Ný frétta- og upplýsingasíða fyrir skákmenn: Skákveitan
13.1.2009 | 19:01
Skákveitan
Komin er í gang ný frétta- og fróðleikssíða um skák: Skákveitan, sem getur hjálpað okkur að halda utan um skákfréttir bæði á Íslandi og erlendis. Ég notaði einungis tækni úr Open Source samfélaginu til að búa síðuna til.
Ég hélt kostnaðinum í lágmarki með að kaupa mér svæðið á Lunarpages, en þeir eru með ágætis tilboð í dag þrátt fyrir erfitt gengi, en mánaðargjaldið er 4.95 bandarískir dollarar á mánuði ef maður kaupir hagstæðasta pakkann, en samtals kostar hann fyrir 12 mánaða áætlun 59,40 dollara og fyrir 24 mánaða áætlun 118,80 dollara, sem felur í sér lén, óendanlegt rafrænt pláss og óendanlega bandvídd.
59,40 dollarar = kr. 7547,-
118,90 dollarar = kr. 15.106,-
Önnur svæði sem ég hef búið til með þessu kerfi eru til dæmis síða um kvikmyndagagnrýni og önnur um heimspeki.
Íslenskum skákmönnum er velkomið að taka þátt, en ég held að þetta geti gagnast á ýmsa vegu. Allir geta sent inn greinar og athugasemdir. Ég bið aðeins um tvennt, að þeir sem ákveða að taka þátt skrifi fyrst og fremst um skák og komi fram undir nafni. Ég mun ekki ritstýra þessu neitt sérstaklega, en skoða samt málin ef ég verð látinn vita og fjarlægi skrif sem ég met að beinist gegn persónum á ósvífinn hátt, og gæti fjarlægt ef ég nenni greinar sem eru með dónalegu og óvönduðu orðabragði.
Hægt er að gefa bestu greinunum atkvæði, þannig að þær fara ofarlega á síðuna. Þannig að lélegar greinar eru fljótar að sökkva, en góðar greinar fljótar að ná vinsældum.
Ég mæli sérstaklega með að menn leiti að grein Snorra G. Bergssonar um 1. umferð Skákþings Reykjavíkur, og gefi henni atkvæði svo að hún hækki á listanum.
Einnig er hægt að skoða greinar eftir efnisflokkum og ná sér í gagnaveitu út frá þeim. Finnist einhverjum vanta flokk má leggja það undir mig og ég bæti honum við fylgi fyrirspurninni góð rök.
Markmiðið með síðunni er að styðja enn frekar við hina ríku skákhefð sem ríkir á Íslandi og frábærlega vel unnar vefsíður eins og Skák.is og Skákhornið (það er hægt að tengja í áhugaverðar umræður). Einnig geta taflfélög sem hafa ekki komið sér upp heimasíðu notað vefinn til að koma eigin fréttum á framfæri, sem þá fréttamiðill eins og Skák.is getur nýtt sér til að afla sér upplýsinga á hraðan og öruggan hátt, með því að tengjast í RSS veitur síðunnar.
Hugmyndin er ekki sú að stjórnandi síðunnar uppfæri hana reglulega, heldur taki allir notendur þátt í því og móti hana þannig eftir eigin höfði.
Þessi síða er byggð í anda þeirrar frumkvöðlahugsunar sem Daði Örn Jónsson (íslensk skákstig, Chess in Iceland, Skákhornið) og Gunnar Björnsson (Skák.is á Strikinu, ruv.is, leit.is, blog.is og víðar) hafa gefið svo gott fordæmi fyrir með því að setja ógurlega vinnu í að byggja upp skákvefi sem gagnast hafa íslenskum skákmönnum. Fleiri er hægt að nefna, en þessir tveir standa algjörlega upp úr í þessum málum og mætti heiðra þá sérstaklega fyrir vikið.
Þetta kerfi er byggt á hugmyndunum að baki Digg, sem vex stöðugt í vinsældum, en þarna er mjög þægilegt að safna saman áhugaverðum tenglum í fréttir sem birtast á netinu, þannig að vinsælustu fréttirnar verða alltaf, samkvæmt kenningunni, efstar á blaði.
Ég vil taka það sérstaklega fram að þessi síða er ekki í samkeppni við flottar íslenskar skáksíður eins og Skák.is eða Umræðuhorn skákmanna, heldur hugsuð til að styðja við þær og gefa enn fleiri tækifæri til að koma sínum fréttum að í gegnum ágætis bloggkerfi.
Flokkur: Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 19:04 | Facebook
Athugasemdir
Til hamingju með þetta framtak.
Gunnar Freyr Rúnarsson, 14.1.2009 kl. 13:35
Gunnar Freyr: Takk
Hinricus: Þá uppfærir maður bara með næstu útgáfu. Mér líst annars vel á þetta. Það er svolítið mál að átta sig á þessu fyrst, en þetta er fljótt að koma.
Hrannar Baldursson, 14.1.2009 kl. 17:16
Sæll félagi, fylgist þú nokkuð með Gettur Betur?
Kalli (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 22:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.