Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Hvernig væri heimur án trúarbragða?

duty_calls

Ímyndum okkur heim þar sem enginn trúir á Guð, sálarheim handan þessa heims, eða því að lífið hafi æðri tilgang en þann sem hver einstaklingur skapar sér.

Trúarbrögð bjóða upp á átakasögur milli hins góða og illa, reyna að móta veginn til hins góða fyrir sérhvert barn í trúfélaginu og reyna að stýra því frá hinu illa. Þannig verða trúarbrögð að einhvers konar samfélagslegu öryggisneti fyrir sálarlíf einstaklinga. Þetta net tryggir að viðkomandi verði í samskiptum við fólk sem trúir því sama, og verði líklegri til að leita hins góða í heimi þeirra trúarbragða sem viðkomandi ástundar.

Ég hef ekkert á móti þessu.

Svo eru það hinir trúlausu. Þeir telja skipulögð trúarbrögð vera byggð á hindurvitnum, eða sögum sem hafa ekkert að segja þegar kemur að hinum hversdagslega veruleika og þeim sannleika sem vísindalegar rannsóknir halda fram um heiminn, að sérhver kenning sé fallvölt og sé í eðli sínu röng sé hún ekki mögulega röng í hugum þeirra sem trúir henni. Í heimi vísinda er hið fullkomna og óendanlega ekki til.

Ég hef ekkert á móti þessu heldur.

En lífið heldur áfram. Það eru 8 milljarðir manneskja á þessari Jörð sem þurfa einhvern veginn að lifa saman, helst í sátt og samlyndi, en oft brjótast út átök, ófriður og jafnvel styrjaldir. Hinir trúlausu kenna oft trúarbrögðum um þessi átök, en trúaðir leita dýpra.

Í þessum suðupotti sem jörðin er, hljóta að verða átök, sama hvort fólk trúir á einhverja yfirnáttúru eða ekki. Reyndar er nákvæmlega jafn líklegt að átök rísi meðal hinna trúlausu og hinna trúuðu. Kommúnismi Leníns reyndi að bæla niður öll trúarbrögð í Sovétríkjunum, gerði vantrú að lögum; nokkuð líkt því þegar Ólafur Tryggvason neyddi þá sem trúðu á goð eða ekki neitt til að verða kristnir, eða réttdræpir. Afleiðingarnar voru þeir að fólk fór að ástunda trú sína í leyni. Á síðustu öld neyddist fólk í fjölda landa Evrópu og Asíu til að fela sína trú vegna ofsóknar vantrúarmanna. Mörg árhundruð hafa vantrúaðir þurft að fela vantrú sína vegna ofsókna trúaðra.

Þetta virðast vera tvær hliðar á tuttugu hliða teningi.

Það er flott þegar fólk trúir á eitthvað sem er þeim æðra, á eitthvað sem þekkingarfræði vísinda getur ekki snert, og reynir ekki að snerta. Ástæðan er sú að í trúarbrögðum finnur fjöldinn oft á tíðum visku sem gerir þeim fært að lifa í sátt og samlyndi.  Það er líka flott þegar fólk hefur enga þörf fyrir trúarbrögð og lifir samkvæmt þeirri sannfæringu.

Það sem er hins vegar pirrandi er þegar fólk úr öðrum hópnum reynir að sannfæra hina um að þeir hafi rangt fyrir sér, annað hvort með ofsatrú á rök, eins og þau hinstu rök séu byggð á einhverju öðru en trú, eða með trúarbókstöfum. Hvorugt er virkilega sannfærandi. 

Það væri best í þeim heimi sem ég bý í að fólk fengi að vera trúað eða trúlaust í friði. Það er það sem trúfrelsi snýst um. Þá finnst mér allt í lagi að trúaðir og trúlausir haldi fram sínum boðskap og að fólk læri um hann, og móti sér sínar eigin skoðanir um heiminn. 

 Það að þola ekki einhvern annan fyrir að vera svolítið öðruvísi en maður er sjálfur er svolítið eins og að vera upptekinn af því þegar einhver vogar sér að vera á ólíkri skoðun einhvers staðar í netheimum.

Annars langar mig að ljúka þessari hugleiðingu á pælingu frá manni sem virðist hafa áttað sig á samfélagslegu mikilvægi trúarbragða, sem ópíum fyrir fjöldann:

 

"Trúarleg streita er í sömu mund tjáning raunverulegrar streitu og mótmæli gegn raunverulegri streitu. Trúarbrögð eru andvarp hinnar kúguðu skepnu, hjartað í miskunnarlausum heimi, rétt eins og þau eru andinn í andlausum aðstæðum. Þau eru ópíum fyrir fólkið. Gjöreyðing trúarbragða sem tálsýn hamingju fyrir fólkið er nauðsynleg til að það geti öðlast raunverulega hamingju. Krafan um að hafna tálsýn um ástand þess er sú krafa að hafna ástandi sem krefst tálsýna." Karl Marx

 

Svarið við spurningunni um hvernig heimurinn væri án trúarbragða, væri sjálfsagt í líkindum við ef spyrt væri hvernig hátíðarmatur væri án hátíðar, eða hvernig rauðvín braðgðist án berja, eða hvernig mexíkóskur matur bragðaðist án kryddjurta. Heimurinn væri sjálfsagt fátækari og bragðdaufari.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband