Viltu fórna ömmu þinni til að verða rík(ur)? Uppskrift að fjármálafléttu sem virkar

Umsvifamikil bankaránsflétta átti sér stað á Íslandi (og er enn í gangi) og í dag sitja ræningjarnir að gróðanum á meðan almenningur blæðir. Þetta var snilldarlega gert. Fléttan er svo einföld en jafnframt svo flókin í augum dómkerfis. Þetta eru fáir leikir, en nauðsynlegir, enda er fléttan í tveimur ferlum.

1. Kaupa minnst tvö leppfyrirtæki á sama degi. Kostnaður um kr. milljón.

2. Fá eins há lán hjá banka og mögulegt er fyrir eitt fyrirtækið. Upphæð slíks láns getur verið frá einni milljón í einhverja milljarða. Fer eftir hversu hátt lán lánveitandi er tilbúinn að veita. Halda hinu fyrirtækinu skuldlausu.

3.  Hið skuldlausa selur skuldsetta fyrirtækinu eitthvað, hvað sem er, jafnvel velvild, og eignin er borguð með láninu.

4. Fyrirtækið sem tók lánið er sett á hausinn, en fyrst er reiknaður arður út frá hagnaðinum sem felst í hærri höfuðstól vegna lánsins.

5.  Eftir stendur eitt gjaldþrota fyrirtæki sem kröfuhafar geta ekki fengið neitt út úr, og annað fyrirtæki sem heldur þeirri eignarmyndun sem fólst í að kaupa lánið af hinu fyrirtækinu. 

Þetta er einföld flétta. 

Nú spyrjum við hvernig á því stendur að leppfyrirtæki fengu þessi lán hvað eftir annað. 

Jú. Lánastofnanirnar sjálfar voru keyptar fyrir lán með sama hætti, og því var mögulegt að veita sífellt hærri lán frá þessum lánastofnunum, sem geymdu síðan að sjálfsögðu sem innlán þær upphæðir sem áður höfðu verið lánaðar einu fyrirtæki, og seldar öðru. 

En þessar upphæðir voru tryggðar, enda innlán.

Það er nefnilega auðvelt að múta sumum pólitíkusum og embættismönnum þegar fer að hitna í kolunum. Þeir geta reddað málunum og fá í staðinn eitthvað mjúkt. Enda fyrnist ábyrgð stjórnmálamannsins fljótt.

Að fólk sjái þetta ekki eða vilji ekki sjá þetta, og afleiðingar þessa, meðal annars á venjulega lánþega, heiðarlegt fólk, á ég bágt með að skilja, og grunar að það hljóti að vera fyrst og fremst vegna áhugaleysis og vanþekkingar.

Engum hefur verið refsað fyrir þessa hegðun. Hún er lögleg á Íslandi. Sem er skömm. Djúp og ljót skömm.

Framkvæmdu þessa fléttu og þú getur orðið rík manneskja. Sum okkar myndu aldrei framkvæma slíkar fléttur, enda höfum við eitthvað sem kallast samviska og annað sem kallast réttlætiskennd sem stoppar okkur. En samviskan og réttlætiskenndin er ekki öllum gefin. Því miður.

Og fólkið með samviskuna og réttlætiskenndina þarf að borga og þjást vegna þessara fléttubjálfa. Er um of mikið beðið þegar krafist er að þetta ranglæti hætti?

Það á að leyfa fjármálafyrirtækjum að hrynja vegna lélegrar stjórnunar, í stað þess að halda þeim og þeirra eigendum uppi á ofurlaunum með verðtryggingunni, hærri sköttum á borgara, og stöðugan niðurskurð í embættismannakerfinu.

Það eina sem mun standa eftir þegar kemur að skuldadögum eru svartir turnar fjármálastofnana sem standa auðir. Allt annað verður í rjúkandi rúst.

 

Ég mæli með grein félaga míns, Marinós G. Njálssonar: Ótrúlegt að enn sé verið að tala um að bjarga bönkum - Þeir eiga að bjarga sér sjálfir eða fara á hausinn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er til hugtak yfir viðskipti af því tagi sem þú varst að lýsa:

Peningafölsun

Guðmundur Ásgeirsson, 29.8.2011 kl. 16:15

2 identicon

Og enn sitja á þingi karlar og konur sem auðguðust einmitt á þennan hátt og hluti þjóðarinnar best fyrir því að koma þeim til valda á ný.

M@i (IP-tala skráð) 29.8.2011 kl. 19:35

3 Smámynd: Óskar Arnórsson

Viðskiptaflétta?

Líka þessi: Tveir kunningjar búa til sitthvort hlutafélagið með því að skrifa sinnhvorn víxilinn á 2 milljarða hvern á sitthvort fyrirtækið.

Víxlarnir eru síðan þinglýstir og skráðir sem eign hjá báðum félugunum. Þá kemur þriðji aðilinn með þriðja nýskráða hlutafélagið og kaupir bæði félögin á samtals 4 milljarða og greiðir með víxli. Þessir 4 víxlamilljarðar eru síðan skráðir sem eign í félaginu.

Strax og búið er að ganga frá kaupunum er farið í bankan með 2 stelpur og kókaín í poka og bankamaðurinn fengin til að taka lán í Þýskalandi upp á 2 milljarða með veði í eignum fyrirtækissins sem eru skráðir 4 milljarðar.

Þegar þessir tveir milljarðar eru "komnir í land", stelpurnar farnar heim og kókið búið, eru lögfræðingar fengnir til að "búa til flækju" og setja æll fyrirtækin á hausinn.

Allir fá borgað nema þýski bankinn ... enda var leikurinn gerður til þess í upphafi...

Óskar Arnórsson, 30.8.2011 kl. 09:18

4 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 30.8.2011 kl. 20:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband