Kennarar og menntun

"Barnið grætur frá fæðingu; fyrsta hluta ævi sinnar gerir barnið fátt annað en að gráta.  Stundum stússumst við í kringum barnið og huggum það til að róa það; stundum hótum við því, við þvingum í það reglu til að þagga niður í því. Annað hvort reynum við að gera það ánægt, eða við krefjumst af því það sem gerir okkur ánægð. Annað hvort gefum við undan duttlungum þess, eða við fáum það til að gefa undan okkar duttlungum. Það er engin miðja, það verður að gefa skipanir eða þiggja þær. Þannig að fyrstu hugmyndir þess eru um yfirráð og þjónustulund. Áður en það lærir að tala, skipar það fyrir; áður en það lærir að framkvæma, gegnir það." (Úr Émile eftir Jean-Jacques Rousseau.)

Á dögunum mótmæltu kennarar lágum launum sínum og stóðu þögula mótmælastöðu fyrir utan Alþingishúsið. Fáir virtust þó sýna þessum mótmælum einhvern áhuga. Samningaviðræður virðast vera í óhagganlegu ástandi þar sem að reynslumiklir samningamenn sveitafélaganna sitja öðru megin við borðið en nýskipaðir fulltrúar kennarastéttarinnar hinu megin. Kennarar vilja meira og sveitafélögin vilja gefa eins lítið eftir og mögulegt er. Kennaraverkfallið haustið 2004 sýndi fram á ýmislegt áhugavert:

1) Verkfallið skapaði enga pressu á samningamenn sveitafélaga á meðan kennarastéttin krafðist launalaust hærri launa. Aftur á móti jókst pressan stöðugt á kennarana, sem þurftu að eiga fyrir nauðsynjum og yfirdráttarheimildum. Eitthvað varð að gefa undan - rökrétt að það voru kennararnir. Margir ákáðu að snúa sér annað þar sem tekið var fagnandi á móti starfskröftum þeirra. En sumir hafa látið sig hafa það og haldið áfram, þrátt fyrir lág laun og mótbyr í samfélaginu.

 2) Samfélagið sýndi litla sem enga samúð með kennarastéttinni. Hvert sem að maður fór heyrði maður talað um hvað kennarar væru miklar frekjur, og spurt hvort að þeir hafi ekki vitað hvað þeir voru að fara út í þegar þeir fóru í kennaranámið. Fólk virðist leggja í háskólanám á ólíkum forsendum. Sumir fara í nám sem þeir halda að sé létt. Sumir fara í nám sem þeir hafa brennandi áhuga á. Sumir fara í nám sem þeir vita að þeir munu standa sig vel í. Sumir fara í nám sem þeir vita að muni gefa vel í aðra hönd. Forsendur fyrir námi eru ólíkar, en allt er þetta nám dýrt fyrir námsmennina. Það að velja sér námsleið er mikilvægara en kaup á fyrstu íbúð - þetta er ákvörðun sem þú munt lifa við alla þína ævi. Á þessum tímapunkti þarf að svara nokkrum mikilvægum spurningum, eins og:

    a) Hvernig manneskja vil ég vera?

    b) Vil ég frekar eignast mikið eða gefa mikið af mér?

    c) Vil ég nytsamlegt eða mannauðgandi nám?

  3) Verkfallið var mörgum kennurum það dýrt að þeir munu aldrei ná aftur þeim peningum sem þeir töpuðu við að taka þátt. Eldri kennarar féllu sumir hverjir um launaflokka. Þessir áhugasömu einstaklingar sem gáfu sig alla í starfið án aukagreiðslna virðast einnig vera að hverfa á önnur svið sem gefa meira af sér. Ég á unga frænku, með Master í kennslufræðum. Hún var að fá undir kr. 100.000,- útborgað laun á mánuði fyrir fulla kennslu eftir 5 ára háskólanám. Hún er búin að segja upp.

 4) Gildin sem kennarar eru að berjast fyrir eru of óljós fyrir almenning. Kennarar vilja mennta börnin í landinu en taka svo fram að skólar séu ekki uppeldisstofnanir, að börn þurfi að fá uppeldi hjá foreldrum sínum. Þetta er að sjálfsögðu bara heilbrigð skynsemi sem því miður virðist flækja málið hjá ýmsum sem koma ekki nálægt kennslu. Kennarar taka þátt í að móta einstaklinga og hópa sem munu nýtast og geta fundið sér farsæla leið í lýðræðissamfélagi framtíðarinnar. Þetta gera kennarar með því að þjálfa börnin í því að hugsa betur, eiga betri samskipti við önnur börn, tala betur, skrifa betur, reikna betur, spila tónlist betur, og svo framvegis - en hlutverk kennara er ekki það að kenna börnunum að hlýða og fara eftir fyrirmælum - það er hlutverk foreldra og margir þeirra virðast því miður vera að bregðast sínum börnum í dag, sem best er að sjá á sífellt auknum vandamálum tengdum agaleysi í skólum.

Ég vona að aukin virðing fyrir kennarastéttinni muni finna sér farveg á Íslandi. Annars erum við í vondum málum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband