Hræðsluáróður og rangsýni gagnvart skuldugum heimilum?

mt-rainier-avalanche_301_600x450

Frá því að ég byrjaði að láta mig varða skuldavanda íslenskra heimila sem magnaður er upp með verðtryggingu hafa tvenn rök stöðugt unnið gegn því að þjóðin standi saman gegn þessum vanda. 

Annars vegar er það sá hræðsluáróður að ef verðtrygging verður tekin úr sambandi verði það svo kostnaðarsamt fyrir lífeyrissjóði að þeir geti ekki lengur borgað út lífeyri. Í gær kom hin raunverulega ástæða í ljós, með skýrslu rannsóknanefndar um lífeyrissjóði. Þeir hafa tapað 500 milljörðum í áhættufjárfestingar og verða einhvern veginn að redda sér. Leið þeirra er að nota skuldug heimili sem mjólkurkú og reyna þannig að bjarga því sem bjargað verður. Það er ranglát sýn og verið er að hegna röngum aðila fyrir heimsku og glæpsamlega hegðun annars. Þetta verður að stoppa strax. Verðtrygginguna úr sambandi strax í dag, þar sem hún gerir ekkert annað en að gefa glæpamönnum skálkaskjól.

Hin ástæðan er sú undarlega öfund sem sprettur fram, þegar talað er um að leiðrétta lánin, lán sem áður voru aðeins hluti af verði húsnæðis og fólk taldi sig í góðri trú vera að borga þau niður, en síðan hækka lánin langt umfram greiðslugetu og verð húsnæðis, þannig að lánþegar þurfa að sjálfsögðu leiðréttingu. Það má ekkert gera fyrir þá sem orðið hafa fyrir tjóni, því að þá eru þeir að græða á meðan aðrir fá ekki neitt. Þetta þykir mér slík fásinna að heilbrigð skynsemi ræður ekki við slíka firru. Það er ekki til neitt svar, því skotið er af slíkri ósanngirni, rangsýni og heift, að það er ekkert annað hægt en að taka við högginu og liggja í götunni eftir það.

Ekki má gleyma að ástæða þessara margföldunaráhrifa fálust í sömu samtryggingu, spillingu og græðgi banka, líffeyrissjóða, stórfyrirtækja, dómkerfis, útrásarvíkinga, lagatækna og stjórnmálamanna sem smurðu vélina. Því miður hefur verið upplýst um slíkt gríðarlegt samsæri gegn almennum borgurum á Íslandi, að fyrir venjulega manneskju er erfitt að trúa því að það geti verið satt.

En það er satt. Því miður.

Hvenær á tiltektin að hefjast? Fyrsta verkið hlýtur að tengjast björgun heimila. Það gengur ekki lengur að láta feður, mæður, afa, ömmur, systur, bræður og börn, sitja föst í húsum sínum sem lent hefur undir fjármálalegu snjóflóði þessara samtryggingarafla, afla sem virðast jafnast á við þyngdaraflið, þó að hér sé aðeins um að ræða illverki manna. 

 

 

Mynd: National Geography


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sjáðu svo hvernig menn hafa dregið lappirnar í þeirri mjög svo sjálfsögðu leiðréttingu á stökkbreytingu skuldanna. Hvað gerist. Of háu vextirnir malla og malla þar til að 20% "skuldaleiðrétting",ef af yrði, verður ekkert mál af því að vextirnir hafa hækkað höfuðstólinn svo mikið áður. 

Frá upphafi verðtryggingar og fram að hruni byggðist upp sparnaður lífeyrissjóðanna á sama tíma og skuldir Íslendinga uxu og uxu umfram landsframleiðslu. Það segir manni að þessi sparnaður var byggður á tálsýn og var í raun uppbygging bóluhagkerfis. Sem er algjör synd, að fólk skuli ekki geta lagt fyrir og sparað í góðri trú. Raunverulegur sparnaður er líklega ein af grunnstoðum heilbrigðs hagkerfis.   Það fer best á því að láta fólkið sem mest um sinn sparnað sjálft. T.d. með því að eignast húsin sem það er að greiða af.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 4.2.2012 kl. 09:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband