Einelti er stríð
20.2.2007 | 20:22
"Ég hafna ofbeldi vegna þess að þegar það lítur út fyrir að vera af hinu góða, er hið góða aðeins tímabundið; en hið illa sem af því hlýst varanlegt." (Mahatma Gandhi, þýð. HB)
Í gærkvöldi horfði ég á kvikmyndina Full Metal Jacket, eftir Stanley Kubrick. Þó að hún sé formlega séð um Víetnamstríðið, áttaði ég mig á því að hún fjallaði fyrst og fremst um einelti, og ég ákvað að skrifa aðeins niður pælingar þær sem brutust um í kollinum mínum eftir þetta áhorf.
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um Full Metal Jacket.
Einelti er mjög alvarlegt fyrirbæri, sem því miður virðist viðgangast í barnaskólum á Íslandi í dag. Það á sér ýmis birtingarform. Einelti getur til dæmis verið í birtingarformi slagsmála og ofbeldis, en þá verður það sýnilegt eða efnislegt; eða í formi illkvitnislegra athugasemda, hegðunar og jafnvel afskiptaleysis, en þá telst það ósýnilegt eða andlegt.
Við erum helst tilbúin til að bregðast við sýnilegu eða efnislegu einelti, en eigum á hættu að láta ósýnilega eða andlega eineltið sem vind um eyru þjóta.
Í samræðum mínum við ólíka einstaklinga um þetta vandamál hef ég margoft heyrt þá skoðun að einelti sé í raun ekkert vandamál - það sé einfaldlega nokkuð sem öll börn þurfa að upplifa og læra að takast á við í lífinu, það herði þau og geri þau líklegri til að verða sterkari fyrir í framtíðinni. Þessi rök eru óásættanleg.
Börn sem verða fórnarlöm eineltis eru líkleg til að valda einelti síðar og verða fórnarlömbin þá líklega yngri börn. Einelti getur af sér meira einelti, rétt eins og ofbeldi getur af sér meira ofbeldi. Börn þjást vegna eineltis og allt það sem veldur slíkri þjáningu sem hægt er að koma í veg fyrir, er illt, og skylda okkar er að koma í veg fyrir að slík illska nái að festa rætur í veruleika barna okkar. Ég hef séð börn þjást vegna eineltis og veit að það herðir þau ekki upp. Einelti brýtur börn niður, fyllir þau ótta, skapar fyrir þau skrýmsli sem enginn getur sannfært þau um að séu ekki til.
Það að segja einelti vera börnum hollt er í líkindum við að fullyrða að maður hafi gott af því að láta brjóta rúðurnar í bílnum sínum, því að þá muni maður einfaldlega verja bílinn betur í framtíðinni með því að kaupa sér bílskúr. Og þannig er hægt að segja að það illa sem fyrir okkur getur komið sé okkur í raun hollt, því að við munum læra að takast á við það. Þessu má líkja við að setja upp þjófavarnarkerfi þegar búið er að stela öllu, vörnin er komin upp - en skaðinn er skeður.
Mér finnst full þörf á að við pössum börnin okkar betur og þá sérstaklega með því að hafna þessum rökum: að þjáning geti verið börnum holl því það gefur þeim harðari skráp.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.