Heilaþvegið Ísland?
26.6.2011 | 06:49
Heilaþvott þjóðar má kalla það fyrirbæri þegar mikið af vel menntuðu fólki flytur úr landi á stuttum tíma. Ástæður heilaþvotts eru yfirleitt af tvennu tagi: annars vegar eru aðstæður í heimalandi viðkomandi óaðlaðandi eða mikið af freistandi tækifærum í öðru landi. Á Íslandi ríkir efnahagskreppa, stjórnmálakreppa og siðferðiskreppa sem virka afar fráhrindandi á sumt fólk. Í Noregi er engin kreppa. Þess vegna er Noregur aðlaðandi fyrir vel menntað fólk frá Íslandi. Einnig er vel tekið á móti Íslendingum sem koma loks aftur "heim" eftir þúsund ára ferðalag.
Ég tel Íslendinga vera að upplifa heilaþvott í dag. Hann er sýnilegastur fyrst hjá heilbrigðisstéttum, enda mikið öryggisatriði að hafa traust heilbrigðisstarfsfólks til taks, og fólk fljótt að finna fyrir því þegar skortir á heilbrigðisþjónustu. En ekki má gleyma hinum stéttunum, ósýnilegu stéttunum. Smám saman hverfa píparar, húsasmiðir, verkfræðingar, kennarar, og fleira fólk til annarra landa. Enginn tekur eftir þessu hvarfi fyrr en alltof seint. Og þá verður alltof seint orðið alltof seint.
Fjölskyldur sem festu kaup á húsnæði frá 2004 með húsnæðislánum hafa lent í gríðarlegum erfiðleikum og upplifað skilningsleysi frá stjórnvöldum og þeim helmingi þjóðarinnar sem lenti ekki í sams konar klípu. Margir eru enn að berjast við að láta enda ná saman á Íslandi. Þegar einfaldir útreikningar sýna að dæmið gengur ekki upp, þá er leitað annarra leiða. Leitað er allra hugsanlegra leiða á heimaslóðum. Þegar þær bregðast, er leitað út á við. Þeir duglegustu finna tækifæri til að flytja úr landi. Þeir sem hafa minni metnað staldra lengur við og vonast til að málin reddist. Þetta fólk læsist inni í eigin skuldafangelsi.
Í vikunni ræddi ég við nokkra félaga mína í Bandaríkjunum. Þeir ræddu þessa tegund heilaþvottar og kölluðu "Brain Drain" á ensku. Sumir Bandaríkjamenn eru farnir að leita sér tækifæra erlendis, rétt eins og Íslendingar, enda sífellt erfiðara að fá vel launuð störf í landi hinna frjálsu. Spáð er því að vaxandi heimsveldi Kínverja muni gjörbreyta hinum vestræna heimi á næstu árum, og mikilvægt sé að halda í hið vel menntaða og duglega fólk sem leitar annað við svona aðstæður. Annars verður lítil von fyrir þá sem eftir sitja. Það má spyrja sig hvort að vestrið sé reiðubúið fyrir valdatíma austursins.
Ekki má gleyma að gríðarlegar fjárhæðir hafa verið greiddar til að styrkja innviði samfélagsins með menntakerfinu, og það á við um heim allan. Þeim löndum sem tekst að laða til sín efnilegasta og best menntaða fólkið, þeim mun farnast vel, sama hvernig viðrar.
Viðbrögð Íslendinga eru frekar púkaleg gagnvart þessu ástandi. Það er eins og fólk átti sig ekki á því hversu verðmæt hver einasta manneskja er, og hversu mikið tap það er fyrir þjóðarbúið að missa duglegt og vel menntað fólk úr landi. Stundum furða ég mig á þessu innantóma afskipta- og sinnisleysi, og tel það jafn skaðlegt og allar hinar kreppurnar sem nú geysa á Íslandi. Þarf að þýða allt yfir í krónur eða evrur til að fólk skilji tapið sem felst í brottflutningnum?
Það væri áhugavert að sjá það í nákvæmlegum útreikningum hversu mikils virði hver einasta dugleg og vel menntuð manneskja er, sem frá Íslandi flytur. Sérhver slík manneskja kostar sjálfsagt að minnsta kosti 10 milljónir króna á ári. 10 brottfluttir kosta þá um 100 milljónir og 100 brottfluttir verða að milljarði. Sjálfsagt má meta höfuðstól hverrar manneskjur upp á hundrað milljónir.
Ég hef heyrt töluna 2500 í þessu samhengi, og með einföldum reikningskúnstum sjáum við í hendi okkar að slíkur fjöldi brottfluttra getur auðveldlega kostað þjóðina 2500 milljarði á ári. Og þá er þessi tala sjálfsagt vanmetin frekar en hitt.
Ætli ríkisstjórnin og Alþingi velti þessu yfir höfuð fyrir sér?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.12.2014 kl. 10:19 | Facebook
Athugasemdir
Hrannar. Takk fyrir góðan og sannan pistil. Það er ekki vanþörf á að endurmennta hagfræðinga landsins, svo einhver vitræn og raunveruleg útkoma komi út úr þeirra hagfræði. Það gleymist nefnilega alltaf að taka mannlega þáttinn inn í dæmið, þegar hagnaður og gróði er reiknaður út.
Er ekki gert ráð fyrir mannlega þættinum lengur hjá hámenntuðu hagfræðingunum? Hvað gerist ef mannlega þættinum er sleppt í útreikningum þeirra? Er ekkert neins virði að hagfræðinganna mati, annað en steindauðir peningar?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 26.6.2011 kl. 07:41
góður pistill Hrannar, ég birti hann á fésinu.
Óskar Þorkelsson, 26.6.2011 kl. 10:11
Hvað áttu við með "vel menntað fólk"? Er það sama fólkið og setti landið á hausinn? Ertu að meina, að þessir aðilar hafi gert það að ásettu ráði að setja landið á hausinn, og síðan eru að fara af landi brott því landið er orðið sköllótt af fé?
Þá get ég andskotann ekki séð, að það sé nokkur söknuður af því að þetta lið hafi sig á braut.
Hafi það ekki gert það af ásettu ráði, heldur hafi ekki vitað hvað var í húfi. Get ég andskotan ekki séð að það fé sem varið var í mentun á þessum skríl, hafi borið arð fyrir þjóðina.
Á allan hátt ... enginn söknuður af þeim.
Þetta er ónítt lið, sem er til ágæt orðatiltæki amerískt fyrir ... "when the going get tough ... the tough get going".
Þegar illa stendur á, á að staldra við og berjast fyrir að rétta við hlutina.
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 26.6.2011 kl. 11:21
Bjarne. Ég er ekki tilbúin til að níða niður menntafólk, sem hefur heiðarleikann að leiðarljósi, ásamt sinni menntun.
Það er stórt vandamál í heiminum, að menntafólk er keypt af mafíu-stjórn heimsins, vegna þess að fólki hefur verið kennt að óheiðarleiki sé arðvænlegur og réttlætanlegur, sem er að sjálfsögðu tortímandi stefna fyrir allan heiminn!
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 26.6.2011 kl. 11:33
Viðbrögð Íslendinga eru frekar púkaleg gagnvart þessu ástandi. Það er eins og fólk átti sig ekki á því hversu verðmæt hver einasta manneskja er,
Ég myndi segja að nota orðið "Íslendingar" þarna geri þessa setningu ranga, Íslendingar átta sig á þessu, það er bara ríkisstjórnin og hinir háu herrar þar sem ekki eru að átta sig á þessu.
Ætli ríkisstjórnin og Alþingi velti þessu yfir höfuð fyrir sér?
Einfalt svar er nei, svo innilega ekki.
Hvað áttu við með "vel menntað fólk"? Er það sama fólkið og setti landið á hausinn?
Ég er ekki að skilja hvernig þú færð það út að kreppan sé öllum vel menntuðum einstaklingum að kenna, ekki frekar en þú gætir kennt öllum feðrum. mæðrum, eiginmönnum eða eiginkonum þar sem þetta á við um einhverja af þeim einstaklingum sem má "þakka" fyrir þessa kreppu sem nú geisar hér alveg eins og að sumir þeirra voru vel menntaðir.
Halldór Björgvin Jóhannsson, 26.6.2011 kl. 12:18
Réttlætið á að vera fyrir alla, en ekki bara þá sem hafa pening, greind og lestrar-hæfileika, til að kaupa sér aðgang að réttlærinu í gegnum svikult stjórnkerfi þjóða.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 26.6.2011 kl. 12:36
Góður pistill!
Sumarliði Einar Daðason, 26.6.2011 kl. 13:32
Fínn pistill. Besta þýðingin sem ég hef heyrt á "Brain drain" er "Speki leki".
Það hættulegasta við þetta er eins og þú komst inn á, aldraðir flytja ekki, framtakslausir flytja ekki, latt fólk og sjúkt fólk flytur ekki. Smá saman grotna innviðirnir niður þar sem sífellt færri verða til að bera samfélagið uppi og fyrir þá verður freistingin að fara alltaf stærri.
Þórður Áskell Magnússon (IP-tala skráð) 26.6.2011 kl. 13:53
Ágætur pistill Hrannar. Tek þó undir með Halldóri í 5. um notkunina á orðinu "íslendingar". Einnig held ég að það að flokkunin "aldraðir flytja ekki, framtakslausir flytja ekki, latt fólk og sjúkt fólk flytur ekki" sé varhugaverð. Eftir því sem ég þekki til þá flytur allskonar fólk, ekkert síður öryrkjar í leit að betri lífskjörum.
Magnús Sigurðsson, 26.6.2011 kl. 14:10
Heill og sæll Hrannar; sem aðrir góðir gestir, þínir !
Um leið; og ég vil þakka þér fyrir, þessa afar myndrænu - sem sönnu lýsingu, á hinni raunverulegu atburðarás, hér á Fróni, leyfi ég mér, að vekja athygli allra spjallvina minna, á þínum kjarnyrta texta.
Gott; ef Ísland verði ekki, skör neðar, en hið vífræga Austur- Þýzkaland var (1949 - 1989/1991) á sínum tíma, fari sem horfir, nú, um stundir.
Með beztu kveðjum; sem jafnan, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 26.6.2011 kl. 14:23
Takk fyrir góðar athugasemdir, öll.
Bjarne: með vel menntuðu fólki á ég ekki nauðsynlega við háskólagengið fólk, ekki einu sinni nauðsynlega skólagengið fólk. Þó er líklegt að háskólagengið fólk sé vel menntað. Vel menntað fólk býr yfir eiginleikum til að auka verðmæti heillrar þjóðar með framlagi sínu. Titill eða námsgráða skiptir þar engu máli.
Þeir sem velja að græða mikið þó það sé siðferðilega rangt, og þeir sem misnota kerfið fyrir eigin hag, eru ekki vel menntaðir einstaklingar, sama hvaða námsgráðu eða völd viðkomandi hefur.
Þórður Áskell: ég kannast við orðið "spekileki" og er ekkert sérstaklega hrifinn af því. Mér finnst það of kómískt miðað við alvarleika ástandsins.
Halldór og Magnús: Ég segi Íslendingar og meina Íslendingar. Viðbrögð Íslendinga yfir höfuð við að fólk neyðist til að flytja úr landi hafa í það minnsta ekki heyrst óma um gjörvalla veröld. Þeir sem eru farnir heyra ekki að þeirra sé þörf, hvorki frá Alþingi, ríkisstjórn né þjóðinni.
Aftur, kærar þakkir öll fyrir góðar athugasemdir.
Hrannar Baldursson, 26.6.2011 kl. 14:57
Þessir eru meðal læsilegustu pistlanna á þessum vettgangi. Hafðu þakkir fyrir, Hrannar
Flosi Kristjánsson, 26.6.2011 kl. 16:53
Flottur pistill og ég er mjög svo sammála honum.
Ég er bara að vona að við fáum skárri ríkisstjórn fljótlega.
Það verður meira og meira spennandi að yfirgefa landið með hverjum deginum.
Það er með ólíkindum að ríkisstjórnin bregði fæti fyrir flest sem gæti aukið hagvöxt og hatast í öllum sem hafa tekjur yfir 1m á mánuði. Ísland nálgast það að verða kúba norðursins með hverjum deginum.
Hér eru engar lausnir bara flóknara regluverk.
Hvað er að því að fólk græði mikið ? ég held einmitt að það sé bráð nauðsynlegt svo lengi sem þetta fólk greiðir skatta.
Emil Emilsson (IP-tala skráð) 26.6.2011 kl. 18:35
Já, það hefur örugglega orðið ´brain drain´ og ótrúleg skömm. Hinvegar verð ég að segja að það eru ekki endilega ´þeir sem hafa minni metnað´ sem fara ekki. Það er fjöldi ástæða fyrir að fólk kemst ekki eða vill ekki fara frá fjölskyldu eða vinum.
Elle_, 26.6.2011 kl. 19:29
Ágæt grein hjá þér. Orðið sem þú notar er ekki sem heppilegast. Spekileki auðvitað ekki heldur. Þessi vandi er alþjóðlegur. Þróunarríki glíma oft við þetta. Spádómar þínir eru eflaust flestir réttir, en tímarammann fyrir þá er afar erfitt að ákveða.
Sæmundur Bjarnason, 27.6.2011 kl. 00:45
Góð færsla hjá þér.
Gunnar Skúli Ármannsson, 27.6.2011 kl. 01:21
Góður og þarfur pistill.
"Brain Drain" =hugmyndaþurrð, í merkingu hér að ofan.
Eggert Guðmundsson, 27.6.2011 kl. 13:48
Takk fyrir góða pistla. Er sammála þér með orðanotkun, heilaþvottur á ágætlega við. Íslenska þjóðarsálin verður sífellt heimskari þegar sífellt fleiri hér heima þrá að fara í afneitun á ástandið af þeirri ástæðu að ekki eru í augsýn raunhæfar eða réttlátar lausnir. Enginn fjölmiðill nennir að lýsa því fyrir okkur hvað samanlagðar tölur af atvinnulausum og brottfluttum eru háar. Það er líka heilaþvottur að segja okkur ekki frá raunverulegu ástandi.
Margrét Sigurðardóttir, 27.6.2011 kl. 16:32
Frábær pistill ! Einn liður í þessari þróun eru handónýtir fjölmiðlar. Ekki síst ríkisfjölmiðillinn.
Snorri Hansson, 27.6.2011 kl. 17:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.