Vanþekking er ekki vandamál; hún heillar


Í veikindum mínum ákvað ég að stytta mér stundir við að kíkja á síðustu þætti Jon Stewart. Stewart er einn af þeim fáu húmoristum sem geta kitlað hláturtaugar mínar inn að beini, nokkuð sem maður þarf á að halda í leiðinda veikindum. Einn af viðtalsþáttum hans kveikti svolítið í mér, og ég held að hann gæti kveikt áhuga hjá fleirum sem horfa á.  

Jon Stewart er fyrirtaks þáttarstjórnandi, þar sem allt kemur honum við, sérstaklega hlutir sem snerta stjórnmál og lykta af hræsni og spillingu. Hann er vanur að sneiða slík mál með hárbeittum húmor og satíru. Hann gerir samt fleira en að gagnrýna stjórnvöld. Hann reynir einnig að benda á hluti sem eru vel gerðir. Hann á það til að stjórna viðtölum við framúrskarandi fólk á ýmsum sviðum.  Eitt af skemmtilegustu viðtölum sem ég hef séð hjá honum er við stjarneðlisfræðinginn Neil deGrasse Tyson, stjórnanda Nova Science.

Smelltu á myndina til að skoða myndbandið á Comedy Central:

Hugleiðingar eftir áhorfið: 

Ég held að kennarar hefðu gott af því að skoða þetta myndband og muna að þegar nemendur komast í námunda við jafn mikinn áhuga á viðfangsefninu og Tyson sýnir, þá geta þeir ekki annað en smitast af honum. Málið er að komast eins nálægt því óþekkta og við komumst; því þar finnum við þverhnípi sem þarf að brúa. Það getum við gert með því að spyrjast fyrir um grunnforsendur þekkingar okkar og með þvi að skoða þau svör sem við lifum við í dag.

Vísindin koma ekki með nein endanleg svör við spurningum, heldur aðeins stökkpalla í átt að nýjum vísbendingum um það sem við þekkjum ekki. Vísindaleg þekking verður fyrst til þegar við höfum tekist á við þessar spurningar í eigin persónu. Ef einhver segir þér hvernig hlutirnir eru og útskýrir það fyrir þér, verður ekki til þekking; aðeins trú. Ef þú leggur á þig nógu mikla vinnu til að uppgötva þá af eigin raun, þá fyrst verður raunveruleg þekking til. Þetta á við um öll svið þekkingar, ekki aðeins vísindalega. 

Það getur verið ógurleg vinna fyrir hvern einstakling að grafa sig inn í öll möguleg mál til að öðlast sanna þekkingu. Það virðist ógerningur. Þess vegna lifum við flest eftir annars stigs þekkingu og trú frekar en sannri þekkingu; að öðlast sanna þekkingu er tímafrekt og krefjandi. Okkur getur einnig þótt erfitt að átta okkur á muninum. Sá sem þekkir muninn á trú og þekkingu er betur staddur en þeir sem ekki gera það.

  • Þekkir þú muninn á trú og þekkingu?
  • Hvernig greinum við skilin á milli þess sem við þekkjum og þess sem við trúum? 
  • Er munur á að 'trúa' einhverju og að 'trúa á' eitthvað? 
  • Er vanþekking vandamál eða blessun?
  • Þegar þú uppgötvar að þú veist ekki eitthvað, hvernig bregstu við? Með því að hylma yfir eigin vanþekkingu og skammast þín eða taka á vanþekkingunni með jákvæðum hætti, sem spennandi viðfangsefni?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafrún Kristjánsdóttir

Snildar spurningar... munurinn á trú og þekkingu.  Sló mig svoldið meira að segja, Trúi ég á þær aðferðir sem ég nota í mínum fræðum eða hef ég þekkingu á þeim.  Eða kannski bæði.

Skapar miljón nýjar spurningar.... skemmtilegt

Hafrún Kristjánsdóttir, 30.7.2007 kl. 01:43

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Gott að þú ert kominn af stað aftur.  Bíð eftir kvikmynda gagnrýni.

Ásdís Sigurðardóttir, 30.7.2007 kl. 18:38

3 Smámynd: arnar valgeirsson

smá skákviðburðapælingar hérna.. kommenta á bíomyndir síðar!

er með 848-7914 ef þú gætir haft samb fljotlega.

mr bloggvinur valgeirsson..

arnar valgeirsson, 2.8.2007 kl. 16:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband