Gott eða grikk: Öskudagur í andarslitrum

"Gott eða grikk?"

Drakúla og Grýla stóðu í dyragættinni hjá mér.  Ég átti ekkert nammi heima og bjóst því alveg eins við að þau myndu gera mér einhvern grikk. Þess í stað ypptu Drakúla og Grýla öxlum og löbbuðu í burtu.

Mér varð hugsað til öskudags úr eigin æsku. Ég man ekki til þess að börn hafi farið í fyrirtæki og sungið fyrir nammi þá. Aftur á móti var mikið í tísku að sauma ljóta poka, sitja fyrir fólki úti í búð og hengja þá aftan á úlpur þeirra sem gættu sín ekki nógu vel.

ashwedÞegar ég bjó í Mexíkó og kenndi þar við kaþólskan framhaldsskóla uppgötvaði ég fyrst hvaða merkingu öskudagurinn hefur að kristnum sið.

Á öskudegi mætti aðstoðarmaður prests inn í skólastofu og tilkynnti að nú væri komið að öskudagsathöfninini. Allir nemendur og starfsmenn skólans fóru til messu þar sem rætt var um merkingu öskudagsins, og í lok messunar teiknaði presturinn kross úr ösku á enni allra viðstaddra, sem ekki átti að fjarlægja fyrr en eftir að sólin var sest þann daginn.

Messan átti að minna okkur á fallvaltleika veruleikans og að allir munu einhvern tíma deyja. Um leið og krossinn var dreginn á enni mitt, sagði presturinn (á spænsku):

"Mundu, að þú ert af ösku kominn og að ösku munt þú aftur verða."

Þessi aska sem ég hafði á enninu allan þann daginn var ekki hvaða aska sem er. Heldur var hún sérunnin úr sérstökum efnum og á sérstakan hátt, og blessuð af prestinum, eða æðri kirkjunnar mönnum.

Þeir trúræknustu fasta frá öskudegi og fram á föstudaginn langa; þeir borða ekki fulla máltíð fyrr en rétt fyrir páska.  

Það er lengra síðan að ég bjó í Bandaríkjunum, en þá var "Gott eða grikk" kallað "Trick or treat" og heyrði til Halloween, hryllingshátíðar sem á sér stað hvert einasta haust á þeim bæ.

Mér finnst merkilegt að íslensk börn séu að rugla reitum á milli hausthátíðar í Bandaríkjunum og öskudags. Reyndar eru báðar hugmyndirnar frá kaþólsku komnar, en Halloween hét upphaflega "All Hallows Day" (Dagur allra heilagra) og var settur árið 835 af Gregory 4. páfa.

Á seinni tíð hefur Halloween þó verið tengd við hrylling og ótta, sem af einhverjum ástæðum virðist nú snúast um dauða, en sú hugmynd virðist sprottin af því að á Halloween séu tengsl milli þeirra lifandi og dauðu sérstaklega traust. Í upphafi voru þessi tengsl notuð til að dýrka hina heilögu einstaklinga sem fallið höfðu frá þar sem að lífi þeirra og gjörðum var fagnað, en í dag virðist þessu hafa verið snúið upp í andhverfu sína - að sú hugmynd að hinir dauðu geti nálgast hina lifandi sé meiri ógn en blessun. 

Á öskudegi er okkur ætlað að minnast þess að líf okkar varir ekki að eilífu. Á Halloween var okkur upphaflega ætlað að minnast heilagra manna sem fallið höfðu frá og að andar þeirra lifðu nú meðal okkar.

Gott eða grikk?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband