Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Hvað gerist ef allir hæfir kennarar hætta kennslustörfum?
28.2.2007 | 19:55
Áður en ég reyni að svara þeirri spurningu vil ég gera lista yfir nokkrar af þeim hæfniskröfum sem einkenna góða kennara:
Þetta er alls ekki tæmandi listi. En allt þetta er satt um grunnskólakennara. Kennarar þurfa að vera gífurlega hæfileikaríkir einstaklingar til að annast börn á áhrifaríkan og góðan hátt. Það er kraftaverki líkast að enn skuli vera til kennarastétt miðað við þá mótstöðu sem hún hefur fengið frá þjóðfélaginu sem hún vill ekkert annað en styrkja.
Kennarar þurfa að geta...
- ... hugsað vel um hlutina og rætt við nemendur út frá öðrum sjónarhornum en sínu eigin.
- ... borið saman og greint á milli ólíkra kenninga í ólíkum faggreinum
- ... rætt um þróun sem stöðugt á sér stað í ólíkum faggreinum
- ... kynnt uppruna hugmynda og hugtaka
- ... gefið tilvísanir fyrir frekari lestur og rannsóknir
- ... kynnt staðreyndir og hugtök frá skyldum faggreinum
- ... lagt áherslu á skilning hugtaka
Kennarar þurfa að vera skipulagðir, skýrir og... :
- ... geta útskýrt þegar það á við
- ... vera vel undirbúnir
- ... halda fyrirlestra sem auðvelt er að skilja
- ... þarf að svara spurningum af varkárni og nákvæmni
- ... gera samantektir á meginhugmyndum
- ... skilgreina markmið fyrir hverja kennslustund
- ... tilgreina hvað hún eða hann telur mikilvægt
Kennarar þurfa að geta stjórnað hópum og...
- ... hvatt til samræðu í hóp
- ... boðið nemendum að deila þekkingu sinni og reynslu
- ... skýrt hugsanir með því að tiltaka rök
- ... boðið nemendum að gagnrýna hans eða hennar eigin hugmyndir
- ... vitað hvenær hópurinn á erfitt með að skilja hann eða hana
- ... hafa áhuga og umhyggju fyrir gæðum eigin kennslu
- ... fá nemendur til að nota hugtök til að sýna skilning
Kennarar þurfa að geta einbeitt sér að einstaklingum og...
- ... hafa einlægan áhuga á nemendum sínum
- ... vera vingjarnlegir við nemendur sína
- ... ná sambandi við nemendur sem einstaklinga
- ... þekkja og heilsa nemendum fyrir utan skólatíma
- ... vera aðgengilegur nemendum fyrir utan skólatíma
- ... vera góður ráðgjafi fyrir viðfangsefni óháð námsefni
- ... virða nemendur sem manneskjur
Fjölbreytileiki/áhugi
- Kennari þarf að vera fjölbreytileg og kraftmikil manneskja
- Kennari þarf að geta kynnt viðfangsefni á áhugaverðan hátt
- Kennari virðist njóta þess að kenna
- Kennari er áhugasamur um viðfangsefnin
- Kennari þarf að virðast hafa gott sjálfstraust (erfitt þegar lítil virðing er borin fyrir starfi hans)
- Kennari þarf að geta beitt röddinni með ólíkum áherslum
- Kennari þarf að hafa kímnigáfu
Ef hæfileikaríkir kennarar hætta allir störfum mun fjölbreytileiki í skólastarfi hrynja. Námsefnið verður aðalatriðið, og þá á ég ekki við djúpa þekkingu á viðfangsefninu sem slíku, heldur fyrst og fremst hæfni til að komast í gegnum skólabækurnar og ná árangri á prófi. Nemandinn verður aukaatriði. Ólíklegt er að börnin tækju þátt í sérstökum verkefnum eða fengju að kynnast námsefni sem er námsskrá og kennslubókum framandi. Að missa leiðtoga sem sífellt sýna frumkvæði, viljum við missa slíkt fólk úr skólastofunni með börnum okkar? Viljum við ekki hæfasta mögulega fólkið? Eða er okkur bara sama og gætum alveg eins hugsað okkur að skilja börnin okkar eftir fyrir framan sjónvarpstæki eða leikjatölvu allan daginn?
Mig grunar að þekking almennings á kennarastarfinu sé frekar grunn, og þætti gaman að heyra hvað kennarar og nemendur hafa að segja. Ég hef örugglega gleymt fullt af mikilvægum eiginleikum kennara. En þá er bara að nota athugasemdirnar óspart og bæta við.
Ég hef á tilfinningunni að ég þurfi miklu meiri tíma til að koma orðum að því sem ég er að hugsa, en ég læt þetta duga í bili.
Heimildir: Characteristics of Effective Teachers
Heimili og skóli lýsa yfir áhyggjum af viðræðuslitum kennara og launanefndar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.3.2007 kl. 08:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Mexíkó - Ísland: 1-0
24.2.2007 | 11:52
Í Mexíkóborg á nánast hver einasta fjölskylda hund sem gætir heimilisins. Í Reykjavík sjást hundar varla lengur. Maður getur ekki annað en hugsað til barnæskunnar í Breiðholtinu, þegar hundar voru meðal leikfélaga, - og þeir voru skemmtilegir leikfélagar - áður en bannað var að láta þá ganga lausa í borginni.
Ég held svei mér þá að Mexíkóar séu að þróast í rétta átt. Þeir viðhalda lífi dýranna og fólksins, og gera betur við þau; en við aftur á móti höfum nánast útrýmt þeim.
Væri tímabært að endurskoða reglur um hundahald?
Hundar éta á veitingastað í Mexíkóborg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hópþrýstingur gagnvart hóteli
22.2.2007 | 18:36
Þessi síðasta flétta í sögunni um yfirvofandi klámráðstefnu er gífurlega áhugaverð og spennandi.
Var þessi ákvörðun eigenda Hótels Sögu tekin á siðferðilegum forsendum eða efnahagslegum? Eða geta efnahagslegar forsendur hugsanlega verið siðferðilegar?
Ef aðstandendur hefðu rökstutt þessa ákvörðun með því að segja klám vera af hinu illa, skaðlegt samfélaginu, hefðu þeir verið að leggja siðferðilegan dóm á málið. Ákvörðunn var tekin í sjálfsvörn. Ljóst er að hún var úthugsuð og hafði allt með ímynd Hótels Sögu að gera, en lítið með siðferði. Annars hefðu bláar myndir aldrei verið leyfðar á hótelherbergjunum.
Einnig er nokkuð augljóst að íslenskt samfélag hefur sent frá sér skýr skilaboð um andúð þess á klámi, og því hefur það virst skynsamlegur leikur hjá Hótel Sögu að fara eftir vilja samfélagsins. Stóra spurningin er hins vegar sú hvort að íslenska samfélagið hafi verið að beita þrýstingi vegna þess að það er með svona gífurlega öfluga siðferðisvitund, eða vegna þess að þarna var fórnarlamb til staðar sem lá vel við höggi.
Skilaboð hótelsins eru skýr: það vill ekki fá á sig stimpil sem stofnun sem hýsir siðerðilega vafasama starfsemi. Skilaboð þjóðfélagsins virðast einnig vera skýr: að þjóðin vill ekki klám.
Er kannski komið að hámarki siðferðilegs frjálsræðis á Íslandi, þar sem að fátt eða ekkert er fordæmt, sama hvort að um kynferðislegar tilhneigingar eða gay-pride göngur er að ræða. Hefur mælirinn verið fylltur, og þjóðin farin að snúast gegn því sem hún gæti vogað sér að kalla 'óeðlilegt'?
Vinsæl ákvörðun hefur verið tekin, þjóðin þarf ekki að skammast sín fyrir klámráðstefnu á Hótel Sögu sem sjálfsagt enginn hefði tekið eftir ef ekki hefði verið fyrir gúrkutíð og athyglissýki fjölmiðla. Ljóst er að þetta getur breytt ímynd Íslands á þann hátt að við verðum hugsanlega álitin íhaldssöm þjóð sem er farin að leita aftur í kristin gildi eftir mikla trúarlega lægð; í stað þess að litið sé á okkur sem brjálaða drykkjubolta og lauslátar meyjar.
Hvort viljum við vera; þjóð með siðferðilegan þroska sem fordæmir hluti sem vert er að fordæma, eða þjóð sem leyfir flest sem getur verið siðferðilega vafasamt.
Reyndar læðist að mér sá grunur að ein meginástæðan fyrir þessum háværu mótmælum þjóðarinnar tengist sögunni um Guðmund í Byrginu og fréttum af níðingsverkum sem unnin hafa verið gegn íslenskum börnum. Ef það er satt, þýðir það að þjóðin okkar sé farin að hugsa sinn gang og vill ekki láta hvað sem er yfir sig og börn sín ganga. Og það er gott!
Er það ekki?
Eigendur Hótel Sögu vilja hætta að sýna ljósbláar myndir gegn gjaldi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Gott eða grikk: Öskudagur í andarslitrum
21.2.2007 | 22:44
"Gott eða grikk?"
Drakúla og Grýla stóðu í dyragættinni hjá mér. Ég átti ekkert nammi heima og bjóst því alveg eins við að þau myndu gera mér einhvern grikk. Þess í stað ypptu Drakúla og Grýla öxlum og löbbuðu í burtu.
Mér varð hugsað til öskudags úr eigin æsku. Ég man ekki til þess að börn hafi farið í fyrirtæki og sungið fyrir nammi þá. Aftur á móti var mikið í tísku að sauma ljóta poka, sitja fyrir fólki úti í búð og hengja þá aftan á úlpur þeirra sem gættu sín ekki nógu vel.
Þegar ég bjó í Mexíkó og kenndi þar við kaþólskan framhaldsskóla uppgötvaði ég fyrst hvaða merkingu öskudagurinn hefur að kristnum sið.
Á öskudegi mætti aðstoðarmaður prests inn í skólastofu og tilkynnti að nú væri komið að öskudagsathöfninini. Allir nemendur og starfsmenn skólans fóru til messu þar sem rætt var um merkingu öskudagsins, og í lok messunar teiknaði presturinn kross úr ösku á enni allra viðstaddra, sem ekki átti að fjarlægja fyrr en eftir að sólin var sest þann daginn.
Messan átti að minna okkur á fallvaltleika veruleikans og að allir munu einhvern tíma deyja. Um leið og krossinn var dreginn á enni mitt, sagði presturinn (á spænsku):
"Mundu, að þú ert af ösku kominn og að ösku munt þú aftur verða."
Þeir trúræknustu fasta frá öskudegi og fram á föstudaginn langa; þeir borða ekki fulla máltíð fyrr en rétt fyrir páska.
Það er lengra síðan að ég bjó í Bandaríkjunum, en þá var "Gott eða grikk" kallað "Trick or treat" og heyrði til Halloween, hryllingshátíðar sem á sér stað hvert einasta haust á þeim bæ.
Mér finnst merkilegt að íslensk börn séu að rugla reitum á milli hausthátíðar í Bandaríkjunum og öskudags. Reyndar eru báðar hugmyndirnar frá kaþólsku komnar, en Halloween hét upphaflega "All Hallows Day" (Dagur allra heilagra) og var settur árið 835 af Gregory 4. páfa.
Á seinni tíð hefur Halloween þó verið tengd við hrylling og ótta, sem af einhverjum ástæðum virðist nú snúast um dauða, en sú hugmynd virðist sprottin af því að á Halloween séu tengsl milli þeirra lifandi og dauðu sérstaklega traust. Í upphafi voru þessi tengsl notuð til að dýrka hina heilögu einstaklinga sem fallið höfðu frá þar sem að lífi þeirra og gjörðum var fagnað, en í dag virðist þessu hafa verið snúið upp í andhverfu sína - að sú hugmynd að hinir dauðu geti nálgast hina lifandi sé meiri ógn en blessun.
Á öskudegi er okkur ætlað að minnast þess að líf okkar varir ekki að eilífu. Á Halloween var okkur upphaflega ætlað að minnast heilagra manna sem fallið höfðu frá og að andar þeirra lifðu nú meðal okkar.
Gott eða grikk?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Einelti er stríð
20.2.2007 | 20:22
"Ég hafna ofbeldi vegna þess að þegar það lítur út fyrir að vera af hinu góða, er hið góða aðeins tímabundið; en hið illa sem af því hlýst varanlegt." (Mahatma Gandhi, þýð. HB)
Í gærkvöldi horfði ég á kvikmyndina Full Metal Jacket, eftir Stanley Kubrick. Þó að hún sé formlega séð um Víetnamstríðið, áttaði ég mig á því að hún fjallaði fyrst og fremst um einelti, og ég ákvað að skrifa aðeins niður pælingar þær sem brutust um í kollinum mínum eftir þetta áhorf.
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um Full Metal Jacket.
Einelti er mjög alvarlegt fyrirbæri, sem því miður virðist viðgangast í barnaskólum á Íslandi í dag. Það á sér ýmis birtingarform. Einelti getur til dæmis verið í birtingarformi slagsmála og ofbeldis, en þá verður það sýnilegt eða efnislegt; eða í formi illkvitnislegra athugasemda, hegðunar og jafnvel afskiptaleysis, en þá telst það ósýnilegt eða andlegt.
Við erum helst tilbúin til að bregðast við sýnilegu eða efnislegu einelti, en eigum á hættu að láta ósýnilega eða andlega eineltið sem vind um eyru þjóta.
Í samræðum mínum við ólíka einstaklinga um þetta vandamál hef ég margoft heyrt þá skoðun að einelti sé í raun ekkert vandamál - það sé einfaldlega nokkuð sem öll börn þurfa að upplifa og læra að takast á við í lífinu, það herði þau og geri þau líklegri til að verða sterkari fyrir í framtíðinni. Þessi rök eru óásættanleg.
Börn sem verða fórnarlöm eineltis eru líkleg til að valda einelti síðar og verða fórnarlömbin þá líklega yngri börn. Einelti getur af sér meira einelti, rétt eins og ofbeldi getur af sér meira ofbeldi. Börn þjást vegna eineltis og allt það sem veldur slíkri þjáningu sem hægt er að koma í veg fyrir, er illt, og skylda okkar er að koma í veg fyrir að slík illska nái að festa rætur í veruleika barna okkar. Ég hef séð börn þjást vegna eineltis og veit að það herðir þau ekki upp. Einelti brýtur börn niður, fyllir þau ótta, skapar fyrir þau skrýmsli sem enginn getur sannfært þau um að séu ekki til.
Það að segja einelti vera börnum hollt er í líkindum við að fullyrða að maður hafi gott af því að láta brjóta rúðurnar í bílnum sínum, því að þá muni maður einfaldlega verja bílinn betur í framtíðinni með því að kaupa sér bílskúr. Og þannig er hægt að segja að það illa sem fyrir okkur getur komið sé okkur í raun hollt, því að við munum læra að takast á við það. Þessu má líkja við að setja upp þjófavarnarkerfi þegar búið er að stela öllu, vörnin er komin upp - en skaðinn er skeður.
Mér finnst full þörf á að við pössum börnin okkar betur og þá sérstaklega með því að hafna þessum rökum: að þjáning geti verið börnum holl því það gefur þeim harðari skráp.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Klám og siðgæði
19.2.2007 | 18:44
"Sakleysi er svo sannarlega dásamlegur hlutur. Annars vegar er mjög sorglegt að það geti ekki viðhaldið sjálfu sér og auðvelt er að draga það á tálar. Jafnvel viska - sem samanstendur meira af hegðun en þekkingu - hefur þörf á vísindum, ekki til að læra frá þeim, heldur til að tryggja viðurkenningu og stöðugleika á lífsreglum. Gegn yfirráðum skyldurækninnar sem skynsemin tjáir manninum að verðskuldi virðingu, finnur hann í sjálfum sér mótvægi gegn þeim í löngunum sínum og tilhneigingum, alla ánægjuna sem hann síðan nefnir hamingju. Skynsemin gefur skipanir sínar með mikilli staðfestu, án þess að lofa tilhneigingum nokkur loforð, og jafnvel með skeytingarleysi og fyrirlitningu gagnvart þeim, sem eru svo hvatvísar, og á sama tíma svo sannfærandi, og sem vilja ekki leyfa sjálfum sér að vera þvingaðar undir nokkur yfirráð. Hér verður til náttúruleg togstreita, það er tilhneiging til að mótmæla þessum ströngu lögum um skyldu okkar og til að efast um gildi þeirra, eða í það minnsta hreinleika þeirra og hörku; og ef mögulegt er, að samræma þau óskum okkar og tilhneigingum, það er að segja, spilla þeim við rætur þeirra, og eyðileggja gjörsamlega virði þeirra - nokkuð sem heilbrigð og almenn skynsemi getur ekki sagt að sé gott." (Úr Undirstöðulögmálum frumspeki siðferðis, eftir Immanuel Kant, þýðing HB.)
Hvað er klám og af hverju er vinsælt að vera annað hvort með eða á móti því?
Hvað er klám? Samkvæmt skilgreiningu á wikipedia.org er klám skilgreint sem afdráttarlaus framsetning á mannslíkamanum eða kynferðislegum athöfnum með það markmið að örva kynhvöt áhorfanda. Klámiðnaðurinn hefur vaxið hratt með tilkomu vídeóspólunnar, DVD og síðast en ekki síst Internetsins.
Ef sagt er að klám sé siðferðilega rangt, hlýtur það að vera vegna þess að það skaðar einhvern? Hvern skaðar klám?
Ljóst er að fólk almennt er mjög svo á móti barnaklámi. Við setjum strax samasemmerki á milli barnakláms og kynferðislegrar misnotkunar á börnum. Af hverju setjum við ekki sams konar samasemmerki á milli kláms og kynferðislegrar misnotkunar á konum eða körlum? Jú, svarið er ósköp einfalt. Börnin hafa ekkert val enda eru þau ekki sjálfráða fyrr en þau hafa náð ákveðnum aldri, en hinir fullorðnu hafa þetta val, er það ekki?
Það fer sjálfsagt eftir því hver spurður er, hvert svarið verður. Það að vera komið í slíkar aðstæður að þátttaka í klámi er orðið að valkosti, hvort sem um þátttakendur í kynferðislegum athöfnum eða tæknimenn sem festa athafnirnar á filmu, - þá er ljóst að þetta er hluti af veruleikanum í dag. Þetta er fyrirbæri sem fylgir flestum samfélögum, ef ekki öllum, og það er mikil eftirspurn eftir þessu og miklir peningar í spilinu.
Þeir sem meta mannvirðingu mikils eru oftast þeir sem snúa sér gegn klámi. Þeim býður við því að fólk sé að gera lítið úr því undri sem falist getur í heilbrigðu kynlífi. Trúarbrögðin standa oftast gegn klámi á þessum forsendum.
Sumir femínistar gagnrýna klámið á þeim forsendum að það geri lítið úr konum og að litið sé á konur (af körlum) sem hluti. Þetta geri að verkum að þessar konur munu sjálfar líta á sig sem hluti og glata þeim tækifærum sem felast í því að vera heilstæð manneskja. Aðrir femínistar hafa mótmælt og sagt að þetta hljóti að snúast um val hjá viðkomandi einstaklingum.
Þegar snýr að lögum, þá er málfrelsi settar skorður til verndar siðgæði manna og mannorðs, þar sem að litið er á það sem undirstöður lýðræðissamfélags að allar manneskjur séu virtar að verðleikum.
Í 73. grein íslensku stjórnarskráarinnar stendur: "Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum."
Stóra spurningin í sambandi við klám og bann á klámi er hvort að það skaði heilsu, siðgæði, réttindi, mannorð, mannvirðingu eða sjálfsvirðingu einstaklinga í lýðræðisþjóðfélagi? Hugsanlega snertir þessi spurning grundvallarspurningar um það í hvernig þjóðfélagi við viljum lifa.
Ef við viljum lifa í lýðræðissamfélagi, hvað þýðir það fyrir samskipti okkar og tengsl við annað fólk? Snýst lýðræði um frelsi til að gera það sem manni sýnist? Er klám afturhvarf til einveldishugsunarinnar þar sem að karlinn réð yfir þegnum sínum, rétt eins og karlmaðurinn í klámmyndböndum hefur algjöra stjórn á konunni?
Ljóst er að klám snertir okkur djúpt, hvort sem við erum því fylgjandi eða mótfallin. Hvers vegna? Er það vegna þess að fólk skiptist í tvo hópa: verndara og gerendur? Þá sem hafa íhugað þessi mál og komist að niðurstöðu og þá sem ekki hafa íhugað þetta?
Hvaða rök eru það sem styðja klám?
- Tjáningarfrelsi?
- Athafnafrelsi?
- Skemmtanagildi?
Hvaða rök eru á móti klámi?
- Skaðlegt mannvirðingu?
- Sakleysi?
- Siðgæði?
- Þrælkun?
- Ógeðslegt?
Hvaða rök vega mest á endanum? Er það ekki spurning sem hver og einn verður að svara, ef hann eða hún nennir að standa í því?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kennarar og menntun
18.2.2007 | 13:13
"Barnið grætur frá fæðingu; fyrsta hluta ævi sinnar gerir barnið fátt annað en að gráta. Stundum stússumst við í kringum barnið og huggum það til að róa það; stundum hótum við því, við þvingum í það reglu til að þagga niður í því. Annað hvort reynum við að gera það ánægt, eða við krefjumst af því það sem gerir okkur ánægð. Annað hvort gefum við undan duttlungum þess, eða við fáum það til að gefa undan okkar duttlungum. Það er engin miðja, það verður að gefa skipanir eða þiggja þær. Þannig að fyrstu hugmyndir þess eru um yfirráð og þjónustulund. Áður en það lærir að tala, skipar það fyrir; áður en það lærir að framkvæma, gegnir það." (Úr Émile eftir Jean-Jacques Rousseau.)
Á dögunum mótmæltu kennarar lágum launum sínum og stóðu þögula mótmælastöðu fyrir utan Alþingishúsið. Fáir virtust þó sýna þessum mótmælum einhvern áhuga. Samningaviðræður virðast vera í óhagganlegu ástandi þar sem að reynslumiklir samningamenn sveitafélaganna sitja öðru megin við borðið en nýskipaðir fulltrúar kennarastéttarinnar hinu megin. Kennarar vilja meira og sveitafélögin vilja gefa eins lítið eftir og mögulegt er. Kennaraverkfallið haustið 2004 sýndi fram á ýmislegt áhugavert:
1) Verkfallið skapaði enga pressu á samningamenn sveitafélaga á meðan kennarastéttin krafðist launalaust hærri launa. Aftur á móti jókst pressan stöðugt á kennarana, sem þurftu að eiga fyrir nauðsynjum og yfirdráttarheimildum. Eitthvað varð að gefa undan - rökrétt að það voru kennararnir. Margir ákáðu að snúa sér annað þar sem tekið var fagnandi á móti starfskröftum þeirra. En sumir hafa látið sig hafa það og haldið áfram, þrátt fyrir lág laun og mótbyr í samfélaginu.
2) Samfélagið sýndi litla sem enga samúð með kennarastéttinni. Hvert sem að maður fór heyrði maður talað um hvað kennarar væru miklar frekjur, og spurt hvort að þeir hafi ekki vitað hvað þeir voru að fara út í þegar þeir fóru í kennaranámið. Fólk virðist leggja í háskólanám á ólíkum forsendum. Sumir fara í nám sem þeir halda að sé létt. Sumir fara í nám sem þeir hafa brennandi áhuga á. Sumir fara í nám sem þeir vita að þeir munu standa sig vel í. Sumir fara í nám sem þeir vita að muni gefa vel í aðra hönd. Forsendur fyrir námi eru ólíkar, en allt er þetta nám dýrt fyrir námsmennina. Það að velja sér námsleið er mikilvægara en kaup á fyrstu íbúð - þetta er ákvörðun sem þú munt lifa við alla þína ævi. Á þessum tímapunkti þarf að svara nokkrum mikilvægum spurningum, eins og:
a) Hvernig manneskja vil ég vera?
b) Vil ég frekar eignast mikið eða gefa mikið af mér?
c) Vil ég nytsamlegt eða mannauðgandi nám?
3) Verkfallið var mörgum kennurum það dýrt að þeir munu aldrei ná aftur þeim peningum sem þeir töpuðu við að taka þátt. Eldri kennarar féllu sumir hverjir um launaflokka. Þessir áhugasömu einstaklingar sem gáfu sig alla í starfið án aukagreiðslna virðast einnig vera að hverfa á önnur svið sem gefa meira af sér. Ég á unga frænku, með Master í kennslufræðum. Hún var að fá undir kr. 100.000,- útborgað laun á mánuði fyrir fulla kennslu eftir 5 ára háskólanám. Hún er búin að segja upp.
4) Gildin sem kennarar eru að berjast fyrir eru of óljós fyrir almenning. Kennarar vilja mennta börnin í landinu en taka svo fram að skólar séu ekki uppeldisstofnanir, að börn þurfi að fá uppeldi hjá foreldrum sínum. Þetta er að sjálfsögðu bara heilbrigð skynsemi sem því miður virðist flækja málið hjá ýmsum sem koma ekki nálægt kennslu. Kennarar taka þátt í að móta einstaklinga og hópa sem munu nýtast og geta fundið sér farsæla leið í lýðræðissamfélagi framtíðarinnar. Þetta gera kennarar með því að þjálfa börnin í því að hugsa betur, eiga betri samskipti við önnur börn, tala betur, skrifa betur, reikna betur, spila tónlist betur, og svo framvegis - en hlutverk kennara er ekki það að kenna börnunum að hlýða og fara eftir fyrirmælum - það er hlutverk foreldra og margir þeirra virðast því miður vera að bregðast sínum börnum í dag, sem best er að sjá á sífellt auknum vandamálum tengdum agaleysi í skólum.
Ég vona að aukin virðing fyrir kennarastéttinni muni finna sér farveg á Íslandi. Annars erum við í vondum málum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)