Um ræðu Jóns Baldvins í Silfri Egils: Er samningur við Alþjóða gjaldeyrissjóðin eina leið okkar út úr vandanum?

 

 

Í Silfri Egils átti Egill Helgason samtal við Jón Baldvin Hannibalsson, en Jón heldur því fram að eina skynsama leiðin út úr krísunni sé samningur við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Það myndi þýða að skilyrði væru sett á stjórnsýsluna, að bruðl og agaleysi væri stoppað - og einnig hélt hann að það þýddi að íslenska þjóðin yrði ekki gerð ábyrg fyrir ástandinu, heldur þeir einstaklingar sem græddu hvað mest á útþenslunni. Þeir þyrftu að greiða til baka það sem þeir hafa tekið (ó)frjálsri hendi.

Verkefni dagsins hlýtur að vera rannsókn á því hvort að þetta sé satt og mögulegt, og finna upplýsingar um hvort að þetta sé þýðing slíks samnings.

Annað jafn mikilvægt verkefni sem má ekki bíða með er að rannsaka hvað gerðist í raun og veru, og finna út af hverju það gerðist sem gerðist, og finna hina seku í málinu (en ekki sökudólga sem hengdir eru af dómstólum götunnar). Tvær leiðir til slíkrar rannsóknar komu fram í þættinum: annars vegar sú hugmynd að allir sem upplýstu um hvað gerðist í raun og veru fengju fyrirfram sakaruppgjöf, og hin að fá erlenda og hlutlausa aðila í rannsóknina vegna þeirrar gríðarlegu spillingar og hagsmunatengsla sem lama íslensk stjórnmál. Báðar hugmyndirnar er vert að skoða.

Ef ljóst er að samningur við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn er eina leiðin til að bjarga komandi kynslóðum frá óviðráðanlegum skuldum næstu áratugina, eða koma í veg fyrir að sjálfstæði okkar glatist, þá hlýtur að vera eðlileg krafa að allir Íslendingar standi saman í tiltektinni. Þeir sem standa gegn henni mætti ákæra sem landráðsmenn.

Þjóðin á ekki að bera ábyrgð á einkareknum fyrirtækjum. Ef Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn skilur þetta og er sammála þessu, og mun taka tillit til þjóðarinnar og hjálpa til við að stokka upp hérna heima, er augljóst að rétta skrefið er að ganga að þessum samningum, þó að það þýði sjálfsagt að Ísland þurfi að fara í nánari samstarf við aðrar þjóðir.

Hefur Jón Baldvin rétt fyrir sér?

Hann er fyrrverandi utanríkisráðherra og afar fróður um þessi mál enda með mastersgráðu í hagfræði frá Edinborgarháskóla. Hann ræddi hlutina af skynsemi, og virðist hafa séð leið út.

Hann vill skipta út bankastjórn Seðlabankans og færði góð rök fyrir sínu máli, að stjórnin væri rúin trausti bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi. Þó að ástæður þess að Seðlabankinn hafi tapað traustinu séu líkast til runnar úr harðvítugum árásum frá Baugsmönnum, þá er staðan í dag einfaldlega sú að traustið er horfið. Þess vegna væri rétt að skipta um áhöfn, hvort sem að ástandið er þeim að kenna eða ekki.

Er önnur leið fær?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæll Hrannar. Þetta var áhugavert viðtal. Hlutlaus úttekt er nauðsynlegt en ég er nokkuð sannfærður um að sú greiningarvinna er ekki það sem mest brennur á nú. Það er að koma gjaldeyrismálunum í gang svo fyrirtækin í landinu stoppi ekki.

Í þessari greiningarvinnu þar m.a. að skoða, hvort fjölmiðlarnir hafi verið misnotaðir. Þá getur verið áhugavert að skoða fjölmiðlafrumvarpið í því ljósi. Það voru mörg orð látin falla á þeim tíma. Þá verður athyglisvert hverjir vilji bera ábyrgð.

Það er líka áhugavert að fyrsta árásin á Kaupþing var ekki framkvæmd af Brown, heldur Davíð Oddsyni sem tók út kr. 400.000 til þess að mótmæla ofurlaunum og bónusum.

Það er full ástæða til þess að fara yfir öll þessi mál til þess að byggja upp nýtt og betra Ísland. Við þá greiningu á ekki að fara í nornaveiðar. Það voru vinnubrögð liðinna alda. Var ekki ein slík brenna á Austurvelli í gær?

Sigurður Þorsteinsson, 19.10.2008 kl. 15:33

2 Smámynd: María Kristjánsdóttir

En til þess að hægt sé að ræða orð Jóns verðum við að fá frekari upplýsingar.

Við verðum að vita öll rök í málinu - við verðum að fá allt upp a borðið til að geta myndað okkur skoðun- hversu góður sem Jón Baldvin er þá nægja ekki upplýsingar frá honum einum.

Að gefa fólki upp fyrirfram sakir er held ég rangt- við verðum að geta endurheimt til dæmis fé frá þeim hér innanlands sem augljóslega hafa grætt á að steypa okkur í vanda. En erlend rannsóknarnefnd í málið er held ég alveg kórrétt.

María Kristjánsdóttir, 19.10.2008 kl. 15:44

3 identicon

Það sem liggur mest á núna er að skipta út stjórn Seðlabankans og Bankastjórum. Leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er verkefni dagsins eða jafnvel verkefni gærdagsins. Við höfum ekki tíma til að vera að karpa um hvort DO hafi gert hitt eða þetta og hvort það hafi verið rangt eða rétt. Það bíður betri tíma.

Guðmundur Sigurðsson (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 16:58

4 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þetta er harður kostur og við verðum að gæta hagsmuna fólksins og þjóðarinnar til hins ýtrasta gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem státar ekki af tómri manngæsku, - en hefur verið nefnd einhver önnur fær leið?

Helgi Jóhann Hauksson, 19.10.2008 kl. 17:04

5 identicon

Ef að ekki fæst aðstoð frá gjaldeyrissjóðnum tekur það lengri tíma að koma greiðslumiðlun við útlönd og gjaldeyrismörkuðum í gang. Hver dagur sem þetta dregst er dýr.

Hinsvegar er það tæpast rétt að IMF leiðin sé eina leiðin. Þessir hlutir munu komast í gang á endanum. Það veltur í raun á skilyrðum IMF hvor leiðin sé skárri.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 19:30

6 Smámynd: Ómar Ingi

Jón er mikið Flón

Ómar Ingi, 19.10.2008 kl. 20:22

7 Smámynd: Hippastelpa

Ef þig langar að fræðast um starf IMF undanfarna áratugi þá vil ég benda á bók sem heitir, Globalization and its discontents, by Joseph E. Stiglitz. Stiglitz var yfir hagfærðingur hjá "World bank" í fjölda ára og hefur flest annað en fallega hluti að segja um IMF og þeirra fyrirætlanir. Ég skelf á beinunum að tilhugsuninni um að verða þessarri stofnun háð, eða  öllu heldur að bráð.

Hippastelpa, 19.10.2008 kl. 21:44

8 Smámynd: Hippastelpa

... og Sigurður Þorsteins, ég neita að láta bendla mig við nornabrennur þó ég vilji reka menn úr vinnu sem starfa fyrir mig/okkur og hafa ekki staðið sig í starfi. Menn eiga að sjálfsögðu að sjá sóma sinn í að segja sjálfir af sér þegar þeir hafa skitið í buxurnar en ef þeir gera það ekki þarf að ýta þeim út. Öðruvísi breytist ekkert hér á landi.... það á hinsvegar við um miklu fleiri en D.O.

Hippastelpa, 19.10.2008 kl. 21:51

9 Smámynd: Ásdís Jónsdóttir

Við verðum að passa okkur á að verða ekki erlendum stofnunum að bráð hvort sem það er alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða Evrópubandalagið. Óþarfi að taka orð Jóns Baldvins sem einhverskonar guðsorð. Hann hefur nú víða farið í pólitík og ekki alltaf verið til fyrirmyndar þar. Óþarfi að ætla honum yfirnáttúrulega hæfileika til að sjá hvernig okkur vegnar í framtíðinni. Látum þann aflóga stjórnmálamann bara hafa sínar skoðanir sötrandi hvítt eða rautt á margföldum eftirlaunum í sólinni á Spáni.

Ásdís Jónsdóttir, 19.10.2008 kl. 23:05

10 identicon

Loksins kom maður í sjónvarpið sem vissi öll svörin og maður sem er trúverðugur. Ég er sammála Jóni hvað Sjálfstæðisflokkin og Davíð varðar í þessu máli, löngu tímabært að þetta lið verði rekið úr ríkisstjórn.

Fólk kallar eftir umræðu, ha ha það er nú bara hálf fyndið , á að ræða þessu hluti fram og til baka á meðan landið tapar hundruðum miljarða á dag? Nei nú er tími til aðgerða og ef þessir menn vita ekki hað á að gera þá eiga þeir að hafa vit á því að koma sér burt og fá alvöru menn til að taka við.Nú þurfa þessir jakkafata og vatnsgreiddu pabba strákar í Sjálfstæðisflokknum að stíga fram og sýna okkur að þeir hafi bein í nefinu til að framkvæma á erfiðum tímum, ekki endalaust málþóf sem engu skilar frekar en fyrridaginn.

Nú verðum við bara að átta okkur á því að Sjálfstæðisflokkurinn er búnin að koma okkur í þá stöðu að við verðum að fara þessa leið, við getum ekki klórað okkur upp úr þessu án þess að fá aðstoð utan frá, við verðum bara að hætta þessari þjóðrembu í augnablikinu, ég hef bara mikklar áhyggjur á því að Geir og Davíð séu að koma okkur í enn meiri og verri vandræði á degi hverjum með sínu aðgerðaleisi.

Fólk ætti líka að vera vant því eftir öll þessi ár sem Sjálfstæðisflokkur hefur stjórnað að hér á Íslandi eru hlutir ekki ræddir, hér hafa menn gengið fram með hroka, valdníðslu og gífulegri frekju sem menn hafa aldrei þurft að svara fyrir því fjölmiðlar á 'Islandi er of linir, í venjulegu þjóðfélagi væri búið að taka þessa kalla af lífi í fjölmiðlum og rúmlega það.

Í dag eiga Íslendingar of marga  lögfræðinga, dýralækna og endalausa einhverja fræðinga á þingi sem aldrei hafa farið út fyrir 101 og vita ekkert AKKURAT EKKERT hvað er að gerast úti á landi og á hverju þessi þjóð lifir og hefur lifað. Hér áður fyrr voru þingmenn sjómenn, útgerðarmenn, bændur og menn í atvinnurekstri sem höfðu reynslu og hugsuðu um hag þjóðarinnar ekki eigið rassgat og flokssfélaga, maður er alveg komin með upp í kok á þessu pakki.

Það er ekkert að því að vera vel menntaður þó síður sé, menn þurfa líka að hafa reynslu og kynna sér betur landið sjálft, fara út á land og tala við fólk, ekki bara rúnta um á sínum Mercedes í rvk og mæta bara í snobbpartýin þó svo að það þurfi líka að gera það.

Nú er kominn tími til að við hlustum á gamlan ref og framkvæmum hlutina og hættum þessu helvítis málþófi, ef þetta er ekki tími til aðgerða hvenær er hann þá?

Auðunn Atli (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 08:39

11 Smámynd: Sævar Helgason

Má ekki ljóst vera að Sjálfstæðisflokkur er í gríðarlegum vanda staddur. Hann hefur verið "ábyrgur " fyrir peninga og efnahagsmálunum undanfarin hálfan annan áratug - og gjaldþrot er staðreynd- við sem þjóð erum strönduð.

Að játa þetta og þar með skipbrot stefnu og verka Sjálfstæðisflokksins-er flokknum yfirþyrmandi erfitt.  Forystumaður flokksins allan þennan tíma , fyrst sem forsætisráðherra og síðan Seðlabankastjóri- er tákn þessa verks.

Að ljúka ferli sínum með því að lýsa þjóðina bónbjargarmenn og leita fátækrahjálpar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum - er erfitt.

En við verðum að lifa áfram og leita allra leiða sem bjóðast og nú er það aðeins ein leið- Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn...

Sævar Helgason, 20.10.2008 kl. 11:15

12 Smámynd: Fannar frá Rifi

Hvað er málið með að allir Íslenskir stjórnmálamenn sem hrökkluðust í burtu eða gáfust upp, séu teknir í guðadölu um leið og þeir opna munninn í fjölmiðlum. dæmi um slíka eru Þorsteinn og Jón Baldvin. Er ekki ástæða fyrir því afhverju þeir gáfust upp í pólitík? Það treysti þeim enginn fyrir völdum? núna koma þeir og segjast hafa heimt Baldur úr greipum Heljar. 

Fannar frá Rifi, 20.10.2008 kl. 11:33

13 identicon

Það er alver merkilegt með Jón Baldvin hann veit allt kann öll svörin, en gat ekk leyst einföldustu mál þegar hann var í ríkisstjórn, og hann jarðaði sinn eiginn flokk. Nei því miður það er ekkert að marka Jón Baldvin hann er í besta falli skemmtikraftur.

Ómar Sigurðsson (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 11:35

14 Smámynd: DanTh

Hrannar og Sigurður.

Hvaða nornaveiðar eruð þið að tala um?

Óskaplegur hroki er þetta gagnvart fólki sem krefst þess að þeir séu dregnir til ábyrgðar sem drógu þennan vagn.  Við erum að tala um þúsundi miljarða sem allt samfélagið hefur verið sett í ábyrgð fyrir.

Þessi umræða er á nótum einskonar sefjunar þar sem reynt er að slá skjaldborg utan um kunna fjárglæframenn og pólitíska leiðtoga af versta toga.  Við sem fáum þennan skuldaklafa yfir okkur frábiðjum okkur um svona yfirlætistón. 

Verði ykkur að góðu sem svona talið. Takið bara þennan klafa á ykkur við óskum ekki eftir honum.

DanTh, 20.10.2008 kl. 13:14

15 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Halli gamli verður að vera sammála Daniel herna á undan/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 20.10.2008 kl. 22:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband