Hópþrýstingur gagnvart hóteli
22.2.2007 | 18:36
Þessi síðasta flétta í sögunni um yfirvofandi klámráðstefnu er gífurlega áhugaverð og spennandi.
Var þessi ákvörðun eigenda Hótels Sögu tekin á siðferðilegum forsendum eða efnahagslegum? Eða geta efnahagslegar forsendur hugsanlega verið siðferðilegar?
Ef aðstandendur hefðu rökstutt þessa ákvörðun með því að segja klám vera af hinu illa, skaðlegt samfélaginu, hefðu þeir verið að leggja siðferðilegan dóm á málið. Ákvörðunn var tekin í sjálfsvörn. Ljóst er að hún var úthugsuð og hafði allt með ímynd Hótels Sögu að gera, en lítið með siðferði. Annars hefðu bláar myndir aldrei verið leyfðar á hótelherbergjunum.
Einnig er nokkuð augljóst að íslenskt samfélag hefur sent frá sér skýr skilaboð um andúð þess á klámi, og því hefur það virst skynsamlegur leikur hjá Hótel Sögu að fara eftir vilja samfélagsins. Stóra spurningin er hins vegar sú hvort að íslenska samfélagið hafi verið að beita þrýstingi vegna þess að það er með svona gífurlega öfluga siðferðisvitund, eða vegna þess að þarna var fórnarlamb til staðar sem lá vel við höggi.
Skilaboð hótelsins eru skýr: það vill ekki fá á sig stimpil sem stofnun sem hýsir siðerðilega vafasama starfsemi. Skilaboð þjóðfélagsins virðast einnig vera skýr: að þjóðin vill ekki klám.
Er kannski komið að hámarki siðferðilegs frjálsræðis á Íslandi, þar sem að fátt eða ekkert er fordæmt, sama hvort að um kynferðislegar tilhneigingar eða gay-pride göngur er að ræða. Hefur mælirinn verið fylltur, og þjóðin farin að snúast gegn því sem hún gæti vogað sér að kalla 'óeðlilegt'?
Vinsæl ákvörðun hefur verið tekin, þjóðin þarf ekki að skammast sín fyrir klámráðstefnu á Hótel Sögu sem sjálfsagt enginn hefði tekið eftir ef ekki hefði verið fyrir gúrkutíð og athyglissýki fjölmiðla. Ljóst er að þetta getur breytt ímynd Íslands á þann hátt að við verðum hugsanlega álitin íhaldssöm þjóð sem er farin að leita aftur í kristin gildi eftir mikla trúarlega lægð; í stað þess að litið sé á okkur sem brjálaða drykkjubolta og lauslátar meyjar.
Hvort viljum við vera; þjóð með siðferðilegan þroska sem fordæmir hluti sem vert er að fordæma, eða þjóð sem leyfir flest sem getur verið siðferðilega vafasamt.
Reyndar læðist að mér sá grunur að ein meginástæðan fyrir þessum háværu mótmælum þjóðarinnar tengist sögunni um Guðmund í Byrginu og fréttum af níðingsverkum sem unnin hafa verið gegn íslenskum börnum. Ef það er satt, þýðir það að þjóðin okkar sé farin að hugsa sinn gang og vill ekki láta hvað sem er yfir sig og börn sín ganga. Og það er gott!
Er það ekki?
Eigendur Hótel Sögu vilja hætta að sýna ljósbláar myndir gegn gjaldi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:39 | Facebook
Athugasemdir
Nú hefur Síminn sjálfur dreift klámi í gegnum heimasíðu sína www.hugi.is/kynlif til lengri tíma.
Þar fá börnin okkar aðgang að klámi og öðrum viðbjóð...
Af hverju setur enginn út á það?HÞS (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 19:15
Ég er sammála þér Hrannar, umfang þessa máls kemur að öllum líkindum í kjölfar þess sem yfir þjóðina hefur dunið undanfarnar vikur, fréttir af kynferðisbrotum gagnvart konum og börnum svo áratugum skiptir og er þá ekki að undra að við viljum snúa vörn í sókn og úthýsa því sem miður er. Þða má vel vera að þetta mál hafi allt verið blásið út í fjölmiðlum en Ísland hefur nú lengi verið með stimpilinn villtar og lauslátar meyjar. Ég held að það sé kominn tími til að snúa því við. En þó má alveg huga að því að barnaklám á ekkert skylt við ljósbláar myndir og eflaust hefur stór hluti þjóðarinnar kynnt undir með ljósbláu áhorfi, hvort heldur það eru dönsku myndirnar á RUV eða hans Óttars á Stöð 2 um árið.
Veit samt ekki með kristnu gildin þar sem nú fækkar í þjóðkirkjunni sem aldrei fyrr, er þetta kannski bara yfirborðsmennska????
Agla
agla (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 23:00
Takk fyrir gott svar Agla. Mér varð reyndar hugsað til 'yfirborðsmennsku' og 'hræsni', en vildi ekki vera of dómharður. Það er erfitt að greina hvort að heill hugur sé að baki. Tíminn mun sjálfsagt leiða það í ljós. Gleymist þessi baráttumál eftir mánuð eða ár, þá má kalla þessi læti einmitt 'yfirborðsmennsku'.
Hrannar Baldursson, 23.2.2007 kl. 08:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.