Vonarglæta í svartasta skammdeginu?

 


 

Krónan hefur fallið eins og steinn framan af háum hamri síðustu daga, og ekki hefur verið séð fyrir hvar hún lendir. Allt í einu er allt þjóðfélagið komið á endann í einhverri múgsefjun sem tengist þeirri hugmynd að himnarnir séu að hrynja.

Góðu fréttirnar eru þær að himnarnir eru ekki að hrynja og enginn hefur látið lífið í þessum fellibyl krónunnar. 

Slæmu fréttirnar eru þær að fólk sér fram á erfiða afborgunartíma, en það er reyndar nákvæmlega það sem fjöldi bloggara hefur séð fyrir síðan í mars.

Um daginn spurði ég hvað myndi gerast fyrir þriðja ársfjórðung bankanna í ár, en gengisfall varð fyrir síðustu tvo ársfjórðunga, og við vitum öll hvað er að gerast núna. Mig grunar, þó að erfitt sé að fullyrða um það þar sem margt fer leynt, að ríkisstjórnin sé loksins að gera eitthvað af viti. Það einfaldlega kostar.

Ríkinu hefur tekist að vekja athygli á þeirri stjórnlausu gróðahyggju sem hefur verið að auðga fáa en safna skuldum fyrir afgang þjóðarinnar. 

Þessi viðbrögð eru að skila árangri. Fyrst hríðfellur krónan af því að viðurkennt hefur verið að vandamál sé til staðar. En nú er einnig verið að vinna í næsta skrefi, að sjá fyrir sér velmegun á ný en samkvæmt betri leikreglum.

Krónan hætti að falla í dag, og stóð ekki í stað, heldur flaut upp um 0.2%. Þetta eru góðar fréttir. Þetta getur þýtt að botninum sé náð.

Aðrar góðar fréttir eru þær að fólk um allt land er að sýna þessu máli skilning, og heyrst hefur að skuldarar og skuldunautar eru að ræða sín mál og endursemja um greiðslur.

Ég heyri ekki betur en að Íslendingar séu að standa saman í þrengingunum, þó að háværustu fréttirnar séu vissulega frekar neikvæðar eins og venjulega.

Ég er einfaldlega feginn því að loksins er öllum ljóst að gróðahyggjan er vandamál. Ef við hefðum ekki áttað okkur á því, hefðum við bara komið okkur í enn meiri vanda.

Stjórnendur þessa lands hafa samt verið undarlega treggáfaðir að átta sig á vandanum og gera eitthvað af viti í málunum, kannski af hræðslu við afleiðingarnar.

Fyrst að bæði almenningur og Ríkið skilja nú að vandi er fyrir höndum og byrjað er að taka á honum er von um réttlátari og betri tíma þar sem ofurlaunakóngar og drottningar sitja vonandi ekki til eilífðar ein að þjóðarkökunni.

 

Mynd: LCS The Illustration News Portal


mbl.is Gengi krónunnar styrktist um 0,2%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Heiðdal

Ég heyrði nú ekki betur en Valgerður eða Álgerður eins og hún er kölluð af okkur strákunum kenni ESB um þetta allt saman.  Regluverkið fyrir bankakerfið komi frá ESB.  En það eru einmitt fáránlegar reglur sem gera þetta rugl mögulegt.  Frjálst flæði fjarmagns án hindrana o.s.fr.  Síðan villi kerla ganga ESB á hönd vitandi þetta.  Er hún kannski tvær persónur?

Björn Heiðdal, 3.10.2008 kl. 20:04

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það er betra að vera bjartsýnn,  ég held reyndar að krónan sé ekki að að rísa úr öskustónni alveg á næstunni, bankarnir eigi fleiri eftir að Glitnisvæðast og lífeyrissjóðirnir verði hluti af því dæmi.  Hvort það er betra eða verra fyrir okkur almúgan kemur á daginn og ég er sammála um að það verði erfitt að borga af lánunum en það hefur reyndar verið fyrir séð um nokkurn tíma.  Sumum finnst væntanlega örggið vera farið og þeir haf ekki gengist undir þessa skilmála þegar þeir stofnuðu til fjárhagsskuldbindinga en öryggi í skuld var og verður aldrei til.

Samdráttur þarf ekki  að vera slæmur, þá komum við væntanlega til með að hafa meiri tíma og felst ekki frelsið einmitt í því að hafa tíma fyrir sig og sína?  Þegar á botnin er hvolt snýst þetta allt um hugarfar.

Magnús Sigurðsson, 3.10.2008 kl. 23:16

3 identicon

Palinískur einfeldnisháttur ...

"Slæmu fréttirnar eru þær að fólk sér fram á erfiða afborgunartíma"

... næstu 25 / 40 árin þá?

"Krónan hætti að falla í dag, og stóð ekki í stað, heldur flaut upp um 0.2%. Þetta eru góðar fréttir. Þetta getur þýtt að botninum sé náð."

... þetta er flökt á dauðum gjaldeyrismarkaði, síðustu gæjarnir ráku sig í borðið á leiðinni út.

"Allt í einu er allt þjóðfélagið komið á endann í einhverri múgsefjun sem tengist þeirri hugmynd að himnarnir séu að hrynja."

Ætli það sé ekki frekar þannig, að fólk hefur áttað sig almennilega á stöðunni, sem er sú fyrir marga að þeir eru gjaldþrota?  Hvað með þá staðreynd að fasteignabólan hefur ekki sprungið ennþá ... er það ekki bara tilefni til að brosa meira, horfa frammá veginn o.sv.fr.?

Ástþór Óskarsson (IP-tala skráð) 4.10.2008 kl. 00:19

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Björn: Ég játa að ég veit lítið um það hvaðan regluvirkið kemur, en ljóst er að það lekur og þarf eitthvað að stoppa í það.

Magnús: Já, hugsanlega getur eitthvað dregið úr stressinu við kreppu. Kannski þarf fólk að fara að slaka aðeins á og njóta lífsins.

Ástþór: Hugsanlega næstu 25-40 árin, hugsanlega næstu 10, það er ómögulegt að segja. Það hefur leynt og ljóst stefnt í þetta frekar lengi, og einfaldlega nauðsynlegt að við sjáum að þetta gengur ekki svona lengur. Þetta er vissulega erfitt ástand, en það er búið að byggja svo mikið að við þurfum varla að flytja aftur í torfbæina með moldargólfi, þó að það gæti verið hagstæð lausn að flytja bara út í móa.

Lassý: Það er ómögulegt að spá fyrir um hvað gerist næst í þessum málum. Við verðum hins vegar að sýna þrautseigju og forðast það að sökkva okkur í sjálfsvorkunn, sama þó að við séum í tapliðinu eins og er. Það er alltaf nýr dagur á morgun.

Hrannar Baldursson, 4.10.2008 kl. 08:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband