Menntamál á Íslandi í dag
Menntamál á Íslandi eru í ólestri, og það er engum einum að kenna nema kannski helst ákveðnu stjórnleysi og öfgafullri efnishyggju. Hógvær hægristefna er ágæt. Stjórnlaus hægristefna eins og sú sem við upplifum í dag leiðir til hörmunga. Við höfum hallað okkur of langt til hægri, það er komin slagsíða á bátinn og ekki langt í að þjóðarskútan fari á hliðina. Vonandi leggur skynsama fólkið í brúnni áherslu á að rétta skútuna við sem allra fyrst. Það gerist varla á meðan allir halda að allt sé í allrabesta lagi.
Þegar hin ágæta Þorgerður Katrín talar um að mæla fyrir frumvarpi sem fjölgar námsárum fyrir kennara og skyldar þá til að ljúka mastersgráðu áður en þeir fara til kennslu, fullyrði ég að þetta frumvarp hefur ekkert að segja í sambandi við námsárangur barna framtíðarinnar. Sjálfur hef ég mastersgráðu og er með kennsluréttindi frá kennaraháskóla í Bandaríkjunum og kennsluréttindi bæði í Mexíkó frá Anahuac háskóla og á Íslandi í grunn- og framhaldsskólum, og get því fullyrt út frá eigin brjósti.
Ég hef gífurlegan áhuga á menntun, fræðslu og kennslumálum, en kemur ekki til hugar að starfa sem kennari á Íslandi við þær aðstæður sem kennarar búa við í dag. Ástæðan er einföld: ég gæti ekki séð fyrir fjölskyldu minni. Sérðu vel menntað fólk ljúka fimm ára námi til að starfa í skólum ef það þarf að lifa á fátæktarmörkum fyrir vikið, í þjóðfélagi þar sem mánaðarlaun kennara duga ekki fyrir mánaðarleigu á þriggja herbergja íbúð?
Hvað erum við að gera rangt og hvernig getum við bætt okkur?
Við einbeitum okkur að því að dæla staðreyndum í börn og stimpla þau sem slök, meðal eða góð. En það sem þau vantar er væntumþykja, alúð og tími til að vera börn. Hefur ríkasta og hamingjusamasta þjóð heims ekki efni á slíkri gjöf í dag?
Kennarar eru úthrópaðir sem letingjar og tækifærissinnar, sérstaklega þegar nær dregur kjarasamningum, og hvað þá í verkfalli. Það er vitað mál að ef talað er illa um kennara sem stétt, bera börnin síður virðingu fyrir þeim. Hvað kostar ríkustu og hamingjusömustu þjóð heims að sýna kennurum meiri umhyggju? Kennarar eru fólk sem fer í kennslu því það hefur köllun í þetta starf. Enginn fer í kennslu vegna launanna. Aftur á móti hrekjast margir í burtu vegna þeirra.
Nemendur kvarta ef gerðar eru til þeirra of miklar kröfur, láta illum látum og komast upp með það. Agavandamál aukast, litlum glæpaklíkum fjölgar og siðferði hrakar. Af hverju eru börnin ekki að sýna námi meiri áhuga? Er það námsefnið og aðferðirnar? Eru það börnin sjálf? Er það þjóðfélagið? Er Ísland lasið?
Stefnan um minna brottfall
Afleiðingar stefnunnar um minna brottfall hefur þegar haft alvarlegar afleiðingar. Heyrst hefur að framhaldsskólar séu í raun þvingaðir til að minnka kröfur til nemenda, þar sem að fyrirskipunin að ofan væri sú að allir ættu að ná. Af þessum sökum fara nemendur auðveldustu hugsanlegu leið í gegnum nám, forðast fög sem gera kröfur til þeirra. Svo er brottfall nemenda úr skólum tengt við fjárveitingar til skólans.
Í stað þess að fá greitt af ríkinu fyrir nemendur sem skrá sig í skóla, er aðeins greitt fyrir þá sem ljúka skólaárinu. Af þessum sökum er erfiðara að þvinga fram kröfur til nemenda og nemendur finna fljótt að það eru þeir sem hafa völdin, leggja undir sig skólann og komast upp með að stytta sér leið í gegnum námið.
Það mætti skoða hlutlægt hvaða áhrif þessi stefna hefur haft á nemendur á framhaldsskólastigi, og hvernig þetta breiðist út til háskólanna. Fólk vill einfaldlega klára sitt nám eins fljótt og auðveldlega og mögulegt er, sem er eðlileg ósk, en alls ekki til þess fallin að færa þeim verðuga menntun.
Áhugaverðar umsagnir:
Ég tók saman punkta af ýmsum bloggsíðum sem mér finnst lýsa ástandin menntamála á Íslandi nokkuð vel og því sem fólki finnst að gera þurfi til að bæta þessi mál. Ég tek ekki undir allar hugmyndirnar, og finnst sumar þeirra beinlínis hættulegar en þær gefa samt málinu ferskan blæ.
"Liður í því að gera skólakerfið betra gæti hugsanlega verið að að hlusta betur á fólkið í landinu." Gunnlaugur Br. Björnsson
"Hærri laun fyrri kennara !!!! Gera kennara jákvæðari gagnvart starfi sínu (er nú ekki að segja að þeir séu eitthvað mjög neikvæðir samt) og skapa okkur þannig samfélag að kennarar vilji koma og kenna börnum og séu ánægðir með það sem þeir fá í staðinn !!!!" Inga Lára Helgadóttir
"Stjórnun og efling fræðslumála á fyrstu stigum er eitt það mikilvægasta í þessu þjóðfélagi, því það eru þau börnin sem munu erfa landið." Jón Svavarsson
"Þetta kallar á mikla endurskoðun á málinu og ég hugsa að ég ræði þetta á borgarstjórnarfundi á eftir. Þetta kallar á meiri upplýsingar um árangur, akkúrat það sem við Sjálfstæðismenn vildu í síðasta meirihluta fara að gera meira af. Einnig kemur inn í þessa umræðu agamál, skóli án aðgreiningar og opin kennslurými sem ég persónulega tel vera mikið álag fyrir kennara." Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
"Það eru 6 börn á hvern starfsmann í leikskóla, en 20 í grunnskólum. Agi og virðing kemur ekki frá skólunum heldur heimilunum. Almennileg kennsla er það sem við viljum fá frá skólunum fyrir börnin okkar. Finnst þér ekki vera almennileg kennsla í íslenskum skólum almennt? Ég er kennari og finnst að margt megi betur fara, í fyrsta lagi hafa of margir góðir kennarar hrökklast úr starfi sökum lélegra launa, en það eru allir að gera sitt besta. Við þurfum bara að reyna að laða bestu kennarana aftur inn með hærri launum." Helga (athugasemd hjá Nönnu Katrínu Kristjánsdóttur
"Börnin okkar og þeirra framtíð virðast ekki vera metin mikils og mesta virðingin og peningar fara allt annað en í mennta- og uppeldismál." Nanna Katrín Kristjánsdóttir
"Í Finnlandi er heildarhugsun/umhyggja í kringum börnin í skólakerfinu,- þar fá öll börn heitan mat í hádeginu sér að kostnaðarlausu ( og svo hefur verið síðan í heimstyrjöldinni síðari), ef barn þarf iðjuþjálfun/sjúkraþjálfun/talþjálfun o.s.frv. þá skilst mér að það sé tekið á því innan skólanna. Eftir því sem mér er sagt þá er í raun hlúð að öllu í kringum hvert barn á heildrænan hátt innan skólans,- í það fer fjármagn. Grunnhugmyndin er greinilega umhyggja og heildstæði. Við hér erum líklega of mikið að búta börnin í sundur,- taka á þessum þætti hér og hinum þættinum þarna." Þórhildur Helga Þorleifsdóttir
"Nú kemur svo í ljós að nemendur eru í afturför í stærðfræði miðað við fyrri kannanir. Enginn þarf að undrast þetta. Gaman væri að menntamálaráðherra settist niður með þær kennslubækur, sem nú er boðið upp á í grunnskólum landsins t.d. þá sem kallast Geisli. Ég er satt að segja undrandi á því hversu lítið hefur heyrst um þá bók, en fjölmargir kennarar svitna við það eitt að heyra á hana minnst... Lausn: Hættið við að lengja kennaranám, en setjið þess í stað upp skyldunámskeið fyrir kennara í eðlisfræði og stærðfræði. Yfirvöld menntamála endurskoði allar námsbækur og vinni að endurbótum þar sem þeirra er þörf." Þjóðarsálin
"Við þurfum ekki að miða menntunina að því að framleiða kjarneðlisfræðinga í breiðum bunum, en það er nauðsynlegt að klárir krakkar fái hvatningu og örvandi kennslu." Pétur Henry Petersen
"Hvað sem veldur er ekki gott og slæmt til þess að hugsa að með jafn miklu námsframboði og góðum kennurum (áður en flóttinn brast í stéttina í betur launuð störf) að niðurstaðan sé svona slæm... Tökum sem dæmi að í NAT 113 var hlutapróf á haustönn sem nú er senn liðin. Kennarinn fékk ákúrur hjá nemendunum um að nota óskiljanleg orð á borð við "Uppistöðulón" og "Fallvatnsvirkjun". Kennaranum fannst nóg um og sagði að þetta stæði með útskýringum í bókinni." Þrymur Sveinsson
"Árið 2006 voru undir 10% af fjárlögum notuð í menntamál. Það hlutfall hækkaði í 2007 í 13,5%. En þetta hefur ekkert með grunnskóla að gera. Því þeir eru komnir á sveitafélögin og þau hafa ekki bolmagn til að gera vel við Grunnskólana, vegna þess að þeir fengu ekki skattstofna með t.d. hærra hlutfall af tekjuskatti." Johnny Bravo
"Er ekki alveg fáráðlegt að sleppa þessari mikilvægu breytu í umræðunni. Hvers vegna ættu illa launaðir kennarar að skila af sér hágæðaverkum? - sem þeir þó reyndar gera allflestir." Þórdís Þórðardóttir
"Bara svona að pæla, kannski hefur það eitthvað að segja að kennarar eru orðnir lægst launaða háskólamenntaða stéttin. Kennarar flýja til bankanna þar sem þeir fá hærri laun við að afgreiða kúnna. Á meðan skólarnir eru að hluta til mannaðir ómenntuðum leiðbeinendum og "lélegri" kennurum og bestu kennararnir eru í öðrum störfum er ekki við öðru að búast!" Helga, Drottningar og drekaflugur
"Alveg er það magnað - að þegar kennarar flýja umvörpum kennarastarfið þá kemur menntamálaráðherra fram með hugmyndir um lengingu kennaranáms. Þá held ég að stefnan ætti heldur að vera að skapa efnahagslegan grundvöll fyrir kennara að geta kennt... Með því að krefjast lengra náms munu án efa útskrifast hæfir kennarar - en um leið munu þeir verða enn eftirsóttari í önnur betri launuð og betur metin störf... Það er sorglegt að verða vitni að brotthvarfi góðra kennara ár eftir ár - í ár er ég að upplifa lélegustu kennara sem mín börn hafa nokkru sinni haft. Það þýðir ekki lengur að berja hausnum við stein og halda því fram að allir skólar séu fullmannaðir - það er auðvitað hægt að fylla allar stöður með því að slaka á kröfunum." Arró, Tæknibloggið
"Það þarf að auka áherslu á skapandi skólastarf og ekki síður á fjölbreytni í skólunum og lesskilning, ekki bara hraðlestur." Hlynur Hallsson
"Í af listum pistli sem ég skrifaði fyrr í vetur fjallaði ég um þetta lamaða skólakerfi sem byggir á einni spurningu, "Veistu svarið". Minntist þá einnig á uppruna orðsins "education" sem er úr latnesku "educare" og merkir "að draga fram" eða "að ná út". -Ekki "að troða inn", sem virðist sá skilningur sem stjórnvöld leggja á menntamál." Ransu, athugasemd hjá Hlyni Hallssyni
"Að mínu mati er lausnin sú að losa skólakerfið úr viðjum miðstýringar stjórnmálamanna sem þykjast vita allt alltaf og koma þessum rekstri til einstaklinga og félagasamtaka sem reka skóla á non-profit grunni í bland við hið opinbera kerfi. Þá mun okkur farnast betur. Norðurlönd og aðrar þjóðir eru mun duglegri við þetta og um leið opnari fyrri lausnum en hin íslenska þjóðarsál sem er að tortíma öllu frumkvæði innan hins ríkis- og sveitarsjórnarvædda kerfis." Sveinn, athugasemd hjá Hlyni Hallssyni
"Ég held að þess mikla atvinnuþátttaka skólabarna sé aðal ástæðan fyrir þessari niðurstöðu. Unglingar sem eru í krefjandi námi og hafa einnig einhver áhugamál og þurfa góðan svefn geta ekki stundað aðra vinnu án þess að það komi niður á náminu. Reynum að halda skólabörnum frá vinnu með námi. Og alls ekki stytta framhaldsskólann. Leyfum framhaldskólanemum að þroskast félagslega meðfram námi. Með því að taka þátt félagsmálum og í lífinu almennt meðan það er fallegast og skemmtilegast." G Kr
"Við þurfum að hugsa okkar ráð í kjölfar þessarar niðurstöðu. Það getur varla talist annað en lykilmál til að taka á að ungmenni landsins séu með lélegan námsárangur og lestrarkunnáttu þeirra hraki. Það verður áhugavert að sjá hvernig að yfirmenn menntamála taki á þessari niðurstöðu." Stefán Friðrik Stefánsson
"Þetta próf skipti engum í mínum skóla máli. Fáir lögðu sig því fram og má líkja þessu við kannanir sem eru gerðar í grunn og framhaldsskólum þar sem maaaaaaargir sem ég þekki bulla þegar spurt er um fíkniefnaneyslu, reykingar, árangur í skóla, sennilega til að mótmæla þessum könnunum. Annars veit ég ekkert hvar ég lenti á þessari PISA könnun og því ómögulegt að segja til um eitt og annað. Ég gæti verið langt yfir meðaltali." Hlynur Stefánsson
"Það er nefnilega þannig að maður hefur ekki forsendur til að læra ef manni líður ekki vel og treystir ekki kennaranum sínum." Kolbrún Ósk Albertsdóttir
"Ég hef lengi vitað að yngri kynslóð þessa lands reiði ekki vitið í þverpokunum. Nú er ég svo gamall sem á grönum má sjá og man því betri tíð með blóm í haga. Þegar ég var á mínum barnaskólaaldri þá lærðum við eitthvað gagnlegt! Ég man að ég þurfti að læra kverið mitt og lexíurnar á hverjum dagi, annars var ég hýddur. Nú til dags virðist mér barnabörnin mín ekki læra ýkja mikið. Og þá sjaldan sem þau ná að rífa sig frá sjónvarpinu og tölvunni þá er það til að læra einhverja þvælu, eins og kristnifræði eða lífsleikni! Það væri nær að kenna þeim að kveðast á... Menntamálaráðherra ætti að sjá sóma sinn í að stokka eitthvað upp í kennarastéttinni. Mér virðast vera allt of margir vanhæfir grunnskólakennarar á Íslandi. Og hvernig stendur á því að börn kunna ekki ljóð helstu þjóðskálda utan að lengur??! Með þessu áframhaldi þarf Ísland á þróunaraðstoð að halda áður en mínir dagar eru taldir." Jón Guðmundsson
"Fókusinn hjá okkur íslendingum í menntamálum er að fjölga háskólum og slá öll heimsmet í fjölda nemanda í framhaldskólanámi. Grunnurinn hefur alveg farið í öskustónna í þessu þindarlausa kapphlaupi að reisa háskóla í hverri sveit og byggðarlagi." K Zeta
Staða Íslands versnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 01:16 | Facebook
Athugasemdir
Heyr Heyr. Hjartanlega sammála. Það er kannski ekki nema von að við hröpum niður listann þegar góðir kennarar hætta kennslu og finna sér skrifstofuvinnu sem gefur 50% hærri laun og eftir standa ómenntaðir kennarar og lélegir kennarar.
Jóhann Hilmarsson (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 09:01
Hreint út sagt frábær pistill hjá þér Hrannar minn. Rödd skynseminnar, loksins.
Steingerður Steinarsdóttir, 5.12.2007 kl. 10:21
"Það er ekki samhengi milli kostnaðar og árangurs þegar kemur að skólastarfi. Af norðurlöndunum eru norðmenn með dýrasta skólakerfið, en lakasta árangurinn. Finnar eru hinsvegar með það ódýrasta, en besta árangurinn, samkvæmt PISA rannsókninni." ruv
Ég er ósammála. Það virðist samhengi, a.m.k. frá þeim upplýsingum sem gefnar eru í fréttinni. Það þarf að draga úr kostnaði í skólakerfinu. Þýðir ekki að draga allt fégráðugasta fólkið í skólana, þeir eru betur geymdir í bönkunum.
Gullvagninn (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 12:20
Heyr, heyr.
Þessa vangaveltur ætti að birta í öllum dagblöðum líka. Frasinn um að kennarar séu að sligast hefur aldrei verið sannari en núna.
Ágúst Ólafsson (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 14:04
Gullvagn, þig vantar eina forsendu, hún er sú að aukinn kostnaður þýði hærri laun kennara. Ef það væri samhengi á milli mikils kostnaðar við menntakerfi og hærri launa kennara þá væru líklega færri kennarar að hverfa til annara starfa.
Egill Óskarsson, 5.12.2007 kl. 17:46
Takk fyrir athugasemdirnar. Ég get tekið undir með Agli. Takk fyrir hvatninguna, Steingerður, Ágúst og Jóhann.
Hrannar Baldursson, 5.12.2007 kl. 19:55
Góður pistill að vanda.
Í verkfallinu 2004 sagði Pétur Blöndal í sjónvarpsviðtali í "Íslandi í dag" að kennarar ættu að mennta sig meira, því með aukinni menntun kæmu hærri laun. Gunnar Birgisson sagði að kennarar mættu alveg hætta það kæmi maður í manns stað. Og nafna mín menntamálaráðherra sagði að kennarar eyddu meiri tíma í að lesa launaseðlinn en námskrána.
Þeirri hugsun laust í kollinn á mér að ég hefði einmitt menntað mig og NB tekið námslán til þess eins að vera með lægri laun en frænka mín sem var engöngu með stúdentspróf og þurfti ekki að borga af námslánum. Ætli kennaralaunin hækki eitthvað með tilkomu aukinnar menntunar?
Margir fínir kennarar tóku Gunnar Birgisson á orðinu og eru enn að því, flóttinn úr stéttinni er gríðarlegur.
Það sem þessi orð þeirra eiga sameiginlegt er skortur á virðingu fyrir því starfi sem kennarar inna af hendi.
Að vera með lúsarlaun er eitt. Að vinna jafn erfiða vinnu og kennslan er og gera sér grein fyrir að fáir bera virðingu fyrir starfinu, að margir telji það mannað letingjum sem eru komnir heim klukkan tvö og telja dagana í sumarfrí, er annað.
Nú er fólk að uppskera eins og það sáði. Kennarar eru farnir til annarra starfa.
Gerða M (IP-tala skráð) 6.12.2007 kl. 08:56
Foreldrar verða aftur að fara að taka meiri þátt í námi barna sinna, ekki hægt að ætlast til annars en að allir taki þátt svo kennslan skili árangri. Góður pistill
Ásdís Sigurðardóttir, 6.12.2007 kl. 19:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.