Veist þú hvað 14,5% verðbólga kostar þig mikið á dag?
28.8.2008 | 08:42
Á sama degi og íslenska landsliðinu í handknattleik er fagnað verðskuldað með mikilli og glæsilegri skrúðgöngu og fjöldafundi í miðbæ Reykjavíkur, og forsetinn sæmir þessa góðu drengi fálkaorðunni, berast fréttir af enn alvarlegra máli, að verðbólgan sé orðin 14,5%. Hvað þýðir það?
Skilgreining á verðbólgu samkvæmt Wikipedia:
Hækkun á verðlagi sem minnkar kaupmátt og lækkar virði fjármuna. Verðbólga hefur áhrif á hagkerfið með því að auka óvissu og letja fólk frá sparnaði. Verðbólga hefur einnig í för með sér hærri nafnvexti sem letja fólk frá fjárfestingum. Það verður til ójafnvægi í greiðslum þar sem að innflutningskostnaður lækkar en útflutningskostnaður hækkar. Gengisfelling verður einnig til þess að launajafnvægi fer úr skorðum, þannig að þeir sem eru á föstum launum missa kaupmátt, en þeir sem hafa breytilegri fjármögnun geta enn hagnast á hækkandi verði og vöxtum.(Þýðing: HB)
Því hærri sem verðbólgan er, því meira græða eigendur hlutfallslega á við skuldara, þó að allir tapi. Sumir tapa bara miklu meira en aðrir. Þetta er ekki mikið flóknara en það.
Ef þú átt 1000 krónur á bankareikningi á 5% vöxtum með verðtryggingu, þá dekkar verðtryggingin verðbólguna, og vextirnir verða 19,5%. Þannig breytast þessar 1000 krónur í tæpar 1200 krónur. Það sama gerist þegar einhver skuldar 1000 krónur á 5% vöxtum. Á sama tíma hækkar vöruverð, sem þýðir að sá sem átti pening fyrir stendur hugsanlega í stað í kaupmætti, en sá sem skuldar mun tapa mun hraðar.
Raunveruleg dæmi eru til um einstaklinga sem skulda 20 milljónir á 4,3% fasteignaláni. Í 14,5% verðbólgu rjúka þessar 20 milljónir upp í tæpar 24 milljónir. Hvað þýðir þetta margra mánaða aukavinnu fyrir manneskju með 150 þúsund krónur útborgaðar á mánuði? Reiknaðu nú. Þetta eru raunverulegar tölur í dag vegna þess hvernig fasteignaverð sprakk þegar húsnæðislán flæddu inn á fasteignamarkað.
Myndin sýnir hversu dramatískar breytingar verða á skuldum sem bera 4,3% verðtryggða vexti. Það væri hægt að sýna súluna til samanburðar við 0 krónur sem upphafstölu, en það myndi skekkja sýnina á hversu alvarlegur hlutur 14,5% verðbólga er fyrir fólk sem einungis hefur tekjur af launuðu starfi og með fastar mánaðartekjur.
Tíminn er nefnilega peningar.
Eignatilfærsla verður mikil. Bilið breikkar milli þeirra sem eiga og þeirra sem skulda. Eigendur græða jafnmikið og skuldarar tapa, sem sumum kann að þykja óréttlátt, því að þeir sem eiga meira hafa ekki jafn mikla þörf fyrir aukinn gróða og skuldarar sem þurfa að þræla sér út, bæta við aukavinnu og jafnvel taka sér aukastarf til að eiga fyrir útborgunum.
Hvað er það sem veldur þessari auknu verðbólgu? Er þetta eitthvað sjálfkrafa skrið, eða meðvituð aðgerð einhverra einstaklinga? Af hverju er stjórnsýslan að auka verðbólgu með hækkandi gjöldum? Er þetta með ráðum gert, eða bara tómur kjána- og klaufaskapur? Getur þetta hugsanlega verið ein af birtingarmyndum spillingar?
Við verðum að ná verðbólgunni niður með öllum tiltækum ráðum. Hvað er hægt að gera? Hvað þarf að gera?
Hefurðu reiknað út hvað verðbólgan kostar þig mikið
- á dag
- á viku
- á mánuði
- á ári?
Er hugsanlegt að verðbólgan hjaðni ekki þar sem að einhverjir vilja ekki að hún hjaðni?
Myndir:
Peningar: smallbiztechnology.com
Heimildir:
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:51 | Facebook
Athugasemdir
Get ekki hugsað um það mér verður flökurt og fæ svima og líð .........
Ómar Ingi, 28.8.2008 kl. 08:59
Ég er alltaf að reikna út hvað mínar skuldir eru að aukast mikið með verðbólgunni. Hef aldrei skilið afhverju ég mátti ekki bara fá gengislán hjá bankanum Ég meina, lánið hefði auðvitað rokið upp við gengishrunið í mars/apríl sl. en væri að nokkru leyti búið að rétta sig við aftur núna. En hækkun vegna verðtryggingar!? Nei, góurinn, skaðinn er skeður eftir hverja hækkun. Lánið mitt getur í besta falli núna hækkað hægar en áður, en nýji núllpunkturinn er orðinn alveg skyhigh frá því þegar ég tók lánið fyrst.
Mest fyndið fannst mér samt að vera í USA í sumar þegar Bandaríkjamenn voru að fá flogakast yfir 6% verðbólgu...
Mama G, 28.8.2008 kl. 11:40
Í dæminu um verðtrygginguna á að margfalda saman vexti og verðbólgu:
1,145 * 1,05 = 1,20225 => 20.2% vextir
Meðan að vextir eru jafn háir og raun ber vitni verður sérhver atvinnurekandi að auka álagningu sína til að geta staðið undir fjármagnskostnaði. Þar með heldur verðbólgan áfram að hækka og þar með hækkar svo aftur fjármagnskostnaður.
Héðinn Björnsson, 28.8.2008 kl. 14:27
En hver græðir á verðbólgunni, Hrannar? Fjármagnseigendur?
Berglind Steinsdóttir, 28.8.2008 kl. 16:51
Ekki get ég svarað því hvað verðbólgan kostar mig, eða hver græðir á henni. Eitt er víst að það er ekki hún ég.
Frábært hjá þér að vekja fólk til umhugsunar.
Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 28.8.2008 kl. 17:22
Þegar ég les svona, þá þakka ég Guði fyrir að búa í útlöndum.
Guðrún B. (IP-tala skráð) 28.8.2008 kl. 19:44
Ætlar þú virkilega að eyðileggja stemninguna?
Júlíus Valsson, 28.8.2008 kl. 20:34
Það er búin að vera hérna tímabundin uppsveifla í þjóðfélaginu. Fólk er búið að spreða hægri vinstri með krónu sem var mjög sterk miðað við Evru og Dollar. Verðbólga var um 6% fyrir 2 árum síðan en fólk var samt að taka lán fyrir bílum og öllu sem það komst yfir. Ef fólk hefði nú frekar sparað og notið góðs af verðtryggingunni þá væri staðan heldur betur önnur hjá fólki í dag. Þú þurftir ekki að eiga krónu í banka til þess að kaupa hús eða bíl allt var lánað. Það þarf að hafa í huga að húsnæði hefur hækkað um 60% að meðaltali á þremur árum.
Jón V Viðarsson, 28.8.2008 kl. 21:42
Er ekki ein alsherjarlausn á vandanum að eyða verðbólgu- Það var gert við þjóðarsáttarsamningana ,kringum 1990 . Þá borgaði skuldari jafnt í krónum talið + 3-4 % vexti- þetta stóð í am.k einn áratug og allir sælir. Síðan fórum við Í Kárahnjúka og einkavæddum bankana sem aftur dældu lánsfé inní landið. Verðbólgan fór af stað síðan bættist orkusprengingin við... Var einhver að tala um afburðaléleg stjórnvöld þegar þetta ástand varð til ???
Sævar Helgason, 28.8.2008 kl. 22:40
Til hvers eru ríkisstjórnir, eiga þær ekki að stjórna fyrir fólkið í landinu, svo það hafði það sæmilega gott... mér finnst þessi ríkisstjórn algjörlega ráðalaus í þessu ástandi... ríkisstjórnir berja sér á brjóst þegar vel gengur og þakka sér "góðæri" en verða svo stikkfrí þegar illa árar og gjörsamlega ábyrgðalausar... það er alvarlegt að gera ekki neitt...
Brattur, 28.8.2008 kl. 23:20
Gott niðurlag og rökstuðningur sem endranær hjá þér Hrannar en þýðingin í upphafi er villandi enda er hún byggð á erlendum aðstæðum; hér ber skuldarinn alla áhættuna af verðbólgunni (ekki eigandinn, kröfuhafinn).
neytendatalsmadur (IP-tala skráð) 29.8.2008 kl. 00:16
Sæll Hrannar
Nánast undantekningarlaust er ég sérlega ánægður með það sem þú skrifar á blogginu. Fræðandi og oft nýir og áhugaverðir vinklar. Hafðu bestu þakkir fyrir.
Hér ferð þú inn á svið, sem bersýnilega er ekki þín sterka hlið. Spurningin ,,Veist þú hvað 14,5% verðbólga kostar þig á dag?" er mjög áhugaverð. Umfjöllun þín ekki. Við þurfum ekki að tapa á því einu að lán okkar hækka í krónutölu, ekki ef eignir hækka sambærilega eða meira. Það tapa allir á verðbólgunni, en af öðrum ástæðum. Það er erfitt að meta tap nema á föstu gengi. Er að reyna að koma frá mér grein í fjölmiðla, hvernig best er að koma verðbólgunni niður. Vonandi tekst mér það um helgina. Fjárans lesblindan mín dregur oft úr mér löngunina og kraftinn til að skrifa. Nota sjáfur bloggið til þess að brjóta þá hlekki.
Sigurður Þorsteinsson, 29.8.2008 kl. 07:36
Lítt rökstuddur popúlismi Björgvin G. Sigurðsson segir hann um þetta fyrirbæri. Er einhver ráðherra á Íslandi í lagi?
Svo kemur Yfirmaður Greiningar deildar Glitnirs og segir að ef þeir fai ekki að nota evruna muni allir bankar flytja úr landinu!
Svona hótanir frá bönkum eru bara samþykktar á á islandi.
Hegðunarmunstruð er eins og hjá glæpagengi.
Ríkisstjórn er heiladauð gjörsamlega. Borgasrstjórn minnir mig á börnin mín þegar endalaust rifist um hver ætti að fá að sitja frammí. Geir Haarde minnir á Mr. Been með glottið og gáfnafarið. Hann muldrar bara. Í
slendingar eru rændir á hverjum degi og er það nokkuð víst að viðskiptahákarlar notfæra sér stöðuna til hin ýtrasta. Þeir græða bara á upp og niður sveiflum.
Olíuverð hafa og geta ekki valdi svona dífu. Hún er þrælskipulögð. 'eg kalla þetta "Pétur Blöndal Syndrómið". Akkúrat svona aðstæður bjuggu til kaupþing í Húsi Verslunarinnar.
Hann lánaði aldrei neinum sem gat borgað. Bara þeim sem áttu eignir og gátu EKKI borgað. Plús kaup á ávísunum einn mánuð fram í tíman á 10% vöxtum á mánuði.
Kallaði dóttur sína aumingja í dagblaði af því að hún vildi frekar far til félagsmálastjórnar til að fá peeninga enn þiggja þá af pappa sínum. Enn hvað ég skil hana vel. Harðjaxlarnir í þessari svikamyllu eru ekkert að básúna þetta út opinberlega. Þeir þegja bara.
Pétur er þingmaður í dag og hann er eins kórdrengur við hliðina á þeim sem lemja krónuna eins langt niður og hægt er. Þetta er ekkert flókið ferli. Þeir spila á þetta eins og píanó og kunna sitt fag. Aðferðiner sú sama, enn það er bara meira í pottinum núna.
Borgarsjórn sem er engin stjórn, eyðir mánuðum í að vita hvar þeir eigi að sitja. Til að geta haldið fund. þetta hlítur að vera mesta lúðasamfélag sem til er á jörðinni. Krakkar í Borgarstjórn sem kunna ekki einu sinni að tala né vinna.
Þeir sem kjósa yfir sig "atvinnukerfiskalla" sem eru fyrir löngu útbrenndir, áhugalausir og hreinlega nenna þessu ekki. Öll þeirra hegðun segir það.
það þarf enga heimsspekinga til að sjá hvað er í gangi hér. Það sem er furðulegast af öllu er viðbrögð þjóðarinnar, ekki veruleikafirrtra stjórnmálamanna. Þeir eru bara veikir og þarf að sprauta niður og beint á hæli.
Er þetta eitthvað flókið? Meira ruglið sem þetta þjóðfélag er orðið. Og þeir sem stýra þessu raunverulega ösdkra og æpa af hlátri, því þeim finnst sjálfum þeir svo sniðugir..
Það eina sem þurfa að kunna til að vera í íslensku stjórnmálum er kjaftavit og ekkert meira. Og að sjálfsögðu vera með í réttum "vinahópi".
Forseti ætti að rjúfa þing, enn hann þorir því ekki. Hann er gamall refur og veit nákvæmlega hvað er að ske. Og gerir ekkert.
Stefnuskrá landisins er ósköp einföld: "Þetta er bara einhvernvegin" og svoleiðis mun það verða.
Það er akkúrat nógu langur tími eftir af þessu kjörtímabili, til að þeir nái restinni af Ríkinnu. Það er ákveðin listgrein út af fyrir sig að geta gert svona. Persónuleikarnir sem eru að þessu kallast á ensku "conartist" og eru oft að finna í bönkum, stjórnmálum, stórum fyrirtækjum og þess háttar.
Þegar þeir verða of margir saman fara þeir að skipuleggja sig. Bara svona eitt "ENRON" dæmi sem engin tekur eftir. Trix og fix fyrir framan nefið á allri þjóðinni!
Þeir hafa gaman nefnilega gaman af þessu "games people play" sem er lýsing á þessu fyrirbæri sem er að ske hér. Uss..
Óskar Arnórsson, 29.8.2008 kl. 07:37
Það gleymdist þarna efst að Björgvin var að tala um verðtrygginguna og að fólk vildi hana í burtu...Alveg með ólíkindum hverjir fá völdin nú til dags..
Óskar Arnórsson, 29.8.2008 kl. 07:54
Ómar: Þetta eru nefnilega svimandi háar upphæðir. Fyrir eina milljón í skuld erum við að tala um 500 krónur aukalega á dag, sem eru um 15.000 krónur á mánuði. Það þarf ekki mikinn reiknihaus til að sjá þetta, en ég fékk ágætt bloggskjal sent frá góðum bloggvini með formúlu til að reikna þetta allt út. Björn fær þakkir fyrir það!
Mama G: Ég sótti einmitt um gengislán hjá bankanum, en fékk ekki.
Héðinn: Rétt, ég vildi frekar vanreikna en ofreikna, og miðaði við þá vexti sem voru í gildi árið 2005 þegar þeir voru sem lægstir. Þá er hugsunin: "þrátt fyrir lægstu vexti..."
Berglind: Það græðir enginn á verðbólgu. Hins vegar breikkar bilið á milli þeirra sem eiga og þeirra sem skulda. Þetta getur valdið skýrri stéttaskiptingu með þessu áframhaldi.
Sóldís Fjóla: Takk. Málið er að sumir virðast bera sig það mikið saman við aðra, að ef aðrir hafa það meira skítt, þá er þeirra eigin ástand betra, þó að það standi í stað. Eða hvað?
Guðrún B: Já, enda þekki ég ansi marga sem hafa verið að flytja af landi brott og sífellt um fleiri sem eru að velta brottflutningi fyrir sér, og þá er ég að tala um fólk með meðaltekjur sem sér betri kosti erlendis en hér heima.
Júlíus: Hvaða stemningu?
Jón Viðar: Ég hef ekki orðið var við neina uppsveiflu. Það eina sem ég hef séð sveiflast upp eru lánsmöguleikar og húsnæðisverð, en nú hafa lánsmöguleikar fallið og húsnæðisverð stendur í stað.
Sævar: Það væri óskandi að hægt væri að komast að slíkri þjóðarsátt.
Brattur: Ríkisstjórnin virðist því miður ekki ráða við ástandið og Seðlabankinn ekki heldur, enda stjórnar hún og hann því ekki. Raunverulegir stjórnendur ástandsins eru þeir sem geta planað það mun lengur en í fjögur ár, og hafa okkar smáa hagkerfi í hendi sér. Ríkisstjórnin mætti hins vegar taka afstöðu með fólkinu í landinu, nokkuð sem ég sé því miður ekki gerast.
Neytendatalsmaður: Þakka þér fyrir leiðréttinguna. Þetta var fljótfærnisvilla, eins og getur gerst á blogginu. Það er ekki eins og maður sé að fá laun fyrir þessar greinar.
Sigurður: Takk fyrir hrósið. Það er rétt að þetta er ekki mín sterkasta hlið, en til að eflast þykir mér gott að blogga og spyrja þeirra spurninga sem mér finnst skipta máli um viðkomandi hluti. Ég þykist ekki hafa öll svörin, en spurningarnar eru það sem knýr mig áfram. Reyndar minnist ég á í greininni að allir tapa, það eru eigendur sem einfaldlega tapa minna hlutfallslega en skuldendur. Kannski kom ég þessu ekki nógu vel frá mér, en skilningurinn er til staðar.
Óskar: Góð athugasemdin um hákarlana sem græða á sveiflunum. Þannig er þetta. Stjórnmálamenn í dag fljóta bara á yfirborðinu og hákarlarnir gleipa allt það sem fellur útfyrir borðstokkinn.
Takk fyrir góðar athugasemdir!
Hrannar Baldursson, 29.8.2008 kl. 17:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.