Hafa einkunnir haft góð áhrif á líf þitt, eða slæm?

grading

Á skólaferli okkar erum við dæmd út frá árangri. Við sitjum í skólastofu og vinnum verkefni heilan vetur, og síðan tökum við próf sem eiga að segja okkur sannleikann um hversu vel okkur hefur tekst að valda viðfangsefninu.

Sumir ná háum einkunnum, sumir eru í meðallagi, og sumir falla.

Þeir sem ná háum einkunnum geta öðlast virðingarstig í skólastofunni, að minnsta kosti á meðal kennara, enda hefur þeim að miklum líkindum tekist að læra þau vinnubrögð og viðhorf sem ætlast er til af þeim. Sjálftraust viðkomandi nemenda er líklegt til að aukast og væntingar til þeirra einnig.

Hinir sem falla, eiga sjálfsagt erfiðara með að finna sig í skólakerfinu, og geta dæmt sjálfa sig af mikilli hörku. Þeir sem ná ekki stærðfræðiprófi geta talið sjálfa sig heimska, á meðan það er fjarri sannleikanum. Þeir sem ná ekki prófum, hafa sjálfsagt ekki tileinkað sér ásættanleg vinnubrögð, hafa kannski ekki skilið einhverjar undirstöðureglur, eiga hugsanlega við einhverja utanaðkomandi erfiðleika að etja, einhvers konar líkamlega eða sálræna fötlun eða vandamál. Takist að finna þessi vandamál og vinna með þau, er hægt að gera nemendur með lágar einkunnir að afburðarnemendum. Það eina sem vantar er hugarfarið.

Vandinn er þegar einkunnir eru notaðar til að dæma manneskjuna; sem duglega, lata, gáfaða, heimska, góða, illa, og þar eftir götunum. Slíkir dómar eru ekkert betri en aðrir fordómar.

Þeir sem rata meðalveginn sleppa hugsanlega best í gegnum kerfið, því ólíklegra er að þeir verði dæmdir af einhverju yfirvaldi sem notar dóminn til einskis annars en að dæma.

Besta réttlæting fyrir einkunnum er þegar þær eru notaðar til að bæta það sem betur má fara. Þegar einkunnir eru notaðar til að sundurgreina fólk vegna hæfni, gera þær lítið gagn, þar sem helsta hæfnin sem próf mæla er hæfnin til að taka próf. 

Ef próf væru fyrst og fremst notuð eins og leikir eða spil, þar sem enginn getur orðið meistari í fyrstu tilraun, og þau notuð til að byggja upp þekkingu fyrir þá sem ná ekki góðum árangri, þá værum við að tala um tæki sem skiptir máli. 

En svo er það stóra spurningin, gera einkunnir yfir höfuð meira gagn eða ógagn? Ég hef stundum á tilfinningunni að eins og þeim er beint í dag, og hefur verið beint, blindandi til að aðgreina kjarnann frá hisminu, þá geri þær sérstaklega þeim sem illa gengur ógagn. En það er vissulega ekki hægt að alhæfa neitt, því einn góður kennari getur skapað meistaraverk með því að nota einkunnir rétt, á meðan óvitrari kennari getur skapað andans kvalir sem vaka meðvitaðar í sálartetrum hugsanlega marga áratugi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Það sem kemur upp í hugann við lestur þessa bloggs, er hvað fólk hefur mismunandi eigindir og hæfileika.

Sumir eru lestrarhestar og nákvæmnismenn og læra heil ósköp utanbókar.

Ágætt er að skoða þetta í gegnum skákina.

Það eru skákmenn sem eru miklir fræðimenn í byrjunum og ná þá oft frumkvæði sem nægir til vinnings.

Aðrir gefa minna fyrir fræðimennskuna og treysta meir á miðtaflið, þar sem innsæið ræður mestu um framvindunda til falls eða forustu.

Það er hægt að komast að réttri niðurstöðu með innsæi og einnig með nákvæmnisvinnu gegnum staðreyndagreiningu.

Aðalatriðið er vonandi hin rétta niðurstaða, sé verið að leita sannleikans.

Líklega er það allra best að hafa báðar þessar leiðir á sínu færi. Það gefur væntanlega bestu niðurstöðurnar svona gegnumgangandi.

Ég get auðveldlega játað að ég varð ekki læs fyrr en 9 ára gamall. Mér finnst ég muna það alveg greinilega hvað mér þótti þetta mikil uppgötvun og opinberun að geta lesið og skilið tákn á blaði. Síðan þá hef ég verið duglegur að tileinka með gæði þessarar kunnáttu! 

Reynt að velja mér lesefni sem kennir mér eitthvað miklis vert.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 1.9.2012 kl. 17:44

2 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Svarið við spurninguni er "JÁ".

Það var ung stúlka í Flórída sem fór í mál við foreldra sína og skólakerfi Flórídaríkis af því að hún var með skjal sem sagði að hún væri með stúdentspróf (Highschool Diplóma), en gat ekki lesið, skrifað eða reiknað einfaldan reikning.

Ástæðan fyrir mólsóknini var; hún var ekki læs, skrifandi og gat ekki reiknað. Hún gat ekki lesið né fyllt út atvinnu umsókn, eftir að hafa verið í mentakerfinu frá 6 ára aldri til 19 ára aldurs, en var samt með stúdentspróf. Hún fór fram á skaðabætur.

Ég held að ef þessi stúlka hefði ekki bara verið í færibandamentun og ef um próf og einkunnir hafi verið ræða, þá einhverra hluta vegna held ég að þessi stúlka hefði verið látin sitja eftir í einhverjum bekknum, en ekki automatic færsla í næsta bekk, af því að hún var ekki með einkun sem leyfði millifærslu í næsta bekk.

Þetta er ekkert einsdæmi svona er þetta ennþá í mörgum skólahverfum í Bandaríkjunum Norður Ameríku.

Kveðja frá Las Vegas.

Jóhann Kristinsson, 2.9.2012 kl. 10:44

3 Smámynd: Mofi

Góð áhrif... það sem kannski vantar helst er að taka tillit til mismunandi hæfileika. Að heimta að þeir sem hafa hæfileika til að smíða hluti hafi líka hæfileika til að leysa stærðfræði þrautir. Ef ég ætti að taka próf þar sem væri verið að kanna mína hæfileika til að smíða þá myndi ég falla illilega og það er allt í lagi. Ekkert að því að ég sjái það svart á hvítu að þetta er ekki mín sterka hlið.

Mofi, 2.9.2012 kl. 13:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband