þegar búið er að úrkynja fjölskylduhugtakið, eins og þegar um glæpafjölskyldur eða mafíur er að ræða. Aftur á móti er enginn tilbúinn til að deyja fyrir hugmyndina um fjölskyldu; enda eru hugmyndir til að auka skilning, og færa sjálfviljuga einstaklinga til verka, en ekki þræla sem fylgja hugsjónunum einum.
'Frelsið' getur verið hugsjón, en líka hugmynd. Sem hugsjón getur frelsishugtakið verið hættulegt, þar sem að það er notað til að koma hugmyndafræði eins hóps yfir á hugmyndafræði annars; þar sem að túlkun mín á frelsi getur verið gjörólík þinni túlkun. Einn túlkar frelsi sem tækifæri til athafna; en annar hugsar frelsi sem tækifæri til að takmarka athafnir annarra. Sé frelsishugtakið notað sem hugsjón er ljóst að árekstrar verða á hugmyndaheimum fólks og ein hugsjón frelsis nær yfirhöndinni yfir aðra hugsjón frelsis. Einn segir: ég vil að allir séu frjálsir til að kjósa. Annar segir: ég vil að allir séu frjálsir til að deyja fyrir Guð sinn. Enn annar segir: ég vil vera frjáls til að drepa alla sem eru mér ósammála. Hugmyndin um frelsi gerir þetta mál hins vegar bæði flókið og einfalt; hún segir okkur að við getum verið frjáls til að gera eitthvað eða frjáls frá einhverjum höftum. Það er aukaatriði hverjir þessir möguleikar og hindranir eru; aðalatriðið er að slíkt tengist öllu því sem skilgreint er sem frelsi.
'Réttlæti' getur líka snúist upp í sjúka hugsjón, en sem hugmynd er réttlæti mikilvægt. Að berjast fyrir réttlæti er ekki það sama og að ástunda réttlæti. Dæmi um réttlæti sem hugsjón er þegar fógeti hundeltir mann sem stelur sér brauði vegna hungurs, eða lögregluþjónar sem í leyni reyna að nappa ökkuþóra á götum borgarinnar, en ef viðkomandi hefðu hugmyndina um réttlæti að leiðarljósi gætu þeir auðveldlega gert sér grein fyrir að það er ranglátara að handsama mann fyrir að stela sér brauðbita heldur en fyrir manninn að stela brauðbitanum, og einnig er ranglátara fyrir lögregluna að setja gildrur fyrir fólk og liggja í leyni heldur en að gera sig eins sýnilega í umferðinni og mögulegt er.
Þannig að í raun ber að varast hugsjónir. Það er spurning hvort að hugsjónir séu í raun hugmyndir sem færðar hafa verið yfir í veruleikann, og við það verði þær sjálfkrafa skakkar og skældar; rétt eins og barn sem reynir að teikna fullkominn hring, eða maður sem reynir að sjá sitt eigið sjálf í spegli.
Hver er hugsjónin um feminisma? Er hann sá að konur fái að ráða öllu? Er hann sá að konur og karlar hafi jafnan rétt og jafna möguleika? Er hann sá að konur fái að kúga karla eins og karlar hafa kúgað konur? Getur verið að ef feminismahugsjónin (hver sem hún í raun og veru er) verði að veruleika, spretti fram gagnaflið karlismi, sem verður síðan beitt til að útrýma feministahugsjóninni og til að kúga konur á ný?
Hugmyndin um feminisma finnst mér góð, hugsjónin varasöm. Hugmyndin kallar á umhugsun og mat á aðstæðum, hún er ákall á samviskuna. Hugsjónin er krafa um að eitthvað sé gert, hvort sem að það er réttlátt eða ekki. Það þarf aðeins að vera réttlætanlegt í samræmi við hugsjónina. Það er ekki nóg.
Að lokum, nokkrar spurningar.
- Eru hugsjónir efni, en hugmyndir form?
- Eru allar hugsjónir afbökun af hugmyndum?
- Geta hugsjónir tekið á sig form?
- Er til dæmi um hugsjón sem er göfug frá öllum hliðum?
- Er farsælt samspil hugsjóna og hugmynda mögulegt?
- Eru allar hugsjónir sem afneita öðrum hliðum málsins fordómar?
- Eru fordómar byggðir á hugsjónum?
- Hvernig tengjast hugsjónir þrjósku annars vegar og gagnrýnni hugsun hins vegar?
- Getur heilbrigð skynsemi verið hugsjón?
Af hverju banna 'þeir' eða ritskoða skoðanir og þekkingu?
14.3.2007 | 22:35
Í pistli um ritskoðun leiddu hugleiðingarnar mig út í pælingar um bókabrennur og eyðileggingu á gögnum til að vinna málstað stjórnenda fylgi. Þá hugsaði ég með mér að ritskoðun og bann á ákveðnum upplýsingum væri sami hluturinn. En eftir nánari umhugsun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki.
Ritskoðun sýnist mér vera lævís leið til að útiloka ákveðnar upplýsingar. Klipptar eru senur úr kvikmyndum eða blaðsíður úr bókum, eða efninu jafnvel breytt aðeins til að hagræða sannleikanum.
Bönn á kvikmyndum og bókum er hins vegar allt annar handleggur. Íranskir stjórnmálamenn fullyrða að 300 sé árás Hollywood á íranska ríkið. Eins fáránlegt og þetta hljómar, þá festist þetta í hausnum á mér og sama hvað ég hristi mig til náði ég ekki að losa mig við þá hugmynd að bönn á listaverkum hljóti að vera mikilvæg vísbending um stöðu viðkomandi ríkis í heiminum og mannkynssögunni. Þegar þjóð fer að banna einhver svona hugverk þá fer sírena í gang. Til dæmis hef ég á tilfinningunni að kommúnistaríki, fasistar og nasistar; sem ganga út frá einni hugmyndafræði - hneigist til harðstjórnar og þeirri kröfu að stjórnendum sé fylgt skilyrðislaust af lýðnum - og að það sé þetta fólk, þegar það kemst til valda - sem bannar listaverk af ólíkum ástæðum.
Nú vil ég renna yfir lista af bókum sem hafa lent á bannlista víða um heim og í mannkynssögunni, og ég velti því fyrir mér hvort að þessi fullyrðing sé sönn: að eitthvað alvarlegt sé að þjóðfélagi sem sér sig knúið til að banna listaverk eða hugverk af einhverju tagi. Ég held nefnilega að eitthvað alvarlegt sé að þjóðfélagi þegar kaffæra þarf andstæðar skoðanir. Helstu óvinir lyga, blekkinga og ritskoðunar á þekkingu eru gagnrýnin hugsun, mannúð, pólitísk ranghugsun, tjáningarfrelsi og trúfrelsi.
Ég vil taka það fram að mér finnst fullkomlega eðlilegt að banna allt það klám sem hefur sannarlega orðið til með kynferðislegu ofbeldi. Aftur á móti getur sönnunarbyrðin verið frekar erfið í slíkum málum. Og þá tel ég að verið sé að hefta tjáningarfrelsið á réttlætanlegan hátt, þar sem að ofbeldi er aldrei réttlætanlegt sem frumorsök.
Mér sýnist megin ástæðan fyrir banni á bækur felast í að viðkomandi rit hvetur til gagnrýnnar hugsunar á tímapunkti þegar stjórnvöld eru viðkvæm fyrir slíku.
Hér er listi yfir nokkrar bannaðar bækur, og ég reyni að tilgreina ástæðu og óvin stjórnvalda sem verið er að bregðast við. Með dýpri greiningu er sjálfsagt hægt að túlka heilmikið út úr þessum lista.
Ég vil taka það fram að þessi listi er nánast afrit af samskonar lista á Wikipedia.
| ||||
Bók | Höfundur | Bókmenntategund | Ástæða | Óvinur ríkisins |
The Age of Reason | Thomas Paine | Heimspekitexti | Bannaður á Bretlandi fyrir guðlast á 18. öld. | Gagnrýnin hugsun. |
All Quiet on the Western Front | Erich Maria Remarque | Skáldsaga um hörmungar og heimsku stríðs. | Bönnuð af þýskum nasistum fyrir að vera mannskemmandi og móðgandi fyrir þýska herinn. | Mannúð og gagnrýnin hugsun. |
Animal Farm | George Orwell | Pólitísk skáldsaga | Bönnuð í Malasíu af trúarlegum ástæðum.
| Veit ekki. |
| Trúarbragðarit | Bönnuð í Saudi Arabíu fyrir að vera ekki af múslimatrú. | Gagnrýnin hugsun. | |
Biko | Donald Woods | Ævisaga | Bönnuð í S-Afríku fyrir gagnrýni á aðskilnaðarstefnuna og hvíta ríkisstjórn. | Gagnrýnin hugsun og umburðarlyndi. |
Black Beauty | Anna Sewell | Skáldsaga | Bönnuð í S-Afríku fyrir að nota orðið svartur í titlinum. | Pólitísk ranghugsun. |
Beautiful Retard | Matthew Hansen | Skáldsaga | Bönnuð í Bandaríkjunum vegna óþægilegs titils. | Pólitísk ranghugsun. |
The Blue Lotus | Hergé | Teiknimyndasaga (Tinnabók) | Bönnuð í Kína þar sem að hún sýndi kínverska þjóðernisflokknum stuðning. | Pólitísk ranghugsun. |
The Book of One Thousand and One Nights |
| Smásögusafn | Bönnuð í mörgum löndum þar sem múslimar stjórna. | Veit ekki. |
The Communist Manifesto | Karl Marx | Ritgerð um hagfræði | Bönnuð í löndum andsnúnum kommúnisma þegar rauða ógnin var í hámarki. | Gagnrýnin hugsun. |
Boris Pasternak | Skáldsaga | Bönnuð í Sovétríkjunum til ársins 1988 fyrir gagnrýni á Bolsévíkaflokkinn. | Gagnrýnin hugsun. | |
Ernest Hemingway | Skáldsaga | Bönnuð á valdatíma Franco á Spáni. | Veit ekki. | |
Paul M. Handley | Ævisaga | Bönnuð í Tælandi fyrir gagnrýni á konunginn, Bhumibol Adulyadej. | Tjáningarfrelsi. | |
The Kingdom of God Is Within You | Leo Tolstoy | Ritgerð um trúarbrögð | Bönnuð af rússneska keisaraveldinu fyrir kristið og anarkískt innihald. | Gagnrýnin hugsun. |
D. H. Lawrence | Erótísk skáldsaga | Tímabundið bönnuð í Bandaríkjunum og á Bretlandi þar sem að hún braut þágildandi lög um klám. Einnig bönnuð í Ástralíu. | Tjáningarfrelsi. | |
Lolita | Vladimir Nabokov | Erótísk skáldsaga | Bönnuð í Íran og Saudi Arabíu fyrir að innihalda lýsingu á barnaníðingi. | Tjáningarfrelsi. |
Richard Condon | Pólitísk skáldsaga | Bönnuð í kommúnistaríkjum af pólitískum ástæðum. | Gagnrýnin hugsun. | |
Mein Kampf | Adolf Hitler | Pólitísk hugmyndafræði | Að eiga og selja þetta rit er lögbrot í Þýskalandi og Ausurríki vegna laga gegn nasisma. | Tjáningarfrelsi. |
George Orwell | Pólitísk skáldsaga | Bönnuð í Sovétríkjunum af pólitískum ástæðum. | Gagnrýnin hugsun. | |
Aleksandr Solzhenitsyn | Skáldsaga | Bönnuð í Sovétríkjunum af pólitískum ástæðum. Höfundur gerður útlægur. | Gagnrýnin hugsun. | |
Philip Nitschke and Fiona Stewart | Leiðbeiningar um líknardráp | Bönnuð í Ástralíu af pólitískum og siðferðilegum ástæðum. | Veit ekki. | |
Mao Zedong | Safn | Bönnuð í S-Víetnam. | Veit ekki. | |
Thomas Paine | Pólitísk ritgerð | Bönnuð í Bretlandi fyrir að styðja frönsku byltinguna. Bönnuð í keisaraveldi Rússa af sömu ástæðum. | Gagnrýnin hugsun. | |
Salman Rushdie | Skáldsaga | Bönnuð á Indlandi og þjóðum sem stjórnaðar eru af múslimum fyrir guðlast. Bókabúðir neituðu að selja bókina af ótta við hefndaraðgerðir. Ayatollah Ruhollah Khomeini gaf yfirlýsingu um að Salman Rushdie væri réttdræpur. | Trúfrelsi. | |
James Joyce | Skáldsaga | Tímabundið bönnuð í Bandaríkjunum fyrir kynferðislegt innihald. | Tjáningarfrelsi. | |
Uncle Tom's Cabin | Harriet Beecher Stowe | Skáldsaga | Bönnuð í Suðurríkjum Bandaríkjanna og rússneska keisaraveldinu. | Tjáningarfrelsi. |
Yevgeny Zamyatin | Vísindaskáldsaga | Bönnuð í Sovétríkjunum af pólitískum ástæðum. | Pólitísk ranghugsun. | |
The Wealth of Nations | Adam Smith | Hagfræðiritgerð | Bönnuð í Bretlandi og Frakklandi fyrir að gagnrýna kaupauðgisstefnuna. Bönnuð í kommúnistaríkjum fyrir kapítalískt innihald. | Gagnrýnin hugsun. |
The Well of Loneliness | Radclyffe Hall | Skáldsaga | Bönnuð í Bretlandi fyrir að innihalda efni um lesbíur. | Tjáningarfrelsi. |
Winds of Change | Reza Pahlavi | Stjórnmálaspeki | Bönnuð í Íran af pólitískum ástæðum. | Gagnrýnin hugsun. |
Adolf Hitler | Handrit | Að eiga eða selja þetta handrit er lögbrot í Þýskalandi og Austurríki vegna laga gegn nasisma. | Tjáningarfrelsi. |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Ritskoðun: réttlætanlegt stjórntæki?
13.3.2007 | 20:29
Ritskoðun er þegar upplýsingar eru fjarlægðar eða þeim haldið frá almenningi af einhverjum sem hefur stjórnunarvald; og þá til að halda fólki óupplýstu um ákveðin atriði sem henta stjórnvaldinu ekki.
Samkvæmt Alfræðinetbókinni Wikipedia eru fimm gerðir af upplýsingum ritskoðaðar:
- Siðferðilegar - (t.d. klám)
- Herfræðilegar - (t.d. innrásin í Írak)
- Stjórnmálalegar - (t.d. útilokun andstæðra skoðanna á bloggsíðum)
- Trúarbragðalegar - (t.d. bókabrennur á ritum annarra trúarbragða)
- Rekstrarlegar - (t.d. þagnarskylda starfsmanna)
Ritskoðun á sér stað þegar persóna sem hefur völd yfir ákveðnu umdæmi vill hafa áhrif á þekkingu þeirra sem lúta valdsvæði hennar, með því að loka á raddir sem annað hvort eru óþægilegar eða ósammála hennar eigin skoðunum. Hvaða máli skiptir hvort að einhver ein manneskja ritskoði aðra?
Ritskoðun hefur lengi tíðkast og eitt öfgafyllsta dæmi slíkrar hegðunar eru bókabrennur. Þeir sem leggja stund á bókabrennur og hvetja til þeirra virðast hafa eitthvað að óttast. Oftar en ekki tengjast þessar bækur trúarbrögðum, stjórnmálum og vísindum á einhvern hátt. Ég ætla ekki að telja upp allar þær bækur sem brenndar hafa verið á báli, en ég hef áhuga á að upplýsa um nokkrar þeirra:
Harry Potter bækurnar voru brenndar víða um Bandaríkin fyrir fáum árum síðan þar sem að þær þóttu stríða gegn kenningum kristninnar, þar sem að nornir og galdrakarlar voru aðalhetjur bókanna og gátu verið góðu gæjarnir. Í hugarheimi sumra geta nornir eða galdrakarlar ekki verið af hinu góða, og því þykir betra að útrýma slíkum mögulegum hugarheimi en að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn.
Árið 1624 lét páfi brenna þýðingar Martin Luthers á Biblíunni.
Árið 1562 lét Diego de Landa, biskup yfir Yucatan, brenna helgar bækur Maya. Einnig lögðu Kirkjunnar menn fjölmargar fornar borgir og pýramída í rúst sem pössuðu ekki við þeirra heimsmynd.
Öll ritskoðun stefnir að einu ákveðnu marki. Að útiloka skoðanir eða þekkingu sem viðkomandi hentar ekki, þekkingu eða skoðun sem passar ekki inn í þeirra eigin heimsmynd - það getur nefnilega verið ansi óþægilegt og pirrandi ef maður hefur rangt fyrir sér í einhverju máli og einhver valdalaus gaur steypir hugmyndunum með rökhugsun einni saman.
Það má hugsa sér stjórnmálaafl sem kæmist til valda á Íslandi sem vildi banna almenningi aðgang og persónuleg not af Internetinu, og hægt væri að réttlæta þetta bann með því að segjast vera að vernda almenning og börn okkar gegn einelti, klámi, spilafýkn og öðru illu sem blómstrar á Internetinu.
Nokkrar spurningar í lokin:
- Hvort er ritskoðun réttlætanleg sem verndun eða óréttlætanleg sem kúgun?
- Er málið kannski ekki svona svart og hvítt?
- Er sum ritskoðun kannski réttlætanlega á meðann önnur er það ekki?
- Og ef svo er, hvernig getum við greint réttlætanlega ritskoðun frá óréttlætanlegri?
Hvernig tengist klám kynferðislegu ofbeldi?
7.3.2007 | 21:29
Þessi grein mun ekki snúa að furðu minni á manneskju sem á í vandræðum með að rökstyðja sitt mál eins og í fyrri grein minni "Klám er kynferðislegt ofbeldi!", heldur að velta aðeins fyrir mér hugtakinu sem flestir virðast vera sammála um að misskilja: hvað er klám?
Í fyrstu vil ég segja hvað mér dettur fyrst í hug þegar minnst er á klám: en það er miðlun á kynferðislegum athöfnum fólks með beinskeyttum hætti, án nokkurrar tengingar við list eða skáldskap.
Það er nokkuð ljóst að fólk skilur hugtakið klám á ólíkan hátt. Þannig að ég ákvað að leita mér frekari upplýsinga um hugtakið og fann nokkrar skilgreiningar sem hjálpa okkur áleiðis.
Í nokkuð góðri rannsóknarritgerð, Pornography and Sexual Violence, leitar Robert Jensen frá Háskóla Texasfylkis í Austin svara við spurningunni hvort að klám sé kynferðislegt ofbeldi. Hann er fljótur að sjá að spurningin eins og hún stendur er merkingarlaus, og því spyr hann hvort að orsakasamband sé á milli kláms og nauðgunar. Svarið er að sjálfsögðu neikvætt, því að ekki allir einstaklingar sem neyta kláms eða búa það til valda nauðgunum.
En þá kemur að áhugaverðri spurningu: kyndir klám undir hvötum og samfélagsmunstri sem valdið getur kynferðislegu ofbeldi? Þetta er spurning sem verðugt er að rannsaka. Er það mögulegt að fólk (aðallega karlmenn) sem nota klám verði fyrir slíkum áhrifum af kláminu að það hvetji þá til að nauðga? Það tel ég alls ekki ósennilegt, en þá erum við í raun komin út í málefni sem tengist umhverfismengun meira en ofbeldi; fyrirbæri sem mætti kannski frekar kalla siðferðismengun, sem er reyndar nokkuð sem mætti hugsa sér að berjast gegn.
Önnur spurning sem Jensen spyr og mér þykir áhugaverð er sú hvort að klám sé ávallt niðurlægjandi fyrir þá sem taka þátt í því, og jafnvel fyrir neytendur þess líka? Um þetta svar má deila, en ekki má gleyma því að fjöldi fólks velur að taka þátt í gerð klámefnis; og fyrst að þetta er þeirra val, þýðir það þá að sú niðurlæging sem fylgir, ef hún gerir það á annað borð, sé marktæk fyrir farsæld þeirra eða hamingju í lífinu? Það er frekar erfitt að svara þessari spurningu vel, því hver veit sína ævi fyrr en öll er? Hugsanlega gerum við okkur aldrei grein fyrir því hvort við höfum lifað farsælu eða hamingjusömu lífi; og hvort að einhvers konar þátttaka í klámi útiloki þessa farsæld eða hamingju, þarf einhvern miklu trúaðri einstaklingur en ég að svara. Reyndar er hugsanlega hægt að nota rök mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem berst gegn öllu því sem brýtur gegn mannvirðingunni, en mannvirðingin í skilningi mannréttinda er grundvallarhugtak sem verður að virða til þess að mannréttindi verði möguleg.
En nú að skilgreiningu á klámi, en í ritgerð Jensen kemur þetta fram: "Í mörgum rannsóknum um áhrif kláms eru þrír flokkar af klámi skilgreindir: mjög ofbeldisfullt; ekki ofbeldisfullt en niðurlægjandi; og kynferðislega afdráttarlaust en hvorki ofbeldisfullt né niðurlægjandi."
Samkvæmt þessu er ljóst að kynjafræðingar þeir sem rannsaka klám eru sammála þeirri fullyrðingu að ekki allt klám sé kynferðislega ofbeldi, þar sem að það getur sýnt kynferðislega afdráttarlausar athafnir án þess að vera ofbeldisfullt eða niðurlægjandi. Þetta er sú tegund kláms sem ég er tilbúinn að sýna umburðarlyndi. Aftur á móti þegar klámið snýst um að sýna fram á yfirráð karlsins yfir konunni, eða þvingunar gagnvart henni; þá er ég ósáttur og vil gera eitthvað í málinu.
Aftur á móti getur verið erfitt að greina hvort að klám sem sýnir konur á niðurlægjandi hátt sé leikið eða gert af alvöru. En það klám sem ég er sammála um að mætta gera algjörlega útlægt úr okkar samfélagi er það þegar fram kemur raunverulegt ofbeldi gagnvart öðrum aðilanum, en þá verður aftur til vandamálið um greiningu á hvort að um leik eða veruleika sé að ræða. Er réttlætanlegt að banna það að leikin séu kynferðislega afdráttarlaus atriði sem eru niðurlægjandi og ofbeldisfull, og virðast engum öðrum tilgangi þjóna en fullnægja einhverjum annarlegum kenndum? Eða skal banna aðeins það klám sem sannarlega felur í sér ofbeldi og niðurlægingu á fórnarlömbum sem ekki eru að leika? Augljóslega er þetta viðkvæmt mál, en þessar spurningar geta vonandi varpað einhverju ljósi á málið.
Að lokum vil ég vitna í skilgreiningu frá hóp sem kallar sig 'Ottawa konur berjast gegn klámi', og finna má á kanadísku síðunni Sexual Violence Facts en þar birtist þessi skilgreining á klámi sem ég á erfiðara með að samþykkja: "Klám er efni í orðum eða myndum sem stendur fyrir eða lýsir kynferðislegri hegðun sem er niðurlægjandi eða hrottafengin gagnvart einum eða fleiri meðlimum, þar sem ofbeldi er oft beitt á slíkan hátt að það styður niðurlægingu sem skemmtun eða til að selja vörur. Klám, bæði innihald og tilgangur, er dýrkun á ofbeldi gegn konum, sem sýnir sem eðlilegan hlut notkun valds, niðurlægingar og hrotta sem leiðir til karlkyns kynferðislegrar fullnægingar."
Ég er ekki sammála þessari skilgreiningu á klámi, þar sem að hún nær aðeins yfir einn þátt hugtaksins, en get vel skilið af hverju fólk vill berjast gegn þessu; enda gengur þessi tegund kláms sjálfsagt þvert á siðferðisvitund hvers heilvita manns og getur hugsanlega slævt slíka siðferðisvitund til óvits fari viðkomandi að neyta þessa efnis - og þannig hvatt óvandaðri einstaklinga til kynferðisglæpa.
Sjálfur á ég ekki erfitt með að taka undir að klám sem annað hvort niðurlægir eða sýnir ofbeldi gegn minnimáttar á meðan kynferðislega afdráttarlausar athafnir fara fram, sé ógeðslegt; og fyrir sjálfan mig hef ég fyrir löngu tekið þá ákvörðun að horfa aldrei á slíkt efni. En hvort að það skuli bannað öllum er önnur spurning og flóknari; og þá hvort að gerður skuli greinarmunur á milli leikins eða alvöru kláms.
Þetta eru erfiðar spurningar sem ætti ekki að gera lítið úr með upphrópunum eða háðsglósum.
Heimildir og áhrif:
Pornography and Sexual Violence (2004) eftir Robert Jensen
Silfur Egils, 4.3.2007
Klámkvöld í kvöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
"Klám er kynferðislegt ofbeldi!"
4.3.2007 | 23:40
Tvær tilvitnanir í grein Sóleyjar Tómasdóttur sem skrifuð var eftir þátttöku hennar í Silfri Egils (4.3.2007).
"Ræddum um klám. Það var hrikalega erfitt, sérstaklega þar sem hin órjúfanlegu tengsl milli ofbeldis, kláms og vændis virðast vera ofar skilningi fólks." Sóley Tómasdóttir
"Verst af öllu finnst mér þegar andmælendur mínir ætlast til þess að ég skilgreini hvað klám sé. Að ég eigi að bera ábyrgð á lagasetningum stjórnvalda og segja til um hvað sé refsivert og hvað ekki. Ég tek ekki þátt í slíku. Raunar held ég að 210. grein Almennra hegningarlaga eigi fáa sína líka, þar er tekið fram að framleiðsla, innflutningur og dreifing kláms sé refsiverð, en hvergi skilgreint hvað klám sé í raun og veru." Sóley Tómasdóttir
Ekki langar mig til að upphrópa að þetta séu öfgar og fasismi, en vissulega tel ég að þessar skoðanir séu svolítið afvegaleiddar og þurfi smá aðstoð skynsamlegrar rökhugsunar.
Mig grunar að viðmælendur Sóleyjar (andmælendur í hennar huga) hafi einfaldlega viljað heyra hvernig hún skilji hugtakið 'klám', ekki hvernig ætti að eða skuli skilgreina hugtakið samkvæmt lögum. Þarna er mikill munur á. Mér heyrist á umræðunni að fólk sé einmitt að skilja þetta hugtak á mjög ólíkan hátt, og þegar mikið er rætt um fyrirbæri sem enginn veit hvað er en allir hafa skoðun á, er hætta á að misskilningur aukist frekar en hitt. Ég hafði sjálfur á tilfinningunni að Sóley væri að meina eitthvað allt annað en ég sjálfur álít vera klám.
Sóley sagði í Silfri Egils að allt klám sé kynferðislegt ofbeldi, sem mér þykir mjög vafasöm fullyrðing. Það þarf ekki nema eitt dæmi um framleiðslu á klámi þar sem allir sem þátt taka gera það af fúsum og frjálsum vilja til að hnekkja þessari fullyrðingu, og þessar manneskjur eru til. Það rétta er að sumt klám felur í sér kynferðislegt ofbeldi, eða í þeim tilfellum þegar manneskjur eru nauðugar látnar taka þátt í þessum athöfnum. Hvort að 32%, 47%, 85% séu réttu hlutföllin um hversu mikið af klámi feli í sér kynferðislegt ofbeldi, er ómögulegt að segja, og mætti sjálfsagt rannsaka. En að þetta sé satt um 100% tilfella er einfaldlega útilokað. Þannig að ekki er hægt að segja að klám sé það sama og kynferðislegt ofbeldi, sama hversu sterk sannfæring viðkomandi fyrir því getur verið. Ljóst er samt að allt kynferðislegt ofbeldi er glæpur, hvort sem það er unnið gegn konum eða körlum, og ber að taka hart á slíku.
Það er eitt sem mér finnst sorglegt við þessa umræðu alla, og það er hvernig hugtakið feminismi hefur verið dreginn inn í hana, og það hljómar eins og að þeir sem eru feministar séu sjálfkrafa allir á móti klámi, þó að svo sé ekki. Það rétta er að það er einungis tiltekinn hópur innan feminismahreyfingarinnar sem gengur svona langt, og aðrir feministar sem álykta að þar sem ákveðinn hópur karla og kvenna framleiðir klám og hefur viðskipti af því af fúsum og frjálsum vilja, þá er ekki verið að gera lítið úr sjálfsvirðingu viðkomandi einstaklinga, eða allra kvenna eða allra karla. Semsagt: ekki allir feministar (sem geta bæði verið karlar og konur) trúa því að allt klám sé kynferðislegt ofbeldi.
Það sem mig grunar að Sóley hafi verið að hugsa, en ekki komið orðum almennilega að, enda var henni mikið niðri fyrir (NOTA BENE: þetta er aðeins túlkun mín og vel getur verið að hún sé ósammála henni), er að klám geti haft þannig áhrif á þjóðfélagið sem heild að kynferðislegt ofbeldi útbreiðist með meiri hraða ef enginn stingur niður fæti og segir: "hingað og ekki lengra". Þetta gæti verið spurning um að setja ákveðin takmörk fyrir því sem við getum sætt okkur við; en þó að ég haldi að sú umræða gæti verið mjög gagnleg, er hún alls ekki viðeigandi í sambandi við þessa klámráðstefnu sem olli fjaðrafokinu mikla.
Það er vissulega í lagi að láta í sér heyra ef manni finnst vegið að eigin siðferðiskennd, en að alhæfa um að allir hafi sams konar siðferðiskennd til að bera eða byggi siðferði sitt á sama grunni er af og frá; og hvað þá að setja reglur sem byggja á slíkum pitti. Slíkt regluhús myndi fljótt sökkva.
Hafrún Kristjánsdóttir skrifar áhugaverða gagnrýni um skrif Sóleyjar og þátttöku hennar í Silfri Egils í grein sinni, Enn af feministum (4.3.2007) .
Til að öðlast yfirgripsmeiri þekkingu á hugtakinu 'klám' getur verið gagnlegt að skoða hugtakið í alfræðiorðabók netheimsins, Wikipedia, en þar eru til að mynda áhugaverð fyrir þessa umræðu greinin Anti-pornography movement. Vil ég vitna aðeins í hluta þeirrar greinar sem fjallar um gagnrýni feminista á andstöðu gegn klámi. Afsakið að hún fylgi hér óþýdd:
"Other feminists are against censorship; some describe themselves as sex-positive feminists and criticize anti-pornography activism. They take a wide range of views towards existing pornography: some view the growth of pornography as a crucial part of the sexual revolution and they say has contributed to women's liberation; others view the existing pornography industry as misogynist and rife with exploitation, but hold that pornography could be and sometimes is feminist, and propose to reform or radically alter the pornography industry rather than opposing it wholesale. They typically oppose the theory of anti-pornography feminism -- which they accuse of selective handling of evidence, and sometimes of being prudish or as intolerant of sexual difference -- and also the political practice of anti-pornography feminism -- which is characterized as censorship and accuse of complicity with conservative defenses of the oppressive sexual status quo. Notable advocates of the position include sociologist Laura Kipnis, columnist and editor Susie Bright, essayist and therapist Patrick Califia and porn actress and writer Nina Hartley."
Titill greinarinnar: "Klám er kynferðislegt ofbeldi!" er bein tilvitnun í fullyrðingu Sóleyjar Tómasdóttur úr Silfri Egils 4.3.2007.
Vísindi og fræði | Breytt 5.3.2007 kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Þessi blessaða heimspeki er alls staðar
27.2.2007 | 20:33
"Ég mæli með því að enginn skuli gefast upp á góðu verki. Við veljum öll ákveðna leið til að vera í þessum heimi. Sum okkar gera suma hluti vel, en aðra hræðilega illa. Við eyðum helmingi ævi okkar í að leita eftir öllu því RÉTTA - réttu menntuninni, rétta starfinu, réttu vinunum, rétta húsinu, og svo framvegis. Sannleikurinn er sá að það er ekkert rétt eða rangt; það er allt hugarástand. Þú getur verið hluti af nánast hverju einasta kerfi að eigin völ. Valið til að vera sá sem þú ert hvílir á þér og engum öðrum. Jafnvel þó að þú veljir að gera hluti sem þér líður ekki vel með, þá geturðu ekki haldið áfram að gera þá lengi. Að lokum missirðu áhugann; það er grundvöllur mannlegs eðlis. Þetta á við um allt sem við gerum í lífinu." Rahul Prabhakar (2006)
Ég las þetta úr ansi skemmtilega grein í gær á bloggi indverska tæknihöfundsins Rahul Prabhakar sem starfar hjá Samsung samsteypunni í Kóreu. Greinin þótti mér öll áhugaverð, en svo þegar hann fer út í heimspekilegar pælingar í lok greinarinnar, spenntist ég allur upp og fór viðstöðulaust að pæla.
Þarnar eru nokkrar alhæfingar sem mig langar til að velta fyrir mér:
a) Við veljum öll ákveðna leið til að vera í þessum heimi.
b) Við eyðum helmingi ævi okkar í að leita eftir öllu því RÉTTA.
c) Sannleikurinn er sá að það er ekkert rétt eða rangt; það er allt hugarástand.
d) Það er grundvöllur mannlegs eðlis að missa áhugann á að gera það sem þér líður ekki vel með.
Það skemmtilega við alhæfingar er að það þarf ekki nema eina sanna fullyrðingu sem er í mótsögn við alhæfinguna til að sanna að hún sé röng.
a) Við veljum öll ákveðna leið til að vera í þessum heimi.
Þarna er höfundur ekki að halda því fram að við getum einhverju ráðið um það hvar við fæðumst eða við hvaða aðstæður, heldur að við getum valið okkar farveg í lífinu. Ég vildi óska að þetta væri sönn alhæfing, en ef hún er sönn þýðir það að þrældómur og nauðung sé ekki til. Ef hægt er að sýna fram á það að ein manneskja í heiminum hafi ekki þetta sjálfsagða val fyrir sjálfa sig; þá þýðir það að þessi fullyrðing sé ósönn, og ekki nóg með það, heldur að eitthvað mjög alvarlegt sé að í þessum heimi . Eitthvað sem þarf að laga. Reyndar er spurning hvort að fólk velji sína eigin leið þegar það lætur undan hópþrýstingi eða gerir hluti til þess eins að vera í uppreisn gegn yfirvaldi, eða þegar það hlíðir yfirvaldinu í einu og öllu. Þetta er í raun grundvallarspurning um frelsið. Hvað er það sem gerir okkur frjáls, annað en það að eiga kost á vali?
b) Við eyðum helmingi ævi okkar í að leita eftir öllu því RÉTTA.
Reyndar er sjálfsagt misjafnt hvort að fólk eyði helmingi, smáhluta eða allri ævinni í að leita eftir öllu því RÉTTA. Sumir gefast kannski fljótt upp, aðrir verða saddir þegar þeir hafa étið það sem að þeim er rétt, en svo eru það enn aðrir sem fá aldrei nóg, og svo að lokum sá hluti sem er ekki viss um hvort að það sem hann hafi sé það rétta, og er ennþá leitandi og gerir það hugsanlega alla sína ævi. Ég get auðveldlega sætt mig við þá hugmynd að ég sé að leita eftir því rétta í lífinu fyrir sjálfan mig og þá sem mér er annt um, en á samt erfiðara með að sjá fyrir mér hvort ég sé að leita eftir ÖLLU því rétta. Það þætti mér dæmi um töluvert miklar öfgar - að leita sér sífellt að rétta bílnum, húsinu, sundlauginni, veðrinu, og svo framvegis, - það er að segja svona efnislegum hlutum, en efnislegir hlutir eru þannig í eðli sínu að þeir breytast stöðugt. Þegar þú hefur loks náð þér í rétta efnislega hlutinn, þá eins og vax, umbreytist hann í eitthvað annað - en ekki með neinum innri breytingum endilega, heldur þeirri staðreynd að það er búið að búa til eitthvað nýtt og betra í staðinn. Aftur á móti er ýmislegt 'rétt' sem gott er að leita eftir, en ég er ekkert viss um að allir leiti eftir. Til dæmis efast ég um að forhertur bankaræningi leiti eftir því að gefa rétt til baka. Einnig efast ég um að knattspyrnumaður sem fær víti, sparki honum laust að markmanni andstæða liðsins af því að honum finnst það rétt, vegna þess að hitt liðið er búið að vera miklu betra í leiknum.
Aftur á móti trúi ég því að manneskjan hafi tilhneigingu til að sækjast í hið góða (ekkert endilega hið rétta) þegar það hefur fengið einhverja nasasjón af hvað þetta góða er.
Segjum að við séum í verslun og fáum vitlaust gefið til baka, í staðinn fyrir að fá kr. 500,- fáum við óvart kr. 5000,- Við vitum að það væri rétt af okkur að leiðrétta mistökin, en okkur gæti verið nákvæmlega sama og stungið seðlinum í vasann. Ef við vitum hins vegar að það sé gott, frekar en rétt að skila peningnum, þá erum við líklegri til þess að gera það, því að sá sem kannast við það sem gott er og skilur af hverju það er gott, leitast við að framfylgja því. Vonlaust sjálfsagt að sanna það, en ég held að þetta sé satt.
c) Sannleikurinn er sá að það er ekkert rétt eða rangt; það er allt hugarástand.
Þarna hefur hann Rahul einfaldlega bent á það sama og ég var að benda á, en með miklu sterkara orðalagi. Er það virkilega satt að rétt og rangt séu ekki til, að þarna sé einungis um hugarástand að ræða? Segjum að það sé rigning úti. Við göngum út í rigninguna og regnið fellur á andlit okkar. Við opnum munninn og lokum augunum, leyfum dropunum að trítla á tungunni og njótum rigningarinnar. Ef einhver kæmi og segði mér að það væri ekki rigning, heldur væru þetta aðeins dropar úr garðslöngu nágrannans, væri þá staðhæfing hans annað hvort rétt eða röng, eða bara sönn eða ósönn? Ef staðhæfing 'einhvers' hljómaði svona: "Það er engin rigning. Það sem þú heldur að sé rigning eru bara dropar úr garðslöngu nágrannans," þá gætir þú dæmt um hvort að fullyrðingin sé sönn eða ósönn. Aftur á móti ef 'einhver' segði: "Það er rigning engin og garðslanga úr dropum nágrannans," þá myndir þú átta þig á að þessi setning getur hvorki verið sönn né ósönn, enda er hún bara bull þar sem að hún er vitlaust sett saman. Þannig verður setningin röng. Með þessu móti má segja að setningar geti verið réttar og rangar, og ef setningar eru eitthvað annað en hugarástand (sem má reyndar deila um), þá vitum við um eitthvað sem er ekki hugarástand og er samt annað hvort rétt eða rangt.
d) Það er grundvöllur mannlegs eðlis að missa áhugann á að gera það sem þér líður ekki vel með.
Þegar talað er um grundvöll mannlegs eðlis er átt við eitthvað sem á við um allar manneskjur. Er það satt að allar manneskjur missi áhugann á að gera það sem þeim líður ekki vel með að gera? Til dæmis ef ég væri að spila knattspyrnu af því að pabbi var svo góður knattspyrnumaður og dreymir um að sonur hans verði allt sem hann varð aldrei, þýðir það að ég verði aldrei góður knattspyrnumaður af því einfaldlega að mér líður ekkert sérlega vel á knattspyrnuvellinum og finn mig ekki í leiknum sem slíkum? Ef svarið er já við þessu (sem ég held að sé rétta svarið), get ég þá ekki spurt stærra og farið í skólana: Ef börnum eru kennd fög sem þeim líður ekki vel með, munu þau þá missa áhugann á þeim strax og skyldunámi lýkur, og jafnvel áður? Ef svarið er já við þessu, þá er nokkuð ljóst að við þurfum að finna strax eitthvað fyrir blessuð börnin að gera sem þeim líður vel með, öllum sem einu, og ef tekst að finna þetta að minnsta kosti eina fyrir hvert barn, þá muni því líða vel og áhugi vaxa og dafna með því verki sem það er að sinna. Og þegar við kíkjum á enn stærra samhengi, fagmenntun og störf fólks - þá á það sama við. Manneskjan verður ekki hamingjusöm fyrr en hún finnur eitthvað sem henni líður vel við stunda.
Þýðir þetta að við ættum kannski að beita aðferðum atvinnumarkaðarins á barnaskólana? Bjóða börnum vinnu, og gefa þeim svigrúm til að hugsanlega búa til ný störf sem að öðrum hefur ekki dottið í hug fyrr?
Svona spenntur getur maður orðið fyrir pælingum sem birtast á óvæntum stöðum. Þessi blessaða heimspeki er alls staðar. (Nú þarf glöggur lesandi aðeins að finna eitt dæmi um stað þar sem heimspekin er ekki, til að afsanna fyrirsögn greinarinnar.)
Uppeldi, fræðsla og menntun
24.2.2007 | 16:20
Hafsteinn Karlsson skrifar frábæra grein í dag, Á skólinn að sinna uppeldi eða menntun? Mig langar nánast til að vísa í hverja einustu málsgrein sem hann skrifar, en það gengur víst ekki. Spurningin hvort að skóli eigi að vera fræðslustofnun, menntastofnun eða uppeldisstofnun, (eða allt þetta) og hvaða merkingu beri að leggja í þessi hugtök finnst mér gífurlega spennandi og ætla að gera tilraun til að ráða aðeins í þessi hugtök, og þá vonandi án þess að tapa sjóninni á veruleikanum.
Til þess að komast dýpra er kannski ágætt að byrja á einföldum spurningum. Ég mun ekki kíkja í aðrar heimildir, en svara þessum spurningum eftir mínu höfði. Síðan mun ég reyna að finna leiðir til að dýpka minn eigin skilning á hvað þessi hugtök þýða. Þó að ég hafi unnið sem kennari og heimspekingur í 14 ár, og hef nægan bakgrunn til að hafa sterka skoðun á þessu, geri ég mér grein fyrir að það er alltaf hægt að finna nýja vinkla á öllum hugtökum og hvað þau merkja fyrir okkur.
1) Hvað er menntun?
Menntun er áætlun og framkvæmd sem snýr að því að gera einstakling að meira manneskju, en ekki nauðsynlega að meiri manneskju. Menntunarhugtakið er að vissu marki regnhlífarhugtak yfir uppeldi og fræðslu.
2) Hvað er uppeldi?
Uppeldi snýst um að kenna einstaklingi á þau viðmið sem ríkja í viðkomandi samfélagi, útskýra hvers konar athafnir eru réttar eða rangar og ræða við viðkomandi ástæðurnar fyrir því. Kennarar tel ég að geti stjórnað samræðum um það sem er rétt og rangt, en foreldrar barnanna eru yfirvaldið sem verður að setja þeim reglurnar. Ástæðan er einföld: börnin fylgja frekar siðferðilegum ráðum foreldra sinna en kennara. Hlutverk kennara er að leiðbeina og upplýsa, og vera góð fyrirmynd sem sýnir í verki hvernig hegðun er ásættanleg; en valdsvið kennarans er einfaldlega takmarkað hérna.
3) Hvað er fræðsla?
Áður fyrr snerist fræðsla um það að auka hæfni í reikningi, skrift og lestri, leggja staðreyndir á munnið og kunna að koma þeim til skila á prófi. Ef kennarinn var mjög hæfur gat hann hjálpað börnum til að ná góðu valdi á námsaðferðum til að ná góðum árangri á prófum. Það sama á við um dag. Nema hvað að aðstæður hafa breyst. Internetið og farsímatæknin hafa gjörbreytt aðgangi okkar að ólíklegustu upplýsingum. Á einni mínútu er hægt að öðlast yfirborðskennda þekkingu um nánast hvað sem er með því að googla eða wikka viðkomandi hugtök. Og ef áhugi er fyrir hendi er hægt að kafa dýpra. Möguleikum til landafræðikennslu hefur til að mynda verið gjörbreytt með GoogleEarth. Stuðningur við stærðfræðikennslu er til að mynda mikill með notkun rasmus.is. Og þannig má lengi telja. Við búum í allt öðru umhverfi en áður - upplýsingamagnið er margfalt. Það sem við þurfum að kenna, eru ekki upplýsingarnar sjálfar, heldur hvernig hægt er að nálgast þær og vinna með þær á gagnlegan hátt, og einnig finna þeim stað í okkar heimi. Ég trúi því að heimspekileg samræða um allan þennan hrærigraut upplýsinga sem við höfum aðgang að geti hjálpað börnum við að finna skynsamlegar leiðir til að átta sig á þeim, skýra þau og leiðrétta, og jafnvel nýta.
Þegar litið er á heildarmyndina er mér ljóst að fræðsla, uppeldi og menntun er nokkuð sem að skólar þurfa að leggja áherslu á fyrir nemendur; en alls ekki má gleyma því að uppeldið er samt fyrst og fremst á höndum foreldra. Þannig séð er misskilningur að kalla skóla uppeldisstofnanir, þar sem að skólar gegna einungis stuðningshlutverki þar við heimilin, sem eru hinar raunverulegu uppeldisstofnanir. Menntun fyrir hvern einstakling er markmiðið sem að bæði heimili og skólar ættu að stefna að, að viðkomandi geti orðið meira manneskja, vaxið út frá eigin áhugamálum og getu - í stað þess að fylgja stöðluðum formúlum sem eiga betur við hluti en fólk, það er það sem menntun þarf að snúast um í dag.
Því miður eru háværar raddir sem sífellt krefjast þess að nemendur fái háar einkunnir og ef það gengur ekki eftir séu kennarar einfaldlega latir og lélegir. Spurningin er sú hvort að hlutverk kennara í dag sé að sjá nemendum fyrir háum einkunnum, eða hvort að hlutverk þeirra sé að mennta börnin.
Hvert sem maður fer heyrir maður talað illa um kennara, sagt að þeir vinni stuttan vinnudag, séu alltof lengi í sumarfrí, og séu alltaf að krefjast hærri launa og oft þarf ég að stappa í mig stálinu til að segja á mannamótum: "en ég er kennari", þó að ég starfi ekki lengur sem slíkur, en ég ákvað að skipta um starfsvettvang eftir kennaraverkfallið 2004. Sú dæmisaga sem hjálpar mér að muna það að standa við hlið annarra kennara er sagan um afneitun Péturs postula á Jesú þegar hann var spurður hvort að hann hafi ekki verið í hópi með honum. Hann afneitaði þrisvar til þess að vernda eigið skinn. Það vil ég ekki gera.
Að lokum smá hugarfæði úr verki John Dewey, Lýðræði og menntun (Democracy and Education), úr kaflanum Menntun sem þroski (Education as Growth): "Þróun, þegar hún er túlkuð með samanburðarhugtökum, það er að segja, með tillitil til sérstakra eiginleika barns og fullorðins, þýðir stýringu hæfileika í sérstakar rásir: mótun vana sem felur í sér hæfileika til að taka ákvarðanir, skýr áhugasvið, og ákveðin markmið eftirtektarsemi og hugsunar. En sjónarhorn samanburðarins er ekki endanlegt. Barnið hefur sérstaka hæfileika; það að hunsa þá staðreynd er að hamla eða afvegaleiða þau líffæri sem það þarfnast til að þroskast á eðlilegan hátt. Hinn fullorðni notar hæfileika sína til að breyta umhverfi sínu, og með því býr hann til nýjan hvata sem hann getur beint hæfileikum sínum að og haldið áfram að þróa þá. Það að hunsa þessa staðreynd er að handsama þróun, aðgerðarlaus ráðstöfun. Bæði eðlilegt barn og eðlilegur fullorðinn einstaklingur taka þátt í því að þroskast. Munurinn á þeim er ekki munurinn á milli þroska og ekki þroska, heldur á milli þroskahátta sem eru viðeigandi við ólíkar aðstæður. Með tilliti til þróunar hæfileika sem beint er að því að ná tökum á sérstökum vísindalegum og hagfræðilegum verkefnum, gætum við sagt að barnið sé að þroskast í fullorðinn einstakling. Með tilliti til viðkunnalegrar forvitni, fordómalausra viðbragða og opins hugarfars, gætum við sagt að hinn fullorðni ætti að þroskast í átt að hinu barnslega. Ein fullyrðingin er jafnsön hinni"