Draumur um betri stjórnmálatíð á Íslandi - eða bara útópía?

Ég er einn af þeim sem hef fengið ógeð á Alþingi Íslendinga. Á fjögurra ára fresti kjósum við ókunnugt fólk til að setja okkur lög og taka ákvarðanir byggðar á almannahag. Alltaf kemur í ljós, sama hver hefur verið kosinn og sama af hvaða ástæðum, að þingmenn og ráðherrar taka ákvarðanir fyrir þjóðina sem fyrst og fremst koma þeirra eigin hagsmunum vel. Og á fjögurra ára fresti trúum við að hlutirnir geti breyst með nýju fólki. Við ýtum þungu bjargi upp að fjallsbrún og kemur alltaf jafnmikið á óvart þegar það rúllar niður hinumegin.

Það mætti loka þingsölum til eilífðar, reka alla þingmenn og ráða enga í staðinn, þar sem hugtakið er úrelt og virkar ekki í dag, hefur aldrei virkað og mun aldrei gera það, og færa löggjafavaldið til fólksins gegnum beint lýðræði. Það er ekki bara mögulegt, heldur raunsær og góður kostur, sem gæti gert Ísland að réttlátu samfélagi. Það er nefnilega ekki nóg að Íslendingar séu upp til hópa gott og samviskusamt fólk, það sem vantar er að koma þessum anda Íslendingsins inn í löggjöfina og ákvarðanatökur fyrir heildina.

Það gæti komið í veg fyrir þetta endalausa hagsmunaplott. Það mætti þó ráða nokkra ráðherra í persónukjöri - sem hefðu takmörkuð völd og væru helst ráðnir til að verja almannahag sem tengist þeirra ráðuneyti. Til dæmis ætti menntamálaráðherra að berjast fyrir því að allir þegnar landsins hefðu aðgang að góðri menntun, sama hver staða þeirra er í samfélaginu, og sama á hvaða aldri manneskjan sem þarf menntunina er. Það sama myndi gilda um önnur ráðuneyti.

Íslendingar mættu einnig ákveða nákvæmlega hvernig þeir vilja greiða skatt og í hvaða málefni skattur þeirra ætti að fara. Það mætti jafnvel gera slíkt á klókan hátt með upplýsingatækni. Hugsaðu þér að þú værir skyldugur til að greiða 20% tekjuskatt, og gætir valið hvaða prósentuhlutföll færu í hvern málaflokk, en ávallt með lágmark 2% í hvern? Þá yrði skattur greiddur með glöðu geði, sérstaklega ef fjármunum yrði vel varið. Því kjósendur gætu refsað á hverju ári þeim sem fara illa með almannahag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta verður ekki í lagi næstu áratugina því miður, maður tekur einn dag í einu.

Ásdís Sigurðardóttir, 28.3.2013 kl. 16:06

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Hrannar. Þetta er góð greining hjá þér.

Það er eins og gamli spillti tíminn og nýi óspillti tíminn séu að mætast, með þeim afleiðingum að allt leiftrar, og neistarnir blindar okkur.

Þetta ástand í heiminum minnir helst á það, þegar rafgeyma-kaplar eru vitlaust tengdir á milli geyma. Það er að segja þegar plús er settur á mínus og mínus á plús.

Við verðum að þjálfa skynjunina og næmnina okkar, og standa með því sem vil skiljum og skynjum, til að sjá raunverulega muninn á réttu og röngu (sönnu og ósönnu).

Í sálarteturs-ljósinu okkar er eina sannleikann að finna, og með skilyrðislausum og heiðarlegum heildarhagsmuna-kærleika, og beiðni hvers og eins til góðu aflanna um hjálp, þá er hægt að nálgast þetta sannleiksljós, sem allir eiga innra með sér.

Og við verðum að trúa á, og treysta því góða án ótta. Þá er gatan greiðari, heldur en ef við látum stjórnast af ótta við ill öfl og kúganir þeirra afla.

Öfundsýki, hatur og hefnd eru ill öfl, sem ekkert gott kemur frá. 

Þeim mun fleiri sem rækta það góða, þeim mun meiri líkur eru á því að heimurinn verði betri. Allt byrjar innanfrá, bæði það góða og það illa.

Þetta finnst mér, en ég er nú enginn háskólagenginn fræðingur né heimsspekingur.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 28.3.2013 kl. 21:05

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

...sem við skiljum og skynjum...

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 28.3.2013 kl. 21:09

4 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Já, það eru víst tómir órar að ástandið batni. Það eru meiri líkur á að Súpemann komist til valda hér en einhver maður sem vill okkur ekki beinlínis illt.

Ásgrímur Hartmannsson, 28.3.2013 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband